Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20jafnr%C3%A9ttism%C3%A1la

Mál 11 /2021 Úrskurður

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Akureyrarbæ

 

Ráðning í starf. Stjórnvald. Kyn. Aldur. Sönnunarregla. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun Akureyrarbæjar um að ráða konu sem er yngri en hann í starf umsjónar- og stærðfræðikennara í grunnskóla á vegum bæjarins. Að mati nefndarinnar hafði hvorki verið sýnt fram á að A hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, né aldurs, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Var því hvorki fallist á að Akureyrarbær hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 né lög nr. 86/2018.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 2. mars 2022 er tekið fyrir mál nr. 11/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  1. Með kæru, dags. 13. ágúst 2021 sem var móttekin 16. s.m., kærði A ákvörðun Akureyrarbæjar um að ráða konu í starf umsjónar- og stærðfræðikennara við skóla á vegum bæjarins. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Akureyrarbær brotið gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  2. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 18. ágúst 2021, og óskað afstöðu hans til hennar. Greinargerð kærða, dags. 6. september 2021, ásamt fylgigögnum barst með tölvupósti 9. september 2021 og viðbót við hana daginn eftir. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 13. september s.á. Í framhaldinu bárust athugasemdir kæranda með bréfi, dags. 28. september 2021, sem kynntar voru kærða með bréfi kærunefndar, dags. 30. s.m. Með tölvupósti kærunefndar til kærða 31. janúar 2022 var óskað eftir viðbótargögnum og bárust þau í tölvupósti sama dag.

    MÁLAVEXTIR

     

  3. Hinn 9. apríl 2021 var auglýst laust starf umsjónar- og stærðfræðikennara við grunnskóla á Akureyri frá 1. ágúst 2021. Í auglýsingu kom fram að menntunarkröfur væru kennaramenntun og réttindi til kennslu í grunnskóla. Framhaldsmenntun var sögð æskileg. Í auglýsingu var tekið fram að kennarar skólans störfuðu saman í teymum og nemendur ynnu oft saman í aldursblönduðum hópum. Var lögð áhersla á samstarf og samvinnu við aðra starfsmenn skólans en auk þess voru eftirtaldar hæfniskröfur gerðar: Góð stærðfræðikunnátta og hæfni til að nýta forrit og tækni við kennslu, góð almenn þekking á kennslugreinum unglingastigs, vald á fjölbreyttum kennsluaðferðum sem taka mið af mismunandi þörfum, áhuga og getu nemenda, hæfni í mannlegum samskiptum, áhugi á kennslu og vinnu með börnum og unglingum, góð þekking á kennslu- og uppeldisfræði, frumkvæði og samstarfsvilji, sveigjanleiki og víðsýni í starfi, góðir skipulagshæfileikar, reglusemi og samviskusemi auk þess sem reynsla af kennslu í grunnskóla var talin æskileg.
  4. Sjö umsóknir bárust um starfið. Voru þrír umsækjendanna metnir hæfastir og þeir boðaðir í viðtal. Þeirra á meðal var kærandi. Hinn 6. maí 2021 var kæranda tilkynnt að hann hefði ekki fengið starfið. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni sem barst kæranda 1. júní 2021. Þar kom m.a. fram að kona sem var ein þessara þriggja umsækjenda sem voru boðaðir í viðtal hefði verið talin hæfust umsækjenda til að gegna starfinu.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  5. Kærandi telur að umsóknarferlið hafi verið gallað og að þeir gallar hafi beinst gegn honum sem karlmanni og þannig hafi verið brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020 þegar ráðið var í stöðu umsjónar- og stærðfræðikennara við skólann. Kærandi telur að kærði hafi ekki framkvæmt heildstætt mat á umsækjendum og að matsvinna kærða hafi ekki verið forsvaranleg. Kærði hafi ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti en sem dæmi hafi kærði ekki metið alla þætti hæfisskilyrða sem voru í auglýsingu fyrir starfið. Þannig hafi kærði sleppt matshlutum sem varða kæranda en byggt niðurstöðu sína á þáttum sem ekki komu fram í hæfnisþáttum auglýsingar um starfið. Með þessu hafi kærði brotið gegn 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 7. og 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  6. Kærandi telur að af rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni megi ráða að niðurstaðan hafi annars vegar ráðist af því að sú sem var ráðin sé með M.Ed. próf en kærandi með B.Ed. próf en hins vegar af því að sú sem var ráðin standi framar kæranda hvað varðar skipulagshæfileika, sýn á samstarf og teymisvinnu kennara. Hafi sú niðurstaða byggt á viðtölum við umsækjendur og meðmælendur. Kærandi telur að í raun hafi aldur og kynferði ráðið niðurstöðunni en ekki hafi verið heimilt að byggja á þessum sjónarmiðum.
  7. Kærandi tekur fram að kærandi hafi fengið 58 stig en sú sem var ráðin 59 stig. Þar af hafi kærandi fengið tvö stig fyrir meistarapróf í kennslufræðum sem er jafngilt embættisprófi til kennslu sem hann er með, sbr. 20. gr. laga nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, en báðar námsgráður veiti rétt til leyfisbréfs. Sé óheimilt að mismuna umsækjendum eftir tegund kennaramenntunar að baki leyfisbréfi til kennslu. Hér sé því um ómálefnalega mismunun að ræða og því sé kærandi í raun með einu stigi meira í þessum matsþætti en sú sem var ráðin. Með þessu sé einnig gert lítið úr kennslureynslu hans sem sé umtalsvert meiri en þeirrar sem var ráðin en hún hafi vegið of lítið í matinu.
  8. Kærandi bendir á að þar sem hann og sú sem var ráðin hafi staðið nánast jafnt að vígi varðandi hlutlæga þáttinn hafi kærða borið að gæta sérstakrar varúðar við mat á huglægum þáttum, sbr. t.d. úrskurði kærunefndar jafnréttismála í málum nr. 6/2012 og 8/2012. Telur kærandi að þar sem það hafi ekki verið gert þurfi kærði að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðuninni, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  9. Bendir kærandi á að hvergi komi fram í gögnum kærða að sú sem var ráðin hafi fengið fleiri stig fyrir huglæga matið auk þess sem enga samanlagða stigagjöf sé að finna fyrir þennan þátt í matsskjalinu en sleppt er að geta svara kæranda um teymisvinnu í því. Þá sé ekki gerð grein fyrir því með hvaða hætti lagt var mat á frammistöðu umsækjenda í viðtali.
  10. Kærandi bendir á að ekki sé minnst á umsagnir meðmælenda í rökstuðningi kærða. Raunar séu engin gögn sem staðfesti að rætt hafi verið við meðmælendur sem hafi í för með sér stóran galla á málsmeðferðinni. Að auki bendir kærandi á að lögmætisreglan og reglan um málefnaleg sjónarmið hafi verið brotnar við málsmeðferðina auk þess sem mat kærða sé ekki forsvaranlegt þar sem það byggi ekki á heildstæðu mati heldur því markmiði að útiloka kæranda frá starfinu.
  11. Kærandi bendir á að þó svo að kærði hafi val um hvaða skilyrði hann setur fyrir umsækjendur um starf þá sé kærði bundinn af þeim hæfisskilyrðum sem fram koma í auglýsingu. Við mat á þeim sjónarmiðum sem fram koma í auglýsingu sé kærði bundinn af rannsóknarreglunni og verðleikareglunni. Kærði hafi að mati kæranda ekki uppfyllt skyldur sínar að þessu leyti og því sé um brot á stjórnsýslulögum að ræða. Ákvörðun kærða um ráðninguna sé því ólögmæt.
  12. Kærandi telur að rannsóknarreglan hafi verið brotin þar sem heildarmat hafi ekki farið fram á hæfni umsækjendanna miðað við þá þætti sem koma fram í auglýsingu. Einungis hafi verið sett fram sú fullyrðing að sú sem var ráðin hafi komið betur út varðandi tiltekna þætti en þess sjái ekki stað í gögnum málsins. Þetta sé algerlega ófullnægjandi málsmeðferð og bendir kærandi á úrskurð kærunefndarinnar í máli nr. 8/2018 máli sínu til stuðnings.
  13. Kærandi bendir á að í auglýsingu hafi hvorki verið gerð krafa um jákvætt viðhorf til teymisvinnu kennara né um jákvætt viðhorf til samstarfs. Það sem komist næst þessu sé krafa um samstarfsvilja. Telur kærandi að þessi þáttur hafi ekki verið nægilega rannsakaður. Kærandi hafi í viðtali fjallað um samstarfsvilja og getu til að vinna í teymi með öðrum kennurum. Kærandi telur einnig að geta til teymisvinnu og samstarfsvilji hljóti að hafa komið fram í samtölum við meðmælendur þar sem kærandi hafi unnið mikið í teymum og sýnt mjög góðan samstarfsvilja í fyrri störfum. Gerir kærandi athugasemdir við að kærði hafi tekið eina setningu út úr viðtalinu við kæranda, snúið út úr henni og dregið þá ályktun að kærandi væri ekki hlynntur teymisvinnu og þar með ekki eins hæfur til að gegna starfinu og sú sem var ráðin. Kærandi telur að þetta sýni að ekki hafi átt að ráða karl í starfið. Telur kærandi því að málsmeðferðin hafi brotið gegn 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þar með réttindum hans sem umsækjanda. Vísar hann til álits umboðsmanns í máli nr. 5129/2007 því til stuðnings.
  14. Kærandi telur að kærði hafi gerst brotlegur við upplýsingalög nr. 140/2012 með því að hafa ekki skráð niður helstu ákvarðanir um meðferð málsins og forsendur þeirra. Þá hafi viðtalspunktar úr starfsviðtölum ekki verið bornir undir kæranda.
  15. Bendir kærandi á að eins og komi fram í úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 20/2020 halli verulega á karla innan kennarastéttarinnar. Samkvæmt heimasíðu skólans sé hlutfall karla í starfsliði skólans 18,5%. Þessi kynjamismunun innan kennarastéttarinnar sé eitthvað sem bregðast þurfi við ef stefnt sé raunverulega að jafnrétti innan íslensks samfélags en engin rök standi til þess að réttlæta viðvarandi kynjamismunun.
  16. Telur kærandi að honum hafi tekist að sýna fram á að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 19. gr. laga nr. 150/2020, og að engar aðrar ástæður en kyn geti legið ákvörðun kærða til grundvallar. Það sé kærða að sýna fram á annað, sbr. 4. mgr. 19. gr. laganna.
  17. Að auki telur kærandi að mat kærða á menntun umsækjenda brjóti gegn 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Frá árinu 2008 hafi kennarar útskrifast með M.Ed. gráðu en fyrir þann tíma hafi þeir útskrifast með B.Ed. gráðu. Í báðum tilfellum sé um að ræða grunnnám að baki leyfisbréfi kennara. Það sé því aldursmismunun að M.Ed. gráða gefi fleiri stig en B.Ed. gráða. Slík mismunun leiði til þess að eldri kennarar standi höllum fæti gagnvart kennurum sem hafa útskrifast á síðustu árum. Það að munur sé á launaröðun í kjarasamningi eftir því hvort kennari sé með B.Ed. gráðu eða M.Ed. gráðu réttlæti ekki mismunun að þessu leyti við ráðningu í starf þar sem báðar gráðurnar teljast grundvöllur starfsréttinda. Þá geti menntun að baki leyfisbréfi ekki talist viðbótarmenntun þar sem um er að ræða starfsmenntun til réttinda. Bendir kærandi á að hann hafi verið spurður um þekkingu á sundkennslu í starfsviðtalinu þar sem slíkan kennara vantar við skólann. Kærandi hefur slíka þekkingu en þrátt fyrir það taldist hún ekki til stiga í mati á menntun.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  18. Kærði hafnar því að ráðning stærðfræði- og umsjónarkennara í grunnskóla á vegum bæjarins hafi falið í sér mismunun milli umsækjenda á grundvelli aldurs og að ákvæði laga nr. 86/2018 hafi verið brotin við ráðninguna.
  19. Bendir kærði á að þeir þrír umsækjendur sem boðaðir voru í viðtal vegna starfsins hafi allir verið metnir út frá gefnum matskvarða um menntun og starfsreynslu. Kærði telur málefnalegt að meta framhaldsmenntun til stiga í hæfnismati og að matskvarði vegna kennslureynslu hafi haft eðlilegt vægi í hæfnismati.
  20. Kærði tekur fram að Háskóli Íslands skilgreini M.Ed. próf sem framhaldsmenntun og sé námið skilgreint sem meistaranám. Það sé metið á þrepi 6.2 samkvæmt hæfniramma um íslenska menntun (ISQF) sem samsvarar þrepi 7 í evrópska hæfnirammanum (EQF). B.Ed. sé hins vegar metið á þrepi 5.2 samkvæmt hæfniramma um íslenska menntun sem samsvarar þrepi 6 í evrópska hæfnirammanum. Samkvæmt því sé hæfnismunur á þessum menntunarstigum og því samræmi í því að meta framhaldsmenntun til stiga sem hafi vægi í hæfnismati. Kærði bendir ennfremur á að samkvæmt kjarasamningi Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga sé launaröðun kennara með M.Ed. próf hærri en kennara með B.Ed. próf. Ekki sé því um mismunun að ræða gagnvart þeim umsækjendum sem hafa B.Ed. próf í umræddu hæfnismati.
  21. Til samanburðar nefnir kærði að ekki sé um aldursmismunun að ræða þótt reynslumeiri kennarar, sem í flestum tilfellum séu eldri, skori fleiri stig en þeir yngri þegar kemur að kennslureynslu. Bendir kærði á að margir þeirra sem hafa útskrifast með B.Ed. gráðu hafi bætt við sig menntun á meistarastigi. Samkvæmt því grundvallist ólíkt mat eða vægi á M.Ed. og B.Ed. gráðu ekki á aldursmismunun.
  22. Kærði tekur fram að breyting á lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem tóku gildi 1. janúar 2020 hafi ekki þau áhrif að sú sértæka menntun sem fylgir leyfisbréfi á hverju skólastigi skuli metin til jafns að öllu leyti þegar kemur að hæfnismati ráðningarvaldshafa og umsækjendur eru metnir eftir.
  23. Kærði bendir á að kærandi hafi fengið hæsta skor eða þrjú stig fyrir kennslureynslu á grunnskólastigi en kvarðinn hafi verið skýrt skilgreindur. Sú sem var ráðin hafi hins vegar fengið eitt stig. Hvorugt hafi skorað stig fyrir kennslureynslu af öðru skólastigi.
  24. Kærði hafnar því að hafa brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020 með ráðningunni.
  25. Bendir kærði á að kennarar í grunnskólum Akureyrarbæjar starfi samkvæmt erindisbréfi sem sé sett samkvæmt 6. gr. laga nr. 72/1996. Í erindisbréfinu, menntastefnu Akureyrar 2020–2025 og því sem fyrir liggur um nám og kennslu í skólanum sé mikil áhersla lögð á teymisvinnu kennara. Í skólanum starfi sex teymi kennara, sérkennara og stuðningsfulltrúa sem vinni út frá grundvallarforsendum góðrar teymisvinnu í anda Patricks Lencioni. Þrátt fyrir að samstarf og teymisvinna hafi ekki verið í auglýstum hæfniskröfum hafi sérstaklega verið getið um samstarfsvilja, sveigjanleika og víðsýni í auglýsingunni sem eru allt hæfniskröfur sem tengjast þeim matsþætti. Jafnframt hafi verið tiltekið að kennarar skólans starfi saman í teymum og nemendur vinni oft saman í aldursblönduðum hópum. Einnig hafi verið tekið fram að kennari við skólann sé hluti af kennarateymi og sinni kennslu nemenda í samstarfi og samvinnu við aðra starfsmenn skólans. Telur kærði því að það hafi verið málefnalegt að viðhorf og væntingar til teymisvinnu hafi verið sérstakur matsþáttur í ráðningarferlinu.
  26. Á matsblaði koma fram viðhorf kæranda til teymisvinnu í reit sem er við spurninguna: Hver er reynsla þín af teymisvinnu kennara/stuðningsfulltrúa? Stigagjöf fyrir þennan matsþátt sé í samræmi við þau svör sem fram komu og kærandi vísar til í kæru sinni. Þau viðhorf sem þar komu fram stönguðust á við grundvallarhugmyndir um teymisvinnu og gáfu til kynna að kærandi hefði ákveðnar efasemdir um teymisvinnu.
  27. Eftir mat á umsækjendum munaði einu stigi á kæranda og þeirri sem hlaut starfið. Eins og fram kom í rökstuðningi munaði þar um meistaranám þeirrar sem ráðin var en auk þess skipti frammistaða í viðtali máli. Sú sem ráðin var hafði sérstaklega jákvætt viðhorf til teymisvinnu og fékk ennfremur góðar umsagnir um samstarfs- og skipulagshæfileika sem staðfestu upplifun ráðningaraðila um hæfni í mannlegum samskiptum og skipulagsfærni sem er grundvöllur góðrar teymisvinnu.
  28. Kærði bendir á að það verði að veita stjórnvaldi svigrúm til að meta út frá frammistöðu í viðtali hvort umsækjandi uppfyllir þær huglægu kröfur sem gerðar eru í auglýsingu. Hlutlægir þættir eins og menntun og reynsla liggja fyrir en ýmsir huglægari þættir eins og viðhorf til teymisvinnu sem er stór þáttur í þeirri hæfniskröfu að vera góður í mannlegum samskiptum koma yfirleitt ekki í ljós nema í viðtali.
  29. Kærði tekur fram að skólastjóri hafi haft samband við umsagnaraðila sem umsækjendur bentu á í umsókn sinni, en þeir bættu engu við það sem skólastjóri vissi, enda búinn að vinna áður með báðum umsækjendum. Þá bendir kærði á að sú sem starfið hlaut hafi fengið fleiri stig en kærandi samkvæmt fyrir fram ákveðnum matsramma og því hafi ekki verið skylt að ráða umsækjanda af því kyni sem hallar á í starfsliði skólans.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  30. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi annars vegar brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og hins vegar gegn 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, með ráðningu konu í starf umsjónar- og stærðfræðikennara sem er yngri en kærandi og með meiri menntun til sömu kennsluréttinda og hvort það geti falið í sér mismunun á grundvelli kyns og aldurs.
  31. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr., þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar aðgengi að störfum, þ.m.t. við ráðningar.
  32. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Tekið er fram að lögin gildi m.a. um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.
  33. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  34. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við framangreint ákvæði í frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  35. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru í 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda um starf sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli aldurs. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Kemur það því í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aldur hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í máli þessu. Þá takmarkast endurskoðun kærunefndar af sambærilegum þáttum og þegar um kyn er að ræða, sbr. það sem áður er nefnt.
  36. Í auglýsingunni um starfið kom fram að um væri að ræða starf umsjónar- og stærðfræðikennara á unglingastigi. Menntunarkröfur voru kennaramenntun og réttindi til kennslu í grunnskóla en framhaldsmenntun væri æskileg. Hæfniskröfur voru góð stærðfræðikunnátta og hæfni til að nýta forrit og tækni við kennslu, góð almenn þekking á kennslugreinum unglingastigs, vald á fjölbreyttum kennsluaðferðum sem tækju mið af mismunandi þörfum, áhuga og getu nemenda, hæfni í mannlegum samskiptum, áhugi á kennslu og vinnu með börnum og unglingum, góð þekking á kennslu- og uppeldisfræði, frumkvæði og samstarfsvilji, sveigjanleiki og víðsýni í starfi, góðir skipulagshæfileikar, reglusemi og samviskusemi auk þess sem reynsla af kennslu í grunnskóla var talin æskileg. Sérstaklega var tekið fram í auglýsingunni að kennarar skólans störfuðu saman í teymum og að kennari væri hluti að kennarateymi, sinnti kennslu nemenda í samstarfi og samvinnu við aðra starfsmenn skólans og bæri ábyrgð á starfi sínu gagnvart skólastjóra.
  37. Kærði hefur gert grein fyrir því að kærandi og sú sem var ráðin hafi staðið nánast jafnt að vígi við mat á menntun og starfsreynslu. Af matsblaði sem liggur fyrir í málinu má ráða að þau hafi fengið jafnmörg stig varðandi kennaramenntun og leyfisbréf í grunnskóla, sú sem fékk starfið hafi staðið framar varðandi matsþáttinn meistarapróf í kennslufræðum eða sambærilegt en að kærandi hafi staðið framar varðandi kennslureynslu. Að mati kærunefndar verður ekki annað ráðið af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvaða menntun og starfsreynsla félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Verða því ekki gerðar athugasemdir við það að meistarapróf í kennslufræðum hafi verið sér matsþáttur, jafnvel þótt slíkt próf hafi verið grundvöllur annars matsþáttar, þ.e. kennaramenntun og leyfisbréf í grunnskóla. Er því ekki fallist á að í mati kærða á menntun umsækjenda hafi falist mismunun á grundvelli aldurs. Þá er rétt að benda á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöf fyrir einstaka matsþætti er einungis um að ræða hluta af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
  38. Þá hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni þessara tveggja umsækjenda hafi verið mat á persónubundnum þáttum þar sem sú sem var ráðin hafi staðið kæranda framar. Hafi skipulagshæfileikar og sýn á samstarf og teymisvinnu verið þau sjónarmið sem hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að henni hafi verið boðið starfið. Hafi umsagnaraðilar staðfest þessa eiginleika hennar. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni hans að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar.
  39. Fyrir liggur að við mat á frammistöðu í viðtölum voru samræmdar spurningar lagðar fyrir umsækjendur. Þau sjónarmið sem komu fram í viðtölum og lutu að skipulagshæfileikum og sýn á samstarf og teymisvinnu fengu þannig vægi í mati kærða. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að frammistaða umsækjenda í viðtölum hafi verið hluti af heildarmati á umsækjendum eða að ómálefnalegt hafi verið að byggja á þeim upplýsingum sem þar komu fram. Nánar tiltekið byggði heildarmat á umsækjendum á menntun, starfsreynslu og öðrum atriðum eins og reynslu, viðhorfi og væntingum til teymisvinnu auk góðra skipulagshæfileika og þá m.a. með hliðsjón af umsögnum umsagnaraðila. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjanda sem fékk starfið hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafði lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ágreiningur um það hvað fór á milli aðila í viðtali telst ekki þess eðlis að hann hafi áhrif á þessa niðurstöðu.
  40. Með vísan til alls framangreinds verður að leggja til grundvallar að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann byggði á við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Telur kærunefnd að hæfnismatið, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði hvorki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns né aldurs, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018.
  41. Að öllu framangreindu virtu verður talið að hvorki hafi verið sýnt fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf umsjónar- og stærðfræðikennara á unglingastigi við skólann né á grundvelli aldurs. Samkvæmt því verður hvorki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 né lög nr. 86/2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Akureyrarbær braut hvorki gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna né lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði við ráðningu í starf umsjónar- og stærðfræðikennara á unglingastigi við grunnskóla á vegum bæjarins.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum