Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. desember 2004 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Samkeppnishæfni í sjávarútvegi

Ræða Árna M. Mathiesen á Hótel KEA 14. september 2004 um verkefnið "samkeppnishæfni í sjávarútvegi".

Ágætu fundarmenn!

Alþjóðleg viðskipti eru ein af megin undirstöðum íslenska efnahagskerfisins. Við byggjum afkomu okkar að óvenju stórum hluta á innflutningi og útflutningi í samanburði við önnur lönd vestrænna lýðræðisríkja. Það er því mikilvægt að samkeppnishæfni Íslands sé sterk. Í niðurstöðu rannsóknar sem World Economic Forum (WEF) birti í október þá erum við í 10 sæti af 104 löndum sem rannsóknin náði til sem hlýtur að teljast mjög góð niðurstaða.

Önnur rannsókn af sama toga, sem var kynnt af Háskólanum í Reykjavík, sýndi niðurstöður skýrslu IMD viðskiptaháskólans í Lausanne um samkeppnishæfni þjóða (World Competitiveness Yearbook 2004). Samkvæmt skýrslunni er samkeppnishæfni Íslands sú hæsta meðal Evrópulanda og sú fimmta hæsta á heimsvísu. Löndin sem koma á undan okkur eru Bandaríkin, Singapore, Kanada og Ástralía. Skýrslan sýnir að rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur batnað heilmikið á undanförnum áratug og má sjá þess merki víða í íslensku efnahagslífi: Lífskjör eru betri, íslensk fyrirtæki hafa eflst og fært út kvíarnar og fjölbreytni í íslensku atvinnulífi hefur aldrei verið meiri. Mörg íslensk útrásarfyrirtæki þekkja nú starfsumhverfi fyrirtækja í öðrum löndum en halda engu að síður móðurstarfseminni hérlendis og er ástæðan án efa eðli og umgjörð íslenska viðskiptaumhverfisins. Því vilja þau heldur ekki flytja inn þá umgjörð skattumhverfis og skrifræðis sem víða er til staðar í samkeppnislöndum okkar.

Staða okkar getur hins vegar breyst mjög hratt ef stjórnvöld vinna ekki stöðugt að því að vera í fremstu röð. Í gögnum frá IMD er birtur listi yfir þau atriði þar sem hallar á Ísland í samanburði við aðrar þjóðir. Stofnunin bendir á ýmis atriði sem mikilvægt er að endurskoða hérlendis og stuðla að því að Ísland nái enn betri árangri. Þar eru m.a. nefnd atriði eins og eignarskattar og óbeinir skattar. Þá er þess sérstaklega getið að á Íslandi eru vinnudeilur algengar. Á hinn bóginn er stjórnkerfið á Íslandi talið gegnsætt og þar hefur ríkt stöðugleiki undanfarin ár. Til að geta staðið undir sífelldum kröfum um bætt lífskjör, verður að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs enn frekar.

Það er því ánægjulegt að margt skuli nú þegar benda til þess að Ísland færist ofar á listann næstu árin. Fyrir liggur ákvörðun um að fella niður eignaskatta og skipaður hefur verið starfshópur sem hefur það hlutverk að endurskoða matarskattinn. Þá hefur verið brotið blað í íslenskri atvinnusögu ef horft er 10 til 20 ár aftur í tímann þar sem útvegsmenn og sjómenn hafa náð samningi sem nú býður dóms hins almenna félagsmanns.

Sjávarútvegur hefur um langt skeið verið okkar mikilvægasta útflutningsatvinnugrein og mun svo verða um fyrirsjáanlega framtíð. Vægi hans muni þó væntanlega halda áfram að minnka sem er af hinu góða í ljósi þess að ef eggjakörfurnar eru fleiri ætti stöðugleiki efnahagslífsins að vera meiri. Alþjóðlegar rannsóknir á borð við þær sem ég nefndi hér að framan ættu að gefa nokkuð góða heildarmynd af stöðu mála en þær gefa ekki skýra mynd af stöðu sjávarútvegsins.

Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja verður sífellt flóknari og á alþjóðavæðingin sinn þátt í því. Stjórnendur fyrirtækja þurfa sífellt að horfa til reksturs fyrirtækja sinna í víðara samhengi. Samkeppni við önnur lönd snýst ekki eingöngu um nokkur skilgreind lönd í nágrenni við Ísland heldur er heimsmarkaðurinn okkar heimamarkaður eins og orðhagur maður i sjávarútvegi sagði. Það er því mikilvægara nú en nokkru sinni áður að ekki halli á möguleika íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til að standa sig í samkeppninni. Íslensk stjórnvöld munu ekki elta önnur lönd í niðurgreiðslum eða annarri álíka meðgjöf með greininni. Styrkur íslensks sjávarútvegs liggur í því að við höfum ekki farið slíka leið. Það styrkir greinina í samkeppni við aðra að hún sé rekin á viðskiptalegum forsendum. Slíkt hefur gefið okkur forskot sem ekki er sjálfgefið að við höldum í framtíðinni þar sem sífellt fleiri ríki eru að endurskoða stjórnkerfi fiskveiða með það að markmiði að færa greinina til hefðbundinna viðskiptahátta. Slíkar breytingar þýða harðari samkeppni í sjávarútvegi.

Til þess að við getum gert okkur grein fyrir hver staða okkar er í samanburði við önnur lönd til skemmri og lengri tíma hef ég ákveðið að fara verði ýtarlega yfir samkeppnishæfni okkar í sjávarútvegi. Verðalagsstofa skiptaverðs hér á Akureyri hefur fengið það verkefni í hendur og hefur stýrihópur verkefnisins þegar verið skipaður. Í honum sitja; Valtýr Þ. Hreiðarsson fulltrúi Verðlagsstofu skiptaverðs, Eyjólfur Guðmundsson fulltrúi Háskólans á Akureyri og Vilhjálmur Egilsson fulltrúi Sjávarútvegsráðuneytisins. Verkefnastjóri er Ottó Biering Ottósson starfsmaður Verðlagsstofu skiptaverðs.

Það er von mín að verkefnið geti varpað ljósi á þau atriði sem mestu máli skipta til þess að sjávarútvegur fái ekki aðeins staðist samkeppni heldur hvað gera má til að greinin öðlist frekara samkeppnis forskot. Þá þarf líka að sýna hvernig samkeppni sjávarútvegsins birtist gagnvart öðrum greinum matvæla- og fóðuriðnaðarins. Vonast ég til þess að verkefninu verið lokið á næsta ári.

Í fyrstu mun megin vinnan snúast um það að ná utanum aðferðarfræðina og ákveða hvaða mælikvarðar skuli lagðir til grundvallar. Slíkt er flókið, jafnvel þótt hér á landi hafi verið unnar ýtarlegar rannsóknir í þessa veru. Stefnan er svo að í framtíðinni muni mat á samkeppnishæfni grundvallast á þessum tilteknu mælikvörðum og fundin verður út eins konar samkeppnisvísitala fyrir sjávarútveginn í hinum ýmsu löndum og hún gefin út með reglulegu millibili.

Annað verkefni þessu tengt sem nú er unnið að er starf nefndar sem hefur fengið það hlutverk að gera úttekt á starfsumhverfi sjávarútvegsins og skoða hvort hægt sé að minnka álögur, einfalda og samhæfa ýmsa þjónustu og eftirlit sem ríkið innir af hendi í þeim tilgangi sérstaklega að lækka rekstrakostnað og gera kerfið skilvirkara.

Bæði þessi verkefni eru í takt við þær breytingar sem hafa verið að eiga sér stað á sjávarútvegsráðuneytinu undanfarin ár, því hefur verið breytt úr nokkurs konar kvóta eða fiskveiðiráðuneyti yfir í það að vera ráðuneyti sjávarútvegsmála í víðum skilningi. Slík nálgun, hvort sem í hlut eiga stofnanir ríkisins eða fyrirtækin, er mikilvæg í þeirri viðleitni að efla og þróa íslenskan sjávarútveg. Vöxtur hans tengist ekki síst nýjungum í greininni þar sem ný störf verða til í tengslum við nýjungar í vinnslu og nýtingu sjávarafurða. Það var slík hugsun sem var höfð að leiðarljósi þegar sjávarútvegsráðuneytið ákvað að skipa nefnd um aukið virði sjávarfangs. Í framhaldi af niðurstöðum nefndarinnar var AVS sjóðurinn settur á fót. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn á síðasta ári samtals 74 milljónum króna. Í ár hefur sjóðurinn úr 120 m.kr. að spila og svo 200 m.kr. á næsta ári skv. fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Verkefni sjóðsins er af ýmsum toga en þau eru flokkuð upp í fiskeldi, gæðum, líftækni, markaðssetningu og vinnslu. Mesta fjármagnið hefur farið í fiskeldið sem undirstrikar þá miklu gerjun sem er í þeim málaflokki.

Öryggi útflutningstekna er eitt þeirra nýju atriða sem ráðuneytið leggur sérstaka áherslu á. Við getum velt því fyrir okkur hvað myndi gerast ef ekki yrði hægt að selja íslenskan fisk úr landi. Augljós og áþreifanleg afleiðing sem myndi strax birtast okkur er hrun útflutningstekna þjóðarinnar. Það er því mikilvægt að horfa til þess hvernig við getum forðað okkur frá slíkum áföllum. Einn líklegasti orsakavaldur áfalls af þessum toga væri nýjar kröfur eða umræður um að efnainnihald fisks frá Íslandi væri skaðlegt. Ekki er hægt að vita hvenær fyrirtækjum, opinberum stofnunum eða öfgasamtökum dettur í hug að setja fram nýjar reglur um efnainnihald eða hræða almenning með röngum upplýsingum um skaðsemi efnainnihalds sjávarfangs. Það er því grundvallaratriði þegar fjallað er um öryggi útflutningstekna að hafa á reiðum höndum upplýsingar um efnainnihald fisksins sem veiddur er af íslenska fiskiskipaflotanum.

Við munum öll eftir mjölfárinu á sínum tíma þar sem minnstu munaði að bannað yrði að nota fiskmjöl í allt dýrafóður. Með því að koma hratt og örugglega á framfæri upplýsingum í samstarfi við önnur ríki tókst að koma í veg fyrir algert bann, en því miður var engu að síður bannað að nota fiskmjöl í fóður jórturdýra sem hafði mjög slæm áhrif á markaðinn. Mjölfárið sýnir okkur að ef upplýsingar eru ekki á reiðum höndum, þá stöndum við varnarlaus. Neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum getur á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd afurða sem tekið hefur áratugi að byggja upp. Útflutningstekjurnar eru því háðar því að við getum sannað öryggi sjávarafurða með hliðsjón af þeim lögum og reglugerðum sem gilda á hverjum tíma svo og kröfum markaðarins. Gildir þar einu hvort um er að ræða ferskan fisk, unnar afurðir eða fiskeldi.

Ég beitti mér því fyrir úttekt á málinu og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins skilaði af sér skýrslu sem kynnt var í sumar og hægt er að nálgast á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins. Í henni koma fram leiðir til að tryggja öryggi útflutningstekna. Mikilvægt er að upplýsingasöfnun um óæskileg efni í sjávarafurðum Íslendinga sé gerð á skipulegan hátt og tryggt að á hverjum tíma séu til nýjar upplýsingar um efnainnihald þeirra. Megin niðurstöður þeirra mælinga sem nú liggja fyrir sýna að mengunarefni í íslensku sjávarfangi eru í langflestum tilvikum langt undir þeim mörkum sem sett hafa verið. Til þess að tryggja frekari uppbyggingu á þessu sviði er í fjárlagafrumvarpi næsta árs gert ráð fyrir 30 milljónum sem sérstaklega eru ætlaðar í þetta verkefni. Viðbótar mælingar á heilnæmi sjávarfangs munu fyrst og fremst fara fram í nýrri aðstöðu Rf í Borgum, rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri sem nýlega var tekið í notkun. Þannig hefur markvisst verið unnið að því að styrkja þennan þátt í öryggi útflutningstekna íslenskra sjávarafurða.

Umræða sú sem nú er að þróast um umhverfismat á áhrifum sjávarútvegs snýr einnig að öryggi útflutningstekna. Ráðuneytið og stofnanir þess eru þegar farin að undirbúa sig fyrir frekari umræðu um umhverfisáhrif fiskveiða. Ísland ætti að hafa frumkvæði í því að þróa aðferðir við mat á umhverfisáhrifum sjávarútvegs, sem taka á réttan hátt tillit til allra aðstæðna í sjávarútveginum sem máli skipta. Á okkur hvílir sú skylda að hafa frumkvæði, annars getum við átt á hættu að umræðan og mat á umhverfisáhrifum verði leidd og aðferðir þróaðar, af öfgafullum umhverfissamtökum með fordóma í garð sjávarútvegsins. Slíkt gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan sjávarútveg og þjóðarhag. Við höfum séð hvernig við gátum, með því að hafa frumkvæði að samstilltu átaki með hinum Norðurlandaþjóðunum, haft mikil áhrif á alþjóðlegra umræðu um umhverfismerkingar. Nú bendir allt til þess að FAO muni leggja línur sem ætti að tryggja hlutleysi umhverfismerkinga.

Góðir fundarmenn, eins og ég hef rakið, hafa ný og mikilvæg verkefni verið að bætast við hjá sjávarútvegsráðuneytinu. Breytingarnar hafa orðið til þess að efla tengsl ráðuneytisins við þennan landshluta og Akureyri alveg sérstaklega. Það er vel við hæfi að verkefni sem lýtur að því að skoða samkeppnishæfni íslenska sjávarútvegsins sé unnið í nánum tengslum við þann háskóla landsins sem mesta áherslu hefur lagt á sjávarútveg og tvö af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Slíkt styrkir verkefnið til muna. Einnig hafa breytingar á starfsemi Rf orðið til að efla rannsóknastarfsemi stofnunarinnar hér í bæ og er hið nýja rannsóknahús, Borgir, til vitnis um það hversu mikla áherslu ríkisstjórnin leggur á starfsemi Háskólans á Akureyri. Efling hans um leið og innviðir einstakra stofnana hér í bæ eru styrktir og þekking hleðst upp gefur nýja möguleika og ný sóknarfæri í atvinnulífi á þessu svæði. Ekki vegna þess að verkefni eru flutt með handafli til bæjarins heldur vegna þess að aðstæður hér skapa eftirspurn eftir því að láta vinna þau hér.

Takk fyrir!Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira