Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20jafnr%C3%A9ttism%C3%A1la

Mál nr. 2/2021 - Úrskurður

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála



A

gegn

Strætó bs.

 

Starfslokasamkomulag. Uppsögn. Mismunun vegna kyns. Mismunun vegna  aldurs. Mismunun vegna þjóðernisuppruna. Fallist á brot.

A hélt því fram að S bs. hefði sagt henni upp með ólögmætum hætti með því að þvingað hana til að gera starfslokasamkomulag en með því hafi henni verið mismunað á grundvelli kyns, aldurs og þjóðernisuppruna. Til  grundvallar samkomulaginu lá kvörtun samstarfsmanns A yfir óviðeigandi skilaboðum sem A hafði sent honum. Leit S bs. svo á að A hefði haft uppi kynferðislega tilburði og þar með gerst sek um brot á starfsskyldum sínum. Talið var að ekki yrði hjá því komist að líta svo á að starfslokin hafi jafngilt uppsögn í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018. Í ljósi þess að kærði fór ekki að reglum við starfslok kæranda, samstarfsmaðurinn var karl í stjórnunarstöðu og töluvert yngri en A, að litið hafði verið til aldurs A við ákvörðun um starfslokin og að skilaboðin voru ekki rannsökuð sérstaklega með tilliti til málskilnings en A væri af öðrum þjóðernisuppruna en samstarfsmaðurinn, var fallist á að A hefði leitt líkur að því að mismunun á grundvelli kyns, aldurs eða þjóðernisuppruna hafi átt sér stað við starfslokin, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 15. gr. laga nr. 86/2018. Þá var ekki hjá því komist að telja að S bs. hefði ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn, aldur eða þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. sömu lagaákvæði. Var S bs. talið hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 15. september 2021 er tekið fyrir mál nr. 2/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 1. febrúar 2021, kærði A starfslok hennar hjá Strætó bs. Heldur kærandi því fram að henni hafi verið sagt upp með ólögmætum hætti með því að þvinga hana til að gera starfslokasamning á fundi 30. nóvember 2020. Hafi kærði með þessu brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 18. febrúar 2021. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 11. mars 2021, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 12. mars 2021. Kærunefndinni bárust athugasemdir kæranda 15. og 19. mars og 5. maí 2021 og kærða 29. mars 2021.
  4. Með bréfi, dags. 28. júní 2021, óskaði kærunefndin eftir frekari skýringum frá kærða sem bárust með bréfi, dags. 16. júlí 2021. Skýringarnar voru sendar kæranda til kynningar 11. ágúst 2021. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni 12. ágúst 2021.
  5. Þess ber að geta að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru felld úr gildi með nýjum lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem tóku gildi 6. janúar 2021 ásamt lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 151/2020 féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021. Þar sem atvik í máli þessu áttu sér stað í tíð eldri laga gilda lög nr. 10/2008 um efnislegan ágreining fyrir nefndinni auk laga nr. 86/2018 en um málsmeðferðina fer samkvæmt lögum nr. 151/2020.

    MÁLAVEXTIR

  6. Málavextir eru í stuttu máli þeir að yfirmaður kæranda boðaði hana á fund 25. nóvember 2020. Ekkert fundarefni var tilgreint í fundarboðinu. Daginn eftir kom kærandi að máli við yfirmann sinn til að grennslast fyrir um efni fundarins. Var hún þá upplýst að til stæði að ræða ýmis málefni við hana, meðal annars samskiptamál. Að beiðni kæranda var fundinum frestað til 30. nóvember 2020 og fallist á að trúnaðarmaður starfsmanna yrði viðstaddur fundinn.
  7. Fundurinn var haldinn fyrrnefndan dag og sátu hann auk kæranda og trúnaðarmanns starfsmanna, mannauðstjóri kærða og yfirmaður kæranda. Á fundinum kom fram að tilefni fundarins hafi verið tiltekin skilaboð sem kærandi hafði sent samstarfsmanni sínum 23. nóvember 2020 á samskiptavef félagsins en skilaboðin höfðu borist kærða með kvörtun samstarfsmannsins yfir háttsemi kæranda. Kom fram að kærði liti svo á þessi háttsemi kæranda væri brot á starfsskyldum hennar. Voru kæranda kynntir tveir kostir, annars vegar að formlegt áminningarferli yrði hafið eða að málinu yrði lokið með starfslokasamningi sem lá fyrir á fundinum og var dags. sama dag og fundurinn var haldinn. Svo fór að samkomulagið var undirritað á fundinum. Samkvæmt því lét kærandi strax af störfum en hélt launum til loka febrúar 2021. Jafnframt var tekið fram að samkomulagið fæli í sér fullnaðaruppgjör ásamt staðfestingu á því að aðilar myndu ekki gera aðrar eða frekari launakröfur vegna starfslokanna.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  8. Kærandi heldur því fram að hún hafi verið þvinguð til að skrifa undir samkomulag um starfslok og að sér hafi með uppsögninni verið mismunað á grundvelli aldurs, kyns, kyntjáningar, lífsskoðana og þjóðernisuppruna.
  9. Kærandi bendir á að kærði hafi ekki farið að þeim lögum og reglum sem gilda um uppsagnir og að hún hafi því orðið fyrir barðinu á ófagmannlegum vinnubrögðum kærða. Þannig hafi mannauðsstjórinn ekki séð ástæðu til að upplýsa hana um fundarefnið. Hún hafi ekki fengið afrit eða aðgang að kvörtun eða tilkynningu samstarfsmannsins og þeim gögnum eða upplýsingum sem fylgdu þeirri kvörtun. Hún hafi þar með ekki haft tækifæri til að bregðast við kvörtuninni eða setja fram andmæli. Hún hafi því mætt óundirbúin á fundinn. Hefði kærða borið að leggja öll gögn og upplýsingar fram á fundinum og í framhaldinu boða til nýs fundar þar sem hún hefði getað sett fram andmæli eða gefa henni frest til að skila inn andmælum. Þetta sé ekki í samræmi við lög og reglur sem gilda um kærða.
  10. Kærandi heldur því fram að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað. Mannauðsstjórinn hafi ásakað kæranda ranglega um óviðeigandi framkomu gegn samstarfsmanni en þar hafi fremur við samstarfsmanninn að sakast en hana. Hann hafi hins vegar ekki sætt neinni rannsókn.
  11. Telur kærandi að kærði hafi tekið persónulega afstöðu gegn sér þar sem hún sé kona af erlendum uppruna en samstarfsmaðurinn karl sem sé hærra settur innan fyrirtækisins. Þá hafi hún á fundinum verið stöðugt minnt á að hún sé eldri en samstarfsmaðurinn og beri því meiri ábyrgð í samskiptum við hann.
  12. Heldur kærandi því fram að hún hafi verið beitt einelti af hálfu starfsmanna kærða, þ.m.t. mannauðsstjóranum. Bendir hún á að margoft hafi hún legið undir ásökunum vegna skoðana sinna án þess að nánar hafi verið skýrt hvað hafi legið þar að baki. Að mati kæranda voru aldrei gildar ástæður fyrir þeim ásökunum heldur var um að ræða persónulega óvild og einelti af hálfu mannauðsstjóra kærða. Enn fremur hafi mannauðsstjórinn farið inn í einkaskilaboð hennar og samtöl án heimildar. Kærandi telur að fyrrnefnd atvik séu ástæðan fyrir því að hún hafi verið þvinguð til að skrifa undir starfslokasamkomulagið.
  13. Kærandi bendir á yfirlýsingu trúnaðarmanns sem liggur fyrir í gögnum málsins sem staðfesti að starfslokasamkomulagið hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur á vinnumarkaði. Þar sem fram hefur komið að sá starfsmaður sem kvartaði undan skilaboðum frá kæranda hafi ekki viljað aðhafast frekar í málinu telur kærandi að það hafi verið geðþóttaákvörðun mannauðsstjóra að gera starfslokasamning í stað þess að leysa málið eftir farsælli leiðum.
  14. Heldur kærandi því fram að kærði hafi verið búinn að ákveða að segja henni upp fyrir fundinn. Ekki hafi verið sátt um starfslokin, það hafi komið skýrt fram á fundinum af hennar hálfu, og því sé rangt að halda öðru fram.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  15. Kærði bendir á að þar sem ráðningarsambandi aðila lauk með launauppgjöri 28. febrúar 2021 samkvæmt starfslokasamkomulagi geti kærandi ekki átt lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki unnt að taka kæruefnið til efnislegrar meðferðar og beri að vísa kærunni frá kærunefndinni.
  16. Verði ekki fallist á frávísun málsins hafnar kærði því að kærandi hafi verið þvinguð til að skrifa undir starfslokasamkomulag á fundi 30. nóvember 2020.
  17. Tekur kærði fram að tilefni fundarins 30. nóvember 2020 hafi verið skilaboð sem kærandi sendi samstarfsmanni sínum á samskiptavef félagsins (e. Teams) en að mati kærða hafi þau verið þess eðlis að hann hafi ekki getað látið þau viðgangast átölulaust. Ákveðið hafi verið að boða til fundarins eftir að samstarfsmaðurinn hafði kvartað yfir skilaboðunum sem kærandi sendi 23. nóvember 2020. Eftir að hafa farið yfir skilaboðin var það niðurstaða kærða að þau samræmdust hvorki starfi kæranda né stöðu. Við mat á því var einkum horft til þess að þau tengdust starfseminni ekki nema að óverulegu leyti. Vegna eðlis þeirra brota sem kærandi var talin hafa framið á starfsskyldum var hún boðuð á fund ásamt trúnaðarmanni til að ræða stöðu mála. Var tilgangur fundarins einkum sá að gera kæranda grein fyrir hversu alvarlegum augum málið væri litið af hálfu kærða og ekki síst til að gefa henni tækifæri til að útskýra sína hlið á málinu.
  18. Eftir að kærandi hafði gengist við að hafa sent skilaboðin á fundinum og málið þar með upplýst hafi mannauðsstjórinn kynnt kæranda tvo kosti. Annars vegar væri til skoðunar að hefja formlegt áminningarferli í skilningi kjarasamnings vegna þess hversu alvarlegum augum brot kæranda væru litin af hálfu kærða. Hins vegar hafi mannauðsstjóri boðið kæranda að ljúka málinu með starfslokasamningi. Kærandi hafi aldrei verið þvinguð til að skrifa undir starfslokasamning. Um það hafi hún haft frjálst val. Bendir kærði á að tvívegis hafi þurft að gera hlé á fundinum að beiðni kæranda svo að hún gæti ráðfært sig við trúnaðarmanninn í einrúmi. Þegar mannauðsstjórinn og yfirmaður kæranda hafi snúið til fundarins í síðara skiptið hafi kærandi verið búin að undirrita samkomulagið.
  19. Tekur kærði fram að málið hafi snúist um ósæmileg skilaboð sem kærandi sendi og sem kærði hafi haft undir höndum. Hafi samstarfsmaður kæranda ekki upplifað þau sem grín eins og kærandi, heldur þvert á móti sem áreiti.
  20. Það sé rétt haft eftir kæranda að mannauðsstjórinn hafi gert aldur kæranda að umtalsefni á fundinum með vísan til þess að sökum reynslu og starfsaldurs kæranda hvíldi ríkari ábyrgð á henni að sýna samstarfsmanni sínum þolinmæði og tillitssemi þar sem hann væri að fóta sig og koma sér fyrir í nýju starfi. Var þetta gert svo kærandi áttaði sig á því, verandi töluvert eldri en samstarfsmaðurinn, að ríkari ábyrgð hvíldi á henni að tryggja góð samskipti og umfram allt á faglegum nótum.
  21. Telur kærði að það sé hafið yfir allan vafa að kærandi hafi undirritað samkomulag um starfslok af fúsum og frjálsum vilja eftir að hafa verið upplýst um einstök efnisatriði og réttarstöðu sína að öðru leyti. Þá bendir kærði á að trúnaðarmaður hafi verið viðstaddur til að gæta hagsmuna kæranda. Hafi aðilar orðið ásáttir að ljúka ráðningasambandi með þeim hætti sem kveðið er á um í samkomulagi um starfslok og að um endanlega niðurstöðu sé að ræða.
  22. Tekur kærði fram að ákvörðun um að bjóða kæranda samkomulag um starfslok hafi verið tekin nokkrum dögum fyrir fundinn af mannauðsstjóra og yfirmanni kæranda. Hinn kosturinn, þ.e. að hefja áminningarferli var ekki sérstaklega ræddur, enda sjálfgefið að hann yrði fyrir valinu í ljósi eðlis og alvarleika brota kæranda.
  23. Tilboð til kæranda um starfslok miðaðist við að ljúka málinu hratt og örugglega þó þannig að tryggt yrði að hún nyti réttar samkvæmt kjara- og ráðningarsamningi.
  24. Kærði heldur því fram að engri mismunun sé til að dreifa í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008. Þær ávirðingar sem bornar voru á kæranda vörðuðu skilaboð sem hún sendi samstarfsmanni sínum án þess að hann tæki þátt í þeim nema að óverulegu leyti og þá einungis í viðleitni sinni til að aðstoða kæranda. Um frekari þátttöku hafi ekki verið að ræða af hans hálfu eins og útskrift úr tölvu starfsmannsins sýna. Bendir kærði á skilaboð kæranda til starfsmannsins sem innihélt orðið „daddy“ og frekari umfjöllun því tengdu.
  25. Tekur kærði fram að þar sem málsatvik lágu skýrt fyrir og málið þar með upplýst var ekki talin ástæða til að rannsaka það frekar. Það skuli þó upplýst að þáttur samstarfsmannsins hafi verið skoðaður sérstaklega í tengslum við rannsókn málsins. Hafi komið í ljós að hann hafi einskorðast við kvörtun til mannauðsstjóra og afhendingu skilaboða sem kærandi sendi honum. Þótti því ekki tilefni til að aðhafast frekar gagnvart honum.
  26. Samkvæmt kærða komu ásakanir kæranda um meint einelti af hálfu mannauðsstjóra og annarra starfsmanna fyrst fram eftir að gengið hafði verið frá starfslokasamkomulaginu. Einelti sé litið alvarlegum augum hjá kærða og sérstök áætlun sé virkjuð þegar slík mál koma upp. Eins og mál þetta var vaxið hafi ekki verið forsendur til að meðhöndla það sem eineltismál. Bendir kærði jafnframt á ásakanir um einelti séu ekki á forræði kærunefndar jafnréttismála og geti því ekki komið til skoðunar hjá kærunefndinni.
  27. Kærði bendir á að starfslokasamkomulag falli ekki undir þau tilvik sem leitt geti til mismunar á grundvelli kyns samkvæmt 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Í lagaákvæðinu séu tæmandi talin þau tilvik sem geti leitt til mismununar og starfslokasamkomulag falli ekki undir uppsögn í skilningi vinnuréttar. Engu að síður sé ljóst af gögnum málsins að aðrar ástæður en kyn hafi legið að baki starfslokunum og vísar því til staðfestingar í útprentun af samskiptum kæranda við samstarfsmann sinn. Þar sé um að ræða óviðeigandi skilaboð sem leiddu til þess að kærði átti ekki annars kosta völ en að bregðast við með þeim hætti sem hann gerði. Lögð sé áhersla á að kærandi hafi átt frumkvæðið að skilaboðunum og stjórnað atburðarásinni í kringum þau. Sé óhætt að segja að kærandi hafi farið mikinn í sendingum til samstarfsmanns sín, sbr. skilaboð sem kærandi sendi 24. nóvember 2020.
  28. Tekur kærði fram að kærandi hafi orðið uppvís að því að hafa haft í frammi kynferðislega tilburði gagnvart samstarfsmanni sínum í starfi sem hafi upplýst mannauðsstjórann um það jafnframt sem hann hafi óskað eftir því að ekki yrði aðhafst frekar gagnvart kæranda. Hafi kærði ekki átt annarra kosta völ en að bregðast við þessum óviðeigandi skilaboðum með þeim hætti sem hann gerði.
  29. Tekur kærði fram að engar líkur hafi verið leiddar af því að hann hafi mismunað kæranda í málinu á grundvelli kyns.
  30. Kærði bendir á að kærandi sé af pólskum uppruna en hefur síðastliðin 20 ár búið á Íslandi. Hún tali lýtalausa íslensku og hefur að því er best verði séð aðlagast íslensku samfélagi vel. Henni hafi verið trúað fyrir ábyrgðarstörfum, bæði gegnt starfi trúnaðarmanns starfsmanna hjá kærða auk þess að hafa setið í stjórn starfsmannafélagsins. Kemur þjóðernisuppruni kæranda því ekki til skoðunar.
  31. Kærði tekur fram að ekki hafi þótt ástæða til að beina kvörtun samstarfsmanns kæranda i þann farveg sem verkferlar samkvæmt reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum gera ráð fyrir við slíkar kringumstæður. Á fundinum 30. nóvember 2020 hafi verið farið yfir skilaboðin og kæranda gerð grein fyrir hversu alvarlegum augum þau væru litin af hálfu kærða. Þrátt fyrir að afstaða kæranda til ávirðinganna hafi ekki komið fram á fundinum var niðurstaða hans sú að gengið var frá starfslokum kæranda. Að fenginni þeirri niðurstöðu var ekki lengur tilefni til að aðhafast frekar vegna skilaboðanna, þ.m.t. að virkja viðbragðsáætlun.
  32. Að mati kærða hefur kærandi hvorki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir mismunun í skilningi laga nr. 10/2008 og 86/2018 né hvernig ákvæðum laganna verði beitt um brot það sem hún var sökuð um að hafa framið í starfi.

    NIÐURSTAÐA

  33. Mál þetta snýst um það hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. núgildandi 19. gr. laga nr. 150/2020, og 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði við starfslok kæranda hjá kærða sem voru rakin til skilaboða sem hún sendi yngri samstarfsmanni. Telur kærandi að henni hafi verið mismunað á grundvelli kyns, aldurs og þjóðernisuppruna við starfslokin.
  34. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði kemur fram að markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, sem meðal annars varða ákvarðanir í tengslum við uppsagnir, sbr. c. lið ákvæðisins.
  35. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Tekið er fram að lögin gildi meðal annars um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.
  36. Í tilefni af frávísunarkröfu kærða er rétt að taka fram að erindi kæranda barst kærunefndinni innan sex mánaða frá því vitneskja um ætlað brot á lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2020, lá fyrir, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Kærandi beindi erindi til kærunefndar sem fellur undir valdssvið hennar innan framangreinds frest. Telst kærandi því hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og er frávísun málsins því hafnað.
  37. Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Sama gildir um stöðuhækkanir, stöðubreytingar, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 26. gr. kemur það í hlut þess sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar aðstæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á starfslok þau sem um ræðir í málinu.
  38. Í máli þessu er ágreiningur um starfslok kæranda hjá kærða en aðilar gerðu með sér starfslokasamkomulag 30. nóvember 2020. Í málinu liggur fyrir að ástæður samkomulagsins hafi verið kvörtun samstarfsmanns kæranda til mannauðsstjóra kærða yfir óviðeigandi skilaboðum sem kærandi hafði sent honum í gegnum samskiptakerfi kærða. Eftir yfirferð á skilaboðunum var kærandi boðaður á fund mannauðsstjóra og yfirmanns kærða. Fram hefur komið að kærði hafi litið svo á að kærandi hafi haft uppi kynferðislega tilburði gagnvart samstarfsmanni sínum í skilaboðunum og hafi þar með gerst sek um brot á starfsskyldum sínum.
  39. Fyrir liggur að ákvörðun um að bjóða kæranda samkomulag um starfslok hafi verið tekin nokkrum dögum fyrir fundinn af mannauðsstjóra og yfirmanni kæranda. Þá liggur fyrir að kærandi hafi hvorki verið upplýst um tildrög fundarins né um efni hans að öðru leyti en að meðal annars ætti að ræða samskiptamál. Að auki hafi henni ekki verið gefinn kostur á að tjá sig sérstaklega um skilaboðin sem voru efni fundarins á fundinum sjálfum. Þrátt fyrir það var það niðurstaðan að ganga frá starfslokum kæranda hjá kærða með umræddum samningi sem var undirritaður á fundinum og tók strax gildi.
  40. Um starfssamband kærða, sem er stjórnvald, og kæranda giltu ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 6. mgr. 94. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna fer um réttindi og skyldur starfsmanna eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og ákvæðum ráðningarsamninga. Að auki giltu meginreglur stjórnsýsluréttarins um starfslok kæranda.
  41. Kærði hefur vísað til þess að starfslok kæranda hafi verið í samræmi við kjarasamning og reglur vinnuréttar. Í kjarasamningi kærða og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (nú Sameykis), sem gilti um starfssamband kærða og kæranda, er fjallað um áminningu og málsmeðferð í tengslum við hana, meðal annars andmælarétt og kæruheimild, og uppsögn. Hins vegar er ekki fjallað um starfslokasamninga. Að sögn kærða eru engar reglur í gildi um framkvæmd starfsloka hjá kærða. Hefur kærði gripið til þess úrræðis að ganga frá starfslokum með starfslokasamningi í kjölfar þess að starfsmaður hafi orðið uppvís að ámælisverðu athæfi eða brotið af sér í starfi.
  42. Í þessu sambandi er rétt að benda á ákvæði reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Reglugerðin er sett með heimild í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og gildir um starfsemi kærða. Samkvæmt d. lið 3. gr. reglugerðarinnar er kynferðisleg áreitni skilgreind sem hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Samkvæmt reglugerðinni hvíla ákveðnar skyldur á atvinnurekanda, kærða í þessu tilviki, til að bregðast við komi upp slík hegðun á vinnustað þar með talið að rannsaka málið með fullnægjandi hætti þar sem aðilar fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri auk þess sem gæta þarf varfærni og nærgætni við meðferð málsins, sbr. 6. og 7. gr. reglugerðarinnar.
  43. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu er ljóst að kærði var búinn að taka afstöðu fyrir fundinn til þeirrar háttsemi kæranda sem talin var fela í sér brot í starfi. Að auki er ljóst að kærandi var óviðbúin því að kærði myndi leggja til starfslok á fundinum en fyrir liggur að kærandi var einungis upplýst munnlega um að fundarefnið væri meðal annars samskiptamál. Afstaða kæranda til umræddra skilaboða, sem kærði taldi fela í sér brot í starfi, lágu ekki fyrir þegar gengið var frá starfslokunum. Í því sambandi er rétt að benda á að engin minnisblöð, fundargerð eða sambærileg gögn liggja fyrir um það sem kom fram á fundinum. Þá liggur fyrir að kærði hafi ekki, í ljósi þessi að hann hafi talið kæranda hafa sýnt samstarfsmanni sínum kynferðislega tilburði, brugðist við í samræmi við reglur í reglugerð nr. 1009/2015, sbr. einkum 6. og 7. gr.
  44. Í ljósi alls framangreinds verður að líta svo á að kærði hafi stytt sér leið að settu marki með því að knýja kæranda í reynd til að fallast á að láta af starfinu. Hér verður að líta til þess að fullbúinn samningur lá fyrir á fundinum sem ætlast var til að kærandi tæki strax afstöðu til en að öðrum kosti yrði hafið áminningarferli. Verður að telja að val kærða á leið til að leysa málið hafi verið ósamrýmanlegt þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að óheimilt sé að undirbúningur og úrlausn máls miði að því að komast hjá því að fylgja réttri málsmeðferð sem ætlað er að tryggja réttaröryggi. Vísast í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 8. desember 2005 í máli nr. 175/2005. Verður því ekki hjá því komist eins og hér stendur á að líta svo á að þetta hafi jafngilt uppsögn í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018.
  45. Fyrir liggur að samstarfsmaður kæranda var karl í stjórnunarstöðu og töluvert yngri en kærandi sem er kona og gegndi starfi þjónustufulltrúa. Þá verður ekki betur séð en að kærði hafi litið til aldurs kæranda við ákvörðun um starfslok þar sem vísað var meðal annars til þess að ríkari ábyrgð hafi hvílt á kæranda, verandi töluvert eldri en samstarfsmaðurinn, til að tryggja góð og fagleg samskipti. Að auki verður ekki fram hjá því litið að skilaboðin voru skrifuð á íslensku sem er ekki fyrsta tungumál kæranda. Er því ekki útilokað að málskilningur hafi haft áhrif á efni skilaboðanna en fyrir liggur að það var ekki rannsakað sérstaklega af kærða en kærandi er af öðrum þjóðernisuppruna en samstarfsmaðurinn.
  46. Með vísan til alls þessa og þess að kærði fór ekki að reglum við starfslok kæranda verður fallist á að kærandi hafi leitt líkur að því að mismunun á grundvelli kyns, aldurs eða þjóðernisuppruna hafi átt sér stað við starfslokin, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 15. gr. laga nr. 86/2018. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar aðstæður en kyn, aldur eða þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
  47. Kærði hefur lagt áherslu á í athugasemdum sínum til kærunefndarinnar að á fundinum 30. nóvember 2020 hafi verið farið yfir skilaboðin og kæranda gerð grein fyrir hversu alvarlegum augum þau væru litin af hálfu kærða. Þá er ljóst af gögnum málsins að kærði hafi litið svo á að aðrar ástæður en kyn, aldur eða þjóðernisuppruni hafi legið að baki starfslokunum og hefur hann vísað því til staðfestingar í útprentun af samskiptum kæranda við samstarfsmann sinn. Þar hafi verið um að ræða óviðeigandi skilaboð sem leiddu til þess að kærði átti ekki annars kosta völ en að bregðast við með þeim hætti sem hann gerði. Kærandi hafi átt frumkvæðið að skilaboðunum og stjórnað atburðarásinni í kringum þau og farið mikinn í sendingum til samstarfsmanns sín.
  48. Í málinu liggur fyrir að kærði hafði komist að niðurstöðu um starfslok kæranda án þess að rannsaka og upplýsa málsatvik með fullnægjandi hætti. Þannig lá afstaða kæranda til umræddra skilaboða ekki fyrir auk þess sem málið var meðal annars ekki sett í þann farveg sem reglugerð nr. 1009/2015 mælir fyrir um og kærða bar að fylgja. Af því verður kærði að bera hallann eins og hér stendur á. Samkvæmt því verður ekki hjá því komist að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn, aldur eða þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 15. gr. laga nr. 86/2018.
  49. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, aldurs eða þjóðernisuppruna, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 við starfslok kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Strætó bs., braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði við starfslok kæranda 30. nóvember 2020.

 

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum