Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. febrúar 2003 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Fyrsta flug Iceland Express

Ræða samgönguráðherra sem hann flutti í tilefni að fyrstu ferð Flugfélagsins Iceland Express til Kaupmannahafnar 27. febrúar 2003.


Ágætu gestir!

Í dag er enn einum áfanga náð í flugsögu og ferðaþjónustu okkar Íslendinga - og vil ég óska forsvarsmönnum ICELAND EXPRESS, og þjóðinni allri, innilega til hamingju með daginn!

Á síðustu mánuðum höfum við séð nýtt ferðaþjónustufyrirtæki fæðast, - ÍSLENSKA aðila sem, í samvinnu við breskan flugrekanda, sérhæfir sig í sölu ódýrra ferða á milli Íslands og þeirra áfangastaða sem lengst hefð er fyrir að Íslendingar heimsæki. Er þetta mjög í takt við þá þróun sem verið hefur annars staðar í heiminum og í samræmi við þann draum sem flestir eiga sér; að fara sem víðast á sem hagstæðustu kjörum.

Allar áherslur ICELAND EXPRESS eru í þessum anda, þær eru skýrar og nútímalegar og sé ég fyrir mér að ýmsir muni taka fyrirtækið sér til fyrirmyndar og horfa í auknum mæli á Netið sem miðdepil í sölu- og markaðsmálum.

Með ICELAND EXPRESS er vissulega á ferðinni spennandi tækifæri fyrir ferðaglaða Íslendinga en vonandi ekki síður öflugt verkfæri í höndum þeirra sem vinna að eflingu innlendrar ferðaþjónustu. - Við eigum fallegt land og til staðar eru innviðir og aðstaða til að fjölga ferðamönnum til landsins, ekki síst utan hins hefðbundna ferðamannatíma. Það er því sérstakt fagnaðarefni að ICELAND EXPRESS stefni að starfsemi árið um kring! Af þessu leiðir að áherslan á haustið, veturinn og vorið verður enn markvissari í allri kynningu á landinu.

Þótt við fögnum núna þá er vissulega mikið starf framundan til að tryggja starfsemi nýja fyrirtækisins. Sagan hefur því miður sýnt okkur að ekkert er gefið í þessum efnum en með traust, fagmennsku og bjartsýni að leiðarljósi verður ICELAND EXPRESS vonandi einn af máttarstólpum ferðaþjónustunnar í landinu.

Megi gæfa og gott gengi fylgja ICELAND EXPRESS og viðskiptavinum þess í framtíðinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira