Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 60/2020 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 60/2020

 

Ákvörðunartaka: Hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla á sameiginlegri lóð.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 28. apríl 2020, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 22. maí 2020, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 18. september 2020.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 24 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í húsi nr. 4. Ágreiningur er um kostnaðarskiptingu og ákvarðanatöku vegna uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla á lóð hússins.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að ákvörðun um að setja tvær hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla á sameiginlega lóð hússins þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda, sbr. B-liður 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús.

Í álitsbeiðni kemur fram að á aðalfundi árið 2020 hafi verið tekin ákvörðun um kaup og söfnun fyrir tveimur hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla á lóð hússins. Á fundinum hafi komið fram af hálfu fundarstjóra að söfnunin yrði hlutfallsskipt sem og að meirihluti fundarmanna ákveði kaupin samkvæmt meginreglu um ákvörðunartöku á slíkum húsfundum.

Álitsbeiðandi telji aftur á móti að samþykki 2/3 hluta þurfi til slíkra ákvarðana í samræmi við B-lið 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús. Þá skuli kostnaður vera jafnskiptur, til dæmis með vísan til ákvæðis 1. og 4. tölul. 45. gr. laga um fjöleignarhús.

Í greinargerð gagnaðila segir að þar sem hvergi sé kveðið á um hvernig kostnaðarskiptingu skuli háttað við kaup og uppsetningu á rafhleðslu á sameiginlegum bílastæðum í fjöleignarhúsalögum hafi það verið ráðlegging D til húsfélaga sinna að slík kostnaðarskipting skyldi fara eftir meginreglu fjöleignarhúsalaga um hlutfallsskipta kostnaðarskiptingu í samræmi við eignarhlutdeild í húsi og lóð.

III. Forsendur

Samkvæmt fundargerð aðalfundar, sem haldinn var 29. janúar 2020, voru eigendur og umboðsmenn 15 íbúða af 24 mættir. Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða: „Stjórn húsfélags hefur heimild til að taka tilboði í 2 hleðslustaura fyrir rafmagnsbíla, að hámarki 1.500.000 kr., þegar kaup á fyrsta rafmagnsbíl íbúa að C hefur verið staðfest. Stjórn húsfélagsins ákvarðar söluverð per kwst fyrst um sinn. Söluverð skal endurmetið á næsta aðalfundi eftir kaup á hleðslustöðvum“.

Samkvæmt gögnum málsins stendur til að setja upp tvær hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla á sameiginlegu bílastæði hússins.

Eftir aðalfundinn, eða 9. júní 2020, voru samþykkt á Alþingi lög nr. 67/2020 um breytingu á fjöleignarhúsalögum, nr. 26/1994. Með breytingalögunum var bætt inn í fjöleignarhúsalögin ákvæðum í 33. gr. er varða hleðslubúnað fyrir rafbíla. Þar sem ekki hefur verið stofnað til kostnaðar vegna hleðslubúnaðar á grundvelli samþykktar húsfundar frá janúar 2020 telur kærunefnd eðlilegt að kostnaði verði skipt í samræmi við ákvæði 4. mgr. 33. gr. d. þar sem segir að kostnaður við hleðslustaura í sameign skuli skipta jafnt á milli eigenda bílastæða. Er það einnig í samræmi við fyrirmæli fjöleignarhúsalaga áður en breytingalögin tóku gildi, sbr. 1. töluliður B liðar 1. mgr. 45. gr. laganna.

Hvað varðar reglur um ákvörðunartöku um hleðslubúnað fyrir rafbíla við sameiginleg og óskipt bílastæði, er þær nú að finna í ákvæði 33. gr. c. Þar segir að óski eigandi sem hefur heimild til afnota af sameiginlegu og óskiptu bílastæði eftir því að þar verði komið upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla sé húsfélaginu, öðrum eigendum og stjórn þess skylt að verða við slíkri kröfu og framfylgja henni. Þó er ekki skylt að verða við og framfylgja slíkri kröfu leiði hún til þess að meira en helmingur sameiginlegra og óskiptra bílastæða verði eingöngu til notkunar til hleðslu rafbíla. Skal slík ákvörðun þá háð samþykki ⅔ hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, fari hlutfallið umfram helming sameiginlegra og óskiptra bílastæða. Fari hlutfall bílastæða sem eingöngu verða til notkunar til hleðslu rafbíla umfram ⅔ hluta sameiginlegra og óskiptra bílastæða, skal slík ákvörðun háð samþykki allra eigenda. Samkvæmt fundargerð virðist húsfundur 29. janúar 2020 ekki hafa samþykkt að setja upp tvo hleðslustaura á ákveðnum stað á sameiginlegu bílastæði hússins heldur aðeins að húsfélaginu væri heimilt að kaupa tvo hleðslustaura síðar. Telur kærunefnd að við ákvörðun um að setja upp staura fari eftir hinum nýju ákvæðum fjöleignarhúsalaga, þegar að því kemur. Þar sem ekki liggur fyrir í gögnum málsins hve mörg stæði verða eingöngu til notkunar fyrir hleðslu rafbíla getur kærunefnd ekki tekið afstöðu til þess hversu stór hluti eigenda verði að samþykkja ákvörðun um að setja upp hleðslustaura þannig að lögmæt sé.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að kostnaður við hleðslustaura sé jafnskiptur kostnaður.

 

Reykjavík, 18. september 2020

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

Valtýr Sigurðsson                              Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum