Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2018 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, tenging HM í Rússlandi við Ísland allt árið, 16. janúar 2018

Kæru gestir

Það er stundum sagt að vond umfjöllun sé betri en engin umfjöllun.

Íslensk ferðaþjónusta hefði ekki kvittað upp á þá speki í apríl árið 2010, þegar gos hófst í Eyjafjallajökli með tilheyrandi neikvæðum fréttaflutningi um allan heim. Vikurnar á eftir var allt útlit fyrir hrun í greininni, að minnsta kosti það sumar og jafnvel lengur.

Langtímaáhrifin voru nær örugglega jákvæð; Ísland komst rækilega á kortið. En til skemmri tíma þurfti að afstýra krísu.

Það var gert með því að ráðast í risaátak í markaðs- og ímyndarmálum landsins. Verkefnið Inspired By Iceland hafði um 700 milljónir króna til ráðstöfunar í rúmt ár eftir eldgosið, og náði markmiðum sínum.

Frá því að þeirri neyðarráðstöfun lauk hefur verkefnið fengið framhaldslíf undir nýjum formerkjum. Samstarfsaðilar eru færri, fjármunir eru minni, og meginmarkmiðið heldur afmarkaðra, eins og yfirskriftin ber með sér.

„Ísland allt árið“ hefur verið leiðarljós verkefnisins frá vormánuðum 2011. Sem sagt: að minnka árstíðasveiflur í ferðaþjónustu og festa hana í sessi sem heilsárs-atvinnugrein. En áfram er byggt á þeim ágæta hugmyndagrunni sem lagður var í verkefninu Inspired By Iceland.

Það má vissulega spyrja hvort það sé eins mikilvægt og áður að verja fjármunum til kynningar á Íslandi, í ljósi þess að við erum mun meira í kastljósinu en áður.

En það er tvennt ólíkt, frægð annars vegar og ímynd hins vegar. Ímynd þeirra sem eru þekktir getur verið fljót að breytast. Að vissu leyti þarf sá sem er í kastljósinu að vanda sig ennþá meira við að sýna sínar bestu hliðar. En takist það vel getur uppskeran orðið ríkuleg.

Eins og allir vita fáum við Íslendingar á okkur líklega sterkasta kastljósið í okkar sögu næsta sumar, með þátttöku á HM í Rússlandi.

Þátttaka Íslands á mótinu gengur kraftaverki næst. Allt frá upphafi HM, fyrir næstum 90 árum síðan, hefur innan við helmingur landa heims átt sæti í lokakeppni mótsins, og aldrei eins fámenn þjóð og Íslendingar. Þátttaka okkar er sannarlega einstakt ævintýri, sem er líklegt að fái sérstaklega mikla athygli.

Að frumkvæði Íslandsstofu hefur verið ákveðið að nýta þetta tækifæri á þann hátt, að verkefnið Inspired By Iceland þetta árið einbeiti sér að því að tryggja að Ísland sýni sínar bestu hliðar í því kastljósi sem beinist að okkur vegna HM, eins og nánar verður útskýrt hér á eftir.

Það blasir við að í þessu sambandi á ekki aðeins ferðaþjónustan hagsmuna að gæta heldur fjölmargar aðrar atvinnugreinar. Verkefnið opnar því faðminn ef svo má segja, og býður fleirum til samstarfs, en eftir sem áður má gera ráð fyrir að ferðaþjónustufyrirtæki komi einna sterkust inn, enda hafa þau verið kjarninn í verkefninu frá upphafi. Framlag ríkisins verður allt að 200 milljónum króna, gegn jafnháu framlagi frá atvinnulífinu.

Ég hvet atvinnulífið til að kynna sér þetta verkefni vel og hugleiða þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir. Þau eru gífurleg.

Fyrir tæpum átta árum spiluðum við nauðvörn gegn náttúruöflunum. Nú gefst okkur einstakt tækifæri til að sækja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira