Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20%C3%A1%20m%C3%A1lefnasvi%C3%B0um%20menningar-%20og%20vi%C3%B0skiptar%C3%A1%C3%B0uneytisins

Úrskurður um sekt vegna gististarfsemi

Þriðjudaginn 15. febrúar 2022 var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

Stjórnsýslukæra
Með bréfi dags. 16. júlí 2019 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra frá [A], f.h. [B] og [D] (hér eftir kærendur). Kærðar voru ákvarðanir Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður) dags. 26. júní 2019, um að leggja 400.000 kr. stjórnvaldssekt á hvorn kæranda um sig vegna óskráðrar gististarfsemi í íbúð að [E].

Sektarheimild er að finna í 22. gr. a. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Stjórnsýslukæran er byggð á 7. mgr. 22. gr. a. sömu laga og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests.

Kröfur
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að fjárhæð stjórnsýslusektar verði lækkuð verulega.

Málsatvik
Við eftirlit sýslumanns með gististarfsemi komu fram upplýsingar um að stunduð væri óskráð gististarfsemi að [E]. Við frekari rannsókn kom í ljós að umrædd fasteign hafði verið auglýst til útleigu á bókunarsíðunni Airbnb undir markaðsheitinu [H]“. Virtist umrædd fasteign hafa verið leigð út í skammtímaleigu frá a.m.k. maí 2018 og höfðu ferðamenn ritað alls 62 umsagnir vegna seldrar gistiþjónustu.

Uppgefið verð á bókunarsíðu fyrir eina gistinótt var u.þ.b. 18.000 kr. Skráður gestgjafi á bókunarsíðu var [F]. Við frekari rannsókn máls kom í ljós að um var að ræða [F], skráður til heimilis að [G].

Kærendur eru þinglýstir eigendur að [E]. Hvorugur kærandi var skráður til heimilis í umræddri fasteign.

Sýslumaður fór þann 1. mars. 2019 í vettvangsrannsókn að [E] til að sannreyna framkomnar upplýsingar. Hittist þar fyrir ferðamaður sem kvaðst hafa leigt íbúðina í fjóra daga fyrir tvo gesti í gegnum bókunarvefinn Airbnb. Þá kvað ferðamaður að gestgjafi héti [F].

Þessum upplýsingum til staðfestu undirritaði ferðamaður upplýsingaskýrslu dags. 1. mars 2019.

Þá framvísaði umræddur ferðamaður bókunarkvittun fyrir viðskiptunum og voru upplýsingar í bókunarkvittun í samræmi við frásögn ferðamanns.

Þann 4. mars 2019 ritaði sýslumaður þinglýstum eigendum bréf þar sem óskað var afstöðu kærenda til framkominna upplýsinga og tengsla kærenda við umrædda starfsemi. Þá óskaði sýslumaður jafnframt eftir upplýsingum um raunverulegt umfang starfseminnar.

Þann 6. mars 2019 ræddi sýslumaður við skráðan gestgjafa [F] símleiðis. Í því samtali tjáði skráður gestgjafi sýslumanni um að hann sæi um að leigja út eignina fyrir þinglýsta eigendur en hann stæði í raun ekki að starfseminni.

Með bréfi dags. 14. mars 2019 bárust sýslumanni andmæli og athugasemdir kærenda. Í bréfinu kom m.a. fram að aðilar hefðu keypt eignina í apríl 2018 en hafi ekki flutt í íbúðina. Þau hafi þó dvalið einstaka sinnum í íbúðinni og að sama skapi leyft vinum og vandamönnum að dvelja þar. Í einstaka tilfellum hafi þau þó leigt eignina í skammtímaleigu og í hugsunarleysi hafi misfarist að sækja um leyfi fyrir slíku enda hefði það ekki verið ætlunin að nota íbúðina í slíkum tilgangi. Íbúðin hefði nú verið tekin af bókunarsíðum og óskuðu kærendur eftir því að málið yrði látið niður falla.

Með bréfi dags. 26. mars 2019 tilkynnti sýslumaður kærendum að fyrirhugað væri að leggja á þá hvorn um sig stjórnvaldssekt að upphæð 450.000 kr. vegna óskráðrar gististarfsemi. Var veittur 14 daga frestur til að koma á framfæri andmælum eða athugasemdum við fyrirhugaða ákvörðun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Með tölvupósti dags. 28. mars 2019 bárust sýslumanni andmæli og athugasemdir frá [A] f.h. kærenda. Í tölvupóstinum kom fram að aðilar hafi fest kaup á umræddri fasteign til notkunar þegar þau væru í bæjarferðum en hefðu í hyggju að flytja í umrædda fasteign. Kærendum hefði verið bent á að hyggilegt kynni að vera að nýta eignina að hluta undir skammtímaleigu. Hefðu kærendur fengið [F] til að sjá um útleiguna þar sem þau hafi talið hann sérfróðan um þessi mál. Kærendur hafi verið grunlaus um að ekki hefði verið aflað tilskilinna leyfa. Kærendur hafi ekki haft í hyggju að ganga í svig við lög og reglur um skammtímaleigu. Með hliðsjón af framangreindum atvikum, aldri og afstöðu kærenda var þess óskað að fallið yrði frá fyrirhugaðri stjórnvaldssekt eða hún lækkuð verulega.

Með bréfi dags. 26. júní 2019 hafnaði sýslumaður sjónarmiðum kærenda að stærstum hluta. Í bréfinu kom m.a. fram sú afstaða að sýslumaður gæti ekki fallist á sjónarmið aðila um að uppi væru í málinu atvik eða aðstæður sem réttlættu að fallið yrði frá fyrirhugaðri stjórnvaldssekt. Sýslumaður taldi sýnt að kærendur hafi stundað heimagistingu án skráningar sbr. 3. gr. og 13. gr. laga nr. 85/2007.

Með vísan til framangreinds lagði sýslumaður stjórnvaldssekt á hvorn kæranda um sig að upphæð 400.000 kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar leit sýslumaður fyrst og fremst til umfangs starfseminnar við mat á alvarleika brots. Í því samhengi lagði sýslumaður til grundvallar að rannsókn málsins hafi leitt í ljós að kærendur hafi leigt út fasteign sína í skammtímaleigu í a.m.k. 66 skipti án lögboðinnar skráningar eða leyfis frá því að lög nr. 67/2016 tóku gildi þann 1. janúar 2017. Lægsta uppgefna verð á bókunarsíðu hafi verið 18.000 kr. fyrir hverja selda gistinótt. Þá hafi sýslumaður lagt til grundvallar að kærendur sem jafnframt voru þinglýstir eigendur umræddrar fasteignar hefðu í raun staðið að umræddri starfsemi.

Við mat á alvarleika brots hafi sýslumaður hins vegar metið kærendum það til hagsbóta að þeir hefðu gengist við því að hafa starfrækt umrædda starfsemi og komið henni í lögmætt horf með því að sækja um skráningu heimagistingar.

Þann 16. júlí 2019 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna umræddrar ákvörðunar. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn sýslumanns og gögnum máls með bréfi dags. 15. ágúst 2019.

Umsögn sýslumanns ásamt gögnum máls bárust með bréfi dags. 23. ágúst 2019.

Kærendum voru send gögn máls og umsögn sýslumanns til athugasemda með bréfi dags. 24. janúar 2020. Var kærendum veittur frestur til 7. febrúar 2020 til að koma á framfæri frekari andmælum eða athugasemdum.

Frekari andmæli og athugasemdir hafa ekki borist.

Málið hefur hlotið umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tækt til úrskurðar.

Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að ákvörðun sýslumanns um að veita þeim stjórnvaldssekt vegna óskráðrar heimagistingar verði felld úr gildi eða lækkuð verulega.

Í kæru kemur fram að ekki sé uppi ágreiningur um að starfsemin uppfylli skilyrði heimagistingar eins og hugtakið er skilgreint í 3. gr. laga nr. 85/2007.

Í kæru er á því byggt að með gildistöku laga nr. 67/2016 þann 1. janúar 2017 hafi leyfisskylda vegna heimagistingar verið afnumin. Þess í stað er slík starfsemi nú einungis skráningarskyld. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að gildandi lögum komi fram að skráningarskylda væri nýjung. Einstaklingur sem hyggist nú bjóða upp á heimagistingu þurfi því einungis að skrá starfsemi sína hjá sýslumanni. Í því samhengi er ekki um að ræða umsagnar- og leyfisferli líkt og eigi við um aðra flokka gistingar.

Útleiga kærenda hafi því ekki verið háð sérstöku rekstrarleyfi heldur hafi kærendum einungis verið skylt að skrá starfsemi sína hjá sýslumanni.

Kærendur gera athugasemdir við refsiákvörðun í málinu. Í kæru kemur fram að skv. 3. mgr. 22. gr. a þágildandi laga nr. 85/2007 skuli hver sá sem rekur heimagistingu án skráningar sæta sektum. Sýslumaður getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur heimagistingu án skráningar, stundar útleigu lengur en 90 daga á hverju almanaksári eða fyrir hærri fjárhæð en 2.000.000 kr., sbr. 1. mgr. 22. gr. a. sömu laga. Stjórnvaldssektir geta numið frá 10.000 kr. til 1.000.000 kr. fyrir hvert brot og við ákvörðun sekta skal tekið tillit til alvarleika brots.

Kærendur telja að túlka beri hugtakið „hvert brot“ í merkingu 3. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007 með þröngum hætti. Í því samhengi vísa kærendur m.a. til sjónarmiða um skýrleika refsiheimilda og að vafa um merkingu lagaákvæðisins beri að túlka kærendum í hag.

Að framangreindu virtu telja kærendur að hámarkssekt fyrir brot á skráningarskyldu geti einungis numið 1.000.000 kr.

Kærendur vísa til þess að brot á leyfisskyldu séu í eðli sínu alvarlegri en brot á skráningarskyldu. Í því samhengi vísa kærendur til athugasemda í frumvarpi því er varð að lögum þann 13. júní 2019 um breytingar á lögum nr. 85/2007. Með umræddum breytingum komi fram ný skilgreining á því hvað teljist vera „hvert brot“ samkvæmt lögum nr. 85/2007.

Í hinum kærðu ákvörðunum sýslumanns virðist hins vegar byggt á því að hver seld gistinótt í óskráðri heimagistingu sé sjálfstætt brot og sektin sé miðuð við það. Í því samhengi telja kærendur að túlkun sýslumanns á hugtakinu „hvert brot“ hafi ekki átt sér stoð í þágildandi 3. mgr. 22. gr. a. laga nr. 85/2007. Þá byggja kærendur á því að ákvæðum nýsamþykktra laga verði ekki beitt afturvirkt.

Með vísan til framangreinds telja kærendur að fjárhæð sektar sé ekki í samræmi við alvarleika brotsins. Kærendur telja það andstætt meginreglu refsiréttar að ákvörðun refsingar fyrir vægara brot sé þyngri en fyrir alvarlegra brot sem refsivert er, sbr. VII kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærendur telja að sektarákvörðun skuli í því samhengi vera í skynsamlegu samræmi við brotið og að við ákvörðun sektar beri að taka tillit til alvarleika brots skv. 3. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007.

Þá vísa kærendur til þess að þegar stjórnvald tekur ákvörðun um fjárhæð stjórnvaldssektar beri því að byggja slíka ákvörðun á málefnalegum sjónarmiðum. Þá þurfi mat á gögnum máls að vera forsvaranlegt. Enn fremur beri stjórnvaldi að gæta að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Kærendur vísa til þess að ef ráðið verði af lagaákvæði eða lögskýringargögnum að löggjafinn hafi mælt fyrir um þau matskenndu sjónarmið sem stjórnvaldi beri að líta til við ákvörðun um fjárhæð sektar leiði það af meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat að stjórnvaldið verði að draga slík sjónarmið inn í mat sitt, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6110/2010.

Kærendur vísa til markmiðs laga nr. 85/2007 sem mæla fyrir um allsherjarreglu í starfseminni. Undirliggjandi tilgangur laganna sé að tryggja öryggi fólks og aðbúnað. Kærendur telja að hafa beri slík sjónarmið til hliðsjónar við mat á alvarleika brots. Í því samhengi stefni umfangsmikil gististarfsemi án leyfis öryggi fólks og allsherjarreglu í meiri hættu en óskráð heimagisting í samþykktu íbúðarhúsnæði.

Kærendur telja óumdeilt að skilyrði heimagistingar hafi verið uppfyllt. Kærendur hafi ekki gerst brotleg áður við ákvæði laga nr. 85/2007 og brotið hafi verið framið af gáleysi. Kærendur telja að það sé alvarlegra brot að reka leyfisskylda starfsemi án leyfis. Með hliðsjón af því að refsing fyrir alvarlegra brot vegna brota á leyfisskyldu hafi í framkvæmd verið á bilinu 50.000 til 100.000 kr. telja kærendur að refsing í formi 400.000 kr. stjórnvaldssektar sé óhófleg.

Í kæru er vísað til þess að kærendur hafi falið þriðja aðila að sjá um útleiguna og hann hafi fengið þókun fyrir þá vinnu en þriðji aðili hafi fengið hlutfall af söluverði seldra gistinátta. Kærendur hafi því gert ráð fyrir að hann myndi sjá um skráningu íbúðarinnar í heimagistingu hjá sýslumanni og hafi kærendum því verið alls ókunnugt um að það hafi ekki verið gert.

Að öllu framangreindu virtu er þess krafist að ákvörðun um refsingu verði ógilt enda byggi hún á rangri túlkun á þágildandi lögum nr. 85/2007. Til vara er þess krafist að refsing verði lækkuð verulega.

Sjónarmið sýslumanns
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn sýslumanns vegna málsins. Umsögn sýslumanns ásamt gögnum máls bárust með bréfi dags. 23. ágúst 2019.

Í bréfi sýslumanns kemur fram að í stjórnsýslukæru komi að mestu fram þau sjónarmið kærenda sem lögð hafi verið fram við meðferð máls hjá sýslumanni.

Í bréfi sýslumanns er þó ítrekað að kærendur hafi tvívegis brotið gegn skráningarskyldu skv. 13. gr. laga nr. 85/2007 með því að starfrækja óskráða heimagistingu á almanaksárunum 2018 og 2019.

Við ákvörðun sekta skuli sýslumaður taka tillit til alvarleika brots sbr. 3. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007. Við mat á alvarleika hafi sýslumaður litið til umfangs umræddrar starfsemi, þ.e. fjölda seldra gistinátta án skráningar og áætlaðra tekna vegna starfseminnar.

Í málinu hafi því verið lagt til grundvallar að kærendur hafi leigt út fasteign sína í skammtímaleigu í a.m.k. 66 skipti án lögboðinnar skráningar eða leyfis frá því að lög nr. 67/2016 tóku gildi þann 1. janúar 2017. Lægsta uppgefna verð á bókunarsíðu kærenda hafi verið 18.000 kr. fyrir hverja selda gistinótt

Við mat á alvarleika brots hafi sýslumaður hins vegar metið kærendum það til hagsbóta að þeir hefðu gengist við því að hafa starfrækt umrædda starfsemi og komið henni í lögmætt horf með því að sækja um skráningu heimagistingar.

Þá tekur sýslumaður fram að skv. 5. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007 sé sýslumanni heimilt að leggja á stjórnvaldssekt vegna brota á lögunum óháð því hvort að brotin eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Þá er það mat sýslumanns að meðalhófs hafi verið gætt við meðferð málsins, málið hafi verið fullrannsakað og málsmeðferð hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Forsendur og niðurstaða
Stjórnsýslukæran sem hér er til meðferðar barst ráðuneytinu innan kærufrests, gagnaöflun er lokið og málið telst nægjanlega upplýst og er því tekið til úrskurðar.

Eins og að framan greinir krefjast kærendur þess að ákvörðun sýslumanns dags. 26. júní 2019 um að leggja 400.000 kr. stjórnvaldssekt á hvorn kæranda um sig vegna óskráðrar heimagistingar verði felld úr gildi eða lækkuð verulega.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi lög nr. 67/2016 um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Umræddar breytingar fólu m.a. í sér að tekin var upp skráningarskylda í stað rekstrarleyfisskyldu vegna heimagistingar. Markmið lagabreytinganna var einföldun regluverks í því skyni að auðvelda einstaklingum að stunda skammtímaleigu. Breytingunum var einnig ætlað að mæta nýjum áskorunum sem fylgdu mikilli fjölgun erlendra ferðamanna. Í aðdraganda lagasetningarinnar var skortur á virku eftirliti ásamt fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða talin ein stærsta áskorun íslenskrar gistiþjónustu.

Samhliða einföldun regluverks voru lögfestar stjórnvaldssektir vegna brota á lögunum. Var það m.a. gert í því skyni að stemma stigu við miklum fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða hér á landi, sem og að tryggja aukna fylgni við ákvæði laganna. Í 1. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007 segir að sýslumaður geti lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur heimagistingu án skráningar skv. 13. gr. laganna. Þá segir í 4. mgr. 22. gr. a sömu laga að stjórnvaldssektir geti numið frá 10.000 kr. til 1.000.000 kr. fyrir hvert brot.

Í málinu er að nokkru leyti deilt um ábyrgð kærenda á hinni óskráðu gististarfsemi.

Í kæru er m.a. vísað til þess að kærendur hafi falið þriðja aðila að sjá um útleiguna og hann hafi fengið þóknun fyrir þá vinnu en þriðji aðili hafi fengið hlutfall af söluverði seldra gistinátta. Kærendur hafi því gert ráð fyrir að hann myndi sjá um skráningu íbúðarinnar í heimagistingu hjá sýslumanni og hafi kærendum því verið alls ókunnugt um að það hafi ekki verið gert.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007 er heimagisting skilgreind sem gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu.

Með vísan til skilgreiningar heimagistingar telur ráðuneytið ljóst að umræddur þriðji aðili sem vísað er til í kæru uppfyllti ekki skilyrði til skráningar heimagistingar í umræddri fasteign, enda var hann hvorki þinglýstur eigandi eignarinnar né hafði þar skráð lögheimili.

Þá hafi kærendur í kjölfar afskipta sýslumanns skráð starfsemi sína í umræddri fasteign. Hefur sýslumaður nú þegar metið það kærendum til hagsbóta við ákvörðun stjórnvaldssektar.

Eins og málum er háttað telur ráðuneytið því rétt að leggja til grundvallar að kærendur hafi leigt út fasteign sína í skammtímaleigu í 66 skipti frá 1. janúar 2017 frá því að breytingar á lögum nr. 85/2007 tóku gildi. Sýslumaður hefur lagt til grundvallar lægsta verð á bókunarsíðu 18.000 kr. fyrir hverja selda gistinótt. Hefur mati sýslumanns á umfangi starfseminnar ekki verið mótmælt.

Í málinu er fyrst og fremst deilt um upphæð sektarfjárhæðar.

Kærendur hafna túlkun sýslumanns um að hver seld gistinótt án skráningar geti talist sjálfstætt brot í skilningi 3. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007. Kærendur telja að túlka beri hugtakið „hvert brot“ í merkingu 3. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007 með þröngum hætti. Í því samhengi vísar kærandi m.a. til sjónarmiða um skýrleika refsiheimilda og þess að vafa um merkingu lagaákvæðisins beri að túlka kærendum í hag. Að framangreindu virtu telja kærendur að hámarkssekt fyrir brot á skráningarskyldu geti einungis numið 1.000.000 kr.

Kærendur vísa til þess að brot á leyfisskyldu séu í eðli sínu alvarlegri en brot á skráningarskyldu. Í því samhengi vísa kærendur til athugasemda í frumvarpi því er varð að lögum nr. 83/2019 um breytingar á lögum nr. 85/2007. Með umræddum breytingum komi fram ný skilgreining á því hvað teljist vera „hvert brot“ samkvæmt lögum nr. 85/2007.

Í hinni kærðu ákvörðun sýslumanns virðist hins vegar byggt á því að hver seld gistinótt í óskráðri heimagistingu sé sjálfstætt brot og sektin sé miðuð við það. Í því samhengi telur kærandi að túlkun sýslumanns á hugtakinu „hvert brot“ hafi ekki átt sér stoð í þágildandi 3. mgr. 22. gr. a. laga nr. 85/2007. Þá er vísað til þess að ákvæðum nýsamþykktra laga verði ekki beitt afturvirkt.

Þann 6. júlí 2019 tóku gildi lög nr. 83/2019 um breytingar á lögum nr. 85/2007. Samkvæmt 4. mgr. 22. gr. a. núgildandi laga hefur verið tekinn af allur vafi um að að hver seld gistinótt umfram það sem heimilt er samkvæmt lögunum teljist vera sjálfstætt brot. Ráðuneytið telur að þennan vafa beri að túlka kærendum í vil. Þá verði umræddum refsiheimildum ekki beitt með afturvirkum hætti.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að líta verði til þess að hin óskráða gististarfsemi kærenda var starfrækt fyrir gildistöku laga 83/2019. Samkvæmt 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007 var hámarksupphæð sektar fyrir sjálfstætt brot tilgreind 1.000.000 kr. Eins og málum er háttað er það mat ráðuneytisins að líta verði heildstætt á starfsemi aðila sem stakt brot í skilningi 3. mgr. 22. gr. þágildandi laga.

Þá byggja kærendur á því að fjárhæð sektar hafi ekki verið í samræmi við alvarleika brotsins. Kærendur telja það andstætt meginreglu refsiréttar að ákvörðun refsingar fyrir vægara brot sé þyngri en fyrir alvarlegra brot sem refsivert er sbr. VII kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærendur telja að sektarákvörðun skuli í því samhengi vera í skynsamlegu samræmi við brotið og við ákvörðun sektar beri að taka tillit til alvarleika brots skv. 3. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007.

Í því samhengi hafa kærendur m.a. vísað til markmiðs laga nr. 85/2007 um að tryggja allsherjarreglu í starfseminni. Undirliggjandi tilgangur laganna sé að tryggja öryggi fólks og aðbúnað. Kærendur telja að hafa beri slík sjónarmið til hliðsjónar við mat á alvarleika brots. Í því samhengi stefni umfangsmikil gististarfsemi án leyfis öryggi fólks og allsherjarreglu í meiri hættu en óskráð heimagisting í samþykktu íbúðarhúsnæði.

Ráðuneytið getur að einhverju leyti tekið undir það sjónarmið kærenda að umfangsmeiri gististarfsemi sem stunduð er án lögbundins rekstrarleyfis sé til þess fallin að stefna öryggi fólks og allsherjarreglu í meiri hættu en óskráð heimagisting. Hins vegar verði ekki litið fram hjá því að sambærilegar kröfur eru gerðar til brunavarna óháð því hvort um er að ræða leyfisskylda íbúðargistingu eða skráningarskylda heimagistingu einstaklinga. Í því samhengi er kveðið á um í 4. mgr. 13. gr. reglugerðar 1277/2016 að einstaklingur sem býður upp á heimagistingu skuli ábyrgjast að húsnæði uppfylli viðeigandi kröfur laga og reglugerða um brunavarnir, m.a. að reykskynjarar, eldvarnarteppi og slökkvitæki séu í húsnæðinu. Þá skuli liggja fyrir á áberandi stað yfirlit um flóttaleiðir úr eigninni ásamt staðsetningu brunavarna. Slík yfirlýsing hafi fyrst verið gefin þegar kærendur lögðu fyrst fram beiðni um skráningu heimagistingar.

Líkt og fram hefur komið tekur ráðuneytið undir sjónarmið kærenda að líta verði heildstætt á starfsemi aðila sem stakt brot í skilningi 3. mgr. 22. gr. þágildandi laga. Hins vegar telur ráðuneytið að vilji löggjafans hafi staðið til þess að stjórnvaldssektir myndu nema frá 10.000 kr. til 1.000.000 kr. fyrir hvert brot á því tímamarki er kærendur gerðust brotlegir við áðurnefnda skráningarskyldu. Í því samhengi verði ekki hjá því komið að líta til tilefnis og nauðsynjar umræddrar lagasetningar sem hafi m.a. verið ætlað að bregðast við fjölda óskráðra gististaða. Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að viðurlög í formi lögreglusekta sem ákvörðuð voru fyrir gildistöku laga 67/2016 vegna brota á gististarfsemi skv. 22. gr. þágildandi laga nr. 85/2007 hafi takmarkað fordæmisgildi fyrir úrlausn þessa máls.

Þá vísa kærendur til þess að þegar stjórnvald tekur ákvörðun um fjárhæð stjórnvaldssektar beri því að byggja slíka ákvörðun á málefnalegum sjónarmiðum og mat á gögnum máls verði að vera forsvaranlegt. Enn fremur beri stjórnvaldi að gæta að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Kærendur vísa til þess að ef ráðið verði af lagaákvæði eða lögskýringargögnum að löggjafinn hafi mælt fyrir um þau matskenndu sjónarmið sem stjórnvaldi beri að líta til við ákvörðun um fjárhæð sektar leiði það af meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat að stjórnvaldið verði að draga slík sjónarmið inn í mat sitt, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6110/2010.

Í ákvörðun sýslumanns dags. 26. júní 2019 um að leggja 400.000 kr. stjórnvaldssekt á hvorn kæranda um sig kemur fram að við ákvörðun sektar hafi sýslumaður fyrst og fremst litið til umfangs starfseminnar við mat á alvarleika brots. Í því samhengi lagði sýslumaður til grundvallar að rannsókn málsins hafi leitt í ljós að kærendur hafi leigt út fasteign sína í skammtímaleigu í a.m.k. 66 skipti án lögboðinnar skráningar eða leyfis frá því að lög nr. 67/2016 tóku gildi þann 1. janúar 2017. Lægsta uppgefna verð á bókunarsíðu hafi verið 18.000 kr. fyrir hverja selda gistinótt. Þá hafi sýslumaður lagt til grundvallar að kærendur sem jafnframt voru þinglýstir eigendur umræddrar fasteignar hefðu í raun staðið að umræddri starfsemi.

Við mat á alvarleika brots hafi sýslumaður hins vegar metið kærendum það til hagsbóta að þeir hefðu gengist við því að hafa starfrækt umrædda starfsemi og komið henni í lögmætt horf með því að sækja um skráningu heimagistingar. Ráðuneytið telur að sýslumaður hafi litið til sambærilegra sjónarmiða við mat á alvarleika brots og refsimildunarástæðna og byggt hefur verið á í öðrum sambærilegum málum.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að málefnaleg og forsvaranleg sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar ákvörðun sýslumanns um sektarfjárhæð. Þá hafi sektarfjárhæð verið ákvörðuð innan refsiramma 3. mgr. 22. gr. a. þágildandi laga nr. 85/2007.

Hins vegar telur ráðuneytið að sýslumaður hefði mátt veita því meira vægi að kærendur hafi nú þegar komið starfsemi sinni í lögmætt horf við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Með hliðsjón af atvikum máls og umfangi starfseminnar telur ráðuneytið að ákvörðun sýslumanns hafi hins vegar ekki verið úr hófi þegar litið er til sambærilegra mála.

Að öðru leyti telur ráðuneytið að sektarfjárhæð sé í samræmi við jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar þegar litið er til ákvarðana í sambærilegum málum.

Með vísan til alls framangreinds telur ráðuneytið að stjórnvaldssekt sé hæfilega ákvörðuð 350.000 kr. á hvorn kæranda fyrir sig.

Vegna anna hefur meðferð málsins hjá ráðuneytinu dregist úr hófi. Beðist er velvirðingar á því.

Úrskurðarorð
Stjórnvaldssekt sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á kærendur þann 26. júní 2019 er lækkuð. Stjórnvaldssekt er hæfilega ákvörðuð 350.000 kr. á hvorn kæranda.

f.h. menningar- og viðskiptaráðherra


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum