Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. október 07 Utanríkisráðuneytið

Umbætur öllum til heilla


Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra,

við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra

2. október 2007


Góðir Íslendingar, gott kvöld.
   
Fyrir hönd Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands fagna ég því að nýtt þing skuli hafið, heilsa þingmönnum allra flokka og lýsi því fyrir hönd flokks míns að við væntum mikils af góðu samstarfi hér í vetur, þjóðinni allri til heilla.

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn gerðu nýjan samning við þjóð sína í vor; um nýtt traust innan stjórnmálanna og nýtt traust almennings á því að íslensk stjórnmál séu fær um að skila sterkara og betra samfélagi. Nýsköpunarkraftur lýðræðisins er merkilegt fyrirbæri og nýr samstarfsvilji stærstu flokkanna, öllum Íslendingum til heilla var, kall tímans og kall almennings í landinu. Nú er umræðan líka opnari í pólitíkinni en var á síðustu árum og opin umræða er góð.

Ríkisstjórnin skilgreinir sig sem frjálslynda umbótastjórn og við erum öll einhuga, einbeitt og ákveðin í því að hrinda í framkvæmd margvíslegum umbótum í landsstjórninni.

Aðeins eru liðnir fjórir mánuðir frá því við tókum til starfa en við höfum komið mörgu í verk og lagt grunn að mikilvægum umbótum á flestum málasviðum.  

Mig langar að nefna hér nokkur dæmi.  

Fyrsta skal telja aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna sem samþykkt var á Alþingi strax á  sumarþingi, en ríkisstjórnin er sammála um að uppbygging í þágu barna og ungmenna hafi sérstakan forgang á næstu árum.

Aðgerðir gegn óþolandi biðlistum á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Barna og unglingageðdeild Landspítalans eru þegar hafnar og samráðshópur vinnur að því að hrinda í framkvæmd fjölmörgum öðrum verkefnum sem í áætluninni eru, frá bættri tannvernd skólabarna til stuðnings við langveik börn og fjöldamörg önnur mikilvæg verkefni í þágu barnanna sem enginn getur mótmælt að eru sannarlega mikilvægasta fólkið.

Framundan er endurreisn almannatrygginga í landinu. Ríkisstjórnin hefur einsett sér að gera almannatryggingar einfaldari og markvissari svo þjónustan komist alla leið til þeirra sem mest þurfa á henni að halda. Grundvöllurinn er að við greiðum eftir getu og þiggjum eftir þörfum. Tryggingabætur, framlag úr lífeyrissjóðum og atvinnutekjur fólks eiga að verka saman.

Félagsmálaráðherra hefur þegar sett fólk til þessara verka. Þetta er viðamikið verkefni, allir vita að það er vandasamt en starfshópi ráðherrans er ætlað að skila heildstæðum tillögum, um fyrstu aðgerðir og um langtímastefnu. Vonandi getum við áður en of langt um líður kvatt án nokkurs söknuðar, tíma hins stagbætta kerfis þar sem hver viðbót gat leitt til niðurskurðar á öðrum stað og það hjá því fólki sem síst skyldi.  

Öll þekkjum við ótal dæmi þessa og líka vonbrigði og öryggisleysi þeirra einstaklinga sem við þetta búa.

Bættur hagur aldraðra og öryrkja er forgangsverkefni. Verið er að undirbúa flutning á almannatryggingum og málefnum aldraðra frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytisins. Verða þá almannatryggingar og aðrar greiðslur sem hafa að markmiði að tryggja afkomu fólks á einni hendi. Þar með verður félagsmálaráðuneytið fyrst og fremst ráðuneyti velferðarmála.

Jafnréttismálin hafa verið sett í forgang. Í samvinnu félagsmálaráðuneytis og  fjármálaráðuneytis verður nú ýtt úr vör viðamiklu umbótaverkefni til að minnka kynbundinn launamun. Þar verður efnt til endurmats á kjörum umönnunarstétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.

Endurskoðun húsnæðismála er hafin með það að markmiði að styrkja hinn félagslega þátt húsnæðisaðstoðar á vegum ríkisins. Í velferðarsamfélagi er það grundvallaratriði að fólk hafi þak yfir höfuðið. Á tímum hæsta húsnæðisverð og hæsta leiguverðs í manna minnum er málum nú svo háttað að í Reykjavík einni bíða tæplega 1000 manns eftir félagslegu leiguhúsnæði, vegna þess að það hefur ekki efni til að eignast eigið húsnæði. Við þetta getum við ekki unað.


Góðir Íslendingar.

Í byrjun þessa árs, þegar enn var langt til kosninga, lögðum við Samfylkingarfólk upp í fundaferð um landið allt. Þar töluðum við tæpitungulaust um stöðuna í hinum dreifðu byggðum landsins, í sjávarþorpum og þéttbýliskjörnum. Við töluðum um muninn á hagvaxtarstiginu á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, um nauðsyn þess að efla atvinnutækifæri kvenna á landsbyggðinni og um það að nútímaleg byggðastefna snýst um þrennt: Samgöngur, menntun og upplýsingahraðbrautina.

Strax í júní tók ríkisstjórnin þá erfiðu en jafnframt ábyrgu ákvörðun að fara að öllu eftir tillögum Hafrannsóknarstofnunar um 130 þúsund tonna þorskafla. Öllum er auðvitað algjörlega ljóst alvarleg áhrif slíkrar ákvörðunar. Og þó að reynsla sýni hæfni atvinnulífs til að laga sig að áföllum ákvað ríkisstjórnin engu að síður að virkja krafta nútímalegrar byggðastefnu.

Rauði þráðurinn í tillögum ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir er að fleiri stoðir færist undir atvinnulíf á landsbyggðinni. Þá og því aðeins mun byggðarlögum takast að halda í og laða til sín fólk og fyrirtæki að þau búi við öfluga grunngerð og veiti góða þjónustu.

Þess vegna leggur ríkisstjórnin áherslu á byggðaaðgerðir sem bæta samgöngur, auka aðgengi að menntun, efla fjarskipti og ýta undir nýsköpun starfa. Í þessu skyni verður vegaframkvæmdum flýtt um fimm milljarða á svæðum sem verða fyrir skerðingu í þorskafla. Ríflega þremur milljörðum á að verja til að efla starfsemi framhaldsskóla og háskóla, ferðaþjónustu, efla nýsköpun gegnum tímabundinn samkeppnissjóð, stórefla náms- og starfsþjálfun í tengslum við nýsköpun starfa, efla jarðhitaleit á köldum svæðum og efla dreifikerfi rafmagns.

Margvísleg áhersla er lögð á atvinnusköpun kvenna.

Auk þess er varið á þriðja hundrað milljóna til að fjölga greiddum atvinnuleysisdögum vegna hráefnisskorts, sveitarfélög fá sérstaklega 750 milljónir til að mæta tekjutapi sveitarfélaga, 500 milljónir fara í að lækka aflagjald, og loks er milljarður settur til sérstakra viðhaldsverkefna til að mæta tímabundnu atvinnuleysi. Fjármagn til rannsókna á þorskeldi verður aukið á næstu árum, og sömuleiðis er sérstök fjárveiting til að skoða togararall Hafrannsóknarstofnunar, sem er ein af undirstöðum ákvörðunar um aflamark.

Ríkisstjórnin getur því miður ekki búið til fleiri þorska í sjónum, þó formaður Framsóknarflokksins virðist á annarri skoðun. En hún getur styrkt innviði samfélaganna sem verða fyrir skerðingu – og það mun hún svo sannarlega gera. Tölurnar tala sínu máli. Ný útgjöld vegna þessara aðgerða eru samtals 6,5 milljarðar, og þegar flýtiframkvæmdir eru taldar með eru alls hreyfðar á tólfta milljarð króna.

Þetta eru því öflugustu mótvægisaðgerðir sem nokkur ríkisstjórn hefur gripið til. Raunveruleg fjárfesting í framtíð byggðar í landinu.


Góðir Íslendingar.

Í síðustu viku tók ég þátt í sérstöku þingi um viðbrögð heimsins við loftslagsbreytingum sem boðað var til af Sameinuðu þjóðunum. Loftslagsbreytingarnar eru staðreynd og þær eru að flestra mati stærsta viðfangsefni stjórnmálanna hvarvetna í heiminum. Á Íslandi tölum við stundum á léttum nótum um hlýrri sumur og betra veður, en þó að gleðjast megi yfir slíku væri það grunnhyggni að skilja ekki að öll áhrifin munu skila sér til Íslands, hækkun sjávar, bráðnun jökla, breytt loftslag, verri lífsskilyrði. Verstu átakasvæði heimsins, í Darfur, í Afganistan, í Miðausturlöndum eiga sammerkt að fólkið skortir vatn, að jarðvegurinn er að þorna upp, að fólkið tekur sig upp til að finna nýjar jarðir, finna vatn og lífsbjörg. Þá rísa átökin grimmileg og að því er virðist án nokkurs enda.

Baráttan gegn loftslagsbreytingum er barátta fyrir öryggi okkar allra. Nú er runninn upp tími aðgerða. Öll lönd heims þurfa að axla sína ábyrgð og sýna frumkvæði. Þar á Ísland að vera í fararbroddi. Verum þess líka minnug að þekking Íslendinga á nýtingu jarðhita er framlag á heimsvísu til baráttunnar gegn loftslagsbreytingunum ef rétt er á málum haldið.

Við Íslendingar stöndum einna fremst allra þjóða varðandi tækni til að framleiða orku úr jarðhita. Um þessar mundir erum við að þróa nýja tækni, djúpboranir, sem gætu margfaldað orkuframleiðslu úr jarðhita. Í meira en 70 löndum – ekki síst í mörgum þróunarlandanna – eru gríðarlegir möguleikar til að nýta jarðhita. Þau skortir hins vegar mörg þekkingu og tækni. Mikilvægt framlag Íslands í baráttunni gegn hlýnun jarðar verður því að bjóða umheiminum þekkingu okkar, reynslu og tækni til að framleiða orku úr iðrum jarðar. Hér hafa allir hlutverk: Orkufyrirtækin, háskólarnir, frjáls félagasamtök og allir sem flytja boðskap Íslands á alþjóðavettvangi.

Ljóst er að í alþjóðlegum viðræðum um nýtt hnattrænt samkomulag, sem taki við eftir gildistíma Kýótó-bókunarinnar árið 2012, verður gerð krafa um að Íslendingar minnki losun sína á gróðurhúsalofttegundum. Við skulum búa okkur undir þá kröfu á ábyrgan hátt. Það verkefni þarf nú að vinna, fljótt og örugglega.  Gera þarf ítarlega áætlun um hvernig Ísland getur mætt væntanlegum framtíðarskuldbindingum á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Setja þarf tölusett og tímasett markmið fyrir hina ýmsu geira samfélagsins þar sem losun gróðurhúsalofttegunda á sér stað. Við verðum að taka alvarlega álit Sameinuðu þjóðanna um nauðsyn helmingunar útblásturs.  

Það dylst engum að orkulindir Íslendinga hafa vakið áhuga innlendra og alþjóðlegra fjárfesta. Það er því tímabært að við skýrum leikreglurnar til að verja í senn almannahagsmuni en greiða um leið fyrir samkeppni og útrás á orkusviðinu. Við viljum greiða fyrir alþjóðavæðingu orkugeirans þannig að Íslendingar geti flutt út þekkingu sína og reynslu í beislun jarðhita og vatnsorku til annarra þjóða. Mikilvægt er að einkaaðilar fjárfesti í þeirri þekkingu sem býr í orkugeiranum og nýti hana til útrásar í verkefnum í öðrum löndum. Það er hins vegar jafn mikilvægt að þjóðin njóti arðsins af auðlindum sínum og hún missi þær ekki úr höndum sér.


Góðir Íslendingar.

Okkar eigin reynsla og reynsla annarra þjóða – ekki síst Norðurlandaþjóða – sýnir að jafnvægi í efnahagsmálum á grundvelli traustrar stefnu í fjármálum og peningamálum er forsenda hvors tveggja í senn, varanlegra framfara í þjóðarbúskapnum og félagslegs réttlætis. Það er því eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja jafnvægi í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Það sem þarf eru samstilltar umbætur á öllum sviðum hagstjórnar. Ríkisstjórnin stígur tvö mikilvæg skref í átt að betri samhæfingu hagstjórnarinnar. Í fyrsta lagi með gerð rammafjárlaga til fjögurra ára frá og með næstu fjárlögum. Í öðru lagi með því að koma á fót samráðsvettvangi um efnahags- og félagsmál sem samstilla á markmið og aðgerðir.

Herra forseti, kæru landsmenn Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar er ríkisstjórn með mikinn metnað og afl til að hrinda nauðsynlegum umbótum í framkvæmd. Við munum hvergi slá af við að styrkja almannaþjónustuna, fjölga stoðum íslensks atvinnulífs og axla okkar sanngjörnu byrðar í alþjóðlegu samfélagi, svo sem á sviði þróunaraðstoðar og friðargæslu. Framtíðin er björt, megi komandi þingvetur verða okkur öllum til gæfu. Góðar stundir.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira