Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. nóvember 2004 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Sjómannasambandsþing 24. nóvember 2004

Ræða Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á Sjómannasambandsþingi 24. nóvember 2004.

Góðir fundarmenn!

Allt frá því að fiskveiðistjórnunarkerfið var tekið upp hefur það verið í stöðugri þróun. Margar breytingar hafa verið gerðar á því í þeim tilgangi að auka sátt um kvótakerfið og festa það þar með í sessi, sumar hafa verið í andstöðu við greinina og ekki endilega til þess fallnar að efla fyrirtækin. En einhvern veginn er það samt svo að það þykir eðlilegt að setja ýmsar reglur um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja sem ganga lengra en reglur um fyrirtæki í öðrum rekstri.

Umræða um sjávarútvegsmál er of oft bundin við neikvæða umræðu um kvótakerfið sem er auðvitað ekkert annað en þröngsýni og dregur úr því að unnið sé að framgangi þeirra mála sem skipta sjávarútveginn ekki síður máli. Kvótakerfið er komið til að vera og hvað sem um það má segja þá veit ég ekki um neina útgerð í heiminum sem skilar jafn miklum arði og útgerðin á Íslandi. Það virðist oft gleymast en er grundvallaratriði, ekki bara fyrir sjómenn heldur þjóðarbúið allt. Hlutverk okkar sem störfum að málefnum sjávarútvegsins ber skylda til að horfa til atvinnugreinarinnar í víðu samhengi. Samkeppni við sjávarfang frá Íslandi er mjög mikil og það skiptir fiskkaupendur úti í heimi litlu máli hvernig umræðan hér heima er um kvótakerfið, kröfur þeirra og hugsanir snúast um allt annað. Þetta þýðir að verk ramminn sem okkur er settur snýr að ferlinu frá því að fiskurinn er veiddur þar til neysla hans fer fram. Kvótakerfið er auðvitað hluti af heildar myndinni en það er svo margt, margt annað sem kemur til.

Viðhorf og kröfur erlendra smásala með fiskafurðir hafa verið að breytast hratt að undanförnu. Hér áður fyrr voru þeir fyrst og fremst að spá í gæði þess fisks sem þeir keyptu burt séð frá því hvort og hvaða árangri fiskveiðistjórnun skilaði á því svæði sem fiskurinn var veiddur. Þeim var almennt séð alveg sama hvort veiðarnar væru sjálfbærar, hvaða veiðarfæri var notað eða hvert efnainnihald fisksins var. Allt skiptir þetta kaupendur máli í dag og spilar allt saman. Stórfyrirtæki eins og Carrefour, McDonalds, Unilever og Waitros hafa verið í sambandi við sjávarútvegsráðuneytið til þess að fara yfir þessa þætti. Á ferð minni til Englands í síðustu viku fór ég og skoðaði eina af verslunum Waitros sem staðsett er í Canary Wharf hverfinu í Lundúnum. Þar kom berlega í ljós þessi heildarhugsun frá miðum til maga. Fyrir ofan fiskborðið þar sem íslenskur fiskur var sérstaklega merktur hékk mynd af línubátnum Kristrúnu RE-177 ásamt texta um að þetta væri báturinn sem veiddi þann íslenska fisk sem var til sölu í fiskborðinu og að veiðarnar væru sjálfbærar.

Þetta leiðir okkur að annarri umræðu sem snýr að öryggi útflutningstekna. Hvað myndi gerast ef fyrirtæki sem leggja mikið upp úr því að selja íslenskan fisk hættu því vegna nýrra reglna eða fyrir annarra hluta sakir. Slíkt myndi strax bitna harkalega á útflutningstekjum okkar. Það er því mikilvægt að tryggja sem frekast er kostur öryggi útflutningstekna. En hvernig er hægt að gera það? Líklegast er að nýjar kröfur eða umræður um efnainnihalds fisks gætu orsakað skyndilegt áfall í útflutningi á sjávarafurðum. Ekki er hægt að vita hvenær fyrirtækjum, opinberum stofnunum eða öfgasamtökum dettur í hug að setja fram nýjar reglur um efnainnihald eða hræða almenning með röngum upplýsingum um skaðsemi efnainnihalds sjávarfangs. Það er því grundvallaratriði þegar fjallað er um öryggi útflutningstekna að hafa á reiðum höndum upplýsingar um efnainnihald fisksins sem veiddur er af íslenska fiskiskipaflotanum.

Við munum öll eftir mjölfárinu á sínum tíma þar sem minnstu munaði að bannað yrði að nota fiskmjöl í dýrafóður. Með því að koma hratt og örugglega á framfæri upplýsingum í samstarfi við önnur ríki tókst að koma í veg fyrir algert bann, en því miður var engu að síður bannað að nota fiskmjöl í fóður jórturdýra sem hafði mjög slæm áhrif á markaðinn. Binda menn nú vonir við að í ljósi þess að tekist hefur að endurbæta próf á íblöndun kjötmjöls í fóður þá muni framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aflétta banninu sem mun væntanlega styrkja markaðinn á ný.

Mjölfárið sýnir okkur að ef upplýsingar eru ekki á reiðum höndum, þá stöndum við varnarlaus. Neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum getur á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd afurða sem tekið hefur áratugi að byggja upp. Útflutningstekjurnar eru því háðar því að við getum sannað öryggi sjávarafurða með hliðsjón af þeim lögum og reglugerðum sem gilda á hverjum tíma svo og kröfum markaðarins. Gildir þar einu hvort um er að ræða ferskan fisk, unnar afurðir eða fiskeldi.

Ég beitti mér fyrir úttekt á málinu og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins skilaði af sér skýrslu sem kynnt var í sumar og hægt er að nálgast á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins. Í henni koma fram leiðir til að tryggja öryggi útflutningstekna. Mikilvægt er að upplýsingasöfnun um óæskileg efni í sjávarafurðum Íslendinga sé gerð á skipulegan hátt og tryggt að á hverjum tíma séu til nýjar upplýsingar um efnainnihald þeirra. Megin niðurstöður þeirra mælinga sem nú liggja fyrir sýna að mengunarefni í íslensku sjávarfangi eru í langflestum tilvikum langt undir þeim mörkum sem sett hafa verið.

Þá var að frumkvæði sjávarútvegsráðuneytisins hafin vinna hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins árið 2003 sem snéri að því að mæla innihald óæskilegra efna í sjávarafurðum, bæði afurðum til  manneldis og afurðum lýsis- og mjöliðnaðar. Upplýsingarnar munu nýtast þeim  sem vinna við að selja sjávarafurðir  til að meta það hvernig afurðir standast  þau mörk sem þegar eru í gildi á Íslandi, ESB og hjá öðrum viðskiptaþjóðum Íslendinga,  og sem stjórnvöld og söluaðilar sjávarfangs þurfa að geta upplýst kaupendur og neytendur um. Niðurstöður mælinganna er hægt að nálgast á heimsíðum sjávarútvegsráðuneytisins og hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þá vil ég geta þess að til þess að tryggja frekari uppbyggingu á þessu sviði er í fjárlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir gert ráð fyrir 30 milljónum sem sérstaklega eru ætlaðar í þetta verkefni. Viðbótar mælingar á heilnæmi sjávarfangs munu fyrst og fremst fara fram í nýrri aðstöðu Rf í Borgum, rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri sem nýlega var tekið í notkun. Þannig hef ég markvisst verið að styrkja þennan þátt í öryggi útflutningstekna af íslenskum sjávarafurðum.

Annað sem er að koma upp á yfirborðið og snýr að öryggi útflutningstekna er umræða sem er að þróast um umhverfismat á áhrifum sjávarútvegs. Fyrir stuttu síðan kom út bók eftir Charles Clover blaðamann á Daily Telegraph sem ber heitið The End of the Line og hefur undirtitilinn How overfishing is changing the world and what we eat, sem mætti þýða sem "Undir það síðasta, áhrif ofveiði á heimsmyndina og hvað við borðum". Ég hef áður vitnað í þessa bók og fengið bágt fyrir og var skýringin helst sú að höfundur bókarinnar er á móti notkun botndrægra veiðarfæra. En það sem stjórnmálamaður ætti síst af öllu að gera er að afneita umræðu sem á sér stað, hans hlutverk er miklu frekar að hlusta eftir öllum sjónarmiðum og leggja síðan mat á málefnin og taka frumkvæði í að breyta eða hafa áhrif á framvindu umræðunnar. Umhverfisáhrif fiskveiða er málefni sem mun verða fyrirferðameira í framtíðinni um heim allan og það endurspeglast einmitt í bókinni; The End of the Line.

Ráðuneytið og stofnanir þess eru þegar farin að undirbúa sig fyrir frekari umræðu um umhverfisáhrif fiskveiða. Nýverið var unnið rannsóknaverkefni sem ber heitið "Vistferilsgreining á þorskafurðum" og unnið var af starfsfólki Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins í samstarfi við Iðntæknistofnun. Verkefnið snýst um að gera tilraun til að finna út hver séu umhverfisáhrif þorskveiða, allt frá miðum til maga, með því að nota staðlaðar aðferðir sem unnið er með við mat á umhverfisáhrifum á ýmissi atvinnustarfsemi óskyldri sjávarútvegi. Niðurstöðurnar þurfa kannski ekki að koma á óvart en þær eru í grundvallaratriðum að olían hafi mest áhrif á umhverfið.

Þetta er fyrsta rannsókn þessarar tegundar sem gerð er á umhverfisáhrifum íslensks sjávarútvegs en aðferðirnar þarf að aðlaga sérstaklega að sjávarútvegi. Stöðluðu aðferðirnar ganga fyrst og fremst út frá starfsemi á landi en ekki á sjó og engar upplýsingar liggja fyrir um þætti sem gætu skipt máli svo sem áhrif á hafsbotninn. Ég mun beita mér fyrir frekari vinnu á þessu sviði og meðal annars láta reyna á hvort félagar okkar á öðrum norðurlöndum hafi áhuga á að koma að slíku starfi. Norðurlöndin eru samanlagt stærsti útflytjandi af fiski í heiminum og við ásamt öðrum norðurlöndum verðum að hafa frumkvæði í því að þróa aðferðir við mat á umhverfisáhrifum sjávarútvegs, sem taka á réttan hátt tillit til allra aðstæðna í sjávarútveginum sem máli skipta. Á okkur hvílir sú skylda að hafa frumkvæði vegna þess að annars getum við átt á hættu að umræðan og mat á umhverfisáhrifum verði leidd og aðferðir þróaðar, af öfgafullum umhverfissamtökum með fordóma í garð sjávarútvegsins. Slíkt gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan sjávarútveg og þjóðarhag.

Annað atriði þessu tengdt er að ákvarðanir um friðun hafsvæða hafa hingað til fyrst og fremst verið teknar á grundvelli samsetningar á fiski á einstökum svæðum. Hefur þá bæði verið horft til stærðar og tegundasamsetningar. Hins vegar vitum við ekki nægilega mikið um hvaða áhrif landslagið á botninum hefur varðandi viðgang fiskistofnanna. Hafrannsóknastofnun hefur hafið rannsókn á botninum í kjölfar þess að stofnunin eignaðist nýtt rannsóknaskip með sérhæfðum búnaði til slíkra rannsókna.

Nýverið skipaði ég nefnd sem hefur það hlutverk að skoða forsendur um friðun einstakra hafsvæða í víðu samhengi. Í störfum sínum mun nefndin skoða og skilgreina hvaða forsendur beri að leggja til grundvallar þegar teknar eru ákvarðanir um friðun viðkvæmra hafsvæða.

Góðir fundarmenn!

Vöxtur íslensks sjávarútvegs tengist nýjungum í greininni, ný störf verða til í tengslum við nýjungar í vinnslu og nýtingu sjávarafurða. Það var slík hugsun sem var höfð að leiðarljósi þegar sjávarútvegsráðuneytið ákvað að skipa nefnd um aukið virði sjávarfangs. Í framhaldi af niðurstöðum nefndarinnar var AVS sjóðurinn settur á fót og er það núna eitt af megin stefnumálum ráðuneytisins að auka enn frekar verðmæti þess sjávarfangs sem að landi berst. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn á síðasta ári samtals 74 milljónum króna. Í ár hefur sjóðurinn úr 120 m.kr. að spila og svo 200 m.kr. á næsta ári skv. fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Verkefnin sjóðsins eru af ýmsum toga en þau eru flokkuð upp í fiskeldi, gæði, líftækni, markaðssetningu og vinnslu. Mesta fjármagnið hefur farið í fiskeldið sem undirstrikar þá miklu gerjun sem er í þeim málaflokki.

Þróunarvinna tekur tíma og því er kannski vart við því að búast að við sjáum mikinn árangur af starfi AVS fyrst til að byrja með. Engu að síður erum við þegar farin að uppskera í kjölfar úthlutana úr sjóðnum. Í því sambandi er skemmtilegt að segja frá því að AVS styrkti áhugavert verkefni varðandi nýtingu á tegund sem flestir héldu að væri ónýtanleg en þetta er „Vinnsla á íslenskum sæbjúgum". Nú hefur verið komið á fót fyrirtæki um þetta verkefni sem er með aðsetur á Grundarfirði. Sæbjúgu hafa aldrei verið nýtt hér á landi áður en þessi dýrategund hefur verið þekkt matvara meðal margra Asíuþjóða. Eins og gefur að skilja þá þarf að mörgu að huga við veiðar og vinnslu nýrra tegunda, en framvindan í verkefninu hefur verið góð, búið að senda fjölda sýnishorna til kaupenda erlendis og hafa viðbrögðin verið jákvæð þó auðvitað þurfi sífellt að lagfæra þætti í vinnslunni til að mæta sérstökum óskum kaupenda. Erlenda vinnslutækni var ekki hægt að yfirfæra að öllu leyti þar sem íslensku sæbjúgun eru að nokkru leyti frábrugðin þeim sem þegar er verið að vinna. Nú er að baki mikil þróunar- og markaðsvinna og er verkefnisstjóri verkefnisins bjartsýnn á að góður grundvöllur sé fyrir nýtingu sæbjúgna þó enn sé að mörgu að hyggja. En vonandi verður innan tíðar hægt að tala um að ný tegund hafi bæst í flóru íslenskra sjávarafurða.

Þá hefur Skaginn hf. á Akranesi hefur nýtt sér rannsóknaniðurstöður Rf við hönnun nýrrar vinnslulínu sem vakið hefur töluverða athygli. Þetta verkefni var og er styrkt af AVS og er eitt dæmi af mörgum um mjög jákvætt samstarf rannsóknastofnunar og fyrirtækis.

Annað dæmi um verkefni sem við sjáum nú þegar að er að skila sér í auknum tekjum inn í sjávarútveginn er verkefni sem unnið er af Marorku og er hönnun á búnaði til að draga úr orkunotkun og mengun fiskiskipa. Verkefnið fékk ítarleg umfjöllun í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu.

Bæði þessi verkefni, þ.e. AVS verkefnið og öryggi útflutningstekna snerta afkomu þjóðarbúsins, útgerðarinnar og síðast en alls ekki síst sjómanna. Þetta sýnir okkur jafnframt hversu nauðsynlegt það er að fara nú að beina umræðu um sjávarútvegsmál í jákvæðan farveg.

Að lokum við ég segja að ég er ánægður með að niðurstaða skuli hafa fengist í viðræðum sjómanna og útvegsmanna, en nú er málið í dómi sjómanna og mun hafa sinn gang. Mín framtíðarsýn er sú að farið verði að horfa til sjávarútvegs í víðara samhengi og allir sem vinna í tengslum við sjávarútveg snúi bökum saman og vinni að framgangi hans útgerðarmönnum, sjómönnum og þjóðinni allri til heilla.

Ég vil þakka Sjómannasambandinu, formanni þess og forsvarsmönnum gott samstarf og óska jafnframt eftir góðu samstarfi um ókomna tíð.

Takk fyrir.

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira