Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. ágúst 2005 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra 2001-2005

Fiskidagurinn mikli á Dalvík 6. ágúst 2005

Ávarp Árna M. Mathiesen á Fiskideginum mikla,

haldinn á Dalvík 6. ágúst 2005

Fiskidagurinn mikli hefur á þeim fimm árum frá því að til hans var stofnað, markað sér sess sem einn af stóru viðburðum sumarsins hjá landanum. Hér er um mikið og merkilegt framtak að ræða þar sem við Íslendingar höfum gert of lítið af því að halda merkjum þessarar megin auðlindar okkar á lofti. Ef til vill skýrist það af því hversu fiskurinn hefur verið samofinn okkar samfélagsgerð. Nálægð þjóðarinnar við miðinn er mikil og við höfum í gegnum tíðina getað fengið með ódýrum hætti fisk í soðið. Í samanburði við aðrar þjóðir kemur líka í ljós að fiskneysla okkar er mjög mikil.

En tímarnir breytast og mennirnir með eins og sagt er. Með breyttum efnahag og breyttu útgerðarmynstri þurfa flestir Íslendingar nú að borga sama verð og aðrir fyrir fisk í matinn. Samfara þessu hafa matarvenjur almennings verið að breytast mjög hratt undanfarin ár. Skyndibitamatur verður sífellt stærri hluti af matseðli okkar og verksmiðjuvæðing landbúnaðarins gerir bændum auðveldara að ýta undir neyslu afurða sinna með því að bjóða kjöt á lægra verði en áður.

Að tala um fisk í soðið er kannski lýsandi fyrir það hvaða sess fiskurinn hefur haft á matseðli vikunnar hjá flestum fjölskyldum í gegnum tíðina. Hversdagsmatur sem skellt var í pott og lítið fyrir honum haft. Þetta hefur hefur verið að breytast sem má meðal annars sjá á matseðlum veitingahúsa þar sem fiskur er alltaf að verða meira áberandi. Það má því að mörgu leyti segja, svo undarlega sem það kann að hljóma, að fiskneysla hafi minnkað um leið og fiskur öðlast hærri sess í hugum fólks. Það þarf þó enginn að velkjast í vafa um að fiskurinn er ein hollasta fæða sem völ er á og því mikilvægt að viðhalda þeirri sterku hefð að hafa reglulega fisk á borðum þjóðarinnar. Fiskidagurinn mikli hefur því stóru hlutverki að gegna og hefur svo sannarlega verið öflugur í að kynna þessa mikilvægu afurð fyrir þjóðinni.

Þó svo að við eigum öfluga talsmenn sjávarfangs hér á Dalvík og reyndar víða um heim og þrátt fyrir að allar helstu heilbrigðisstofnanir heims undirstriki hollustu fisks þá á fiskurinn sína óvildaraðila. Til eru sterk öfgasamtök sem standa undir rekstri sínum með því að valda uppnámi á ýmsum sviðum og fá síðan fjárframlög víðs vegar að til að bæta heiminn og er þá oft á tíðum beitt óvönduðum meðulum. Slíkar uppákomur geta stórskaðað ímynd fisks og um leið afkomu þjóðarinnar. Þá koma reglulega fram nýjar kröfur, boð og bönn, í tengslum við innflutning á fiski til ýmissa landa. Stjórnvaldsaðgerðir af slíkum toga geta skaðað útflutningstekjur okkar með beinum hætti ekki síst ef við höfum ekki upplýsingar á reiðum höndum, þá stöndum við varnarlaus. Neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum getur á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd afurða sem tekið hefur áratugi að byggja upp. Útflutningstekjurnar eru því háðar því að við tryggjum það að geta sýnt fram á öryggi sjávarafurða okkar og við verðum að geta með óyggjandi hætti sýnt fram á að þær séu öruggar með hliðsjón af þeim lögum og reglugerðum sem gilda á hverjum tíma svo og kröfum markaðarins. Gildir þar einu hvort um er að ræða ferskan fisk, unnar afurðir eða fiskeldi.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins vinnur nú fyrir hönd Sjávarútvegsráðuneytisins að forvarnarstarfi sem hefur það að leiðarljósi að tryggja það að við verðum ekki fyrir skakkaföllum þó óvæntar nýjar kröfur skjóti upp kollinum. Við köllum þetta verkefni Öryggi útflutningstekna. Mikilvægt er að upplýsingasöfnun um óæskileg efni í sjávarafurðum Íslendinga sé gerð á skipulegan hátt og tryggt að á hverjum tíma séu til nýjar upplýsingar um efnainnihald þeirra. Megin niðurstöður þeirra mælinga sem nú liggja fyrir sýna að mengunarefni í íslensku sjávarfangi eru í langflestum tilvikum langt undir þeim mörkum sem sett hafa verið. Upplýsingarnar munu nýtast þeim sem vinna við að selja sjávarafurðir til að meta það hvernig afurðir standast þau mörk sem þegar eru í gildi á Íslandi, ESB og viðskiptaþjóðum Íslendinga. Þá munu upplýsingarnar nýtast til fræðslu fyrir neytendur. Frekari uppbygging verður á þessu sviði og munu viðbótar mælingar á heilnæmi sjávarfangs fyrst og fremst fara fram í nýrri aðstöðu Rf í Borgum, rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri.

 Öflug útgerð á Eyjafjarðarsvæðinu, gott menntunarstig og öflugir skólar skapa mikil tækifæri hér á svæðinu. Til viðbótar við þau verkefni sem kunna að verða til í framtíðinni í tengslum við Rannsóknahús Háskólans á Akureyri og tengjast sjávarútvegsráðuneytinu þá hefur Verðlagsstofa skiptaverðs verið að taka að sér ný og fjölbreyttari verkefni. Eitt þeirra er að gera úttekt á samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs en verkefnisstjóri er Dalvíkingurinn Ottó Biering Ottósson.

 Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á þau atriði sem mestu máli skipta til þess að sjávarútvegur fái ekki aðeins staðist samkeppni heldur hvað gera má til að greinin öðlist frekara samkeppnis forskot. Þá þarf líka að sýna hvernig samkeppni sjávarútvegsins birtist gagnvart öðrum greinum matvæla- og fóðuriðnaðarins. Hér verður því settur einskonar kvarði á samkeppnishæfnina sem nauðsynlegt er að mæla á hverju ári. Við höfum kynnt þetta verkefni erlendis og er ljóst að í framtíðinni munu fleiri lönd koma að því.

 Ég tel að með þessum aðgerðum sé verið að stíga skref í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að treysta undirstöður byggðar í landinu og að jafna skilyrði til atvinnu.

 Ég hef áður komið inn á það að ég tel að forsendur þess að færa verkefni eða störf út á land sé að raunverulegur jarðvegur sé fyrir þau þar. Það er verðugt verkefni ekki aðeins að fjölga verkefnum úti á landi, heldur að auka jafnframt fjölbreytileika starfa þar. Hvað sjávarútvegsráðuneytið varðar er einn þáttur í stefnu þess að beita sér fyrir því störf á þess vegum séu unnin í byggðum landsins ef efni og aðstæður leyfa og er ljóst að mörg sóknarfæri eru á Eyjafjarðarsvæðinu. Ég var á ferð hér á Dalvík ekki alls fyrir löngu og sá þann dugnað og áræðni sem býr í fólkinu hér. Dalvíkurbær býr ekki aðeins að öflugri starfsemi eins stærsta útgerðarfyrirtækis landsins, Samherja, heldur eru hér líka smærri aðilar sem búa yfir mikilli sérþekkingu og framleiða gæðavöru inn á sérhæfða markaði. Fiskidagurinn mikli undirstrikar þann mikla kraft og áræðni sem býr í Dalvíkingum og sýnir svo ekki verður um villst hversu miklu má koma til leiðar þegar allir leggjast á eitt.

 

Dalvíkingar og landsmenn allir til hamingju með daginn.

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira