Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. apríl 2005 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Fiskiþing, 8. apríl 2005

Góðir fundarmenn!

 

Við Íslendingar höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga ein af gjöfulustu fiskimiðum heims. Lengst af voru þau nýtt af erlendum flota sem sótti takmarkalaust í þessa miklu fiskveiðiauðlind. Þegar íslenskt þjóðfélag tók að breytast úr landbúnaðarþjóðfélagi yfir í þéttbýlissamfélag breyttust atvinnuhættirnir í grundvallaratriðum. Sjávarútvegur varð á skömmum tíma undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar í stað landbúnaðarins og hefur þjóðin byggt afkomu sína á honum allar götur síðan. Mikilvægi fiskveiða fyrir afkomu okkar alla síðustu öld skóp vitund um mikilvægi ábyrgrar nýtingar á auðlindum hafsins sem á sér vart hliðstæðu hjá öðrum þjóðum. Í gegnum alla okkar landhelgisbaráttu lögðum við verndun fiskistofnanna fram sem megin röksemd. Árið 1958 var stórt skref tekið þegar við færðum fiskveiðilögsöguna út í 12 sjómílur. Í kjölfarið fylgdi svo um tveggja áratuga barátta fyrir 200 mílna lögsögu. Í fyrstu var talið að það væri næg verndun í því fólgin að heimila einungis íslenskum fiskiskipum að veiða innan lögsögunnar en fljótlega varð ljóst að takmarka þyrfti veiðarnar með öðrum hætti þar sem íslenski flotinn varð sífellt afkastameiri. Vendipunkturinn varð svo þegar hin fræga svarta skýrsla Hafró kom út í október árið 1975 og var einmitt megin umræðuefni 34. Fiskiþings sama ár. Nafn sitt dróg skýrslan af kaflanum um ískyggilega stöðu þorskstofnsins.

 

Upp úr þessu gekk fiskveiðistjórnun eða takmörkun á veiðum í gegnum ákveðið þróunarskeið frá skrapdagakerfi, innleiðingu kvóta til heildstæðra laga um stjórn fiskveiða sem sett voru árið 1990 og skipulag fiskveiða hér við land byggir á í dag. Frá því að kerfið var tekið upp hefur mikil og ör þróun átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Ekki er neinum blöðum um það að fletta að greinin hefur tekið algerum stakkaskiptum. Fyrir upptöku kerfisins voru miklir erfiðleikar í sjávarútvegi og grundvallaðist rekstur margra sjávarútvegsfyrirtækja frekar á sókn í sjóði en sókn á fiskimiðin. Eftir að kerfið var tekið upp hefur mikil hagræðing og framleiðniaukning átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Á hinn bóginn hafa flest önnur ríki valið þá leið að reka sjávarútveginn á ríkisstyrkjum sem augljóslega dregur úr vilja til hagræðingar og eykur þrýsting á að fiskveiðiráðgjöf verði hunsuð.

 

Skipulag fiskveiða við Ísland byggir á ábyrgum fiskveiðum í krafti viðskiptalegra forsendna sem fært hefur sjávarútvegsfyrirtækjum forskot á keppinauta í öðrum löndum. Ríkisstyrktur, niðurnjörfaður sjávarútvegur með boðum og bönnum eins og svo víða er staðreynd gerir útgerðina óhagkvæma og lítt samkeppnishæfa. Eigendur sjávarútvegsfyrirtækja berjast víða um heim fyrir því að bönd, sem ekki eru fyrir hendi hér á landi, verði leyst af rekstri fyrirtækjanna til að auka samkeppnishæfni þeirra. Á þeim árum sem ég hef verið sjávarútvegsráðherra hef ég merkt greinilega hugarfarsbreytingu í sömu átt hjá starfsbræðrum mínum. Víða í heiminum stendur nú yfir endurskoðun á skipulagi fiskveiða og í þeirri hagsmunagæslu sem sjávarútvegsráðuneytið sinnir gagnvart öðrum þjóðum verðum við þess greinilega áskynja að horft er til Íslands sem fyrirmynd. Þetta þýðir að það viðskiptalega forskot  sem við höfum búið við vegna sveigjanlegs og samkeppnihæfs skipulags fiskveiða minnkar óðfluga. Í því felst ákveðin ógn sem felur í sér að við verðum að hugsa alvarlega um það hvernig við ætlum að beita okkur með nýjum hætti til að halda forskotinu.

 

Fiskiþing er tilvalinn vettvangur til þess að velta slíkum hlutum fyrir sér og því er ég ánægður með yfirskrift þingsins; Upplýsingar í markaðssetningu “Hvernig á að láta neytendur vita?”.  Eitt að því sem er sífellt að verða mikilvægara í markaðssetningu sjávarafurða er öflug upplýsingagjöf. Undanfarin ár hefur ráðuneytið lagt ríka áherslu á að efla upplýsingamiðlun auk þess sem sérstök áhersla hefur verið lögð á aðgerðir til að auka virði sjávarafurða.

 

Ábyrgar fiskveiðar eru grunnforsenda skipulags fiskveiða hér við land og því er ánægjulegt að kaupendur sjávarafurða skuli horfa í sífellt auknum mæli til slíkra þátta þegar innkaup á fiski eru ákveðinn. Ástæðan liggur í því að neytendur verða sífellt upplýstari og þar með meira vakandi fyrir umhverfi sínu. Þá sjá ýmsir sér hag í því að hvetja neytendur til þess að huga að ástandi einstakra stofna áður en keypt er í soðið.  Það eru því ákveðin markaðstækifæri fólgin í því að hér sé skipulag fiskveiða sem tryggir betur en stjórnkerfi annarra þjóða að afli sé í samræmi við útgefna hámarksveiði. Hér er því um vissa yfirburði að ræða og þar með sóknarfæri sem nýta ber í markaðsstarfinu.

 

Umhverfismerkingar fiskafurða  geta verið undirstöðuatriði í öflugri upplýsingagjöf. Nær áratugs vinnu fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins að umhverfismerkingum lauk nú í byrjun mars þegar fundur fiskimálanefndar Matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna,  FAO, samþykkti leiðbeinandi reglur um umhverfismerkingar sjávarafurða.   Norrænu ríkin unnu náið saman að þessu málum frá upphafi, en undanfarin fimm ár hefur Ísland verið megin drifkrafturinn  í starfinu. Við höfum bæði stýrt starfinu á norrænum vettvangi og haft forgöngu um að vinna því  brautargengi innan  FAO. Reglurnar setja umhverfismerkingum sjávarafurða ramma þar sem meðal annars er kveðið á um efnisleg viðmið og lágmarkskröfur, stofnanalegt skipulag og framkvæmd slíkra merkinga. 

Mikilvægi þessa áfanga fyrir framleiðendur sjávarafurða er ótvírætt. Umhverfismerki sjávarafurða eru þegar í boði og má í því sambandi nefna Marine Stewardship Council. Þeir sem bjóða umhverfismerki hafa til þessa geta ákveðið einhliða hvað felst í merkjunum og haft sjálfdæmi um skipulag merkinga og framkvæmd. Þannig hefur framkvæmd og eftirlit verið á einni hendi og slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp. Með samþykkt FAO  var tekið á þessum þáttum og merkingunum settar efnislegar reglur. Þrátt fyrir að reglur þessar séu í grunninn leiðbeinandi setja þær í raun staðal því ólíklegt er að kaupendur merkja fallist á að láta seljendum þeirra eftir sjálfdæmi um  skipulag og framkvæmd þegar FAO-reglurnar kveða á um óháða faggildingu og vottun þriðja aðila.

Til þess að neytendur sjávarafurða verði upplýstir um hvort fiskistofnar séu nýttir með sjálfbærum hætti, þarf að  tryggja að umhverfismerkin séu trúverðug og  byggi á sama grunni. Seljendum sjávarafurða þarf einnig að tryggja öryggi í samskiptum við þá sem bjóða merki. Hið sama gildir um seljendur merkja. Reglurnar eru þeim leiðsögn um inntak, stofnanalegt skipulag og framkvæmd frá öllum aðildarríkjum FAO.

Og hvað gerist nú? Ég tel að komið sé að kaflaskilum og nú sé það ykkar sem starfið í sölu og markaðssetningu sjávarafurða að nýta þessa vinnu til sóknar á mörkuðum. 

 

Þó boltinn sé nú hjá ykkur hvað umhverfismerkingar varðar er ráðuneytið engan veginn hætt að sinna verkefnum þessu tengdum. Nú er unnið að uppbyggingu öflugrar gagnaveitu um málefni hafsins þar sem upplýsingar um sjálfbæra nýtingu, hollustu og heilnæmi sjávarafurða eru settar í öndvegi. Veitan mun auðvelda alla fræðslu til þeirra sem láta sig þessi mál varða. Ef vel tekst getur upplýsingaveitan orðið ómetanlegt tæki í markaðssókn. Einnig þegar við þurfum að spyrna við fótum gegn þeim sjónarmiðum að allt sé að fara á versta veg er snertir ástand og nýtingu heimshafanna og vinna gegn þeirri bábilju að vernd og nýting fari ekki saman.

 

Þessu tengist annað verkefni sem unnið hefur verið að í ráðuneytinu og kallast "Öryggi útflutningstekna". Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gerði árið 2003 sérstakt átak í að mæla innihald óæskilegra efna í sjávarafurðum, bæði í mat, lýsi og mjöli. Upplýsingarnar munu nýtast þeim  sem selja sjávarafurðir og til að meta það hvernig afurðir standast  þau  mörk sem þegar eru í gildi á Íslandi, hjá ESB og öðrum viðskiptaþjóðum Íslendinga.

 

Megin niðurstöður mælinganna sýna að mengunarefni í íslensku sjávarfangi eru nær undantekningalaust langt undir þeim mörkum sem sett hafa verið. Það eru dýrmætar upplýsingar sem við eigum að geta nýtt okkur í markaðssetningu. Niðurstöðurnar má nálgast á netinu bæði hjá Rf og á heimasíðu ráðuneytisins. Áfram verður haldið á þessari braut og munu frekari mælingar á heilnæmi sjávarfangs að stórum hluta fara fram í nýrri aðstöðu Rf í Borgum, rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri sem nýverið tók til starfa.

 

Góðir fundarmenn!

Frumkvæði og þekking á nýjum vinnsluháttum og nýjum mörkuðum er nauðsynleg ef við ætlum okkur áfram að vera í hópi þeirra sem fá hæstu verð fyrir sjávarafurðir. Tilgangur AVS verkefnisins er að ýta undir aukið virði sjávarfangs. Sjávarfang það sem að landi berst í dag er fyrst og fremst nýtt í matvæli og dýrafóður. Allra síðustu ár hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki gert mikið átak í því hækka hlutfall sjávarafurða sem fer  í matvæli í stað dýrafóðurs. Þetta er mikilvægur árangur og skiptir verulegu máli fyrir tekjur greinarinnar og þjóðarinnar allrar. En við getum gert enn betur. Möguleikar á nýtingu sjávarafurða ná miklu lengra en til hefðbundinna matvæla. Í skýrslu nefndar um aukið virði sjávarfangs kom fram mikilvægi þess að íslenskur sjávarútvegur næði að færa sig ofar í virðiskeðjunni svokölluðu. Eftir því sem okkur tekst að þróa vöruna inn á sérhæfðari markaði eins og heilsuvörumarkaðinn margfaldast það verð sem við fáum fyrir afurðina. Markmiðið er svo auðvitað að komast efst í virðiskeðjuna þar sem úrvinnsla á sjávarfangi nýtist til snyrtivöru- og lyfjaframleiðslu. Breyttar áherslur útibús Rf í Vestmannaeyjum taka mið af þessu. Aðstæður þar eru kjörnar í ljósi þess að þar eru miklar uppsjávarveiðar og aðstæður til þess að nálgast nýjar tegundir mjög góðar.

 

Næsta skref er að ná bættum tökum á framleiðslu á próteini úr sjávarfangi. Nú þegar eru nýjir möguleikar til próteinframleiðslu þar sem tilraunaverksmiðju hefur verið komið á fót á Akranesi. Þótt verksmiðjan sé ekki kominn á það stig að geta framleitt heilsuvörur þá er kominn grunnur að framleiðslu á próteinum sem nýta má í matvæli. Þetta er til dæmis hægt með því að vinna prótein úr flakaafskurði og nota aftur til íblöndunar í sjávarafurðir. Með slíkum aðferðum mætti bæta nýtingu um 10-20%. Síðan er aðeins spurning um tíma hvenær við komust á það stig að framleiða þurrkaðar vörur sem síðan nýtast í heilsufæði. Mikil vakning er nú í Bandaríkjunum um áhrif próteina í fiski  þar sem talið er að þau hafi heilsubætandi áhrif ekki síður en  omega 3 fitusýrur hafa. Til frekara marks um möguleika þessa þá eru sextíu og fimm prósent af fæðubótamarkaðnum í Evrópu vörur unnar úr mjólkurpróteinum. Árangur mjólkurframleiðenda er niðurstaða áralangra rannsókna og markaðssetningar en sérfræðingar fullyrða að fiskprótein sé síst verra þannig að sóknarfærið er augljóst.

 

Ágætu fundarmenn!

 

Eins og þið gerið ykkur ábyggilega öll ljóst eru ennþá miklir möguleikar fyrir hendi í sjávarútveginum en þeir liggja allir í því að ná tökum á viðfangsefninu og gera betur í dag en í gær. Hvort sem varðar nýtingu fiskimiðanna eða vinnslu aflans. Undafarna tæpa tvo áratugina höfum við tryggt okkur forskot með hagrænum yfirburðum skipulags fiskveiða hér við land. Nú er hins vegar ljóst að aðrir eru í þann veginn að feta sömu braut. Því er komið að okkur að finna leiðir til að tryggja áframhaldandi forskot. Það munum við gera með betri og nánari samskiptum við neytendur, m.a. með því að upplýsa alla hlutaaðeigandi um ábyrgar fiskveiðar okkar, heilnæmi og hollustu sjávarfangs og vera sívakandi fyrir möguleikum nýrra úrvinnsluaðferða og vöruflokka. Við í sjávarútvegsráðuneytinu liggjum ekki á liði okkar til að skapa þessu starfi ykkar traustar forsendur. Þrátt fyrir það gildir enn hið fornkveðna; veldur hver á heldur og við sem í ráðuneytinu störfum megum okkar lítils ef ekki er öflug starfsemi og sífelld sókn í atvinnugreininni sjálfri. 

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira