Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. apríl 2005 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Rf fundur í Vestmanneyjum 5. apríl 2005

Ágætu fundarmenn!

 

Síðastliðin tvö ár hafa verið tími breytinga hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem hafa haft í för með sér nýjar áherslur á starfsemi útibúa stofnunarinnar víðs vegar á landsbyggðinni. Markvisst hefur verið dregið úr svo kölluðum þjónusturannsóknum sem stundaðar hafa verið um langt skeið. Ekki er hægt að segja að þessi áherslubreyting á starfseminni hafi verið óvænt í ljósi þess að einkaaðilar geta ráða við sífellt fleiri verkefni og það hefur aldrei verið markmið Rf að stunda rannsóknir í samkeppni við þá. Rf hefur í störfum sínum tekið tillit til þessarar þróunar og lagt mikið upp úr því að rekstrarlegur aðskilnaður sé á milli þjónusturannsókna og annarra rannsókna. Þjónusturannsóknir Rf hafa tekið mið af því að þær séu gerðar í sem mestum og bestum tengslum við þau sjávarpláss þar sem mest útgerð er stunduð. Margt bendir til þess að þau einkafyrirtæki sem nú hafa tekið þessar rannsóknir yfir fylgi sömu stefnu og byggi jafnframt á þeirri þekkingu sem þegar er til staðar hjá heimamönnum. Þetta höfum við séð hér í Vestmannaeyjum.

 

Samfara breyttum forsendum þjónusturannsókna Rf hefur verið mótuð sú stefna að efla rannsóknir útibúanna úti á landi og horfa til þeirra sérstöðu sem einstakir staðir hafa upp á að bjóða. Mikið er lagt upp úr góðri samvinnu við heimamenn því að það er auðvitað allra hagur að vel takist til. Ég hef lagt ríka áherslu á að stofnanir eins og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins eru ekki til fyrir sjálfa sig eða starfsfólk þess heldur fyrir fyrirtækin sem starfa í greininni. Það er því greinin sem á í samstarfi við Rf. að leggja línurnar í verkefnavali stofnunarinnar. Um leið hvílir sú ábyrgð á fyrirtækjunum að nýta sér þá samstarfsmöguleika sem stofnanir eins og Rf hafa upp á að bjóða. Íslensk fyrirtæki sem starfa í tengslum við sjávarútveg hafa yfirleitt ekki bolmagn til þess að stunda eigin rannsóknir en geta aukið mikið við þekkingu sína og greinarinnar allrar með samvinnu við Rf. Það er því nauðsynlegt að nýta starfsemi Rf til frekari sóknar í í sjávarútvegi.

 

Sjávarútvegsráðuneytið hefur í samstarfi við Rf þegar haldið tvo samskonar fundi og við höldum nú hér í Vestmannaeyjum þar sem nýjar áherslu útibúa hafa verið kynntar. Annar fundurinn var á Akureyri og hinn á Ísafirði. Sérstaða Eyjafjarðarsvæðisins liggur ekki aðeins í því að þar eru rekin tvö af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, heldur er sterk hefð fyrir öflugri matvælaframleiðslu á svæðinu og nokkur af stærstu matvælafyrirtækjum landsins starfandi þar. Á Ísafirði, eða öllu heldur norðanverðum Vestfjörðum, þykir þorskeldi sérstaklega hentugt og hafa heimamenn sýnt mikið frumkvæði á því sviði.

 

Hér í Vestmannaeyjum hefur Sigurður E. Vilhelmsson verið ráðinn sérfræðingur og verkefnisstjóri á sviði líftækni. Hann mun starfa við deild innan Rf sem ber heitið vinnsla og þróun. Sigurður er að leggja lokahönd á doktorsverkefni sitt og mun útskrifast frá læknadeild Háskóla Íslands. Hér í Eyjum verður lögð sérstök áhersla á að rannsaka áhrif efna úr sjávarfangi á starfsemi líkamans eins og til dæmis hjarta og kransæðasjúkdóma. Þá er verið að skoða hvernig nýta má nýjar tegundir og sjávarfang sem nú er nýtt, að takmörkuðu leyti, til þróunar á heilsufæði. Kjör aðstæður eru til slíkra rannsókna í Vestmannaeyjum þar sem hér eru miklar uppsjávarveiðar og aðstæður til þess að nálgast nýjar tegundir mjög góðar. Verkefni sem hér verða unnin tengjast því vel þeirri áherslu sem Rf hefur verið að leggja að undanförnu á nýtingu próteina úr uppsjávarafla og í því að auka verðmæti sjávarfangs með því að nýta prótein úr sjávarfangi.

 

Áður en þessi áherslubreyting á starfsemi Rf kom til hafði stofnunin tvö stöðugildi hér í Eyjum og var annað þeirra eyrnamerkt Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Eftir breytingarnar réði Heilbrigðiseftirlitið til sín starfsmanninn sem sinnti þeirra verkefnum hjá Rf. Jafnframt hefur verið stofnað fyrirtæki utanum þjónusturannsóknirnar hér á staðnum. Ráðning Sigurðar kemur því í raun sem viðbót við þau verkefni sem voru hér í Eyjum. Kosturinn við nýju stöðuna er sá að nú verða sóknarfæri útibúsins fleiri enda stefnum við að því að efla starfsemina hér. Árangur í þá veru veltur ekki síst á góðu samstarfi við fyrirtækin í Vestmannaeyjum.

 

Þá mun rannsóknastarf Rf í Eyjum hafa alla burði til þess að vera öflugur bakhjarl í átaki sjávarútvegsráðuneytisins í að auka virði sjávarfangs eða í AVS verkefninu svokallaða. Í tengslum við verkefnið hefur AVS sjóðurinn styrkt fjölda verkefna og eru sum þeirra þegar komin vel á legg. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta skipti árið 2003 samtals um 74 milljónum króna. Síðan hefur sjóðurinn verið að eflast jafnt og þétt. Á síðasta ári hafði hann 120 milljónir króna til ráðstöfunar og í ár eru 200 milljónir króna eyrnamerktar AVS sjóðnum. Verkefni sjóðsins eru flokkuð niður í fiskeldi, gæði, líftækni, markaðssetningu og vinnslu. Af þessu má sjá að möguleikar Vestmannaeyinga til þess að fá styrk til einstakra verkefna ættu að vera talsverðir.

 

 

Ágætu fundarmenn!

 

Í fundarherferð sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir í upphafi árs voru haldnir fundir um land allt þar sem framsögumenn voru þingmenn og ráðherrar flokksins. Sjálfur var ég á fjölmörgum slíkum fundum, meðal annars hér í Vestmannaeyjum. Víða voru atvinnumál fundarmönnum ofarlega í huga og töldu þeir nauðsynlegt að athuga hvort ekki væru mögulegt að ýta undir fjölgun og meiri fjölbreytni starfa á landsbyggðinni, meðal annars með því að fá fleiri opinber störf út á land. Var fólk þá ekki síst að horfa til rekstur stofnana eins og Fiskistofu þar sem stærsti hluti starfseminnar fer fram utan höfuðborgarsvæðisins. Eins og staðan er í dag er Fiskistofa einungis með aðstöðu  á tveimur stöðum utan Reykjavíkur, þ.e.a.s. á Akureyri og Ísafirði. Mér þótti því eðlilegt að skoða vel slíkar hugmyndir og í raun eðlilegt að starfsemi Fiskistofu tengdist landsbyggðinni með sterkari hætti.

 

Í kjölfarið ákvað ég að óska eftir því við Fiskistofu að útfærðar yrðu tillögur um það hvernig færa mætti veiðieftirlit með markvissum hætti út á land. Þær liggja nú fyrir og koma til framkvæmda á næstu fjórum árum. Það er því ánægjulegt að geta tilkynnt það hér á þessum fundi, um leið og skýrt er frá breyttum áherslum á starfsemi Rf í Vestmannaeyjum, að  á næsta ári verður nýtt  útibú Fiskistofu opnað hér á staðnum og munu 5 starfsmenn vinna við það. Hér er að mestu leyti um nýja starfsemi að ræða en útibúið mun sjá um alla bakreikninga afurða og færa þá til afla fyrir Fiskistofu. Reynslan sýnir að þetta er flókið og erfitt verkefni og því nauðsynlegt að koma upp sérhæfingu á þessu sviði með því að stofna sérstaka bakreikningadeild á veiðieftirlitssviði sem jafnframt er ætlað að sinna öðru bókhaldseftirliti. Stofnun þessarar deildar er meðal annars nauðsynleg vegna nýrra og nútímalegra áherslna sem koma munu fram í nýrri vigtarreglugerð á næstu mánuðum. Í ljósi nútíma samskiptatækni er lag að hafa deildina hér í Vestmannaeyjum. Fjórir starfsmenn munu sinna þessum hluta í starfsemi útibúsins en jafnframt yrði ráðinn veiðieftirlitsmaður sem myndi annast eftirlit á sjó og landi hér í Eyjum.

 

Á næsta ári verður einnig opnað nýtt útibú á Höfn í Hornafirði sem myndi þjónusta landssvæðinu frá Höfn að Vopnafirði. Í fyrstu yrðu ráðnir tveir eftirlitsmenn og yfirmaður útibús. Á árinu 2007 yrðu svo ráðnir tveir eftirlitsmenn til viðbótar á Höfn og því yrði heildarstarfsmannafjöldi þar sá sami og í Vestmannaeyjum eða fimm manns. Sama ár verður nýtt útibú opnað í Stykkishólmi með þremur eftirlitsmönnum auk yfirmanns en þjónustusvæði útibúsins yrði Snæfellsnes og Vestfirðir.

 

Árið 2008 verða svo þrír eftirlitsmenn til viðbótar ráðnir í Stykkishólm. Heildarfjöldi starfsmanna þar verður því sjö manns þar af yrðu 1-2 staðsettir á Vestfjörðum. Einnig verður á árinu 2008 opnað nýtt útibú á Grindavík með þremur eftirlitsmönnum auk yfirmanns sem sæi um eftirlit á Suðurnesjum og austur fyrir fjall. Síðasta árið í þessu átaki, árið 2009, verða svo ráðnir þrír eftirlitsmenn til Grindavíkur til viðbótar og verða þeir því sjö samtals. Einnig verða árið 2009 ráðnir tveir starfsmenn til viðbótar við þá fimm sem þegar starfa á Akureyri en það útibú mun sinna eftirliti frá Vopnafirði til og með Hvammstanga. Eftirlitið frá og með Akranesi í Hafnarfjörð myndi loks falla undir Fiskistofu í Reykjavík en þar munu í allt starfa 8 manns þar af tveir eftirlitsmenn.

 

Það verða því stofnuð fjögur ný útibú; í Vestmannaeyjum, Höfn, Stykkishólmi og Grindavík auk þess sem eftirlitsmönnum verður fjölgað á Akureyri. Árið 2009 verða starfsmenn veiðieftirlitsins því 39 talsins en eru nú 35. Nýju stöðurnar fjórar verða allar í nýju bakreikningsdeildinni hér í Vestmannaeyjum eins og áður segir.

 

Ég tel að með þessum aðgerðum sé verið að stíga skref í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að treysta undirstöður byggðar í landinu og að jafna skilyrði til atvinnu. Þá er það líka í anda stefnuyfirlýsingarinnar að nýta kosti upplýsingatækninnar en það má ljóst vera að ef ekki væri fyrir hana þá yrði vart mögulegt að koma á fyrirhugaðri starfsemi Fiskistofu hér í Vestmannaeyjum.

 

Ég hef áður komið inn á það að ég tel að forsendur þess að færa verkefni eða störf út á land sé að raunverulegur jarðvegur sé fyrir þau þar. Við vitum öll að eitt af vandamálum landsbyggðarinnar liggur í því hversu einhæf störf er þar að finna, þó mikil breyting hafi orðið þar á síðastliðin ár. Hvað sjávarútvegsráðuneytið varðar er einn þáttur í stefnu þess að beita sér fyrir því störf á þess vegum séu unnin í byggðum landsins ef efni og aðstæður leyfa. Eftirlit Fiskistofu fer fram þar sem sjávarútvegur er stundaður og því er eðlilegt að starfseminn sé staðsett þar.  Að mínu mati eru traustar forsendur fyrir þeim breytingum sem hér hafa verið kynntar á meðan starfsemi Fiskistofu er með þeim hætti sem við þekkjum nú.

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira