Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. júní 2005 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Sjómannadagurinn 5. júní 2005

Ávarp á sjómannadaginn 5. júní 2005, Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra

Ágætu sjómenn og fjölskyldur, aðrir tilheyrendur nær og fjær.

Undanfarin ár hefur oft á tíðum gustað um sjávarútveginn þar sem tekist hefur verið á um fyrirkomulag fiskveiða hér við land. Ólík sjónarmið hafa verið upp milli útgerðarflokka, milli hópa innan greinarinnar og þjóðarinnar. Mikil og ör þróun hefur hins vegar átt sér stað í þá veru að ólík sjónarmið um sjávarútvegsmálin hafa verið að mætast. Undanfarin áratug hafa átök um kjarasamninga sett mark sitt á sjávarútveginn en nú í fyrsta skipti í 10 ár hafa kjarasamningar náðst á milli sjómanna og útvegsmanna án afskipta ríkisins. Ekki þarft að fjölyrða um það hversu mikils virði það er fyrir greinina og þjóðina alla að þessir hópar geti nú starfað í sátt og vil ég nota þetta tækifæri og óska sjómönnum og útvegsmönnum til hamingju með niðurstöðuna. Annað atriði sem hefur breytt miklu er að nú er fyrirkomulag fiskveiða orðið heildstætt þar sem allir innan greinarinnar starfa í megin atriðum eftir sömu leikreglum. Í þriðja lagi hefur verið tekið upp veiðigjald og mun útgerðin framvegis borga þjóðinni endurgjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.

Rekstrarumhverfi greinarinnar hefur verið að breytast undanfarin misseri sem að stórum hluta má skýra með styrkri stöðu krónunnar. Hátt gengi hennar orsakar minni tekjur í krónum talið fyrir útfluttar vörur og veldur ekki aðeins erfiðleikum í sjávarútvegi heldur hjá útflutningsatvinnugreinunum í heild sinni. Þá hefur sjávarútvegurinn fengið harða og að mörgu leyti óvægna samkeppni frá Kína. Það er síður en svo létt verk fyrir fiskvinnslu á Íslandi að keppa við framleiðendur sem nýta sér vinnuafl þar sem borgaðar eru um eða innan við fjörutíu krónur á klukkustundina.

Um þessar mundir á sér stað víða um heim mikil umræða um fyrirkomulag fiskveiða. Ég og samstarfsfólk mitt í sjávarútvegsráðuneytinu höfum orðið áþreifanlega vör við þetta þar sem ýmsir sýna fyrirkomulagi fiskveiða hér við land mikinn áhuga. Í flestum tilfellum, reyndar langflestum tilfellum, er áhuginn til kominn vegna þess að okkur hefur tekist betur til en flestum öðrum í þessum efnum. Og það er vissulega rétt að okkur hefur tekist vel til um flest enda hefur aldrei verið veitt eins mikið magn og á árunum um og eftir nýliðin aldamót. Hins vegar hefur ekki allt gengið jafn vel. Okkur hefur ekki tekist að stækka þorskstofninn eins og við stefndum að. Hann var 854 þúsund tonn á síðasta ári en var 803 þúsund tonn árið 1983 þegar við tókum upp kvótakerfið. Miðað við aðra er það ásættanlegur árangur því víðast hvar annarstaðar hefur þróunin verið neikvæðari.

Áratug fyrr eða 1973 var þorskstofninn 839 þúsund tonn en í framhaldi af því gaf Hafrannsóknastofnunin út "svörtu skýrsluna" svo kölluðu sem varð upphafið af því að fórum að leitast við að stjórna veiðunum. Þá má segja að við séum nú rúmum 30 árum síðar ennþá í sama farinu.

Tíu árum þar á undan eða 1963 var þorskstofninn um 1,3 milljónir tonna og 1955 um 2,3 milljónir tonna. Það var því á þessu tímabili sem skaðinn varð mestur og við höfum því miður ekki náð okkur á strik síðan.

Þó að við höfum vissulega náð árangri í mörgu tilliti með stjórn fiskveiða þá hefur aldrei tekist að beita henni þannig að sett markmið um samdrátt í þorskveiðum hafi náðst og munar þá stundum talsvert miklu.

Nú kynni einhver að spyrja, hvað er maðurinn að fara? Á áttunda og níunda áratugnum veiddum við langtum meira en á þeim tíunda og á þeim árum sem nú er liðinn af fyrsta áratug 21. aldarinnar. Ástæðan er sú að á þessu tímabili á áttunda og framan af níunda áratugnum til ársins 1984 var nýliðunin miklu betri en hún hefur verið undanfarið, en á árunum 1985-1996 var hún mjög léleg. Með hugtakinu nýliðun er átt við fjölda þeirra fiska sem klekjast út tiltekið ár sem skilar sér sem 3 ára nýliðar inn í veiðistofninn, en á þeim aldri hefur lang stærsti hluti náttúrulegra affalla átt sér stað. Íframhaldi af þessu af þessu slaka tímabili fengum síðan fjögur þokkaleg ár frá 1997-2000 hvað nýliðun varðar og það er undirstaða tiltölulega góðrar veiði nú um stundir en því miður benda niðurstöður togararallsins í ár eindregið til þess að árgangar 2001- 2004 séu mun lélegri. Staðan er þó ekki sú að stofninn sé að hrynja. Líklegra er að næstu árin verðum við í svipuðu fari og þau ár sem liðin eru af þessari öld.

Að þessu sögðu má ljóst vera að í 30 ár hefur veiðin og stofnstærðin algerlega ráðist af nýliðun einstakra ára. Og við höfum fengið tímabil þar sem hún hefur verið léleg 10 ár í röð. Stóra spurningin er því hvaða líffræðilegir þættir ráða nýliðuninni og hvað getum við gert til þess að bæta hana? Hvernig stendur á því að nýliðun í ýsu er orðin meiri en nýliðun í þorski? Hvernig stendur á því að hrygningarstofn ýsu slagar í stærð hrygningarstofns þorsksins? Er það stærð hrygningarstofnsins sem skiptir máli eða skiptir samsetning hrygningarstofnsins enn meira máli? Skipta auknar veiðar loðnu á þessu tímabili einhverju máli? Er kannski nóg til að snúa við taflinu að við á næstu árum náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur en ekki náð að framfylgja eða þurfum við að setja okkur ný markmið.

Við þessum spurningum þurfum við að fá svör og í framhaldi af því að átta okkur á því hvað við getum gert til þess að bæta nýliðunina. Þetta þurfum við að ræða opinskátt og af yfirvegun. Við getum hins vegar sagt að niðurstaða þess að hafa alltaf veitt meira en til stóð, auk reynslunnar frá 6. og 7. áratuginum þegar veiðin var hömlulaus, að "veiða meira" kenningin er ólíkleg til að leysa vandann.

Í haust mun sjávarútvegsráðuneytið og Hafrannsóknastofnunin boða til opinnar ráðstefnu um efni það sem ég hef reifað hér á undan. Ráðstefnan verður haldin í tengslum við fyrsta fund ráðgjafanefndar Hafrannsóknastofnunarinnar sem skipuð var fyrr á árinu. Nefndinni er ætlað það hlutverk að vera stjórn stofnunarinnar og forstjóra hennar til ráðuneytis um áherslur í starfseminni, jafnframt því að vera tengiliður hennar við sjávarútveginn og við innlenda og erlenda fagaðila.

Góðir áheyrendur!

Hafið gefur og hafið tekur og þrátt fyrir að verkefni líðandi stundar séu bæði mörg og spennandi þá megum við ekki gleyma sögunni og því fólki sem lagði grunninn að sjávarútvegi nútímans. Á þessu ári minnist heimsbyggðin þess að 60 ár eru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Enginn stétt á Íslandi varð jafn áþreifanlega vör við stríðið og íslenska sjómannastéttin. Talið er að allt að 211 Íslendingar hafi látið lífið af völdum styrjaldarinnar, nær allt sjómenn. Framlag íslenskra sjómanna í síðari heimsstyrjöldinni var mjög mikilvægt þar sem fiskflutningarnir voru mikilvægir bæði fyrir bandamenn og íslensku þjóðina. Það er erfitt að setja sig í spor sjómanna og fjölskyldna þeirra sem lifðu þessa tíma, en okkur er þó öllum ljóst að mikið var lagt á fólkið þar sem hættan á árás vofði alltaf yfir. Hetjuskapur sumra var slíkur að þeir fundu sér nýtt skipspláss og héldu til hafs á ný eftir að hafa orðið skipreka. Íslenska þjóðin virðir framlag þessara manna og er þakklát fyrir það.

Í Fossvogskirkjugarði er minnisvarði sem nefndur er Minningaröldur sjómannadagsins. Á þær eru skráð nöfn sjómanna sem hvíla í votri gröf. Til að minnast örlaga allra þeirra sem svo fór fyrir á árum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að tryggt verði að nöfn þeirra allra verði skráð á Minningaröldurnar.

Nú í ár minnumst við jafnframt þess að 100 ár eru liðin frá því að fyrsti togarinn í eigu Íslendinga, Coot, kom til landsins. Segja má að tilkoma togarans hafi markað kaflaskil þar sem miklar breytingar á íslensku samfélagi fylgdu í kjölfarið. Atvinnuhættir breyttust og sjávarútvegur varð á örskotsstundu mikilvægasta atvinnugrein okkar og þéttbýlismyndun varð hröð.  Sjávarútvegsráðuneytið hefur minnst þessara merku tímamóta í störfum sínum það sem af er árinu. Í lok mars var staðið fyrir fjölmennri ráðstefnu sem bar yfirskriftina "Framtíð sjávarútvegsins". Einnig stóðu sjávarútvegsráðuneytið og menntamálaráðuneytið á þessu misseri fyrir samkeppni meðal grunnskólabarna um gerð sjávarútvegsvefs. Markmiðið með samkeppninni var að auka innsýn skólabarna í þessa undirstöðu­atvinnugrein okkar og veita þeim um leið tækifæri til að tjá eigin hug­myndir um greinina. Jafnframt er verkefninu ætlað að vekja athygli skólastjórnenda, kennara og almennings á sjávarútvegi og víkka þá umræðu sem á sér stað um hana. Það er liðin tíð að ungmenni eigi þess kost að fara á sjó í sama mæli og áður var og kynnast sjómennsku af eigin raun og sífellt fleiri alast upp án þess að komast nokkru sinni í snertingu við fiskveiðar eða –vinnslu.

Ímynd sjávarútvegsins er okkur Íslendingum afar mikilvæg. Þess vegna er nauðsynlegt að ungu  kynslóðinni sé sinnt í þeim efnum og að hún fái jákvæða mynd af greininni, og tækifæri til að kynnast henni af eigin raun. Afrakstur keppninnar má sjá á heimasíðu ráðuneytanna í dag. Hér hafa nemendur samþætt námsgreinar, hvort heldur um er að ræða listgreinar, verklegar eða bóklegar greinar, og sjávarútveginn. Sjávarútvegsvefir þessara nemenda eru lifandi dæmi um þá frjóu og skapandi hugsun sem býr í unga fólkinu og sýna glögglega hvernig nýta má þann auð til að styrkja ímynd sjávarútvegsins og tengsl hans við umhverfi, samfélag og skóla.

Góðir áheyrendur!

Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands færi ég sjómönnum fyrr og síðar og fjölskyldum þeirra þakkir fyrir þeirra mikilvæga starf og árnaðaróskir á þessum hátíðardegi.

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira