Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. september 2004 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Opinn stjórnmálafundur á Höfn í Hornafirði 9. september 2004

Ræða Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á opnum stjórnmálafundi á Höfn, 9. september 2004.

Ágætu Hornfirðingar!

Þegar kvótakerfið var tekið upp á sínum tíma stóð íslenska þjóðin frammi fyrir því að þorskstofninn hafði gefið mikið eftir og var einsýnt að grípa þyrfti til aðgerða til að sporna við þeirri þróun. Þetta var alls ekki auðvelt verkefni enda snérist það um að útgerðarmenn tækju á sig verulega aflaskerðingu en það vill oft gleymast í umræðunni. Engu að síður tókst mönnum að ná saman um takmörkun veiðanna sem grundvallaðar voru á aflamarksstýringu enda höfðu tilraunir til þess að takmarka afla með sóknarstýringu mistekist. Við gleymum því oft Íslendingar hvað við erum lánsöm að hér á landi hafa útgerðarmenn löngum haft skilning á náttúrunni og hvaða skorður hún setur okkur. Þá hafa þeir einnig haft skilning á mikilvægi sjávarútvegs þegar horft er til efnahagslegrar afkomu þjóðarinnar. Í ljósi þessa hefur verið mögulegt að fylgja stefnu um langvarandi skynsamlega nýtingu auðlinda hafsins. Útgerðarmenn á Íslandi greina sig frá útgerðamönnum ýmissa landa þar sem þeir hugsa um afrakstur fiskimiðanna til lengri tíma. Það hefur verið okkar gæfa og er í rauninni þvert á það sem við höfum séð í löndunum í kringum okkur.

Fyrir stuttu síðan kom sjávarútvegsráðherra Bretlands í heimsókn hingað til lands í þeim tilgangi að kynna sér íslenska kvótakerfið frá öllum hliðum og lagði hann mikið upp úr því að fá fram ólík sjónarmið. Niðurstaða hans var samkvæmt yfirlýsingum í erlendum fjölmiðlum að það mætti margt gott af Íslendingum læra og hrósaði hann íslenska kvótakerfinu. En það sem honum fannst hvað athyglisverðast var ábyrg afstaða útgerðarmanna. Sagðist hann ekki hafa upplifað það að útgerðarmenn töluðu á þeim nótum að ef til vill væri verið nýta of stóran hluta þorskstofnsins og því væri skynsamlegt að draga úr veiðunum.

Þetta er einmitt mergurinn málsins og þrátt fyrir að það hafi verið ósætti um kvótakerfið þá breytir það ekki þeirri staðreynd að útgerðarmenn hafa verið sammála því að það beri að takmarka veiðar, með því sé hagsmunum allra best borgið.

Þá mátti lesa um það í morgunblaðinu í dag að Kjell Inge Rökke, eigandi norska útgerðarfélagsins Norway Seafood, telur að Norðmenn geti lært margt af Íslendingum þegar kemur að sjávarútvegi. Þar er haft eftir honum að Íslendingum hafi tekist að reka sjávarútveg sinn á hagkvæman hátt og náð fram hagræðingu í greininni. Ég vil líka nefna í þessu sambandi að við höfum fengið heimsókn norska sjávarútvegsráðherrans Sven Ludvigsen þar sem hann kom sérstaklega til landsins í þeim tilgangi að kynna sér íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.

Hér eru aðeins þrjú dæmi nefnd til sögunnar en ég hef enga tölu á því hversu margir erlendir gestir hafa komið til fundar í ráðuneytinu til þess að kynna sér kerfið okkar. Ekki vegna þess hversu slæmt það er, heldur vegna þess að það hefur skilað miklum árangri út frá flestum þeim mælikvörðum sem menn setja á slík kerfi, það gerir það einstakt.

 

 

Ágætu fundarmenn!

Það er dálítið merkilegt svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að á meðan umræðan hefur oft á tíðum snúist um að níða skóinn af íslenska kvótakerfinu þá hafa staðreyndirnar blasað við. Ég veit ekki um neina þjóð þar sem útgerð er rekin sem álvöru atvinnugrein, undirstöðu atvinnugrein í okkar tilviki, sem stendur á eigin fótum og er rekinn með hagnaði. Með kvótakerfinu geta útgerðarmenn hagrætt í sínum rekstri eins og Kjell Inge benti á, jafnframt því gerir kerfið útgerðarmönnum kleift að koma til móts við síauknar kröfur markaðarins. Kröfur um það að hafa jafnt framboð yfir árið, kröfur um að geta afhent þann fisk sem beðið er um, kröfur um gæði aflans, kröfur um rekjanleika aflans og svo mætti lengi telja Það eru líka fáar þjóðir ef nokkur sem státar af jafn miklum árangri í líffræðilegri stjórnun. Þrátt fyrir að ekki hafi allt gengið eftir nákvæmlega eins og við vildum, þá höfum við staðið skrambi vel, ekki síst í samanburði við aðra. Við verðum að fara að tala tæpitungulaust um þetta og hætta að mála skrattann á vegginn. Það verður ekki horfið aftur til fortíðar heldur munum við leggja áherslu á að sjávarútvegsfyrirtæki geti í framtíðinni verið rekinn sem öflug fyrirtæki á alþjóðavísu og hvað sem hver segir þá eigum við ekki annan kost í stöðunni. Annað er fortíðarhyggja og allar kollsteypur sem hingað til hafa verið boðaðar af sumum flokkum eru svo óábyrgar að það tekur ekki nokkru tali.

Ég sé fyrir mér að framundan sé tími minni deilna og við taki tími uppbyggilegri umræðu. Ríkisstjórnin hefur ekki verið á móti því að núverandi kerfi tæki breytingum eða aðlögun. Frá því að kvótakerfið var tekið upp hefur það farið í gegnum miklar breytingar. Breytingarnar hafa verið af ólíkum toga. Sumar gerðar í þeim tilgangi að setja niður deilur en aðrar til þess að ná fram aukinni hagræðingu í greininni svo fátt eitt sé nefnt. Að undanförnu hafa ýmsar breytingar verið gerðar á fiskveiðistjórnunarlögunum sem í ljósi sögunnar ættu að verða til þess að sætta ólík sjónarmið. Vil ég þar fyrst nefna veiðileyfagjaldið sem tekið var upp í kjölfar rúmlega þriggja ára vinnu tveggja þverpólitískra nefnda, Auðlindanefndar og Endurskoðunarnefndarinnar. Gjaldið var lagt á í fyrsta sinn nú þegar nýtt fiskveiðiár tók gildi í byrjun september. Gjaldið er afkomutengt og kemur til framkvæmda í áföngum.

Þá var tekið það stóra skref að gera kerfið heildstætt þar sem nú mun það alfarið byggja á aflamarki í kjölfar þess að Alþingi samþykkti að leggja niður dagakerfið. Þetta gerir fiskveiðistjórnunina markvissari þar sem veiðin verður mun nær því heildaraflamarki sem sett er fyrir hvert fiskveiðiár. Það eru ýmsir sem hafa viljað gera lítið úr þeim afla sem veiddur er umfram ráðgjöf. En nú á tímum svo til ótakmarkaðs aðgangs að upplýsingum hefur þrýstingur kaupenda sjávarafurða og ýmissa aðila sem láta sig umhverfismál varða verið á þann veg að ekki sé veitt umfram heildaraflamark. Þetta er stór hluti af okkar ímyndaruppbyggingu enda er það einlægur vilji okkar að stunda ábyrgar fiskveiðar og sína það í verki. Eftir sem áður höfum við smábátakerfi sem hefur sannað gildi sitt fyrir einstaka byggðir víðs vegar um landið.

Í ljósi þessara staðreynda stöndum því frammi fyrir miklu tækifæri núna. Tækifæri sem við höfum ekki fengið með jafn afgerandi hætti frá því að kvótakerfið var tekið upp, en það er að horfa til framangreindra breytinga og viðurkenna sáttina sem í þeim felst. Við getum nú farið að einbeita okkur að því að horfa fram í tímann, takast á við vandamál morgundagsins og láta deilur lönd og leið. Ég geri mér grein fyrir að þegar einni deilu er lokið er alltaf hægt að búa til nýja. Sem dæmi um það þá er oft stutt í hnútukast milli þeirra sem stunda veiðar með ólíkum veiðarfærum. En það er nú eini sinni svo að fjölbreytt útgerðarmynstur er af hinu góða. Það er ekki hægt að fullyrða að það eigi frekar að einungis að gera út á einn hátt frekar en annan. Markaðir fyrir fisk eru fjölbreyttir og því þjóna ólík útgerðarmynstur þeim með ólíkum hætti og alveg víst að það fer best á því að hver og einn útgerðarmaður meti hvernig best er að haga veiðunum. Í gær afhenti LÍÚ Háskólanum á Akureyri nýja og fullkomna neðansjávarmyndavél. Hér er um merkilegt framtak útvegsmanna að ræða og sýnir enn og aftur ábyrga stöðu þeirra gagnvart fiskveiðum. Megin tilgangurinn með gjöfinni er að efla rannsóknir á veiðarfærum og áhrifum þeirra á umhverfið. Ég ætlast því til að menn sem hafa ólíkar skoðanir á áhrifum einstakra veiðarfæra slíðri sverð sín, við þurfum ekki að rífast um staðreyndir og því er einfaldast að bíða eftir niðurstöðum rannsóknanna og meta áhrifin þegar þær liggja fyrir.

Staða sjávarútvegs á Íslandi breytist hratt. Verkefni okkar nú er að sækja fram til nýrrar sóknar. Íslenskt efnahagslíf aðlagar sig ekki lengur sjávarútveginum með sama hætti og áður. Áhrif sjávarútvegs í íslensku þjóðfélagi hafa verið að minnka. Ekki vegna þess að umfangið hafi verið að minnka heldur vegna þess að aðrar atvinnugreinar hafa verið að sækja í sig veðrið og því er einungis um hlutfallslega minnkun að ræða. Sjávarútvegur ræður gengisskráningunni ekki lengur og ef að líkum lætur mun hann ekki gera það í framtíðinni vegna aukins umfangs annarra greina. Ferðaþjónustan hefur verið á mikilli siglingu þar sem komum ferðamanna til landsins er farið að fjölga mjög hratt á ný eftir nokkurt bakslag um skeið í kjölfar voðaatburðanna sem kenndir eru við 11. september. Stóriðja hefur verið að eflast til muna og fjármálafyrirtækin eru orðin að öflugum alþjóðlegum fyrirtækjum. Þessi staðreynd sínir okkur að það er ákveðin hætta á að sjávarútvegur muni ekki dafna til jafns á við aðrar atvinnugreinar. Því megum við alls ekki eyða kröftum okkar í deilur og sundurlindi, slíkt þjónar aðeins hagsmunum samkeppnislanda okkar. Við verðum einfaldlega að snúa bökum saman og sækja fram.

Í ljósi þess sem að framan er greint þá þurfum við að laga okkur að breyttu umhverfi. Verkefnin framundan eru næg og lykillinn að því að ná meiru út úr sjávarútveginum er að bæta innviði hans og aðstæður, auka verðmæti þess afla sem að landi berst, efla markaðssókn og útrás atvinnugreinarinnar og er þá fátt eitt talið. Útrásin er þegar hafin og bera nýjustu fregnir af kaupum Samherja á tveimur fyrirtækjum í Evrópu til viðbótar það sem áður var þess glöggt merki.

Til að gefa innsýn í þau verkefni sem ráðuneytið er að fást við og teljast til nýrra verkefna sem tengjast breyttu umhverfi sjávarútvegsins má nefna siðareglur í sjávarútvegi, umhverfismerkingar sem snúa að upplýsingagjöf varðandi sjálfbærni veiða, öryggi útflutningstekna sem fjalla um markvissa upplýsingagjöf um efnainnihald í fiski. Einnig höfum við tekið upp samvinnu við eina stærstu matvörukeðju heims Carrefour í Frakklandi, um að veita sérstakar upplýsingar um efnainnihald og gæði íslensks fisks. Carrefour leggur sérstaka áherslu á línufisk ekki síst frá Íslandi og kynnir hann sem gæðafisk frá miðum þar sem sjálfbærar veiðar eru stundaðar. Þá tók ráðuneytið fyrir um tveimur árum síðan ásamt SH, SÍF og Útflutningsráði að styðja við bakið á Klúbbi matreiðslumeistara til þátttöku í Bocuse d'Or matreiðslukeppninni, en hún nokkurs konar heimsmeistarakeppni í matargerð. Í kjölfar þessa stuðning hefur nú verið ákveðið að nota íslenskan fisk, skötusel, í keppnina á næsta ári. Það er vel til þess fallið að koma ferskum íslenskum fiski á framfæri og bindum við vonir okkar við að þetta styðji við bakið á ferskfiskútflutningi okkar.

Ágætu fundarmenn!

Vöxtur íslensks sjávarútvegs tengist nýjungum í greininni og því verða ný störf ekki til á grunni hins hefðbundna heldur tengjast þau öðrum og nýjum þáttum sem þurfa að koma til. Íslenskur sjávarútvegur ætlar að halda áfram að verða vaxtagrein í íslensku hagkerfi en það má engum dyljast að það eru tímar breytinga framundan í íslenskum sjávarútvegi. Þetta kostar mikla útsjónarsemi, fyrirhyggju og þolinmæði hjá greininni.

Mikill hugur er í mönnum hvað varðar eldi sjávarfiska og er það mín trú að mögulegt sé að sú atvinnugrein eigi eftir að verða öflug í framtíðinni. Skynsamlega hefur verið á málum haldið þar sem stigið hefur verið varlega til jarðar kunnátan hlaðist upp jafnt og þétt. Við ætlum okkur ekki að verða eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum en eins og staðan er nú þá eru ýmsir sem hafa lagt mikið undir í þessari atvinnugrein. Sú mikla fiskeldisþjóð, Norðmenn láta sitt ekki eftir liggja og stefna á að framleiða 100.000 tonn af þorski innan 8 ára. Þá erum við að sjá öfluga samkeppni frá löndum sem eru hafa verið okkur fjarlæg fram til þessa eins og t.d. Chile.

Að lokum vil ég segja að ég er ánægður með að hafa fengið tækifæri til þess að funda með ykkur hér í dag. Eins og þið hafið heyrt á mér þá standa miklar breytingar yfir hjá þessari öflugustu atvinnugrein þjóðarinnar. Ógnanirnar eru víða en það sama á við um tækifærin. Það er hlutverk okkar sem störfum í sjávarútvegi að vera ávallt viðbúin því að gefið geti á bátinn og við verðum að vera tilbúinn að svara allri þeirri gagnrýni sem að okkur er beint, hvaðan sem hún kemur. Að sama skapi verðum við að kortleggja tækifærin og vinna að krafti og heilum hug að framgangi þessarar mikilvægu atvinnugreinar þjóðarinnar.

 

 

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira