Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. febrúar 2003 DómsmálaráðuneytiðSólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra 1999-2003

Ávarp Sólveigar Pétursdóttur á ráðstefnunni Átak gegn verslun með konur' á Grand hótel.

.
Fundarstjóri og aðrir ráðstefnugestir.

Mig langar að bjóða ykkur hjartanlega velkomin á þessa ráðstefnu sem er liður í sameiginlegu átaki Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna gegn verslun með konur. I would especially like to welcome our foreign guest speakers and thank them for coming all this way and share with us their knowledge on this important matter.

Verslun með fólk, og þá einkum konur og börn, er vaxandi vandamál í heiminum í dag. Það er í raun sama hvar borið er niður á hnettinum, alls staðar hafa ríki verið að vakna til vitundar um hversu alvarlegt og útbreitt vandamálið er. Á ráðstefnu sem nokkur ríki í Asíu héldu í Tokyo fyrir skemmstu, kom fram að á undanförnum 30 árum hafa 30 milljónir barna verið seld mansali í Asíu og í ríkjum við Kyrrahaf. Samkvæmt áætlun Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna eru um 1,2 milljónir barna seld á ári hverju og er í flestum tilvikum um að ræða stúlkur sem ýmist eru látnar vinna eða neyddar til að stunda vændi.

Samkvæmt mjög hóflegum áætlunum Evrópusambandsins er áætlað að um 120.000 konur og börn séu árlega seld mansali frá Austur- og Mið-Evrópu til Vestur-Evrópu og samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjunum er áætlað að um 50-90 þúsund manns séu árlega seld mansali til Bandaríkjanna.

Ríki heims hafa smám saman áttað sig á því að eina leiðin til að sporna við þessari starfsemi, sem er í flestum tilvikum liður í vel skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi, sé að taka höndum saman og berjast gegn vandamálinu í sameiningu.

Mjög stórt skref í þessari baráttu var tekið í Palermó á Ítalíu árið 2000, þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega og skipulega glæpastarfsemi og viðauki við hann um aðgerðir gegn verslun með fólk, einkum konur og börn, var undirritaður af fjölda ríkja heims. Með stofnsetningu samningsins var í fyrsta skipti komin sameiginleg skilgreining aðildarríkjanna á hugtakinu verslun með fólk. Fjöldi ríkja hefur undirritað samninginn þar á meðal Ísland og hefur undirbúningur að fullgildingu hans þegar verið hafinn í dómsmálaráðuneytinu. Stefnt er að fullgildingu samningsins á næsta löggjafarþingi. Þá er vert að geta þess að nú standa yfir umræður í Evrópuráðinu um hvort setja eigi á fót sérstakan Evrópusamning um aðgerðir gegn verslun með konur.

Það átak sem jafnréttismálaráðherrar og dómsmálaráðherrar Eystrasaltsríkjanna og Norðurlöndanna hafa nú efnt til er eitt dæmi um samvinnu milli ríkja til að sporna við þessu stig vaxandi vandamáli, sem virðir engin landamæri.

En einhverjir kunna kannski að hugsa, hvað kemur okkur þetta við? Er þetta ekki bara vandamál úti í heimi sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af. Um þetta vil ég segja tvennt: Í fyrsta lagi er þetta vandamál sem varðar brot á grundvallar mannréttindum og kemur því öllum við. Í öðru lagi er ekkert sem gefur okkur til kynna að við séum hólpin fyrir þessari starfsemi frekar en hverri annarri starfsemi sem gerir vart við sig hér á landi. Í þessu sambandi er vert að minnast á að undir lok ársins 1999 varð hávær sá orðrómur að vændi þrifist á Íslandi og meðal annars í kringum næturklúbba borgarinnar. Til að leggja grundvöll að upplýstri umræðu um þetta málefni, sem hafði að nokkru leyti mótast af getsökum fremur en ljósum starðreyndum, fól dómsmálaráðuneytið rannsóknarmiðstöðinni Rannsóknum og greiningu að vinna rannsókn um þetta efni. Skýrslan um vændi á Íslandi og félagslegt um hverfi þess var svo gefin út í mars 2001 og leiddi í ljós að vændi þrifist í raun á Íslandi meðal þeirra hópa sem athugunin náði til, það er meðal ungs fólks í vímuefnaneyslu og í tengslum við næturklúbba borgarinnar.

Niðurstöður skýrslunnar komu mörgum á óvart, sem stóðu í þeirri trú að vændi þrifist ekki á Íslandi. Til að bregðast við þeim vanda sem lýst var í skýrslunni skipaði ég þverfaglega nefnd til að gera tillögur til úrbóta. Í niðurstöðum skýrslu þeirrar nefndar komu fram margar athyglisverðar tillögur. Vert er að nefna að ein af þeim tillögum snerti verslun með konur, en hún laut að því að banna svo kallaðan einkadans á næturklúbbum og taldi nefndin að slíku banni yrði best við komið í lögreglusamþykktum sveitarfélaga. Reykjavíkurborg og Akureyri breyttu lögreglusamþykktum sínum í samræmi við þetta og staðfesti dómsmálaráðuneytið þá breytingu að fengnu áliti ríkislögmanns, sem taldi slíka breytingu fyllilega lögmæta. Eins og flestir vita staðfesti Hæstiréttur lögmæti þessa í síðustu viku. Þá er einnig tilefni til að minnast á þá tillögu nefndarinnar að stofna sérstaka samráðsnefnd eða regnhlífasamtök þeirra aðila sem koma að málum tengdum klámi og vændi. Hlutverk slíkrar nefndar væri að fylgjast með þróun á þessu sviði og bregðast við henni með viðeigandi hætti, t.d. með því að samhæfa aðgerðir hinna ólíku aðila sem hlutverki hafa að gegna í þessum efnum, bæði opinberra aðila og frjálsra félagasamtaka. Það er vel hægt að sjá fyrir sér að slík nefnd hefði hlutverk í málum varðandi verslun með konur.

En það er fleira sem hægt er að gera til að sporna við mansali. Efling lögreglusamvinnu milli landa spilar stórt hlutverk í því sambandi. Lögreglusamvinna milli Norðurlandanna og Eystrasaltrríkjanna hefur nú þegar verið aukin í gegnum samstarf sem kallast "Baltic Sea Task force" og á Ísland fulltrúa í því samstarfi.

Þá er nauðsynlegt að löggjöf ríkja kveði á um refsinæmi mansals og sé í stakk búin til að saksækja og refsa þeim sem það stunda. Öll ríkin sem taka þátt í þessu átaki hafa endurskoðað löggjöf sína með þetta að markmiði. Þess ber að geta að ég hef nú lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga sem leggur til að verslun með fólk verði sérstakt brot samkvæmt almennum hegningarlögum og geti varðað allt að 8 ára fangelsi.

Átak það sem nú hefur verið hleypt af stokkunum er fyrsta skrefið í baráttunni gegn verslun með konur. Ljóst er að skrefin verða mörg til viðbótar og verða Íslendingar jafnt og aðrar þjóðir að leggja sitt af mörkum til að sporna við þessari starfsemi sem felur í sér brot á grundvallarmannréttindum.

Að lokum langar mig að þakka þeim fjölmörgu aðilum sem hafa lagt lóð á vogarskálarnar í þessu átaki, bæði með því að styrkja útgáfu blaðsins, sem kom út um síðustu helgi og eins með þeirri vinnu sem innt var af hendi við undirbúning átaksins. Ykkar framlag er mikils metið.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira