Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. október 2007 UtanríkisráðuneytiðUTN Forsíðuræður

Ísland á alþjóðavettvangi - skiptum við máli í dag?

Talað orð gildir


Ég þakka fyrir fundinn sem er sá þriðji í röðinni í Háskólafundaröð utanríkisráðuneytisins og háskólanna í landinu. Tilgangurinn með fundarröðinni sem íslensk stjórnvöld, undir forystu utanríkisráðuneytis, efna til í samvinnu við alla háskóla landsins er að efla samræðu um alþjóðamál í þjóðfélaginu, og beina sjónum séstaklega að hlutverki, skyldum og tækifærum Íslands í því sambandi.

Fyrsti fundurinn var í Háskóla Íslands 7. september sl. helgaður umræðunni um framboð Íslands til öryggisráðs SÞ. Á Bifröst fyrir tæpri viku var rætt um íslensku friðargæsluna og þátttöku okkar í uppbyggingu stríðshrjáðra svæða. Í dag er sjónum beint að því hvort við Íslendingar skiptum almennt máli á alþjóðavettvangi. Hvort við höfum til þessa skipt máli og um þá spurningu fjallaði Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, í máli sínu hér áðan.

Ég ætla að fjalla hér um það hvort við skiptum máli í dag, í nútímanum og um það hver sé staða Íslands á alþjóðavettvangi með tilliti til hnattvæðingar. Ég mun skoða viðfangsefnið ? stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og hvort við skiptum máli - út frá stöðunni í dag og þeim tækifærum sem ég sé fyrir okkur til að hafa áhrif, frekar en beina sjónum sérstaklega að starfi Íslands á vettvangi alþjóðlegra stofnana eða samtaka.

Breyttur heimur felur í sér áskoranir
Ég er ekki í nokkrum vafa um það að breyttur heimur felur í sér mikil tækifæri og áskoranir fyrir smá ríki eins og Ísland. Þekking, kunnátta og hugvit er forsenda þess sjálfstraust sem er einstaklingum, stofnunum, fyrirtækjum og þjóðum er svo mikilvægt til að þeir geti látið til sín taka, um sig muna. Þetta er líka sú mynt sem mest gildi hefur í alþjóðlegum samskiptum eins og þessi skóli er sér vel meðvitaður um og ræktar.

Ef ég svara spurningunni með jafn beinskeyttum hætti og hennar er spurt; skiptum við máli á alþjóðavettvangi á dag, fullyrði ég að það er horft til okkar. Aðrir horfa til okkar vegna þess að við erum ríkt og öflugt menningarsamfélag sem hefur þróast mjög ört frá örbirgð til allsnægta. Það er horft til okkar til að læra af reynslu okkar á þeim sviðum þar sem vel hefur gengið eða vegna þess að samstöðu er vænst af Íslandi sem og framlags innan alþjóðastofnana og samtaka. Þetta er ekki háleitt hugsjónatal heldur augljós staðreynd.

Heimurinn og þar með talið Ísland hefur breyst ótrúlega hratt á undanförnum árum. Um það erum við öll sammála. Eftir því sem best verður séð er ekkert svið mannlífsins hérlendis ósnortið af þeim breytingum. Straumhvörf hafa orðið og þau lýsa sér þannig að orsakir, tilefni og upptök þróunar eru ekki lengur einfaldlega íslensk heldur í raun alþjóðleg.

Ég nefni nokkur atriði sem dæmi: Áhrif frjáls flæðis fjármagns, áhrif nýrra sjúkdóma, hlýnandi veðurfars, flutninga fólks milli landa og heimsálfa í atvinnuleit, breytingar á heimsmarkaðsverði orkugjafa, útbreiðsla mansals og alþjóðleg glæpastarfsemi, hraði tækninýjunga, tilurð alþjóðlegs menningarmarkaðar eða útbreiðsla stríðsátaka einhvers staðar í víðri veröld ? allt mun þetta framvegis hafa sjálfkrafa og afgerandi áhrif á lífsgæði, tækifæri og velferð núlifandi og óborinna Íslendinga.

Hin unga kynslóð Íslendinga er löngu vöknuð til vitundar um þetta og íslenskir viðskiptamenn, listamenn, og sérfræðingar vissu fyrir löngu að heimurinn allur er undir. Ég hef orðað það svo að í breyttum heimi á 21. öld eru alþjóðamálin innanlandsmál, heimsmálin eru heimamál og heimaverkefnin eru heimsverkefni.

Málefnalegt forskot Íslands
Sú þekking sem Íslendingar hafa verið svo lánsamir að byggja upp, tæknin sem við höfum þróað og leiðirnar til þess að takast á við ögranir og tækifæri samtímans, hafa skilað okkur samfélagi sem forréttindi eru að búa í fyrir flest okkar. Þessi þekking á erindi við umheiminn og getur í senn skilað honum framförum og verið grunnur þess að hagur okkar sjálfra, samfélags okkar, sé betur tryggður.

Um hvaða þekkingu er ég að tala? Ef við horfum yfir íslenskt samfélag og veltum því fyrir okkur hvar okkur hefur tekist betur upp en mörgum öðrum þjóðum vil ég einkum nefna þrennt sem varðar auðlindir samfélags, lands og sjávar.

Í fyrsta lagi stjórnun og nýtingu sjávarauðlinda. Hvað sem okkur kann að finnast um fiskveiðistjórnunarkerfi okkar og þá ágalla sem á því eru, höfum við samt betri sögu að segja en flestar aðrar fiskveiðiþjóðir. Við eigum líka merkilega sögu að baki í þróun alþjóðlegs hafréttar.

Í öðru lagi vil ég nefna virkjun og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, ekki síst jarðhita en þar búum við yfir áratuga þekkingu, reynslu og tækni sem hefur algera sérstöðu í heiminum.

Síðast en ekki síst vil ég nefna virkjun og nýtingu kvenorkunnar í íslensku samfélagi. Mikil þátttaka íslenskra kvenna á vinnumarkaði í áratugi er mjög sérstök, við höfum merkilega sögu að segja í jafnréttismálum sem m.a. nær til kjörs fyrsta kvenforsetans í lýðræðislegum kosningum í heiminum og merkilegrar sögu kvennaframboða. Á þessu sviði eins og hinum höfum við líka heiður að verja.

Orðið vör við að þegar við tölum um þessi mál á alþjóðavettvangi þá gerum við það af sjálfstrausti og það er hlustað á okkur. Það er tekið eftir því sem við segjum. Í sambandi við öll þessi mál vil ég líka leggja áherslu á að sérhver vegur að heiman er vegurinn heim þ.e.a.s. þegar við látum til okkar taka á alþjóðavettvangi þá hefur það áhrif hér heima. Ef við ákveðum að láta sjálfbæra nýtingu auðlinda, endurnýjanlega orkugjafa og bætta stöðu kvenna verða okkar baráttumál á alþjóðavettvangi þá gerir það kröfu til þess að þessi mál séu í lagi á heimaslóð.

Á síðustu árum hafa umsvif Íslands í öllum þessum málum á alþjóðavettvangi aukist verulega og hefur Ísland gegnt lykilhlutverkum innan alþjóðastofnana og í verkefnum sem hafa þýðingu fyrir umheiminn ekki síður en Ísland.

Ísland hefur átt frumkvæði í því að miðla reynslu sinni af sjálfbærri nýtingu hafsins og tekið frumkvæði í hafréttarmálum. Það hefur meðal annars verið gert með rekstri sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Á þessu sviði standa Íslendingar framar öðrum og er þess vænst af okkur að við miðlum öðrum þjóðum þekkingu um hvernig nýta megi auðlindir hafsins með sjálfbærum hætti.

Sama gildir um nýtingu jarðhita og endurnýjanlegrar orku. Þar er litið til Íslendinga sem frumkvöðla og framvarða. Jarðhitaskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur verið starfræktur á Íslandi frá 1979 og þar hefur Ísland miðlað sérþekkingu sinni í nýtingu jarðvarma til sérfræðinga frá þróunarríkjum og stuðlað þannig að sjálfbærri þróun með nýtingu endurnýjalegrar orku í þróunarríkjum. Áratuga starf, sem nýtist nú beint í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þetta er frumkvæði sem eftir er tekið. Þegar Sameinuðu þjóðirnar fjalla um framtíðar orkubúskap heimsins og dæmi eru tekin um mögulegar lausnir, þá er alltaf minnst á jarðhita og vetnisrannsóknir. Það er eingöngu vegna frumkvæðis Íslendinga og þátttöku í starfi á þeim vettvangi.

Jafnréttismálin höfum við alltaf látið til okkar taka þó það hafi ekki verið gert með jafn afgerandi hætti og á hinum tveimur málasviðunum. Þó er ástæða til að taka fram að í þróunaraðstoð og friðargæslu Íslendinga hefur verið mótuð sú stefna að setja stöðu kvenna ? og reyndar barna líka - í ákveðinn forgrunn. Framlag okkar til UNIFEM hefur þannig þrítugfaldast frá 2003 og við erum nú að verða í hópi þeirra þjóða sem mest leggja þar af mörkum.

Ég vil vinna að því að gefa jafnréttismálunum aukið vægi m.a. með því að vinna ötullega að því á alþjóðavettvangi að ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 frá árinu 2000 um aðkomu og þátttöku kvenna í friðarsamningum, friðarmyndun og friðargæslu verði ekki orðin tóm heldur sé aðkoma þeirra tryggð með raunhæfum aðgerðum. Þá eigum við Íslendingar ekki að fallast á að það sé hægt að gefa afslátt af rétti kvenna til fullrar þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum með tilvísun til menningarlegrar fjölbreytni eða afstæðishyggju í mannréttindamálum.

Tengslanet og tækifæri
Þátttaka í alþjóðastarfi helgast öðru fremur af því að standa vörð um almannahagsmuni og þjóðarhag. Á sama tíma kallar alþjóðasamfélagið á aukna þátttöku og ábyrgð Íslands í alþjóðamálum og hafa þær kröfur haft sín áhrif á utanríkisstefnu landsins. Aukins þrýstings hefur orðið vart af hálfu aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, Evrópska efnahagssvæðisins, Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans að Ísland láti ekki sitt eftir liggja. Ísland getur heldur ekki lengur borið fyrir sig skort á bolmagni til að taka virkan þátt í samfélagi þjóðanna. Við höfum enga þá almennu sérstöðu sem undanskilur okkur frá skyldum í samfélagi þjóða. Ég er líka sannfærð um að flestir Íslendingar vilja skapa þjóðarímynd sem sýnir ábyrgð og getu, andstætt því að vilja fá allt fyrir ekkert, þ.e. að vilja taka þátt í alþjóðastarfi fáist út úr því einhver beinn ábati eða a.m.k. sé það ríkinu að kostnaðarlausu.

Í dag hef ég verið nákvæmlega fimm mánuði í starfi utanríkisráðherra og þó það sé ekki langur tími þá hefur hann alveg dugað mér til að skynja þau miklu tækifæri sem eru til framfara í virku samspili íslensks samfélags og alþjóðasamfélagsins. Þar liggur styrkur okkar m.a. í því að boðleiðir eru svo stuttar á Íslandi og upplýsingamiðlun mjög virk ? þó hún sé ekki alltaf mjög formlega og felist stundum í því sem maður segir manni - milli félagasamtaka, stjórnvalda og fyrirtækja. Íslendingar eru almennt mjög vel tengdir innbyrðis og við umheiminn og ég vil fullyrða að tengslanet okkar er mjög sérstakt.

Góðir áheyrendur

Í erindi sínu í Háskóla Íslands 7. september sl. fjallaði Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði um aukna þátttöku Íslands í alþjóðastarfi og spurði Hvers vegna og til hvers? Hann taldi að til þess að svara spurningunni þyrfti einkum að horfa til fjögurra þátta:

Breyttra hagsmuna Íslands og breytinga á því hvernig hagsmunir Íslendinga eru skilgreindir;
Aukinna bjarga hér innanlands;
Breytts viðhorfs íslenskra ráðamanna til alþjóðasamskipta;

Alþjóðlegs þrýstings og aukinna áhrifa alþjóðastofnana á innanlandsmálefni.

Ég hef vikið að flestum þessara þátta í máli mínu hér í dag og í raun að öllum nema þeim þriðja sem Baldur kallar breytt viðhorf íslenskra ráðamanna til alþjóðasamskipta.

Ég vil ekki halda því fram að víðsýni hafi ekki einkennt störf og stefnu íslenskra ráðamanna til þessa. Marga þeirra einkenndi stórhugur og framsýni. Margir hafa hins vegar líka fallið í þá gryfju populismans að formæla því sem kemur að utan, finna utanlandsferðum allt til foráttu og talið best að búa að sínu. Það er auðvitað sjónarmið en skilar okkur litlu ef við viljum vera þátttakendur í samfélagi þjóðanna.

Staðreyndin er sú að það þarf skýran pólitískan vilja og skýra pólitíska forystu til þess að Ísland verði sá gerandi, sá þátttakandi, á vettvangi alþjóðastjórnmálanna sem efni standa til og sjálfsmynd okkar kallar á. Það er stefna ríkisstjórnarinnar sem leggur á það sérstaka áherslu í stjórnarsáttmála sínum að taka aukið frumkvæði í alþjóðamálum.

Að lokum við ég ítreka að umræða af þeim toga sem nú fer fram í samvinnu utanríkisráðuneytisins og háskólanna er mikilvæg fyrir stjórnvöld í landinu, hún er mikilvæg fyrir háskólasamfélagið, fyrir menntun nýrra kynslóða og hún er mikilvæg fyrir almenning í landinu. Ég tel að hún sé nauðsynlegur liður í því að byggja upp tengsl milli fræða og stefnumörkunnar opinberra aðila á sviði alþjóðamála.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira