Hoppa yfir valmynd
21. mars 2019 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á fundi um samkeppnismat OECD

Kæru fundargestir - Dear Mr. Ulrik Vestergaard Knudsen Deputy Secretary General from the OECD, Páll Gunnar og Ingólfur Bender.

Það er  mér mikil ánægja að bjóða ykkur til þessa fundar í dag. Með þessum fundi erum við formlega að hleypa af stokkunum verkefni íslenskra stjórnvalda og OECD um samkeppnismat á gildandi regluverki fyrir ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Verkefnið er eitt stærsta samstarfsverkefni sem íslensk stjórnvöld hafa unnið að með erlendum alþjóðastofnunum og það stærsta sem unnið hefur verið í samvinnu við OECD. Við eigum von á góðum umræðum hérna dag um kosti vandaðrar reglusetningar og heilbrigðrar samkeppni.

Það var að mínu frumkvæði sem ráðherra samkeppnismála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem stjórnvöld settu sig í samband við OECD með hugmyndir um að framkvæma samkeppnismat hér á landi. Hugmyndin er þó ekki alveg ný af nálinni enda hefur Samkeppniseftirlitið talað fyrir framkvæmd samkeppnismats um árabil og fulltrúar OECD hafa áður komið hingað til lands og kynnt verkefnið fyrir stjórnvöldum og fulltrúum atvinnulífsins og með því vakið þann áhuga sem hefur leitt til þessa verkefnis. Kostir samkeppnismats og ábati af betra regluverki er mikill og hefur í öðrum löndum leitt til aukins hagvaxtar og betri lífsgæða fyrir almenning. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stendur að verkefninu í samvinnu við Samkeppniseftirlitið og önnur ráðuneyti og stofnanir sem hafa tengsl við þá málaflokka sem verða til skoðunar sem eru byggingarstarfsemi og ferðaþjónusta sem saman telja um 15% af landsframleiðslu og eru því afar mikilvægir atvinnugeirar. Það er von mín, og ég er nokkuð viss um að hún verði að veruleika, að verkefnið muni leiða til betra regluverks og betri starfsskilyrða fyrir íslenskt atvinnulíf því það er hagur allra okkar sem búum í þessu landi að atvinnulífinu vegni vel og við viljum að allir þeir sem hafa góðar hugmyndir og drifkraft til að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd hafi tækifæri á að gera það á sem hagkvæmastan hátt án þess að regluverk hins opinbera hamli því með óþarflega íþyngjandi hætti.

Við hugsum oft um samkeppnismál sem þau mál sem eru til umfjöllunar hjá ríkisstofnuninni í málaflokknum sem er Samkeppniseftirlitið. Þá er jafnan í umræðunni vísað til þess að eftirlitið hafi tiltekinn samruna fyrirtækja til skoðunar eða sé með til rannsóknar möguleg brot á samkeppnislögum. Samkeppnismál eru hins vegar mun víðtækari málaflokkur en svo. Til grundvallar samkeppnislögum liggur sú margsannaða staðreynd að í markaðshagkerfi er samkeppni nauðsynleg. Samkeppni eykur vöruval og leiðir til lægra verðs á vörum og þjónustu til neytenda, samkeppni knýr fyrirtæki til að hagræða í rekstri og dregur þannig úr sóun og eykur framleiðni og í rótgrónum fyrirtækjum og á mikilvægum mörkuðum hvetur virk samkeppni fyrirtækin til að leita nýrra leiða við framleiðslu á vöru og þjónustu og eflir þannig nýsköpun og styrkir stöðu íslensks atvinnulífs. Samfélagslegur ábati af virkri samkeppni er því afar mikill.

Það er því ekki síður mikilvægt fyrir virka samkeppni að regluverkið sem atvinnulífið starfar eftir sé ekki samkeppnishamlandi í sjálfu sér. Að gæta þess að regluverkið sé samkeppnisvænt er því einnig hluti af því sem við köllum samkeppnismál enda getur reglusetning hins opinbera hæglega eytt út samkeppnishvötum ef ekki er hugað að henni með nægilega vönduðum hætti. Vönduð laga- og reglusetning, þar sem framkvæmt er ítarlegt og faglegt mat á áhrifum viðkomandi reglusetningar hverju sinni, er því mikilvægur þáttur í því að búa til starfsumhverfi fyrir atvinnulífið sem hvetur til samkeppni og bætir þannig samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og hag landsmanna allra. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra sem starfa í Stjórnarráðinu að vanda lagasetningu eins og best verður á kosið og þessu verkefni er ætlað að leiða til vandaðra samkeppnismats á lagafrumvörpum þegar þau eru á vinnslustigi.

En samkeppnismat má einnig framkvæma á gildandi regluverki eins og gert verður í þessu verkefni. Í því felst að regluverkið er greint með skipulegum hætti og samkeppnishamlandi reglum breytt til hins betra. Regluverkið verði einnig einfaldað eins og kostur er enda skapar óþarfa reglubyrði kostnað og óhagræði fyrir fyrirtækin í landinu og dregur þannig úr virkri samkeppni.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur meðal annars fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings og að stefnt skuli að aukinni skilvirkni í stjórnsýslunni. Í stefnuyfirlýsingunni kemur einnig fram með ótvíræðum hætti áhersla þessarar ríkisstjórnar á aukna nýsköpun. Fyrr í þessari viku kynntum ég og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sameiginlegt verkefni okkar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um einföldun regluverks sem miðar sérstaklega að því að einfalda leyfisveitingaferla og móta einfaldari og betri eftirlitsreglur sem skili sér í skilvirkari stjórnsýslu og markvissari eftirlitsreglum. Það verkefni sem við hefjum hér í dag er einnig hluti af þeirri vegferð og því langhlaupi sem felst í því að reyna stöðugt að vanda betur til verka og að reyna sífellt að smíða atvinnulífinu betra regluverk svo það geti styrkst og dafnað á hagkvæman og arðbæran hátt. Þetta er alls ekki eins einfalt í framkvæmd og það hljómar og aðkoma OECD að verkefninu skiptir því sköpum. Sérfræðingar OECD koma með reynslu sína af öðrum samskonar verkefnum víða um heim sem gefið hafa góða raun og sérfræðiþekkingu sína á þessu sviði sem við munum geta lært mikið af á meðan á verkefninu stendur.

Mikið hefur verið rætt á undanförnum árum um ástandið á húsnæðismarkaði og þá sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið byggt nægilega mikið af íbúðum og á markaði þar sem framboð er ekki nægilegt til að mæta eftirspurn þá hækkar verðið og nú er ástandið þannig að það eru einfaldlega of margir sem eiga erfitt með að fjárfesta í húsnæði sem er grunnþörf hverrar fjölskyldu. Óuppfyllt húsnæðisþörf á landinu er mikil og á næstu árum og áratugum er fyrirséð að byggja þurfi mikið magn af húsnæði til að mæta fyrirsjáanlegri þörf sem er sífellt að aukast. Sterk krafa er uppi af hálfu almennings og aðila vinnumarkaðarins að stjórnvöld komi með beinni hætti að úrlausn húsnæðisvandans og komi fram með aðgerðir til að fjölga íbúðum og lækka kostnað. Hér þurfa stjórnvöld að sýna ábyrgð og koma með raunhæfar tillögur til betri vegar en það þarf hins vegar að gæta að því hvernig það er gert. Að mínu viti þurfum við að horfa til lengri tíma þegar við spyrjum okkur að því hvernig við getum bætt húsnæðismarkaðinn hér á landi. Það verður ekki gert með því að ríkið taki að sér að byggja húsnæði í stórum stíl eftir fyrirfram ákveðnum formerkjum. Það verður best gert með því að gera byggingarmarkaðinn skilvirkari, lækka byggingarkostnað og stytta byggingartíma, þannig að sem flestum verði gert kleift að fjárfesta í húsnæði sem hentar hverjum og einum eftir þeirra eigin höfði og á viðráðanlegu verði. Aukin samkeppni og betra regluverk munu leiða okkur áfram á þessa braut.

Ferðaþjónustan á Íslandi er á ákveðnum krossgötum um þessar mundir. Eftir mikið uppgangstímabil þar sem árleg fjölgun ferðamanna var talin í tugum prósenta hefur nú hægt verulega á. Á samdráttarskeiðum er þörf á nokkurri hagræðingu svo ferðaþjónustan geti áfram verið arðbær og mikilvæg atvinnugrein hér á landi. Margir víxlverkandi þættir geta haft áhrif á starfsemi ferðaþjónustunnar og sumir þeirra eru utanaðkomandi þættir sem við getum lítt eða illa ráðið við en þurfum að aðlaga okkur að hverju sinni. Aðrir þættir eru hins vegar þess eðlis að við getum ráðið við þá og stjórnað þeim. Einn þeirra og einn af þeim mikilvægustu er regluverkið sem ferðaþjónustan starfar eftir. Ferðaþjónustan er fjölbreytt atvinnugrein og í sumum geirum hennar er regluverkið ótrúlega flókið. Nú þegar ferðaþjónustan stendur með vindinn í fangið er mikilvægt að regluverkið þvælist ekki með óþarflegum hætti fyrir þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í greininni og þurfa á öllum sínum kröftum að halda við að veita þeim gestum sem hingað koma til lands toppþjónustu og stuðla þannig að því að Ísland verði áfram fyrirmyndar áfangastaður. Með þessu verkefni munum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að bæta rekstrarumhverfi íslenskrar ferðaþjónustu.

Finally I wish to thank the OECD and the Deputy Secretary General for attending this seminar here today. I know this project presents unique challenges for the OECD compared to previous projects and I look forward to following the progress over the next fourteen to sixteen months and to take part in implementing the recommendations that the OECD and the project team will propose.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira