Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. nóvember 2004 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Aðalfundur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins 12. nóvember 2004

Ræða Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á ársfundi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins 12. nóvember 2004.

Ágætu fundarmenn!

Möguleg sameining opinberra matvælarannsókna í einni stofnun eða fyrirtæki er efni skýrslu starfshóps sem skilað var í vikunni en hópurinn var skipaður af forsætisráðherra í ágúst síðastliðnum. Starfshópurinn átti að skýra forsendur slíkrar sameiningar og meta þarfir fyrir matvælarannsóknir og þróun á sviðinu. Markmiðið skyldi vera að stuðla að hagræðingu, samræmdum vinnubrögðum og betri þjónustu við sjávarútveg, landbúnað og annan matvælaiðnað. Starfshópnum var jafnframt falið að gera tillögur um formlegt samstarf nýrrar stofnunar og háskólanna í landinu í því augnamiði að tryggja samvinnu um menntun, rannsóknir og þróunarstarf og stuðla jafnframt að gagnkvæmu flæði starfsmanna og verkefna milli stofnana, háskóla og atvinnulífs.

Matvælaframleiðsla er mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga. Sjávarútvegurinn ber höfuð og herðar yfir aðra matvælaframleiðslu enda færir hann í bú um 40% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Eins og skipulagið er nú fara matvælarannsóknir sem kostaðar eru af ríkinu að mestu fram hjá fjórum stofnunum: Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og síðast en alls ekki síst hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Eðli málsins samkvæmt er sú síðastnefnda stærst, þar sem framleiðslan í atvinnugreininni sem hún þjónar er lang umfangsmest. Ef tekið er mið af starfsmannafjölda þá vinna 56 hjá Rf á meðan níu starfa hjá MÖTRU, þ.e. samstarfsvettvangi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og 11 manns hjá Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar.

En Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er ekki bara öflug stofnun heldur á hún sér langa sögu sem spannar 70 ár. Áherslur Rf hafa tekið breytingum í gegnum tíðina þótt meginmarkmiðið hafi ætíð verið hið sama, að auka gæði íslensks sjávarfangs og jafnframt nú hin síðari ár að afla upplýsinga til að hægt sé að gefa skýr svör um efnainnihald þess. Rf er nú að ganga í gegnum nýtt breytingaskeið, stofnunin hefur verið að draga sig að stórum hluta út úr þjónusturannsóknum sem eru í samkeppni við einkaaðila.

Þessi þróun er eðlileg og á sér sínar skýringar. Það hefur aldrei verið markmið Rf að stunda samkeppni á því sviði rannsókna sem einkaaðilar geta innt af hendi. Á sínum tíma var ekki hjá því komist að Rf stundaði þjónusturannsóknir því það var eina leiðin til þess að fyrirtækin gætu fengið þá þjónustu sem var þeim nauðsynleg. Nýir möguleikar hafa opnast fyrir einkaaðila í kjölfar þess að rannsóknartæki og tól verða sífellt umfangsminni og ódýrari. Af þeim sökum hafa einkaaðilar nú möguleika á að bjóða þjónusturannsóknir á viðráðanlegu verði fyrir fyrirtækin. Frá því að sjálfstætt starfandi þjónustuaðilar fóru að geta boðið þetta hefur Rf fylgt þeirri stefnu að kaupendur samsvarandi þjónustu þar, standi undir öllum tilheyrandi rekstrarkostnaði. Mikið hefur verið lagt upp úr því að rekstrarlegur aðskilnaður sé á milli þjónusturannsókna og annarra rannsókna eins og samkeppnislög gera ráð fyrir. Rétt er að taka það fram að hvorki Samkeppnisstofnun né Ríkisendurskoðun hafa gert athugasemdir við rekstrarlegan aðskilnað hjá Rf. Minnkandi þjónusturannsóknir munu hafa í för með sér að rannsóknaþáttur útibúanna á landsbyggðinni verður efldur.

Stofnanir ríkisins á borð við Rf eru til þess að þjóna viðskiptavinum sínum og þannig hugsar starfsfólk stofnunarinnar. En það er líka nauðsynlegt að atvinnugreinin geri sér grein fyrir sínu hlutverki og nýti þá möguleika og sóknarfæri sem felast í samstarfi við Rf. Flest íslensk fyrirtæki eru af þeirri stærðargráðu að þau megna ekki að leggja nema að hluta til í þann gríðarlega kostnað sem fylgir öflugu rannsóknar og þróunarstarfi. Þau þurfa því vera opin fyrir samvinnu og að nýta þá miklu sérfræðiþekkingu sem starfsfólki Rf býr yfir. Ég tel reyndar, að innan greinarinnar sé einlægur vilji til að hún hagnýti sér þekkingu innan Rf í eigin þágu og þar með þjóðarinnar allrar.

Eitt af stóru verkefnunum framundan snýst um öryggi matvæla. Kröfur þeirra sem hafa áhrif á útflutning fisks eru sífellt að verða flóknari. Ekki aðeins eru kröfur markaðarins verða sífellt flóknari heldur bætast þar við kröfur opinberra stofnana bæði hér á landi og erlendis ásamt aðgerðum og upphlaupi ýmissa öfgasamtaka sem kæra sig kollóta um staðreyndir og gera út á einfaldan boðskap og vilja fólks til að láta gott af sér leiða í náttúru og umhverfisvernd. Gengur þeim best að fá fólk til að styðja það sem er svo fjarlægt því að afleiðingarnar snerta það ekki sjálft. Sjávarútvegur er, hvort sem okkur líkar betur eða verr, í þeirri stöðu í borgar og tæknisamfélagi nútímans. En barátta slíkra samtaka sem ekki byggir á traustum grunni skilar litlu. Hún skapar hins vegar mikla vinnu fyrir þá sem þurfa að verjast ásókninni, og er því sinnt í samvinnu ráðuneytisins og stofnanna þess. Til dæmis er mikilvægt er að búa yfir vönduðum upplýsingum frá viðurkenndum aðilum og vera ætíð viðbúinn því að þurfa að koma þeim hratt og örugglega á framfæri. Til að koma í veg fyrir að útflutningstekjur þjóðarinnar skaðist vegna nýrra viðmiða eða krafna, verðum við með óyggjandi hætti að geta sýnt fram á að fiskafurðir okkar séu öruggar með hliðsjón af þeim viðmiðum sem í gildi eru hverju sinni.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gerði árið 2003 sérstakt átak í að mæla innihald óæskilegra efna í sjávarafurðum, bæði afurðum til  manneldis og afurðum lýsis- og mjöliðnaðar. Upplýsingarnar munu nýtast þeim  sem vinna við að selja sjávarafurðir  til að meta það hvernig afurðir standast  þau  mörk sem þegar eru í gildi á Íslandi, ESB og viðskiptaþjóðum Íslendinga,  og sem stjórnvöld og söluaðilar sjávarfangs þurfa að geta upplýst kaupendur og neytendur um.

Megin niðurstöður þeirra mælinga sem liggja fyrir, sýna að mengunarefni í íslensku sjávarfangi eru í langflestum tilvikum langt undir þeim mörkum sem sett hafa verið.

Niðurstöðurnar má nálgast á netinu bæði hjá RF og á heimasíðu ráðuneytisins.

Rétt að geta þess hér að til þess að tryggja frekari uppbyggingu á þessu sviði er í fjárlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir gert ráð fyrir 30 milljónum sem sérstaklega eru ætlaðar í þetta verkefni. Viðbótar mælingar á heilnæmi sjávarfangs munu fyrst og fremst fara fram í nýrri aðstöðu Rf í rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri sem nýverið tók til starfa.

Útflutningstekjur sjávarútvegsins eru ein megin stoð íslenska efnahagskerfisins og því ber okkur að tryggja öryggi útflutningstekna eins og frekast er kostur. Í sumar var kynnt og birt skýrsla sem unnin var af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Í henni er bent á fleiri leiðir til að tryggja öryggi útflutningstekna.

Annað stórt verkefni snýr að AVS verkefninu svokallaða sem stendur fyrir aukið virði sjávarfangs. AVS sjóðurinn hefur nú starfað í um 2 ár og eru verkefni hans af margvíslegum toga og snúa meðal annars að fiskeldi, gæðum, líftækni, markaðssetningu og vinnslu. Sjóðurinn hefur veitt styrki til um 30 verkefna fyrir um 74 milljónir kr., 2003 og á yfirstandandi ári er búið að styrkja 25 verkefni fyrir samtals um 81 milljón króna en sjóðurinn hefur úr 120 milljónum að spila og því má reikna má með að verkefnum eigi eftir að fjölga nokkuð áður en árið er úti. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir 200 milljónum króna í AVS sjóðinn og það er trú mín að greinin geti nýtt sér þennan stuðning til að flýta enn frekar fyrir þróun og nýjungum í vinnslu sjávarafurða.

Þróunarvinna tekur tíma og vart við því að búast að við sjáum strax mikinn árangur af starfi AVS. Engu að síður erum við þegar farin að uppskera í kjölfar úthlutana úr sjóðnum. Í því sambandi er skemmtilegt að segja frá því að AVS styrkti áhugavert verkefni varðandi nýtingu á tegund sem flestir héldu að væri ónýtanleg en þetta er „Vinnsla á íslenskum sæbjúgum". Nú hefur verið komið á fót fyrirtæki um þetta verkefni á Grundarfirði. Sæbjúgu hafa aldrei verið nýtt hér á landi áður en þessi dýrategund hefur verið þekkt matvara meðal margra Asíuþjóða. Eins og gefur að skilja þá þarf að mörgu að huga við veiðar og vinnslu nýrra tegunda, en framvindan í verkefninu hefur verið góð, búið er að senda fjölda sýnishorna til kaupenda erlendis og hafa viðbrögðin verið jákvæð þótt auðvitað þurfi sífellt að lagfæra þætti í vinnslunni til að mæta sérstökum óskum kaupenda. Erlenda vinnslutækni var ekki hægt að yfirfæra að öllu leyti þar sem íslensku sæbjúgun eru að nokkru leyti frábrugðin þeim sem þegar er verið að vinna. Nú er að baki mikil þróunar- og markaðsvinna og er verkefnisstjóri verkefnisins bjartsýnn á að góður grundvöllur sé fyrir nýtingu sæbjúgna þó enn sé að mörgu að hyggja. Vonandi verður innan tíðar hægt að tala um að ný tegund hafi bæst í flóru íslenskra sjávarafurða.

Nefna má fleiri dæmi um verkefni sem við sjáum nú þegar að er að skila sér í auknum tekjum inn í sjávarútveginn. Eitt af fyrstu verkefnunum sem AVS styrkti var samvinnuverkefni Skagans á Akranesi og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins við hönnun á nýrri flakavinnslulínu. Verkefnið byggist alfarið á hugmynd Skagans og tækni sem þeir hafa þróað, en þáttur Rf hefur fyrst og fremst falist í því að meta gæði og áhrif vinnslulínunnar á afurðirnar. Þannig hefur verið hægt að sýna fram á með vísindalegum hætti fram á kosti vinnslulínunnar og jafnframt að bæta hönnun með tilliti til þrifa. Vinnslulínan er komin í notkun á nokkrum stöðum á landinu og miðað við þær niðurstöður sem liggja fyrir, skilar línan betri afurðum með tilliti til gerlamengunar og loss heldur en hefðbundnar vinnslulínur. Þessir þættir eru mikilvægir ekki síst í ferskfiskvinnslu, þar sem geymsluþol og útlit skipta miklu máli.

Þá hefur AVS rannsóknasjóðurinn í samvinnu við Útflutningsráð Íslands ákveðið að styrkja verkefni sem hefur það að markmiði að styrkja þróun og markaðssetningu líftækniafurða sem unnar eru úr íslensku sjávarfangi. Nokkur fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl á þessum vettvangi og eru margar áhugaverðar afurðir að líta dagsins ljós. Mikil vinna fellst í því að afla réttra viðskiptatengsla og koma nýrri vöru á markað. Hugmyndin með þessu verkefni er að auðvelda frumkvöðlum á þessu sviði að nálgast markaðinn á réttan máta og auka líkurnar á að íslenskar líftækniafurðir komist á markað.

Til þessa verkefnis hefur verið ráðinn sérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Strategro. Hann mun meðal annars afla upplýsinga um markaðinn í Bandaríkjunum fyrir líftækniafurðir en einnig aðstoða einstök fyrirtæki, við að afla upplýsinga tengdum þeirra afurðum.

Þróun nýrra afurða lýkur í raun ekki fyrr en þær hafa öðlast sess á markaðnum og að kaupendur er tilbúnir að kaupa vöruna aftur og aftur. Þessi lokakafli hefur oft reynst fyrirtækjum mjög tímafrekur og ekki síst kostnaðarsamur. Með þessu verkefni er reynt að aðstoða íslensk fyrirtæki í öflun upplýsinga um markaðinn og gera tækifærin sýnilegri.

Ef horft er til einstakra flokka AVS þá hafa hæstu úthlutanir farið til fiskeldis og er mikill hugur í fyrirtækjum á því sviði enda er það mikilvægt fyrir okkur að eldið geti orðið öflug atvinnugrein í framtíðinni. Skynsamlega hefur verið á málum haldið þar sem stigið hefur verið varlega til jarðar og kunnáttan aukist jafnt og þétt. Við ætlum okkur ekki að verða eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum.

Áheyrendur góðir!

Þegar breytingar voru gerðar á fjármögnun á rannsóknum á þessu og síðasta ári var meginmarkmið þeirra að efla rannsóknir og jafnframt bæta gæði rannsókna með aukinni samkeppni. Auk endurskipulagningar kerfisins ákvað ríkisstjórnin að veita meira fé til rannsóknasjóðanna.

 

Það var ekki ætlun þeirra sem að þessum breytingum stóðu, að þær leiddu til samdráttar á starfsemi rannsóknastofnana sem stutt hafa atvinnulífið enda segir orðrétt í fyrsta lið vísinda og tæknistefnu forsætisráðuneytisins að það eigi að "auka úthlutunarfé opinberra samkeppnissjóða og samhæfa starfsemi þeirra þannig að það nýtist sem best vísinda- og tæknirannsóknum og nýsköpun í íslensku atvinnulífi." Hinu nýja skipulagi er því síst ætlað að draga úr tækifærum rannsóknastofnanna, nema síður sé.

 

Það eru því nokkur vonbrigði að samfara því að nýju skipulagi hefur verið hleypt í framkvæmd virðist hafa komið upp hreyfing sem stefnt er gegn því að rannsóknastofnanirnar geti sótt fé úr þessum sjóðum. Af einhverjum undarlegum og óskiljanlegum ástæðum virðist sem sterk öfl í vísindasamfélaginu vinni gegn því að svokallaðar hagnýtar rannsóknir fái brautargengi í rannsóknasjóðum ríkisins. Ég vil hvetja menn til að endurskoða hug sinn hvað þetta varðar. Bilið milli hagnýtra rannsókna og grunnrannsókna er oft og tíðum ekki raunverulegt. Rannsóknir sem leiða skjótt til endurbóta í starfsemi fyrirtækja og í framleiðslu skila fljótt arði og efla þjóðarhag.

Ef við lítum til hinna stóru rannsóknaáætlana í ESB sem Íslendingar eru þátttakendur í, eru menn ekki feimnir við að leggja áherslu á tiltekna þætti sem óskað er eftir að vísindasamfélagið einbeiti sér að. Það eru hagnýtar rannsóknir í breiðum skilningi þess orðs. Við Íslendingar tökum þátt í þessum áætlunum ESB. Í því felst að íslenskir vísindamenn og stofnanir geta sótt um styrk til verkefna í samstarfi við fleiri aðila. Í því felst jafnframt að Ísland tekur þátt í að fjármagna þær rannsóknir.

Við mótun á stefnu í rannsóknarmálum okkar þarf að taka tillit til þessara staðreynda og leggja meiri áherslu á að efla samstarf rannsóknastofnana og skóla við erlenda aðila. Þannig verður þeim kleift að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum í framtíðinni. Ella eigum við á hættu að staðna. Íslendingar hafa verið hópi þeirra sem eru í forystu á alþjóðavettvangi í ýmsum þáttum rannsókna er varða sjávarútveg, og atvinnugreinin og stjórnvöld hafa verið tiltölulega fljót að nýta sér niðurstöður þessara rannsókna, okkur öllum til hagsbóta. Til að styrkja greinina enn frekar þurfa vísindamenn áfram að geta leitað fanga víða og greinin að hagnýta sér þá þekkingu sem þar fæst. Í stystu máli má orða það svo; íslenskir vísindamenn verði áfram í fremstu röð.

Góðir fundarmenn!

Ég held að enginn þurfi eftir þessa yfirferð að velkjast í vafa um að sjávarútvegsráðuneytið horfir mjög til starfa Rf enda er stofnunin helsti burðarstólpinn í matvælarannsóknum á landinu. Þá undirstrikar tilkoma AVS sjóðsins enn frekar þá áherslu ráðuneytisins á matvælarannsóknir í víðum skilningi. Tillaga starfshóps forsætisráðherra sem ég fjallaði um hér í upphafi er að komið verði á fót Matvælarannsóknastofnun Íslands og að verksvið hennar nái yfir rannsóknir, þróun, framleiðslu og meðferð matvæla frá hráefni til neytendavöru óháð uppruna. Stofnunin yrði því rannsókna og þjónustustofnun fyrir sjávarútveg, landbúnað og annan matvælaiðnað. Starfshópurinn leggur til að; " málefni stofnunarinnar heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið enda tengist það stærstu grein matvælaiðnaðar á Íslandi og þar eru hagsmunir mestir" svo vitnað sé beint í skýrslu starfshópsins. Ég lýsi yfir ánægju minni með að starfshópurinn skuli hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu. Samræming og sameining rannsókna í einni stofnun muni skila hagræðingu í rekstri, betri rannsóknum og betri þjónustu við matvælaiðnað í landinu. Ég hef ekki sóst eftir því að sölsa undir sjávarútvegsráðuneytið matvælarannsóknir annarra en tel niðurstöðu starfshópsins um hvar stofnunin verði vistuð rökrétta og skynsamlega.

Ég er því tilbúinn til þess að stuðla að breytingum á umhverfi matvælarannsókna á þeim forsendum sem koma fram í skýrslunni.

Þakka ykkur fyrir.

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira