Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. mars 2005 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Fiskurinn og framtíðin

Ávarp Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á ráðstefnunni Fiskurinn og framtíðin, haldin á Nordica Hotel, 4. mars 2005.


Góðir gestir!

Sá merkisatburður átti sér stað þann 6. mars 1905 að fyrsti togarinn í eigu Íslendinga sigldi inn í Hafnarfjarðahöfn. Í tilefni þess að nú eru liðin eitt hundrað ár frá þessum atburði ákvað sjávarútvegsráðuneytið að efna til þessarar ráðstefnu; Fiskurinn og framtíðin, ráðstefnustjóri verður Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við HÍ og mun hún taka við hér strax á eftir. Markmiðið með ráðstefnunni er að fjalla um stöðu sjávarútvegs á Íslandi og framtíð íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum. Eins og ég sagði á útrásarráðstefnu sjávarútvegráðuneytisins fyrir tæpu ári síðan þá hafa áherslur og verkefni ráðuneytisins verið að breytast mjög mikið. Lengi vel voru velflest verkefni tengd fiskveiðunum en nú nær starfsemin yfir alla þætti sjávarútvegs og hefur hagsmunagæsla gagnvart alþjóðasamfélaginu sífellt mikilvægara hlutverki að gegna. Við lítum því á það sem hlutverk okkar í ráðuneytinu að ýta undir umfjöllun um stöðu sjávarútvegsins í víðu samhengi og var útrásarráðstefnan liður í því rétt eins og þessi ráðstefna hér í dag.

Undirstöður íslensks efnahagslífs verða sífellt fleiri og öflugri þar sem íslenskt viðskiptalíf blómstrar sem aldrei fyrr. Atvinnugreinum, sem ekki voru burðugar eða fyrirferðamiklar fyrir aðeins nokkrum árum síðan, hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu árin og haft það í för með sér að staða sjávarútvegsins í efnahagskerfi þjóðarinnar er gjörbreytt þrátt fyrir að hafa ekki dregist saman. Sjávarútvegurinn ber ekki lengur höfuð og herðar yfir aðrar atvinnugreinar með þeim hætti að þær þurfi að sífellt að laga sig að stöðu hans. Nú er svo komið að sjávarútvegurinn þarf í ríkari mæli að laga sig að öðrum þáttum atvinnulífsins.

Umhverfi sjávarútvegsins hefur jafnframt breyst að mörgu öðru leyti. Sífellt er verið að gera meiri kröfur til greinarinnar, bæði af hendi hins opinberra aðila svo og ýmissa samtaka víða um heim. Í sumum tilfellum er um öfgasmtök að ræða sem ekki taka rökum. Þá breytast kröfur kaupenda og neytenda sífellt og verða meiri og flóknari. Greinin þarf að geta svarað þessu og brugðist við með réttum hætti. Ég tel að eins og staðan er nú að þá sé hún að mörgu leyti vel í stakk búin til þess. Þrátt fyrir að ég hafi dregið fram ógnanir sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir hér að framan þá hefur ýmislegt í umhverfi hans skapað ný tækifæri til sóknar og marka ákveðin tímamót. Átök innan greinarinnar og átök milli hennar og þjóðarinnar eru ekki þau sömu og áður. Vil ég nefna þrjú atriði sem ég tel að verði til þess að meiri sátt verði um sjávarútvegsmálin og greininni verði þar með gert kleift að einbeita sér betur að rekstri fyrirtækjanna.

Í fyrsta lagi þá hafa fulltrúar sjómanna og útvegsmanna náð kjarasamningi sín í milli og er það í fyrsta skipti í um 10 ár þar sem öll aðildarfélög sjómanna og útvegsmanna eru með samninga sín á milli án þess að ríkisvaldið komi þar að. Þetta er mjög mikilvægt þar sem spenna á milli þessara aðila dregur úr krafti til annarra verka. Þá er fiskveiðistjórnunarkerfið orðið heildstætt þar sem sem nú er einungis byggt á aflamarki og dagakerfið verið lagt niður. Það er því búið að setja niður deilur milli aðila sem hafa starfað í ólíkum kerfum. Síðast en ekki síst þá hefur þjóðinni verið rétt fram sáttahönd þar sem búið er að taka upp auðlindagjald. Allt þetta á að stuðla að því að greinin fái að starfa í friði og takast á við þau fjölmörgu og mikilvægu verkefni sem sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir.

Ég minnist þessara tímamóta hér í tengslum við tímamótin sem urðu þegar Íslendingar hófu togaraútgerð fyrir 100 árum síðan þegar Heimastjórnin var tekin við völdum og bjartsýni og áræðni blés þann byr sem í seglin þurfti. Í öðru bindi Sögu sjávarútvegsins á Íslandi eftir Jón Þ. Þór sem ber heitið; Uppgangsár og barningsskeið segir; "Íslendingar fengu heimastjórn árið áður en fyrsti togarinn var keyptur og hvarvetna blöstu við á þessum árum nýjungar í atvinnu og fjármálum. Með togaraútgerðinni hófst í raun nýtt skeið í íslenskri atvinnu- og hagsögu" (tilvitnun lýkur). Með tilkomu togaranna var stofnaður fjöldi útgerðarfyrirtækja sem urðu mörg hver stærri og öflugri en áður hafði þekkst og minna um margt á breytingarnar á atvinnulífinu sem við höfum verið að sjá hér á landi undanfarin ár. Að sama skapi þá treysti þetta nýja útgerðarform undirstöður þjóðarbúsins, ekki síst vegna þess að skipin gátu stundað veiðar sínar allan ársins hring og launakjör þeirra sem störfuðu í tengslum við útgerð breyttust mjög til batnaðar.

Góðir fundarmenn

Hlutverk stjórnvalda er fyrst og fremst að skapa sjávarútveginum vettvang og umgjörð sem gerir greinina ekki bara samkeppnishæfan heldur ýtir undir að hún sé fremst í sinni röð í heiminum. Það er stjórnvalda að búa til jarðveginn fyrir öflugt atvinnulíf og opna dyr þar sem það er mögulegt. Hér á landi eru það ekki stjórnvöld sem vinna fiskinn, markaðssetja fiskinn, kaupa togara eða annað sem þarf til þess að sækja og vinna fisk. Enda er það skýr stefna stjórnavalda á Íslandi að falla ekki í þá gryfju sem stjórnvöld víða annarsstaðar hafa fallið í að greiða niður sjávarútveginn. Fátt ef nokkuð myndi vinna greininni meira tjón. Frumkvæðið og krafturinn verður alltaf að koma frá fyrirtækjunum sjálfum. Það er von mín að ráðstefnan Fiskurinn og framtíðin sé innlegg í að sjávarútvegur á Íslandi haldi áfram að vera í fararbroddi á heimsvísu.

Ég segi ráðstefnuna; Fiskurinn og framtíðin setta.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira