Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 592/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 592/2020

Miðvikudaginn 14. apríl 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 13. nóvember 2020, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 14. ágúst 2020 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 10. ágúst 2018, vegna afleiðinga meðferðar sem fram fór á Landspítalanum X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 18. maí 2020, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Með tölvupósti 5. júní 2020 sendi lögmaður kæranda Sjúkratryggingum Íslands ný gögn og óskaði eftir endurskoðun á ákvörðun stofnunarinnar. Sjúkratryggingar Íslands samþykktu endurupptöku og með ákvörðun, dags. 14. ágúst 2020, var fyrri ákvörðun stofnunarinnar um synjun á bótaskyldu staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 16. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 20. nóvember 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2020, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. ágúst 2020, verði endurskoðuð og telur hún að um sé að ræða bótaskylt atvik sem falli undir 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Í kæru segir að aðdraganda málsins megi rekja til þess að kærandi hafi átt að gangast undir legnám X. Hún hafi gengist undir míturlokuaðgerð á árinu X og verið á blóðþynningarlyfjum síðan þá til að fyrirbyggja blóðtappa og segamyndun. Vegna hins fyrirhugaða legnáms hafi kærandi verið tekin af blóðþynningarlyfjum að minnsta kosti viku fyrir aðgerðina. Af sjúkraskrárgögnum sé óljóst hversu lengi hún hafi verið án blóðþynningarlyfja en í nótu frá X segi að kærandi hafi verið án Magnýls í viku en á öðrum stað sé vísað til þess að kærandi hafi ekki verið á Magnýl undanfarinn mánuð samkvæmt innskrift X.

Fram kemur að kærandi hafi mætt til aðgerðar að morgni X og þá hafi komið í ljós að ekki hefðu verið gerðar myndrannsóknir fyrir aðgerðina og hún því send í myndatöku. Röntgenmynd hafi sýnt blett sem talið hafi verið að gæti bent til þess að um krabbamein í lunga væri að ræða. Að sögn kæranda hafi verið ákveðið að fresta aðgerðinni í ljósi þessa og hún send heim, án þess þó að fá fyrirmæli um að hefja töku blóðþynningarlyfja að nýju. Það hafi verið kæranda mikið áfall að fá þessar fréttir um mögulegt lungnakrabbamein og hún mun hafa hringt í […] sem hafi sótt hana og þær spjallað saman heima hjá […] þar til sú síðarnefnda hafi skutlað kæranda heim í kringum hádegisbil.

Að kvöldi X hafi kærandi fundist liggjandi og hafði þá legið ósjálfbjarga í margar klukkustundir sökum heilablóðfalls. Þegar hún hafi fundist hafi verið of seint að beita bráðainngripi og ljóst að hún hafi orðið fyrir óafturkræfu tjóni. Hún hafi verið flutt á bráðadeild Landspítala með sjúkrabifreið til frekari aðhlynningar þar sem meðal annars hafi komið í ljós lömun á hægri handlegg og hönd, hægri fæti, málstol, verkstol og fleira. Þá hafi tekið við langt og strangt endurhæfingarferli þar sem kærandi hafi legið fyrst inni á Landspítala og síðan á Grensásdeild spítalans. Í dag búi kærandi við verulega skert lífsgæði og fulla örorku vegna heilablóðfallsins. Þá þarfnist hún hjálpar við flestar athafnir og óumdeilt sé að líf hennar hafi tekið stakkaskiptum.

Kærandi byggi á því að mistök hafi átt sér stað í meðferð hennar á Landspítala og þau hafi leitt til þess að hún hafi fengið fyrrnefnt heilablóðfall með tilheyrandi tjóni. Því sé um að ræða bótaskylt atvik sem falli undir 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telji ljóst að meginorsök þess að hún hafi hlotið heilablóðfall megi rekja til þess að hún hafi ekki verið á blóðþynningarlyfjum, líkt og hún hafi verið síðustu þrjú ár á undan. Þá hafi áfallið sem hún hafi upplifað við að fá fréttir af mögulegu lungnakrabbameini ýtt undir álag á hjarta- og æðakerfi líkamans og þar af leiðandi aukið hættu á blóðtappamyndun. Kærandi gagnrýni harðlega að ekki hafi verið búið að gera fyrirhugaðar myndrannsóknir nokkrum dögum fyrir aðgerð líkt og venja sé og í ofanálag hafi verið ranglega lesið úr myndum sem hafi í raun valdið kæranda óþörfu áfalli.

Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 sé kveðið á um að greiða skuli bætur, án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, ef komast hefði mátt hjá tjóni hefði rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2000 komi fram að tilgangur laga nr. 111/2000 hafi meðal annars verið að tryggja tjónþola víðtækari rétt á bótum en hann eigi samkvæmt almennum skaðabótareglum og jafnframt að gera honum auðveldara að ná fram rétti sínum. Þá segi einnig að samkvæmt frumvarpinu skipti meginmáli um greiðsluskyldu sjúklingatryggingar hvort komast hefði mátt hjá tjóninu sem sjúklingur hafi orðið fyrir. Samkvæmt 2. gr. laganna skuli í fyrsta lagi greiða bætur vegna allra tjóna sem rakin verði til þess að eitthvað fari úrskeiðis hjá lækni eða öðrum starfsmanni, sbr. 1. tölul. Við mat á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá lækni eða öðrum skuli ekki nota sama mælikvarða og stuðst sé við samkvæmt hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar heldur miða við hvað hefði gerst hefði rannsókn eða meðferð verið hagað eins vel og unnt hefði verið. Við mat á því hvort nauðsynlegt orsakasamband sé á milli tjóns og rannsóknar eða meðferðar sjúklings sé nægilegt að sýnt sé fram á að tjón hafi að öllum líkindum hlotist af þessari rannsókn eða meðferð, sbr. upphafsákvæði 2. gr.

Að mati kæranda sé skilyrðum framangreinds ákvæðis sjúklingatryggingalaga fullnægt og bótaskylda fyrir hendi. Hún leggi áherslu á eftirfarandi atriði máli sínu til stuðnings.

Kærandi byggir á því að fyrirliggjandi gögn renni fullnægjandi stoðum undir það að orsakatengsl séu á milli heilablóðfallsins og þess að hún hafi verið tekin af blóðþynningarlyfjum. Ekki sé hægt að líta fram hjá því að hún hafi verið á blóðþynningarlyfjum frá míturlokuaðgerð X og hafi ekki fengið blóðtappa fyrr en viku eftir að hún hafi verið tekin af lyfjunum. Að mati kæranda geti ekki verið um að ræða tilviljun, líkt og Sjúkratryggingar Íslands haldi fram. Þá hafi starfsfólki Landspítala átt að vera ljóst að kærandi væri í sérstakri áhættu vegna sögu sinnar og þá liggi í augum uppi að ákvarðanataka varðandi blóðþynningu hafi krafist sérstakrar varfærni í tilviki kæranda.

Í málinu sé óumdeilt að kærandi hafi fengið alvarlegt heilablóðfall og hlotið varanlegt tjón vegna þess. Einvörðungu sé deilt um hvort rekja megi heilablóðfallið til mistaka og/eða vanrækslu starfsmanna Landspítala og þeirrar meðferðar sem kærandi hafi fengið.

Í gögnum málsins sé staðfest að kærandi hafi verið tekin af blóðþynningarlyfjum fyrir fyrirhugaða legnámsaðgerð, líkt og venja sé fyrir stórar aðgerðir. Þó sé óljóst hversu lengi hún hafi verið án blóðþynningarlyfja og enn fremur sé ekkert skráð um það hvort kæranda hafi verið sagt að hefja töku blóðþynningarlyfja að nýju þegar hún hafi verið send heim að morgni X, en hún staðhæfi að sér hafi ekki verið fyrirskipað að byrja að taka blóðþynningarlyfin aftur þar sem aðgerðinni væri frestað. 

Í greinargerð meðferðaraðila til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 21. maí 2019, sé vísað til þess að þegar kærandi hafi komið inn í fyrirhugaða aðgerð X hafi hún ekki tekið hjartamagnyl í einhvern tíma. Þá segi:

„Við höfum ekki upplýsingar um hvort hún hafi sjálf hætt á blóðþynningunni vegna blæðinga eða hvort henni hafi verið ráðlagt að hætta á hjartamagnyl nokkrum dögum fyrir aðgerðina – eins og venja er.“

Kærandi leggi áherslu á að henni hafi verið fyrirskipað að hætta töku blóðþynningarlyfja fyrir aðgerðina, en hún hafi ekki ákveðið að hætta sjálf og finnist í raun sérkennilegt að þessu sé velt upp í greinargerð meðferðaraðila til Sjúkratrygginga Íslands.

Þá bendi kærandi á að skráningu í sjúkraskrá Landspítala sé verulega ábótavant. Þannig liggi engin skráning fyrir um komu kæranda í aðgerðina að morgni X. Einnig séu ekki neinar skráningar/nótur varðandi niðurstöður myndrannsókna sem urðu til þess að hætt hafi verið við fyrrnefnda aðgerð. Í sjúkraskrá megi finna nótu frá X vegna komu kæranda vegna undirbúnings fyrir aðgerðina. Næsta skráning sé svo þann X þegar kærandi hafi komið á spítalann eftir heilablóðfallið. Kærandi lýsi furðu sinni á því að ekki liggi fyrir nákvæmari upplýsingar um komu hennar að morgni fyrirhugaðs aðgerðardags og skori hún á Sjúkratryggingar Íslands að leggja fram frekari gögn, séu þau til staðar. Þá byggi kærandi á því að spítalinn verði að bera hallann af því að ekki komi nægilega skýrt fram hvenær henni hafi verið ráðlagt að hætta töku blóðþynningarlyfja og hvaða ráðleggingar hún hafi fengið að morgni X með tilliti til blóðþynningar. 

Sjúkratryggingar Íslands hafi meðal annars byggt höfnun sína á því að upptök segans hafi ekki verið í míturloku hjartans, heldur séu yfirgnæfandi líkur á því að hann hafi átt upptök sín í vinstri innri hálsslagæð. Tilgangur Magnýlmeðferðarinnar hafi verið að draga úr hættu á segareki frá míturloku og því hafi Magnýlmeðferðin ekki brugðist tilgangi sínum og áhættan á slíku segareki hafi ekki raungerst við stöðvun meðferðar.

Þá byggi Sjúkratryggingar Íslands á því að ekki liggi fyrir hvort kærandi hafi fengið fyrirmæli um að hefja aftur Magnýlmeðferð við útskrift þann X, en það hefði hvort sem er ekki skipt máli þar sem það taki lyfið sjö til tíu daga að ná fullri flöguhemjandi verkun.

Kærandi telji Sjúkratryggingar Íslands vera að slíta hlutina úr samhengi í stað þess að líta heildstætt á aðstæður og leggja mat á það sem raunverulega skipti máli.

Í fyrsta lagi bendi kærandi á að það sé ekki hægt að slá því föstu að upptök segans megi rekja til vinstri innri hálsslagæðar. Þvert á móti sé uppi vafi um upptök segans, en kjarni málsins sé sá að koma hefði mátt í veg fyrir heilablóðfallið hefði kæranda verið ráðlagt að taka blóðþynningarlyfin að nýju.

Í umsögn um rannsókn á hjarta frá X segi í samantekt:

„Hún var á blóðflöguhamlandi meðferð áður en hún var tekin af því lyfi vegna ráðgerðrar legaðgerðar. Líklegast að hún hafi hugsanlega myndað sega á þessari loku eftir að hún var tekin af blóðflöguhamlandi meðferð og það leitt til heilaáfallsins.“

Í læknabréfi C yfirlæknis frá X segi meðal annars:

„Þar sem útbreiðsla skemmda í heila benti til embolisks stroke var A send í hjartaómun um vélinda til nánari skoðunar. Þar sáust þykknaðar blöðkur á mitralloku (fór í miurlokuplastik X) en ekki segar með neinni vissu. Þeim möguleika velt upp að segar hefðu myndast á lokunni þegar hún hætti á Hjartamagnyl vegna fyrirhugaðs legnáms. Þó er það alls ekki víst og hefur því verið pöntuð tveggja sólarhringa Holter-rannsókn m.t.t. þess hvort gáttaflökt gæti verið orsökin þrátt fyrir að slíkt hafi ekki sést á síðustu Holter rannsókn. Hún er nú á Clopidogrel þynningu.“

Í útskriftarnótu taugadeildar frá X segi meðal annars:

„Þar sem líklegt verður að teljast að slagið sem hún fékk X hafi verið v/cardiogen blóðsegamyndunar ráðleggur hann Eliquis 5mg [...] Þar sem sá blóðtappi hefur að öllum líkindum komið frá hjartanu þá er blóðþynningarmeðferð kjörmeðferð.“

Framangreindar skráningar gefi sterkt til kynna að möguleiki sé á að upptök segamyndunar megi rekja til hjartans. Í öllu falli telji kærandi rétt að hún fái að njóta vafans. Þá byggi kærandi enn fremur á því að ekki skipti öllu máli hvar upptök segamyndunarinnar hafi verið, heldur hafi starfsfólki Landspítalans átt að vera ljóst að hún væri í aukinni áhættu á að mynda blóðtappa vegna sögu sinnar og því væri mikilvægt að passa upp á blóðþynningu og ráðleggingar hvað það varðar.

Í öðru lagi bendir kærandi á að Sjúkratryggingar Íslands fari ekki með rétt mál varðandi verkun blóðþynningarlyfjanna og leggi áherslu á að helmingunartími þeirra lyfja sem hún hafi tekið sé stuttur og lyfin fljótvirk. Þannig hefði inntaka lyfjanna strax að morgni X getað komið í veg fyrir hinar hörmulegu afleiðingar fyrir kæranda. Að öðru leyti sé vísað til umfjöllunar í athugasemdum eiginmanns kæranda við bréf Sjúkratrygginga Íslands frá 14. ágúst 2020 og meðfylgjandi upplýsinga um lyf kæranda.

Þá byggi kærandi á því að það hafi verið ábyrgðarlaust af starfsfólki Landspítala að senda hana heim að morgni X með fréttir um mögulegt lungnakrabbamein í farteskinu, án þess að segja henni að hefja töku blóðþynningarlyfja að nýju, sérstaklega í ljósi hennar sögu.

Fyrstu niðurstöður rannsóknar D, lungnalæknis á Landspítala, sýni að bráð streita sjúklinga við greiningu lungnakrabbameins sé mjög mikil með tilheyrandi álagi á hjarta- og æðakerfi líkamans. Kærandi leggi áherslu á að hefði rétt verið lesið úr myndinni og hún tekin nokkrum dögum fyrir fyrirhugaða aðgerð, hefði hún ekki þurft að upplifa áfallið sem hafi fylgt greiningunni um lungnakrabbamein. Þá hafi verið þeim mun meiri ástæða til að tryggja það að kærandi tæki aftur blóðþynningarlyf í ljósi þessara aðstæðna og verði starfsfólki Landspítala gefið það að sök að hafa ekki fylgt máli kæranda nægilega vel eftir, en viðeigandi ráðleggingar hefðu getað skipt sköpum í tilviki kæranda.

Að öllu framangreindu virtu byggi kærandi á því að meðferð hennar hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið og því sé um bótaskylt atvik að ræða samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000. Kærandi hafi hlotið heilablóðfall sem hafi haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér fyrir hana og hún byggi á því að rekja megi heilablóðfallið beint til meðferðar og skorts á ráðleggingum frá starfsfólki Landspítala.

Ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi fengið ráðleggingar um að hefja töku blóðþynningarlyfja er hún hafi verið útskrifuð að morgni fyrirhugaðs aðgerðardags þann X, þrátt fyrir að ærin ástæða hafi verið til að ganga úr skugga um það í ljósi fyrri sögu kæranda. Þá liggi fyrir að mistök hafi verið gerð þegar lesið hafi verið úr myndrannsóknum og aðgerðinni í raun frestað að óþörfu og kærandi orðið fyrir óþörfu áfalli vegna upplýsinga um mögulega krabbameinsgreiningu með tilheyrandi álagi á æðakerfið. Þá bendi fyrirliggjandi gögn til þess að hægt sé að slá því föstu að klárt orsakasamhengi sé á milli heilablóðfallsins og þeirrar staðreyndar að kærandi hafi hætt inntöku blóðþynningarlyfja. Í öllu falli telji kærandi rétt að hún fái að njóta vafans og hún hafni rökum Sjúkratrygginga Íslands varðandi það að um hreina tilviljun sé að ræða og að segamyndunin hafi átt upptök sín annars staðar. Að mati kæranda sé augljóst að það sé tenging á milli þess að hún hafi verið tekin af lyfjunum og heilablóðfallsins og í því sé hinn eiginlegi sjúklingatryggingaratburður fólginn, þ.e. að hún hafi ekki fengið fyrirmæli um að hefja töku þeirra að nýju.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að afstaða stofnunarinnar til kæruefnis hafi þegar komið fram í ákvörðun hennar frá 18. maí 2020 og endurákvörðun frá 14. ágúst 2020. Þar segir að kærandi hafi fengið heiladrep X sem rekja megi til segareks til miðhjarnaslagæðar. Um sé að ræða alvarlegt ástand sem leiði gjarnan til skerts blóðsvæðis til heila og segareks til heila. Yfirgnæfandi líkur séu á því að seginn hafi átt upptök sín í vinstri innri hálsslagæð vegna lokunar eða flysjunar, enda hafi ómskoðun engin merki sýnt um að blóðtappi hafi borist frá hjarta. Einnig sé ljós að vegna þess að umrædd æð hafi verið lokuð geti blóðtappi ekki hafa borist til flæðissvæðis æðarinnar frá hjarta. Þegar kærandi hafi fengið sjóntruflanir í hægra auga í X hafi myndgreining á hálsæðum ekki leitt neitt sjúklegt í ljós og ekki hafi verið vitað um skemmd eða þrengsli í æðinni þegar áðurnefndri Magnýlmeðferð hafi verið hætt. Kærandi hafi verið á Magnýlmeðferð vegna viðgerðar, sem gerð hafi verið á míturloku árið X, en tilgangur meðferðarinnar hafi verið að draga úr hættu á segareki frá lokunni. Það sé viðurkenndur valkostur en engan veginn einhlítur, enda sé vel þekkt að sjúklingar geti fengið segarek, þrátt fyrir slíka lyfjagjöf. Þá sé það venja að hætta Magnýlmeðferð sjö til tíu dögum fyrir stóra skurðaðgerð og verði að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki fundið að þeirri ákvörðun. Segarekið hafi hins vegar ekki átt upptök sín í míturlokunni heldur vinstri innri hálsæð. Þegar Magnýlmeðferðinni hafi verið hætt hafi það þannig ekki valdið segamyndun á þeim stað sem óttast hafi verið heldur hafi sú lyfjaákvörðun ef til vill átt þátt í segamyndun á öðrum stað, alls óvæntum. Magnýlmeðferðin hafi þannig ekki brugðist tilgangi sínum, þ.e. að fyrirbyggja segarek frá míturloku, og áhættan á slíku segareki hafi ekki raungerst við stöðvun meðferðar.

Þá bendi Sjúkratryggingar Íslands á að ekki liggi fyrir hvort kærandi hafi fengið þau fyrirmæli að hefja aftur Magnýlmeðferð við útskrift X, en hafi það verið gert megi engu að síður búast við því að kærandi hefði fengið segarek sama dag, enda taki það lyfið sjö til tíu daga að ná fullri flöguhemjandi verkjun.

Loks segir í ákvörðuninni að af gögnum málsins verði ekki annað séð en að meðferð kæranda á Landspítala hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við almennt viðurkennda og gagnreynda læknisfræði. Með vísan til framangreinds séu skilyrði 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu ekki uppfyllt.

Til viðbótar benda Sjúkratryggingar Íslands á það í greinargerð sinni að lög nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu taki til tjónsatvika leiði könnun á málsatvikum í ljós að líklegra sé að tjón stafi af rannsókn eða meðferð en öðrum orsökum, til dæmis fylgikvilla sem upp geti komið án þess að meðferð sjúklingsins hafi á það áhrif. Verði engu slegið föstu um orsök tjóns verði að vega og meta allar hugsanlegar orsakir. Verði niðurstaðan sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi. Sama gildi verði ekkert sagt um hver sé líklegasta orsök tjóns.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar á Landspítala X séu bótaskyldar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að meðferð hennar hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið X þegar hún hafi ekki fengið fyrirmæli um að hefja töku blóðþynnandi lyfja að nýju og telur hún að rekja megi heilablóðfall sem hún hlaut beint til meðferðar og skorts á ráðleggingum frá starfsfólki Landspítala.

Í greinargerð meðferðaraðila, dags. 21. maí 2019, segir:

„A leitaði á stofu sérfræðings í X vegna blæðinga um leggöng. Tekið var sýni frá legholi sem sýndi krabbamein, sennilega með uppruna í legbol. Fyrirhugað var að gera hjá henni myndrannsóknir fyrir skurðaðgerð (brottnám legs og eggjastokka með kviðarholsaðgerð) sem stóð til að gera X. Þegar hún kom inn fyrirhugaða aðgerð og var hún ekki búin í tölvusneiðmynd af kviðarholi (sem stóð til rétt fyrir aðgerðina) en myndrannsókn af lungum rétt áður vakti grun um meinvörp. Því var ákveðið ákveðið að fresta skurðaðgerð og klára myndrannsóknirnar áður en aðgerð væri gerð. Þegar hún kom inn í fyrirhugaða aðgerð X hafði hún ekki tekið hjartamagnyl í einhvern tíma. Við öfum ekki upplýsingum um hvort hún hafi sjálf hætt á blóðþynningunni vegna blæðinga eða hvort henni hafi verið ráðlagt að hætta á hjartamagnyl nokkrum dögum fyrir aðgerðina – eins og venja er. Þegar ljóst var að aðgerðinni væri frestað fór hún af spítalanum um hádegið. Um kvöldið fannst hún heima með skerta meðvitund og hafði fengið blóðtappa í heila. Hún var flutt á Bráðamóttöku og svo Taugadeild LSH. Afleiðingar blóðtappans eru verulegar, varanleg örorka, málstol, lömun í hægri fótlegg, handlegg/hönd, verkstol og verulega breyttir lífshættir vegna þessa.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg.

Fyrir liggur að kærandi hafði ekki tekið Magnýl í blóðþynnandi tilgangi í um viku fyrir X þegar ráðgert var að hún færi í brottnám á legi og eggjastokkum, en fram kemur í nótu frá X að töku Magnýls hafi verið hætt í viku fyrir ætlaða aðgerð. Henni hafði verið ráðlögð taka Magnýls í kjölfar míturlokuaðgerðar árið X. Þegar kom að aðgerð hafði ekki verið lokið við undirbúningsrannsóknir sem gerðar voru þann X og gáfu til kynna hnút í lunga. Aðgerð var þess vegna frestað, en síðar kom í ljós að ekki var um meinvörp að ræða. Ekkert kemur fram í gögnum málsins um það hvort kæranda hafi verið ráðlagt að taka Magnýl að nýju þegar hún fór af sjúkrahúsinu í kjölfar frestunar einkenna. Á næstu klukkustundum á eftir fékk kærandi blóðtappa í heila. Ekki liggur fyrir staðfest niðurstaða á upptökum þess. Í þessu ferli er ljóst að ýmislegt hefði mátt betur fara, svo sem nákvæm skráning á töku Magnýls, tímanlegur undirbúningur á undirbúningsrannsóknum og upplýsingar um það hvort kæranda var ráðlagt eða ekki að taka Magnýl þegar hún fór frá sjúkrahúsinu. Þrátt fyrir þetta verður ekki séð að þessir þættir, sem betur hefðu mátt fara, eigi þátt í því að kærandi fékk heilablóðtappa nokkrum klukkustundum síðar sama dag. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að bótaskylda sé ekki fyrir hendi á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum