Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. nóvember 2004 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Ráðstefna Kauphallar Íslands 30. nóvember 2004

Er hlutabréfamarkaðurinn vannýtt auðlind?

Fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi: Innlendar og erlendar, 30. nóv. 2004

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur frá því að hann tók til starfa fyrir um 12 árum verið mikilvægur í þróun íslensks viðskiptalífs og átt stóran þátt í því að fjármálamarkaðurinn hefur þróast með jafn jákvæðum hætti og raun ber vitni. Fyrirtæki í flestum geirum atvinnulífsins hafa haft hag af því að vera inni á markaðnum, sum til lengri tíma en önnur skemur. Saga sjávarútvegsfyrirtækja á markaðnum er býsna blómleg og hefur hann án vafa stuðlað að jákvæðri þróun í greininni og öfugt. Á þeim tíma sem almennur hlutabréfamarkaður hefur starfað þá hafa sjávarútvegsfyrirtæki skipað þar stóran sess og átt mikinn þátt í að móta hann á þroskaskeiði sínu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hlutabréfamarkaðurinn mun áfram vera jákvæður fyrir íslenskt viðskiptalíf og fyrirtækin og fjárfestar komi til með að geta nýtt sér hann enn frekar, ekki síst fyrirtæki í sjávarútvegi og svara því hiklaust játandi þegar spurt er hvort hlutabréfamarkaðurinn sé vannýtt auðlind.

Fjölmargar ástæður liggja að baki því að sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið afskráð úr Kauphöllinni á undanförnum árum og er það ágætlega rakið í skýrslu þeirra félaga Friðriks Más og Stefáns. Ég er í sumum tilfellum sammála þeim en það eru þó nokkur atriði sem ég vil líta nánar á. Það er í fyrsta lagi óvissa um stjórnkerfi fiskveiða, í öðru lagi stærðartakmarkanir þegar horft er til kvótaeignar og í þriðja lagi erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi.

Ég er ósammála skýrsluhöfundum í umfjöllun þeirra um óvissu um stjórn fiskveiða en í skýrslunni segir á þá leið að: Stöðugleiki og öryggi í ytra umhverfi er ein meginforsenda góðs rekstrarárangurs. Sú viðvarandi óvissa um jafn mikilvæg mál eins og stjórnkerfi fiskveiða er fyrir sjávarútveg skapar óvissu sem hefur áhrif á fjárfesta. Hún leiðir til minni áhuga auk þess sem hún hækkar mat þeirra á áhættu fyrirtækjanna. Þessi óvissa hefur því leitt til minni áhuga fjárfesta á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Óvissan hefur ekki verið um stefnu stjórnvalda. Breytingar á fyrirkomulagi fiskveiða frá því að það var tekið upp árið 1984 hafa almennt verið í eina átt, að festa fyrirkomulagið í sessi. Markvisst hefur verið unnið að því að loka fyrir smugur til veiða frjálst og skapa samræmi í veiðunum. Þá hafa frá árinu 1984 hafa farið fram fimm kosningar og fjórar frá breytingunum sem Alþingi samþykkti árið 1990 og hefur fjórflokkurinn allur verið í ríkisstjórn til lengri eða skemmri tíma á tímabilinu frá 1984. Síðustu árin hafa forystumenn innan stjórnarflokkanna allir talað á þann veg að ekki yrði farið í neinar kollsteypur á fyrirkomulagi fiskveiða heldur myndu allar breytingar taka mið af því sem nú er. Í þeim nefndum sem skipaðar hafa verið í þeim tilgangi að auka sátt um stjórn fiskveiða hafa setið fulltrúar stærstu stjórnmálaflokkanna. Það er lengi búið að liggja fyrir mikill þrýstingur á að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greiddu þjóðinni veiðigjald í einhverju formi. Ekki er hægt að saka stjórnvöld um að hafa stokkið til í þeim efnum. Niðurstaðan um veiðigjaldið fékkst eftir mikla og ítarlega umfjöllun eftir þriggja ára vinnu Auðlindanefndar og Endurskoðunarnefndarinnar.

Síðastliðið vor var svo lokaskrefið á Alþingi stigið í þá átt að gera fiskveiðistjórnunina heildstæða þar sem hún mun alfarið byggja á aflamarki og dagakerfið endanlega lagt af. Þetta gerir veiðistjórnunina ekki bara markvissari heldur verður miklu meiri samhljómur hjá öllum þeim sem starfa í greininni. Ef þessi ákvörðun Alþingis er ekki einmitt ákvörðun sem er til þess fallinn að festa kerfið í sessi þá veit ég ekki hvaða ákvörðun getur haft slík áhrif. En fjármaálamarkaðurinn virtist ekki taka eftir þessu og ég minnist þess ekki að fulltrúar eða álitsgjafar fjármálafyrirtækja hafi minnst á þetta og það á ég í ljósi þessarar umræðu erfitt með að skilja.

Ef markaðurinn hefur metið það svo að óvissa ríki um kerfið þá er það vegna þess að hann hefur ekki verið að horfa til þess sem gert hefur verið á undanförnum árum heldur hlustað eftir úrtöluröddum þeirra sem eru í stjórnarandstöðu og smáflokkaframboðum sem gera út á það að vera gegn núverandi stjórnkerfi fiskveiða. Ef rétt væri, sem ég tel ekki, væri þetta undarlegt mat markaðarins, ekki síst í ljós sögunnar

Annað atriði sem ég vil skoða nánar og nefnt er sem ástæða fyrir fækkun fyrirtækja í Kauphöllinni er takmörkun á stækkun þeirra þegar horft er til kvótaeignar. Sjálfur hef ég aldrei verið sérstaklega hrifin af því og get tekið undir það að kvótaþakið takmarkar samþjöppunar- og þar með vaxtamöguleika útgerðarfyrirtækja. En kvótaþakið er einn liðurinn í því að ná sátt um lögin um stjórn fiskveiða við þjóðina. Takmörkunin sem slík kemur þó ekki í veg fyrir ýmiskonar aðra hagræðingu sem ekki er háð kvótaeigninni. Einkenni íslenskra fiskvinnslufyrirtækja er að þau eru tiltölulega smá en það er ekkert sem kemur í veg fyrir að sjávarútvegsfyrirtæki nái fram meiri hagræðingu í vinnslunni. Á því sviði eru engar takmarkanir enda tel ég víst að mikil hagræðing eigi eftir að verða á þessu sviði. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að tvær eða fleiri útgerðir vinni saman í fiskvinnslu. Ýmsar þjóðir hafa til dæmis skilið á milli útgerðar og vinnslu, annað hvort með eignarhaldi eða lögum um aðskilnað milli vinnslu og útgerðar í rekstrinum. Aðrar hafa sett löndunarskyldur á fyrirtæki og í Alaska hefur verið settur fiskvinnslukvóti á sjávarútvegsfyrirtæki til viðbótar við kvótaþak. Við höfum ekki sett skorður af þessu tagi heldur sett þak á kvótaeignina. Þá eru örugglega ýmsir aðrir þættir sem snúa að rekstri fyrirtækjanna sem bjóða upp á heilmikla möguleika á frekari samvinnu í þeim tilgangi að auka arðsemi enn frekar og erum við þegar farin að sjá þessa þróun í fyrirkomulagi sölumála hjá útgerðarfyrirtækjum.

Ágætu fundarmenn!

Friðrik og Stefán telja í skýrslu sinni að takmarkanir á erlendum fjárfestingum í útgerð og vinnslu sjávarafurða séu greininni fjötur um fót og takmarki vaxtamöguleika hennar, æskilegt væri að aflétta banni við beinum fjárfestingum í sjávarútvegi en þess í stað mætti setja reglur um hámarkseign útlendinga.

Ég er ekki sammála þessu. Fjárfestingarmöguleikar í íslenskum sjávarútvegi eru umtalsverðir þrátt fyrir að það mætti ætla af umræðunni að dæma að þeir væru nánast engir. Eignarhlutur erlendra aðila getur farið allt upp í 49,9 prósent í gegnum hlutdeildarfélög. Vitað er að útlendingar hafa fjárfest í sjávarútvegsfyrirtækjum hér á landi en ekki er vitað í hve miklum mæli það er. Ekki verðum við heldur vör við mikinn þrýsting erlendis frá. Starfsfólk sjávarútvegsráðuneytisins er í miklum erlendum samskiptum og hvorki það, né ég, hef fundið fyrir þrýstingi erlendra fyrirtækja um að breyta reglum um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi. Enda eru sjávarútvegsfyrirtæki ekki í stórum stíl á hlutbréfamörkuðum erlendis.

Því sjónarmiði hefur verið haldið á loft að það sé óeðlilegt að takmarka fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi á Íslandi m.a. í ljósi þess að okkur er heimilt án takmarkana að fjárfesta í ríkjum Evrópusambandsins. Sjálfur er ég eindregið þeirrar skoðunar að rétt sé að takmarka erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi. Það þarf að tengja auðlindina við þjóðina í landinu svo hún njóti arðsins í sem ríkustum mæli. Ég var ekki alls fyrir löngu fenginn til þess að fara fyrir viðskiptasendinefnd sem fór á vegum Útflutningsráðs Íslands til Seattle og Alaska. Þá sá ég það svart á hvítu að þrátt fyrir hina gríðarlegu útgerð sem stunduð er í Alaska þá eru henni allri stjórnað frá Seattle. Það væri ekkert því til fyrirstöðu að stjórna útgerð við Íslandsstrendur annars staðar frá. Þetta getum við líka séð ef við horfum til íslenskra útgerða sem stunda veiðar við lönd á fjarlægum slóðum og stendur mér þá kannski næst að horfa til hinnar öflugu útgerðar Sjólaskip, sem stjórnar veiðum sínum við Máritaníu frá Hafnarfirði.

Þá er ekki hægt að líkja hagsmunum okkar saman við hagsmuni Evrópusambandsins. Jafnvel þótt sjávarútvegur sé mikilvægur á einstökum landssvæðum sambandsins, þá er ekki hægt að líkja saman mikilvæginu ef horft er annars vegar til hagkerfis Evrópusambandsins og hins vegar til þess íslenska. Þessu til viðbótar bætist svo við að viðskiptaumhverfi fyrirtækja í sjávarútvegi er gjörólíkt þar sem sjávarútvegur á Íslandi nýtur ekki ríkisstyrkja. Þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi þá stefnu að draga úr styrkjum til sjávarútvegsins þá hafa þeir ekki verið að vinna í anda þeirrar stefnu, heldur þvert á móti því þeir hafa verið að aukast. Hvað varðar lönd utan Evrópusambandsins þá er það algengt að hömlur séu á fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi þannig að Ísland er alls ekkert eyland í þessum efnum. Í Bandaríkjunum er hámarksfjárfesting erlendra aðila einungis 25 % og í Noregi eru hún 40% svo dæmi séu tekin.

Með þessu er ég ekki að segja að sú aðferð sem við notum nú til að takmarka áhrif erlendra aðila sé sú eina rétta um aldur og ævi. Ég tel þó að ekki sé tímabært að breyta reglum um erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi. Sennilega myndu fáar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða valda meiri pólitískri ólgu en rýmkun á heimildum erlendra aðila til að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Þá er ég ekki einungis að vísa til viðbragða stjórnarandstöðu heldur tel ég að þetta snerti marga Íslendinga mjög djúpt í ljósi sögunnar. Margir myndu líta á heimild til beinna fjárfestinga útlendinga í íslenskum sjávarútvegi sem afsal á yfirráðum yfir auðlindinni. Slíkt myndi valda ósætti og vinna gegn stöðugleika í stjórn fiskveiða en Friðrik Már og Stefán leggja einmitt mikið upp úr stöðugleika og öryggi. Eins er ekki skynsamlegt að gera miklar breytingar á meðan fyrirtækin eiga undir högg að sækja á verðbréfamarkaðnum.

Takmörkun erlendra fjárfestinga í sjávarútvegi hefur ekki komið í veg fyrir útrás í greininni. Reyndar er sjávarútvegurinn frumkvöðull í íslenskri útrás ef við horfum til sögu sölufyrirtækja á sjávarafurðum. En sjávarútvegsfyrirtækin hafa sjálf verið að fikra sig áfram í útrásinni og á haustdögum voru fréttir af kaupum Samherja á fyrirtækjum í Evrópu og nú síðast af fjárfestingum GPG í Noregi en fyrirtækið hóf vinnslu þar fyrir nokkru síðan og hefur verið að vaxa hratt. Þá er Bakkavör án efa eitt áhugaverðasta útrásarfyrirtæki undanfarinna ára og undirstrikar hvað er hægt að gera ef stjórnendur fyrirtækja eru nógu víðsýnir og duglegir að nýta sér tækifærin.

Góðir fundarmenn!

Sjávarútvegsfyrirtækjum hefur vissulega fækkað í Kauphöllinni á undanförnum árum, framhjá því verður ekki litið. Þó ég sé ekki sammála skýrsluhöfundum í þeim atriðum sem ég hef rakið hér að framan þá get ég verið sammála þeim um annað. Aðgangur að lánsfé er orðinn miklu meiri og vextir hafa lækkað. Æskilegt væri að arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja væri meiri og vöxtur meiri. Þá hefur það einkennt ýmis fyrirtæki sem farið hafa af markaðnum að þau eru hrædd við yfirtöku. Þetta leiðir hugann að því hvers eðlis hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi er. Getur það verið að hann sé fyrst og fremst drifinn af svokölluðum hetjufjárfestum sem eingöngu horfa til svo kallaðra vaxtafyrirtækja og sjá ekki nein tækifæri í lykilfyrirtækjum í atvinnulífinu eins og sjávarútvegsfyrirtækin vissulega eru. Af hverju sjá menn ekki vaxtamöguleikana í sjávarútveginum? Ég tel gríðarlega mikla möguleika í því að auka verðmæti sjávarfangs og færa okkur ofar í hinni svo kölluðu virðiskeðju. Af hverju sjá fjárfestar ekki þessa möguleika. Getur það verið af því að þar erum við frumkvöðlarnir? Við tökum áhættuna á okkar eigin hugmyndum en eru ekki að vinna með hugmyndir sem aðrir eru búinir að taka áhættuna á.

En hvað sem því öllu líður þá er ég ekki í vafa um að sjávarútvegurinn er mikilvægur og hefur verið mikilvægur í þroskaferli hlutafjármarkaðarins. Jafnframt tel ég að hlutabréfamarkaðurinn hafi gert margt gott fyrir sjávarútvegsfyrirtækin og þróað og þroskað rekstur fyrirtækjanna. Rétt eins og nauðsynlegt var að stofna til Verðbréfaþingsins á sínum tíma þá getur afskráning sjávarútvegsfyrirtækjanna verið eðlilegt ferli í þróun fyrirtækjanna. Mín spá er sú að þó að afskráning hafa hentað ýmsum sjávarútvegsfyrirtækjum nú síðustu ár þá munu mörg þeirra skrá sig í Kauphöllina á ný þegar fram líða stundir. Með vísan til þess sem ég sagði hér á undan varðandi vaxtamöguleika í sjávarútvegi þá er það niðurstaða mín að sjávarútvegur sé ekki síður en hlutabréfamarkaðurinn hin vannýtta auðlind.

 

 

 

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira