Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 562/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 562/2022

Fimmtudaginn 15. desember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. desember 2022, lagði A fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna greiðslu desemberuppbótar frá Vinnumálastofnun.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. desember 2022 og vísaði til þess að hann vildi mótmæla því að desemberuppbót væri aðeins greidd til þeirra sem staðfesti atvinnuleit í nóvember. Kærandi tekur fram að hann hafi verið í atvinnuleit allt árið 2022 en fengið samning hjá atvinnurekanda 1. nóvember með ráðningarstyrk og því telji hann ekki  sanngjart að aðili sem hafi verið í atvinnuleit allt árið fái ekki desemberuppbót. Að mati kæranda væri réttast að hann ætti rétt á hlutfallslegri uppbót, enda hafi hann verið í atvinnuleit allt árið.

Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2022, var óskað eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um hvort fyrir lægi ákvörðun um greiðslu desemberuppbótar til kæranda. Svar barst samdægurs þess efnis að stofnunin hefði ekki greitt út desemberuppbót en fyrirhugað væri að gera það í vikunni á eftir. Engin ákvörðun hefði verið tekin í máli kæranda varðandi útborgun desemberuppbótar. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 8. desember 2022, var óskað eftir upplýsingum frá kæranda um hvort hann hefði verið í samskiptum við Vinnumálastofnun varðandi greiðslu desemberuppbótar eða hefði undir höndum einhverjar upplýsingar. Svar barst ekki.

 

II.  Niðurstaða

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur fram að úrskurðarnefndin skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt gögnum málsins lá ekki fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar og er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur lagt inn nýja kæru til nefndarinnar þegar Vinnumálastofnun hefur tekið ákvörðun í máli hans. 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum