Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 2004 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Aðalfundur KEA

Vaxtarsamningur Eyjafjarðarsvæðis

Kæru gestir,

Það er mér sérstakt ánægjuefni að áhér með ykkur í dag og fjalla m.a. um nokkur atriði er varðar skýrslu Verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Eyjafjarðar og framhald þess starfs.

Í ráðherratíð minn hef ég lagt áherslu á byggðamál, þar sem mér finnst skipta máli að landið haldist í byggð og að fólk búi við áþekk lífskjör, hvar sem það kýs að velja sér búsetu. Á umliðnum árum hafa örar breytingar átt sér stað í heiminum, sem rekja má til efnahagslegra, tæknilegra og pólitískra þátta. Þessar breytingar má m.a. sjá í aukinni alþjóðavæðingu, sem hefur haft veruleg efnahagsleg og menningarleg áhrif. Allar þessar breytingar hafa haft áhrif á byggðaþróun og atvinnulíf og gera um leið kröfur um nýjar áherslur og aðgerðir.

Eitt meginmarkmið stefnu í byggðamálum er að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni, líka í þeim byggðarlögum sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og besta möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu. Ástæða er til að leggja áherslu á að efling stærstu þéttbýlisstaðanna á landsbyggðinni er ekki á kostnað minni og dreifbýlli svæða heldur þvert á móti. Með greiðum og sífellt betri samgöngum auka sterkir byggðakjarnar möguleika íbúanna í dreifðari byggðum til að búa þar áfram. Forsendur þessarar stefnu eru flestum ljósar. Þær eru vaxandi kröfur almennings um fjölbreyttari atvinnukosti, þjónustu og betri lífskjör. Sömu þróun má greina á Norðurlöndum og víða í Evrópu. Stefna stjórnvalda í byggðamálum hlýtur að taka mið af þessari staðreynd.

Góðir fundarmenn, Eins og þið þekkið og fjallað hefur verið um hefur verið unnið að sérstakri byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð með það að markmiði að efla þetta öflugasta þéttbýlissvæði utan höfðuborgarsvæðisins sem byggðakjarna fyrir Norður- og Austurland.

Í árslok 2002 skipaði ég fimm manna verkefnisstjórn til að gera tillögu um byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð. Með stefnumörkuninni skyldi koma framkvæmdaáætlun, hver beri ábyrgð á framkvæmd einstakra verkefna, áætlun um kostnað þar sem það á við og tímasetning einstakra aðgerða. Þá var óskað eftir að verkefnisstjórnin gerði tillögur um skipan starfshópa heimamanna til að vinna að stefnumótun á einstökum sviðum. Gert var ráð fyrir að verkefninu lyki eigi síðar en við lok ársins 2004. Verkefnisstjórnin hefur nú skilað tillögum sínum. Eins og einhver ykkar þekkið þá voru þær kynntar hér á Akureyri 7. apríl sl.

 

Eins og gerð er grein fyrir í skýrslu verkefnisstjórnarinnar störfuðu rúmlega 40 manns í 7 mismunandi starfshópum á vegum verkefnisstjórnarinnar. Einnig voru fengnir erlendir sérfræðingar til landsins m.a. á fundi hér á Akureyri. Jafnframt hafði verkefnisstjórnin samvinnu við bæjaryfirvöld og fulltrúa sveitarfélaga á svæðinu og nálægum byggðarlögum. Veruleg vinna fór því í vinnslu á þessari skýrslu.

Megin niðurstaða verkefnisstjórnar er að Eyjafjarðarsvæðið eigi sér mikla möguleika til vaxtar og þróunar og aukinnar samkeppnishæfni, með þeim aukna fjölbreytileika og bættum lífskjörum sem því fylgir. Það er einnig mat verkefnisstjórnarinnar að um árið 2020 verði íbúatala Eyjafjarðarsvæðisins um 30.000. Þetta er vissulega björt framtíðarsýn, og árangur næst ekki sjálfkrafa. Til þess að hann náist þarf atorku og samvinnu allra aðila, og ekki síst frumkvæði heimamanna sjálfra, sem KEA er nú að sýna.

 

 

Óhætt er að fullyrða að tillögur þær sem hér eru settar fram, séu um margt nýjung á sviði byggðamála hér á landi, ekki síst hvað varðar uppbyggingu í formi svokallaðs vaxtarsamnings þar sem lögð er áhersla á klasa á sviði mennta og rannsókna, á heilsusviði, ferðaþjónustu og á sviði matvæla. Útfærslan er nokkuð nýstárleg en áhersla er lögð á sérstöðu og styrkleika svæðisins, samkeppnishæfni atvinnulifs sem og aukin alþjóðleg tengsl. Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis í fjölmenni eða fámenni, þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna með markaðstengdum aðgerðum þar sem atvinnulíf ber uppi hagvöxt svæðisins.

 

 

Fyrir utan tillögu er snýr að vaxtarsamningi eru í skýrslunni tillögur um einstaka framkvæmdir, er miða allar að því að efla Eyjafjarðarsvæðið sem samfélag sem byggir á fjölbreytileika og góðum lifskjörum. Í niðurstöðum skýrslunnar er að finna m.a. 20 forgangstillögur. Margar af þessum tillögum bera einnig merki um nýjungar s.s. er varðar háskóla Sameinuðu þjóðanna, líftækninet, stjórnsýslu fiskeldismála, endurbætur í samgöngumálum, aðkomu OECD að byggðamálum og svo mætti halda áfram. Þar sem þetta eru tillögur verkefnisstjórnar til stjórnvalda, verður næsta skref ráðuneytisins að meta þær og kalla eftir samstarfi við viðeigandi aðila, s.s. önnur ráðuneyti, bæjaryfirvöld á Akureyri, sveitarfélög á svæðinu, atvinnulíf o.s.frv.

Einnig má líta á tillögurnar sem hugmyndabanka að framkvæmdum, sem meta verður með markvissum hætti á næstunni í samvinnu við hlutaðeigandi aðila. Það er því mjög háð framkvæmdavilja þessara aðila hvers á sínu sviði sem og samstarfi þeirra á milli hvort, hvenær og hvernig þessar tillögur komast til framkvæmda.

 

 

Að mínu mati er æskilegt að sumar af þeim tillögum sem hér eru settar fram verði sem fyrst að veruleika, s.s. tillaga um vaxtarsamning. Ráðuneytið mun því kalla eftir samráði viðeigandi aðila á næstunni með það að markmiði að meta þessar tillögur og hrinda þeim í framkvæmd eftir því sem tilefni, möguleikar og aðstæður leyfa. Ég tel æskilegt og mun leggja áherslu á að undangengnu samráði við aðila - að vaxtarsamningur verði gerður strax í júní næstkomandi – það er ekki eftir neinu að bíða. Það er mikilvægt að drífa hlutina áfram.

Samkvæmt skýrslunni er gert ráð fyrir að aðkoma atvinnulífsins að verkefnum á þessu sviði verði ekki síst á sviði samstarfs innan klasanna sjálfra – þeirra fjögurra sem nefndir hafa verið. Nánari kynning á framkvæmd og fyrirkomulagi á því sviði verður sett af stað um leið og gengið hefur verið frá Vaxtarsamningi þeirra meginaðila sem nefndir hafa verið sem hugsanlegir samstarfsaðilar vaxtarsamningsins sjálfs. Ljóst er þó að þar sem um nokkrar nýjungar er að ræða, þarf að kynna þetta vel og efla umræður á hinum ýmsu stöðum.

 

 

Góðir gestir, Við þurfum að halda vöku okkar þegar við vinnum að frekari þróun og framsókn á sviði samkeppnishæfni og byggðamála. Þá er afar mikilvægt að leita að nýrri þekkingu og reynslu, til að sækja fram á nýjum sviðum. Árangur á þessu sviði gerir kröfur um margvísleg atriði til ýmissa aðila ríkis, sveitarfélaga en ekki síst atvinnulífs og einstaklinga. Vegna þessa er samstarf þessara aðila afar mikilvægt á næstunni.

Með skýrslu þessari eru stigin skref í þessa átt. Við sem hér erum samankomin trúum því að hér á Eyjafjarðarsvæðinu séu sóknarfæri og góðir möguleikar til vaxtar. Nú reynir á alla þá sem málið varðar að sameinast um framkvæmdir á hinum ýmsu sviðum.

Ég lýsi ánægju með viðbrögð forystumanna KEA við því að koma að þessu máli, en þau komu fram þegar á þeim fundi þegar skýrslan var kynnt fyrst opinberlega og nú hefur stjórnin gert samþykkt sem er mjög metnaðarfull og skiptir miklu máli fyrir framhaldið.

Eins og ég sagði áður er að mínu mati mikilvægt að vaxtasamningur verði gerður þegar í júní mánuði n.k.

Kæru félagar,

Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig að vera með ykkur hér í dag. Þetta félag, Kaupfélag Eyfirðinga er mér ákaflega kært. Það var mér mikill skóli að sitja í stjórn KEA hér fyrr á árum og starfa með því ágæta fólki sem þá var í forystu og með félagsmönnum almennt.

Ég óska félaginu velfarnaðar.

 

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira