Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 2/2013

Hinn 18. september 2013 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 2/2013:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 703/2012

Ákæruvaldið

gegn

Y og X


og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I.                   Beiðni um endurupptöku

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

Með erindi dagsettu 18. febrúar 2013 sem sent var Hæstarétti Íslands var af hálfu Y óskað eftir endurupptöku máls nr. 703/2012 sem dæmt var í Hæstarétti 10. desember 2012. Hæstiréttur framsendi erindið innanríkisráðuneyti 11. mars síðastliðinn en lög nr. 15/2013 um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála tóku gildi við birtingu þeirra 9. mars 2013. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/2013 skyldi um meðferð og afgreiðslu á beiðnum um endurupptöku mála sem hafa borist Hæstarétti fyrir 1. janúar 2013 fara eftir eldri reglum laga um meðferð sakamála og laga um meðferð einkamála eftir því sem við á. Skipað var í endurupptökunefnd 17. maí 2013 og var erindinu komið á framfæri við nefndina 4. júní 2013. 

II.                Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í framangreindu máli var leyst úr álitaefnum sem einkum lutu að því hvort vísa ætti máli ákæruvaldsins frá dómi í heild eða hluta auk þess sem tekist var á um inntak og eðli skjals sem ákæruvaldið lagði fram og var skilgreint sem „greinargerð rannsakenda í máli 090-2009-0012“. Hæstiréttur féllst ekki á að vísa málinu frá dómi í heild eða hluta. Þá tók Hæstiréttur afstöðu til nefnds skjals með eftirfarandi hætti:

„Skýrsla rannsakenda í máli þessu, sem sögð er tekin saman á grundvelli 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008, hefur að geyma fjölmörg atriði sem samkvæmt framansögðu eiga ekki heima í slíkri skýrslu. Þótt þetta sé aðfinnsluvert leiða þessir annmarkar ekki til frávísunar málsins, enda hafa varnaraðilar og aðrir ákærðu átt þess kost að koma að andmælum og vörnum í greinargerðum sínum samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laganna og fá frekara tækifæri til þess við aðalmeðferð málsins, þar á meðal við munnlegan flutning þess fyrir dómi.“

III.             Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir á því að málsmeðferð Hæstaréttar hafi farið í bága við d. lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 og því beri að endurupptaka málið fyrir Hæstarétti og fella nýjan dóm í málinu.

Forsenda þess er sú að einn dómenda Hæstaréttar í málinu hafi tekið þátt í umræðum á fundi í Ákærendafélagi Íslands þar sem umfjöllunarefni fundarins hafi lotið að efni 56. gr. laga nr. 88/2008. Fundur þessi hafi verið haldinn eftir að beiðandi hafði kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar en áður en ákæruvaldið skilaði greinargerð af sinni hálfu til réttarins. Telur beiðandi það verulegan galla á meðferð málsins fyrir Hæstarétti að nefndur dómari hafi síðar tekið sæti í málinu og dæmt í því.

IV.             Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 segir að  endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 211. gr.  Í 3. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008 segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað.

Í 211. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn þá geti endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju skilyrða greinarinnar í stafliðum a-d er fullnægt. Er þar á meðal skilyrði það sem endurupptökubeiðandi vísar til í d. lið 1. mgr. 211. gr. þess efnis að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Það er grundvallarskilyrði fyrir endurupptöku að endurupptökubeiðandi telji sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið sbr. 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Til þess er að líta í máli því sem hér er til úrlausnar að dómur Hæstaréttar í máli nr. 703/2012 fól ekki í sér efnislega úrlausn um sök endurupptökubeiðanda. Hann var ekki sakfelldur í hæstaréttarmáli þessu og skortir því á að framangreint grundvallarskilyrði 1. mgr. 211. gr. sé uppfyllt. Þegar af þessari ástæðu skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni Y um endurupptöku í máli Hæstaréttar nr. 703/2012 og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 3. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008.


ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni um endurupptöku máls nr. 703/2012 sem dæmt var í Hæstarétti 10. desember 2012 er hafnað.

Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum