Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 29/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 6. september 2021
í máli nr. 29/2021:
Marsalt ehf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Saltkaupum ehf.

Lykilorð
Sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar aflétt.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála féllst á að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar vegna útboðs á salti, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 6. ágúst 2021 kærði Marsalt ehf. útboð Reykjavíkurborgar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 15212 auðkennt „Götusalt 2021-2022“. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að meta tilboð hans ógilt og að lagt verði fyrir varnaraðila „að ganga til samninga við kæranda á grundvelli tilboðs hans“. Jafnframt er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðili greiði kæranda málskostnað. Loks krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi um stundarsakir innkaupaferli hins kærða útboðs.

Varnaraðila og Saltkaupum ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 11. ágúst 2021 krefst Saltkaup ehf. þess að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt og að öðrum kröfum kæranda verði hafnað. Með greinargerð 18. sama mánaðar krefst varnaraðili þess að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt og öðrum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð.

Kærunefnd útboðsmála gaf kæranda og varnaraðila kost á að tjá sig frekar um hvort að yfirlýsing Faxaflóahafna sf. frá 10. júní 2021 hefði verið á meðal tilboðsgagna kæranda í útboðinu. Bárust frekari athugasemdir og gögn frá kæranda 24. ágúst 2021 og frá varnaraðila 26. sama mánaðar. Þá beindi kærunefnd útboðsmála fyrirspurn til kæranda 30. ágúst 2021 sem var svarað samdægurs.

Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til fyrrgreindra krafna um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

I

Hinn 12. maí 2021 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð á Evrópska efnahagssvæðinu og útboðsvef sínum og óskaði eftir tilboðum í götusalt til hálkueyðingar á götum Reykjavíkurborgar veturinn 2021 til 2022. Auglýsing um sama útboð var birt í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 15. sama mánaðar.

Samkvæmt útboðsgögnum skulu bjóðendur uppfylla tilgreindar hæfiskröfur, meðal annars um tæknilega og faglega getu. Í grein 0.10.3 í útboðsgögnum segir að bjóðandi skuli vera með birgðastöð á höfuðborgarsvæðinu sem tryggir afhendingu á 200 til 1.000 tonnum af salti innan tveggja sólarhringa frá pöntun og skal bjóðandi hafa umráð yfir birgðastöðinni út samningstímann. Í greininni eru gerðar kröfur til framboðinnar birgðastöðvar, meðal annars að hún skuli vera með góða loftræstingu og að gólf/plön hennar skuli vera malbikuð eða steypt. Bjóðendur áttu að skila með tilboðum greinargóðum upplýsingum um birgðastöðina og gögnum sem sýndu fram á að þeir hefðu tryggt sér „umráð, eða vilyrði fyrir umráðum, yfir birgðastöð út samningstímann“. Í grein 0.8 í útboðsgögnum segir að samið verði við þann aðila sem á hagkvæmasta gilda tilboðið á grundvelli lægsta verðs.

Þrjú tilboð bárust og við opnun þeirra 15. júní 2021 kom í ljós að tilboð kæranda var lægst að fjárhæð 86.116.320 krónur. Tilboð Saltkaupa ehf. var næstlægst að fjárhæð 86.670.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins taldi varnaraðili að ársreikningur sem fylgdi tilboði kæranda hefði ekki verið endurskoðaður í samræmi við kröfur greinar 0.10.2 í útboðsgögnum sem og að kærandi hefði ekki skilað yfirlýsingu frá banka eða tryggingarfélagi í samræmi við kröfur greinar 1.18 í útboðsgögnum. Veitti varnaraðili kæranda tækifæri til að skila þessum gögnum og afhenti kærandi gögnin 29. júní 2021 og 2. júlí sama ár.

Með bréfi 23. júlí 2021 lagði þjónustumiðstöð borgarlandsins til við innkaupa- og framkvæmdarráð varnaraðila að samið yrði við Saltkaup ehf. Þar var rakið að tilboð kæranda væri ógilt þar sem hann hefði ekki lagt fram áskilin gögn til að sýna fram á að hann uppfyllti lágmarkskröfur útboðsskilmála um faglegt og tæknilegt hæfi og að tilboðsgögn hans væru ófullnægjandi hvað varðaði samningstryggingu og starfskjör. Með tölvupósti 28. júlí 2021 tilkynnti innkaupaskrifstofa varnaraðila bjóðendum um að ákveðið hefði verið að ganga að tilboði Saltkaupa ehf. þar sem félagið hefði átt lægsta gilda tilboðið í útboðinu og að tilboð kæranda hefði ekki uppfyllt lágmarkskröfur útboðsskilmála um faglegt og tæknilegt hæfi samkvæmt grein 0.10.3 um „umráð yfir birgðastöð út samningstímann“.

II

Kærandi byggir að meginstefnu til á því að varnaraðili hafi ranglega metið tilboð hans ógilt. Þar sem kærandi hafi verið lægstbjóðandi í útboðinu og fullnægt öllum hæfiskröfum hafi varnaraðila borið að velja tilboð hans. Kærandi segir að hann hafi umráð yfir fullnægjandi birgðastöð út samningstímann í samræmi við kröfur greinar 0.10.3 í útboðsgögnum og hafi lagt fram gögn því til staðfestingar með tilboðinu sínu, þar á meðal yfirlýsingu frá Faxaflóahöfnum frá 10. júní 2021. Þá leggur kærandi áherslu á að hann hafi skilað fyrrgreindri yfirlýsingu Faxaflóahafna sf. enda hafi hann fengið staðfestingu rafræna uppboðskerfisins á að öllum gögnum hafi verið skilað. Hafi fyrrgreind yfirlýsing af einhverjum ástæðum ekki skilað sér í útboðskerfinu hafi varnaraðila borið að óska eftir skýringum kæranda og gefa honum kost á að bæta úr enda hafi varnaraðila mátt vera ljóst að kærandi hafi verið í góðri trú um að áskildum gögnum hafi verið skilað í útboðinu. Þá segir kærandi að framlagning yfirlýsingarinnar eftir opnun tilboða hefði rúmast innan svigrúms 5. mgr. 66. gr. laga um opinber innkaup.

Varnaraðili leggur áherslu á að yfirlýsing frá Faxaflóahöfnum sf. frá 10. júní 2021 hafi ekki verið á meðal tilboðsgagna kæranda. Kærandi hafi því ekki sýnt fram á að hann hafi tryggt sér umráð eða vilyrði fyrir umráðum yfir birgðastöð út samningstímann í samræmi við áskilnað greinar 0.10.3 í útboðsgögnum. Tilboð kæranda hafi þegar af þessum ástæðum verið ógilt. Kærandi beri ábyrgð á sínu eigin tilboði og varnaraðila hafi verið óskylt og óheimilt að gefa kæranda kost á að leggja fram viðbótargögn á grundvelli 5. mgr. 66. gr. laga um opinber innkaup. Þá segir varnaraðili að yfirlýsing Faxaflóahafna sf. sé ekki fullnægjandi til að sýna fram á umráð kæranda yfir birgðastöð út samningstímann þar sem umráð kæranda samkvæmt yfirlýsingunni séu tryggð til 1. mars 2022 en gildistími samningsins sé til 3. apríl sama árs. Varnaraðili bendir einnig á að tilboð kæranda hafi verið einnig verið ógilt vegna annarra annmarka. Þannig sé óljóst hvort birgðastöð kæranda hafi verið með steypt eða malbikað undirlag, ársreikningur kæranda hafi ekki verið undirritaður án fyrirvara og að yfirlýsing kæranda um starfskjör hafi ekki verið undirrituð. Loks leggur varnaraðila áherslu á kærandi hafi ekki skilað umræddri yfirlýsingu Faxaflóahafna sf. heldur hafi í tvígang skilað yfirlýsingu frá Landsbankanum, dags. 14. júní 2021, með tilboði sínu.

Af hálfu Saltkaupa ehf. er einkum byggt á því að varnaraðila hafi verið bæði rétt og skylt að meta tilboð kæranda ógilt og hafi borið að ganga að sínu tilboði sem hafi verið lægsta gilda tilboðið sem barst í útboðinu. Þá er lögð áhersla á að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup og beri því að aflétta stöðvun samningsgerðar, auk þess sem brýnir almannahagsmunir krefjist þess.

III

Með vísan til þeirra sjónarmiða aðila sem fram eru komin og að virtum fyrirliggjandi gögnum verður að miða við, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að kærandi hafi ekki leitt verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 sem geti leitt til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Samkvæmt þessu verður að fallast á kröfu varnaraðila um að aflétta stöðvun samningsgerðar í hinu kærða útboði, sbr. 2. mgr. 107. gr., sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016. Úr öðrum kröfum aðila verður leyst með úrskurði þegar aðilar hafa skilað endanlegum sjónarmiðum sínum í málinu og lagt fram þau gögn sem þeir telja máli skipta.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar milli varnaraðila, Reykjavíkurborgar, og Saltkaupa ehf., í kjölfar útboðs nr. 15212 auðkennt „Götusalt 2021-2022“.


Reykjavík, 6. september 2021


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum