Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. nóvember 07 Utanríkisráðuneytið

Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, um utanríkismál

Ingibjorg_Solrun_05
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra

PDF-snið (178 KB)


Ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra
um utanríkismál Flutt á Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007-2008

(TALAÐ ORÐ GILDIR)

Virðulegi forseti,

Virðulegi forseti,

Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við landsstjórninni 24. maí síðastliðinn og hefur nú haldið um stjórnartaumana í 168 daga. Á þeim tíma hefur fjölmargt unnist. Meira hefur farið fyrir sumum málum en öðrum og segir það ekki endilega til um mikilvægi mála hver fyrirferð þeirra er í dægurumræðunni.

Á sviði utanríkismála hefur öryggis- og varnarmál borið hæst enda ærið verkefni að leiða til lykta yfirtöku Íslands á eigin öryggi og vörnum. Ég verð því miður að segja að þar voru ýmsir lausir endar sem hnýta þurfti.

Meðal annarra mála sem unnið hefur verið að í utanríkisráðuneytinu má nefna:

 

  • Endurskipulagningu þróunarsamvinnu Íslands
  • Frumkvæði í málefnum Norðursvæða
  • Loftslagsmál og málefni hafsins
  • Aðgerðaáætlun um Mið-Austurlönd
  • Sókn á erlendum mörkuðum, viðskiptafrelsi og bættan markaðsaðgang
  • Endurskoðun vinnubragða í utanríkisráðuneytinu
  • Störf í þágu friðar með sérstöku tilliti til þess að auka hlut og aðkomu kvenna
  • Undirbúning nýrra verkefna í alþjóðasamfélaginu s.s. framboð til Íslands til öryggisráðsins og aukið hlutverk í stjórn og starfi Alþjóðabankans.

 

Tíminn leyfir ekki að hér sé gerð ítarlega grein fyrir öllum þessum fjölþættu málum og ýmislegt hefur komið til umræðu í utanríkismálanefnd nú þegar.  Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég þó geta þess að í janúar næstkomandi mun ég flytja Alþingi sérstaka skýrslu um Evrópumál.  Um þau verður þessvegna ekki fjallað í ræðu minni að þessu sinni. 

 

Virðulegi forseti.

Þó skammt sé liðið á tuttugustu og fyrstu öldina hefur hún nú þegar borið með sér miklar breytingar.  Heimurinn breytist ört og Ísland er lifandi vitnisburður þeirra hröðu breytinga. 

Upptökin eru ekki lengur einfaldlega íslensk heldur í raun alþjóðleg.  Ég bendi á sem dæmi frjálst flæði fjármagns, hlýnandi veðurfar, bráðnun jökla, flutninga fólks milli heimsálfa í atvinnuleit, sveiflur á heimsmarkaðsverði orkugjafa og tilkoma hins nýja alþjóðlega markaðar skapandi atvinnugreina. 

Við nefnum hinar nýju aðstæður stundum einu nafni hnattvæðingu.

Hnattvæðingin er ekki ný undir sólinni en á okkar öld ber hún ný einkenni.  Á fyrri öldum fluttist fólk búferlum milli landa, yfirgaf þau samfélög sem það hafði búið í og fluttist til nýrra heima.  Nú ná heimsbreytingar inn í hvert eitt samfélag, hvað sem landamærum eða þjóðerni líður, og íbúar heimsþorpsins eiga ekki val þar um, heldur val um hvernig þau bregðast við breytingunum.  

Skilin milli innanlandsmála og alþjóðamála eru að hverfa.  Verksvið allra ráðherra í ríkisstjórn Íslands nær inn á alþjóðavettvang.  Nýjar alþjóðareglur eða ný stefna sem mótuð er með viðskiptasamningum eða á vettvangi Evrópusamruna, hjá Alþjóðabankanum eða meðal Norðurlandaþjóða hefur bein áhrif á Ísland, á íslensk fyrirtæki og íslenskar fjölskyldur. Loftslagsbreytingar þekkja engin landamæri og það mega lausnirnar ekki heldur gera.  

Íslenskum stjórnmálum er nú svo farið að heimsmál ná inn í sveitarstjórnir. Þessvegna hef ég t.d. stutt viðleitni Sambands íslenskra sveitarfélaga til að komast að borðinu í EFTA- og EES samstarfi.  Og heimaverkefni okkar Íslendinga eins og verð á lyfjum til almennings finnur bestu lausnina í fjölþjóðlegu samstarfi eins og heilbrigðisráðherra hefur gengist fyrir á síðustu vikum. Sama á við um málefni hafsins en vandað framlag Íslands sem EES-ríkis til stefnumótunar á því sviði hefur vakið verulega athygli innan Evrópusambandsins og mun skila okkur og öðrum ávinningi. 

Á 21. öld eru heimsmálin einnig heimamál og heimaverkefnin eru heimsverkefni. 

I

Utanríkisþjónusta nýrrar aldar

 

Virðulegi forseti, 

Það er hlutverk utanríkisþjónustunar að vakta þau tækifæri og þær hræringar á alþjóðavettvangi sem geta haft áhrif á íslenskan þjóðarhag, miðla þeim til réttra aðila innanlands og bregðast við eftir efnum og ástæðum. Utanríkisþjónustan á að veita bæði einstaklingum og fyrirtækjum þjónustu og gæta íslenskra almannahagsmuna.  

Ég legg kapp á það að utanríkisþjónustan þróist í takt við nýja tíma.  Hún þarf bæði að laga sig að þeim breyttu aðstæðum sem ég vísaði hér til og hún þarf að vera í takt við það samfélag sem hún er sprottin úr.  Það er mér því mikið ánægjuefni að tekist hefur frjótt og mikilvægt samstarf með utanríkisþjónustunni og öllum háskólum landsins. Á opnum fundum sem haldnir eru í háskólunum fara fram innihaldsríkar umræður um erindi Íslands á alþjóðvettvangi, réttindi okkar og skyldur.  Það er löngu tímabært að efnt sé til slíkrar samræðu við háskólasamfélagið og allan almenning.  Við eigum að hvetja til umræðu um alþjóðamál og leitast við að byggja upp sammæli Íslendinga um grunnatriði utanríkisstefnunnar ólíkt því sem einkenndi 20. öldina oft og tíðum og það stjórnmálaandrúmsloft sem þá var ríkjandi.

Eins og sjá má í stjórnarsáttmálanum vill þessi ríkisstjórn gera sitt til þess að bæta samskipti þings og ráðuneytis um utanríkismál. Liður í því er að í gær ritaði ég utanríkismálanefnd bréf þar sem ég greindi frá því að ráðuneytið hefði hlutast til um að alþingismönnum sem sæti eiga í utanríkismálanefnd yrði, í krafti starfs síns í nefndinni, veitt öryggisvottun NATO. Eins og kunnugt er hvílir trúnaður á störfum utanríkismálanefndar skv. 2. mgr. 24. gr. þingskapalaga. Á það við um NATO-gögn sem sýnd verða samkvæmt ákvörðun ráðherra. 

 

Vegna þessa hefur utanríkismálanefnd nú fengið aðgang að fundargerð NATO-ráðsins frá 4. október 2001 og geta nefndarmenn því gengið úr skugga um það, eins og ég hef þegar gert sjálf, að NATO veitti ekki heimildir til fangaflugs, leynifangelsa eða pyntinga eins og látið hefur verið í veðri vaka í umræðunni.

 

Slíkur aðgangur utanríkismálanefndar er visst sögulegt nýmæli og í bréfi mínu óskaði ég eindregið góðs samstarfs um að þessi breyting yrði til eflingar störfum Alþingis og utanríkismálanefndar. Viðbrögð nefndarmanna gefa góðar vonir um að svo muni verða.

 


Háttvirtu þingmenn. 

Aldrei hafa fleiri Íslendingar leitað sér sérþekkingar á alþjóðamálum eins og nú er raunin og aldrei hafa fleiri menntað sig í öðrum löndum.  Menntasprengjan sem orðin er á Íslandi hefur opnað heiminn fyrir ungum Íslendingum.  Ungt fólk á meira val en nokkur önnur kynslóð Íslendinga um hvar það kýs að lifa eða starfa.  Utanríkisþjónustan nýtur góðs af aukinni menntun ungs fólks og hefur á að skipa færu liði með fjölbreytta þekkingu um leið og byggt er á góðum grunni.

Íslensk utanríkisstefna stendur á tímamótum og nýtt tímaskeið er að renna upp.  Til marks um það eru nýjar áskoranir og ný hlutverk.  Á nýrri öld á utanríkisþjónustan að vera þekkingarsamfélag og í breyttum heimi þarf ný vinnubrögð.  Ég skynja mikinn metnað öflugs starfsfólks til þess að efla þjónustuna og tryggja að íslenskur almenningur þekki til mikilvægra starfa hennar.  Utanríkisþjónustan verður að búa að tvennu: Góðri og gegnsærri stjórnsýslu annars vegar og nýrri og ríkri þekkingu hins vegar.  Áfram verður unnið að því að skerpa á vinnubrögðum og vinnulagi og gera utanríkisþjónustuna sem hæfasta til þess að mæta framtíðinni.

 

II

Norðurslóðir nýtt forgangsmál

 

Virðulegi forseti,

Norðurslóðir eru nýtt kjarnamál í íslenskri utanríkisstefnu.  Málið hefur verið sett í forgang í ráðuneytinu og heildstæð stefna varðandi norðurslóðir er nú í vinnslu. Á norðurslóðum eru miklir hagsmunir í húfi eins og við vitum öll og öryggi á Norður-Atlantshafinu er tvímælalaust eitt mest áríðandi öryggismál Íslands.  En málið varðar ekki Íslendinga eina og umræður á vettvangi NATO og Norðurlandaráðs nú nýverið bera þess órækt vitni að málefni norðurslóða munu verða fyrirferðarmeiri á dagskrá alþjóðastofnana hér eftir en hingað til.  Því ber að fagna.

Ein ástæða þessa er þó sú að allmörg ríki gera tilkall til áhrifa og aðgangs að auðlindum á Norðurpólnum.  Við Íslendingar hljótum að leggja áherslu á góða samvinnu þeirra ríkja sem eiga hagsmuna að gæta á norðurslóðum en vara við kapphlaupi um auðlindir norðursins og einhliða aðgerðir. 

Ísland hefur um árabil gegnt mikilvægu hlutverki við mótun alþjóðlegra leikreglna um hafið og nýtingu þess og þeirra auðlinda sem þar er að finna og Ísland hafði forystu í Norðurskautsráðinu frá 2002 til 2004. 

Við munum á grunni þessarar reynslu beita okkur fyrir mótun nauðsynlegra leikreglna á Norðurslóðum.  Þar verða alþjóðalög að vega þyngra en hnefaréttur, og hagsmunir mannkyns í heild að vega þyngra en þröngir hagsmunir einstakra ríkja.

Í þessu sambandi ber að fagna þeim tíðindum, sem nú berast frá Washington, að Bandaríkin séu nær því að gerast aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna en nokkru sinni áður frá samþykkt hans árið 1982.  Mikilvæg ástæða þess er að Bandaríkjamenn sjá sem er, að aðild veitir þeim aðgang að skipulögðu samningaferli. Þeir sjá að þjóðarétturinn virkar fyrir alla. 

Þá skal þess getið að mikilsverður árangur hefur náðst á þessu ári í baráttunni gegn ólöglegum veiðum hentifánaskipa á Norður-Atlantshafi. 

 

III

Mannréttindi

 

Virðulegi forseti,

Mannréttindi eiga að vera óaðskiljanlegur þáttur í utanríkisstefnu landsins og samofin öllu okkar atferli á alþjóðavettvangi. 

Til að staðfesta þetta í starfi utanríkisþjónustunnar skipaði ég starfshóp innan ráðuneytisins sem mun í næsta mánuði skila til mín tillögu að heildstæðri aðgerðaáætlun á sviði mannúðar-, friðar- og þróunarsamvinnumála.  Markmiðið er að mannréttindasjónarmið verki svikalaust á þróunarsamvinnu, öryggismál, friðargæslu og viðskiptasamninga.

Fyrir dyrum stendur að setja á stofn landsnefnd um mannúðarlög sem á að veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi túlkun og framkvæmd alþjóðlegra mannúðarlaga og breiða út þekkingu á þeim en mikilvægt er að tryggja að sá ávinningur sem náðist eftir síðari heimstyrjöldina með samþykki Genfarsamninganna glatist ekki.

Ég árétta þá afstöðu íslenskra stjórnvalda að baráttuna gegn hryðjuverkum megi aldrei heyja á kostnað mannréttinda og að virða skuli alþjóðlegar mannúðar- og mannréttindareglur skilyrðislaust í þeirri baráttu. 

 

 

IV

Þróunarsamvinna

 

Virðulegi forseti,

Í sumar hefur farið fram mikil vinna á vegum ráðuneytisins við að móta nýja rammalöggjöf um alþjóðlegt starf Íslands gagnvart þróunarríkjum. 

Þúsaldarmarkmiðin, átta skilgreind og mælanleg markmið sem Sameinuðu þjóðirnar vilja ná fyrir 2015, leggja grunninn að öllu þróunarstarfi á alþjóðavettvangi.  Þau miða að því að bæta hag íbúa þróunarríkja með því að útrýma fátækt og hungri, bæta heilsufar, vinna að jafnrétti kynjanna, betri menntun og umhverfisvernd og stuðla að hnattrænni samvinnu um þróun.

Áherslur Íslands í þróunarsamvinnu taka vitanlega mið af þúsaldarmarkmiðunum og ég tel að við eigum á næstu árum að leggja megináherslu á menntun, heilsugæslu, jafnrétti kynjanna og sjálfbæra þróun.  Leiðarljós allrar þróunarsamvinnu Íslendinga er og á að vera að styðja þróunarlöndin til sjálfsbjargar í efnahags- og velferðarmálum og þar er ekkert verkefni mikilvægara en menntun og miðlun þekkingar.  Íslendingar hafa þar margt að bjóða ekki síst í Afríku þar sem þörfin er brýnust fyrir stuðning við uppbyggingu velferðarþjónustu, atvinnulífs og mannréttinda.  

Það er sérstakt gleðiefni að stuðningur okkar við menntamál á vettvangi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hefur farið vaxandi á liðnum árum og rennur nú meira fjármagn til fræðsluverkefna í þróunarlöndunum en nokkurra annarra málaflokka. Þetta er mikilvæg þróun og ég tel að í henni felist rétt forgangsröðun.  

Ljóst er að sérþekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa getur nýst afar vel fátækum þjóðum svo sem í Afríku, sem margar hverjar ráða yfir ríkulegum náttúruauðlindum en hafa ekki búið yfir þekkingu til að nýta þann auð í þágu almennings.  Sömu sögu er að segja af smáum eyþróunarríkjum en þar hefur verið kallað sérstaklega eftir samvinnu, þátttöku og framlagi Íslands.  Því er nú verið að skoða sérstaklega að setja af stað þróunarverkefni í samvinnu við eyjar í Karíba- og Kyrrahafi sem hafi það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun einkum á sviði fiskveiða og sjávarútvegs og í nýtingu jarðvarma og annarra endurnýjanlegra auðlinda. 

Aukin framlög Íslands til þróunaraðstoðar haldast í hendur við framangreind markmið.

Ríki sem við viljum helst bera okkur saman við eins og Danmörk, Noregur, og Svíþjóð hafa öll náð því markmiði sem sett var á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 1970 að hlutfall af vergri landsframleiðslu sem rennur til þróunarmála skuli nema 0,7%.  Finnland mun ná markinu árið 2010 og auk þess hafa ellefu önnur ríki sett það markmið að ná þessu hlutfalli fyrir árið 2015.  Sem auðugu ríki ber okkur skylda til að stefna markvisst að því að verða í hópi þeirra ríkja sem mest leggja fram til þróunarmála miðað við verga landsframleiðslu.  Á þessu ári mun hlutfallið nema 0,28%, 0,31% á næsta ári og 0,35% árið 2009.

Með auknum framlögum aukast kröfur til fagmennsku. Í þessu ljósi hef ég ákveðið að Ísland gerist aðili að DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD. Með aðildinni fær Ísland beinan aðgang að reynslu og upplýsingum sem nýtast við mótun stefnu í þróunarstarfi auk þess sem DAC gerir úttekt á þróunarsamvinnu aðildarlandanna á fjögurra ára fresti. Þetta miðar að því að tryggja gæði þróunaraðstoðarinnar og veitir mikilvægt faglegt aðhald.  

Engin þjóð, allra síst þjóðir sem búa við jafn mikla velmegun og við Íslendingar, á að geta skorist undan því að axla sínar skyldur og ábyrgð svo að Þúsaldarmarkmiðunum, sem - þegar öllu er á botninn hvolft - varða velferð okkar allra, verði náð.

Frjáls félagasamtök vinna mikilvægt og óeigingjarnt starf á sviði þróunarmála hvort sem er hér heima eða í þróunarríkjum.  Hagsmunir okkar felast ekki síst í því að virkja þann kraft sem þau búa yfir og styrkja það frumkvöðlastarf sem fram fer á þeirra vegum. Ég hef því ákveðið að tvöfalda þau framlög sem ráðstafað er til þróunaraðstoðar í gegnum íslensk félagasamtök, þannig að það hækkar á næsta ári úr 60 milljónum króna í 120 milljónir króna.

Í viðskiptalífinu hefur orðið vart vaxandi áhuga á þróunarstarfi. Í ráðuneytinu er nú í undirbúningi stofnun sérstaks viðskiptaþróunarsjóðs sem fyrirtæki geta sótt í til að fjármagna undirbúning viðskiptatengdra verkefna í þróunarríkjum sem sannanlega geta stuðlað að bættum lífskjörum í viðkomandi landi.

Í allri þróunarsamvinnu Íslendinga vil ég leggja sérstaka áherslu á að málefni kvenna og barna verði sett í forgrunn.  Með auknum framlögum til lykilstofnanna Sameinuðu þjóðanna sem fara með málefni kvenna og barna mun Ísland skipa sér í þann flokk ríkja sem mest leggja til viðkomandi stofnana ef miðað er við höfðatölu.  Erum við nú þegar efst á lista yfir framlagsríki UNIFEM og á meðal 10 efstu framlagsríkja UNICEF.  Þá munum við einnig vinna ötullega með Alþjóðabankanum að málefnum kvenna og samþættingu kynjasjónarmiða.

 

 V

Störf í þágu friðar

 

Virðulegi forseti, háttvirtir alþingismenn.

Íslenska friðargæslan er borgaraleg starfsemi og á til framtíðar að verða stolt Íslendinga. Einn hinna nýju hornsteina íslenskrar utanríkisstefnu er friðsamleg lausn deilumála enda óhugsandi fyrir ríki eins og Ísland, sem er öflugt smáríki, að skorast undan á því sviði. 

Ég hef hins vegar orðið þess vör að margir Íslendingar þekkja ekki nægilega vel til þeirra forsendna sem framlag Íslands til starfa í þágu friðar byggist á. 

Eftir lok kalda stríðsins jókst áhersla á friðargæslu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hjá NATO og víðar. Nær öll ríki hófu virka þátttöku með einum eða öðrum hætti og eitt þeirra sem það gerði var Ísland. 

Segja má að í upphafi hafi friðargæsluverkefnin ekki verið nægilega vel skilgreind og réttarstaðan hafi verið óljós. Á þessu ári voru samþykkt ný lög á Alþingi um íslenska friðargæslu og þar sem skýrt er kveðið á um borgaralega skilgreiningu á starfssviði friðargæslunnar.  Þá áherslu mun ég leitast við að skerpa áfram eins og ég hef gert í sumar. 

Nú eru íslenskir friðargæsluliðar við störf í Afganistan, Bosníu-Hersegóvínu, Líbanon, Líberíu, Makedóníu, Palestínu, Serbíu og á Sri Lanka.  Verkefnin sem þeir taka þátt í eru á vegum NATO, Evrópusambandsins, UNIFEM, UNIFIL, UNICEF og hinnar svonefndu Eftirlitssveit með vopnahléi á Sri Lanka.  

Í Afganistan stendur NATO og alþjóðasamfélagið frammi fyrir gríðarlega erfiðu verkefni, en þó er enginn vafi á því að mikið hefur þegar áunnist.  Við þurfum að líta til þess hvar okkar þekking og geta nýtist best í því samstillta átaki sem nauðsynlegt er til að ná árangri í Afganistan sem gagnast heimamönnum til frambúðar. 

Stefnt er að því að auka þátttöku í friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna og markmiðið er að senda fleiri til starfa í Miðausturlöndum. 

Framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna var ákveðið 1998 og fer kjörið fram innan árs á allsherjarþinginu í New York. Kosningabarátta okkar kostar aðeins brot af því sem Tyrkir og Austurríkimenn verja til sinnar baráttu en hún er vel skipulögð og skilvirk.

Framboðið er norrænt framboð og allir utanríkisráðherrar Norðurlanda fylgjast með af áhuga, tala fyrir kjöri Íslands og hafa sent öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna bréf þar sem þau eru hvött til að greiða atkvæði með Íslandi.

Færa má rök fyrir því að Ísland, eins og önnur ríki, deili fullveldi sínu með öðrum aðildarríkjum alþjóðastofnana svo sem Sameinuðu þjóðanna ekki síst vegna valdheimilda öryggisráðsins. Þess vegna má telja að framboðið sé skref til fullnustu sjálfstæðis þjóðarinnar, að Ísland sé rétt eins og aðrar sjálfstæðar þjóðir, fullfært um að sitja við borðið. Munum að meira en fjörutíu af fimmtíu þróunarríkjum Afríku hafa setið í öryggisráðinu. 

Á alþjóðavettvangi finnst mjög mörgum að einmitt ríki eins og Ísland eigi að sitja í ráðinu; lýðræðisríki sem ekki á í deilum við önnur ríki; ríki sem samkvæmt venju leysir sín deilumál á friðsaman hátt; ríki sem virðir almenn mannréttindi; ríki sem ekki á sér forsögu sem flækt getur fyrir óhlutdrægri úrlausn deilumála.

Á hitt ber líka að líta að vinnan við framboðið skilar okkur umtalsverðum ávinningi. Framboðið er tækifæri til að dýpka þekkingu okkar á málefnum og landsvæðum sem við höfum ekki sinnt mikið til þessa.  Það er svar við þeirri kröfu sem hnattvæðingin gerir. 

Liður í þessu voru ferðir sem ég fór á mínum fyrstu mánuðum í starfi, fyrst til Afríku á fund Afríkusambandsins í Accra í Ghana og þá til Mið-Austurlanda, þ.e. Ísraels, hernumdu svæða Palestínumanna og til Jórdaníu. Verkefni öryggisráðsins eru ekki síst tengd þessum svæðum.

Í framhaldi af ferð minni samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun um Mið-Austurlönd sem miðar að því að bæta aðstæður Palestínumanna. Í áætluninni felst m.a. tvöföldun á framlagi Íslands til svæðisins.  

Alþjóða kjarnorkumálastofnunin miðar að því að koma í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna.  Þar höfum við stutt viðleitni til þess að þrýsta á stjórnvöld í Íran um að gera full grein fyrir kjarnorkuáætlun sinni.  Þó mikilvægt sé að beita þeim úrræðum sem tiltæk eru til þess að sporna gegn ólöglegum aðgerðum er ekki síður mikilvægt að varast hættulegt ofmat sem einkenndi svipaða umræðu um málefni Íraks í aðdraganda innrásarinnar 2003.  Íranar þurfa að gefa skýr svör til þess að eyða þeim vafa sem fyrir hendi er, en að sama skapi er áríðandi að málið sé metið með jafnaðargeði til þess að ekki komi til annarrar misráðinnar valdbeitingar sem auka mun óstöðugleika í heimshlutanum og þjáningar almennra borgara.

 

 

VI

Öryggi og varnir

 

Virðulegi forseti,

Nýtt tímaskeið er hafið í öryggis- og varnarmálum Íslands. Fram til þess hefur Ísland verið meira og minna þiggjandi í varnarsamstarfi vestrænna ríkja en með niðurlagningu flotastöðvar Bandaríkjahers hér á landi fyrir rúmu ári eru forsendur gjörbreyttar. 

Í skoðanakönnun sem gerð var í tilefni af þingi Norðurlandaráðs kom fram að meira en 73% Íslendinga vilja að Norðurlandasamstarf fjalli um varnir og öryggi. 

Það er fagnaðarefni að grannríki okkar sýna mikinn áhuga á samstarfi á þessu sviði. Vitaskuld vegur varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 þungt í vörnum Íslands en nýir rammasamningar við Noreg og Danmörku um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála á friðartímum eru mikilvægir. Viðlíka samstarf við Bretland, Kanada, Þýskaland og Frakkland er í deiglu. 

Undirstaða haldgóðrar varnarstefnu Íslands til framtíðar er að fram fari vandað og faglegt hættumat fyrir Ísland sem byggt sé á bestu þekkingu. Ég ef skipað 12 manna starfshóp fólks með víðan faglegan bakgrunn til að sinna þessu starfi næstu mánuði. Formaður verður Valur Ingimundarson prófessor og sérstakur ráðgjafi verður Alyson Bailes, sendiherra og fyrrverandi forstöðumaður CIPRI öryggisstofnunarinnar í Stokkhólmi. Verklok eru áætluð fyrir næsta haust. 

Góðar og viðeigandi varnir eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar. Það er mikilvægt að þær séu ekki undirorpnar pólitískum sviptivindum á heimavelli heldur byggðar á ígrunduðu mati á langtímahagsmunum og þeim váboðum sem þjóðin kann að standa andspænis á hverjum tíma. Um þetta þurfum við að ná sátt og sameiginlegum skilningi. 

Öryggishugtakið sjálft er gjörbreytt  og nær nú til miklu fleiri þátta en áður var. Til marks um þetta er sú staðreynd að NATO skilgreinir sig ekki lengur sem varnarbandalag heldur fremur sem öryggisbandalag. Upprunalegt landvarnarhlutverk er enn til staðar en í hnattvæddum heimi hefur áhersla bandalagsins færst á hinar nýju hnattvæddu ógnir.  Ríki ein og sér stemma ekki stigu við útbreiðslu gereyðingarvopna, alþjóðlegri glæpastarfsemi, neikvæðum afleiðingum loftslagsbreytinga, fátækt og örbirgð eða hryðjuverkum. 

Framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna ber einnig að skoða í þessu ljósi. Friður og öryggi í heiminum er verkefni ráðsins og áherslumál Íslands í framboðinu eru einnig augljós áherslumál í nýrri íslenskri öryggisstefnu, þ.e. loftslagsbreytingar og orkuöryggi, afvopnunarmál, vernd kvenna og barna á ófriðartímum og friðsamleg lausn deilumála. 

Nú sést liðurinn varnarmál í fyrsta sinn á íslenskum fjárlögum. Við skulum líta á varnir sem eðlilegan þátt í sjálfstæði þjóðarinnar og frumskyldu stjórnvalda. Útgjöldum ber að halda í lágmarki og munum að Ísland mun aldrei gegna hlutverki í sambandi við svokallaðar harðar varnir, við herjum ekki á neinn heldur lítum eftir lofthelgi okkar og landhelgi. 

Rúmt ár er nú liðið síðan bandaríski herinn yfirgaf Keflavíkurflugvöll.  Samið hefur verið við Atlantshafsbandalagið um að sinna lofthelgiseftirliti við Ísland á friðartímum. 

Í morgun gafst aðildarríkjum NATO möguleiki á að bjóða fram flugsveitir til loftrýmiseftirlits á Ísland á næstu tveimur árum.  Viðbrögð bandalagsríkja voru mjög jákvæð.  Meðal annars stefna Frakkar að því að vera með flugveitir hér á landi í 5-6 vikur næsta vor.  Þá buðust Bandaríkin til að koma með flugsveitir næsta sumar í 2-3 vikur í senn og svo aftur sumarið 2009.  Norðmenn hafa jafnfram áhuga á að taka þátt á næsta ári og Danmörk er að skoða þátttöku árið 2009 sem og Spánn. 

Á Keflavíkurflugvelli verður starfrækt aðstaða þar sem bandamenn okkar geta athafnað sig við æfingar og eftirlit. Við höfum ennfremur tekið yfir rekstur ratsjárkerfisins sem er forsenda lofthelgiseftirlits.  Kerfið hefur á liðnum mánuðum sannað gildi sitt þegar fylgst hefur verið náið með umferð rússneskra sprengjuvéla um flugumferðarstjórnarsvæði okkar.  Fyrsta fjölþjóðlega varnaræfingin undir forystu Íslendinga var haldin hér á landi í haust og fyrirhugað er að hún verði haldin á nýjan leik að ári. 

 

VII

Opnir markaðir

 

Virðulegi forseti.

Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi, viðskiptafrelsi og aukin opnun markaða er forsenda þess að íslenskt atvinnulíf styrkist til framtíðar. 

Sanngjörn opin heimsviðskipti eru allra hagur og með það í huga gengur Ísland fram í DOHA viðræðunum, sem því miður mættu ganga í heild betur en raunin er.

Nú sem endranær eru viðskiptatækifærin flest þar sem vöxturinn er mestur. Því er horft lengra en til gamalgróinna viðskiptalanda. Ísland hefur með EFTA samið um fríverslun við fjölmörg ríki í Afríku, Suður-Ameríu og Asíu. 

Alls er Ísland nú aðili að fríverslunarsamningum við 53 ríki með samtals einn milljarð íbúa. Brátt má búast við að Kólombía, Perú, Taíland og ríki í Flóaráðinu bætist við með samningum við EFTA. Á næsta ári mun EFTA hefji fríverslunarviðræður við Indland en samningur við Kanada er tilbúinn og verður undirritaður á næsta ári. 

Hoyvíkursamningurinn við Færeyjar er tvíhliða samningur um fríverslun og ég hef orðið þess áskynja í vestnorrænni samvinnu hversu miklu sá samningur skiptir. Við gleðjumst líka yfir opnun sendistofu Færeyinga hér við Austurvöll og í utanríkisráðuneytinu hefur nýr kraftur verið settur í að skoða samstarfsmöguleika við Grænland. 

Nýmæli er einnig viðræður um fríverslunarsamning við Kína sem staðið hafa allt þetta ár.

Markmið samninga Íslands og Kína er niðurfelling tolla, takmarkaðar gagnkvæmar ívilnanir á sviði þjónustuviðskipta og samstarf um almenna einföldun viðskipta. Viðræðum um vöruviðskipti miðar vel þó enn beri í milli hvað varðar aðlögunartíma sjávarafurða. Í þjónustuviðskiptum kann að reynast torveldara að finna hagsmunum ríkjanna sama farveg.  Kína sækir helst fram á sviði byggingastarfsemi og heilbrigðisþjónustu. Af Íslands hálfu hefur verið lögð áhersla á fjármálaþjónustu, tölvuþjónustu og flutninga svo nokkuð sé nefnt. 

Mikilvægt er að standa vel að málum í samningaviðræðunum við Kína og það er ásetningur utanríkisráðuneytisins að eiga í þessu máli m.a. virkt samráð og tryggja upplýsingastreymi við samtök atvinnurekenda og við verkalýðshreyfinguna, þar á meðal við nefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) á Íslandi. 

Greiðar heimssamgöngur hafa aldrei verið mikilvægari og góðar tengingar eru algjört forgangsmál fyrir Ísland. Nýir samningar liggja fyrir við Danmörku, Noreg og Svíþjóð um mikla útvíkkun loftferðasamninga ríkjanna frjá sjötta áratugnum með mun víðtækari flugréttindum. Í júli tókust samningar við Kanada eftir áralangar umleitanir. Samningurinn felur í sér mjög víðtæk flugréttindi fyrir íslenska flugrekendur vegna farþega og farmflugs með ótakmarkaðri tíðni flugs og magns auk frjáls vals áfangastaða innan og handan Kanada.  Íslenskir flugrekendur hafa sagt samninginn marka þáttaskil fyrir atvinnugreinina. 

Þá hafa tekist samningar við Malasíu og í undirbúningi eru samningaviðræður við Mexíkó og Chile eftir samráð við flugrekendur um forgangsröðun við gerð slíkra samninga. 

 

VIII

Gagnvegir um víða veröld

 

Virðulegi forseti, háttvirtir þingmenn.

Markaðir og alþjóðleg samvinna byggð á lögum eru hinir nauðsynlegu gagnvegir milli ríkja sem þurfa hvert á öðru að halda í breyttum heimi. Það er hin eiginlega samtrygging um frið og öryggi, greið viðskipti, réttindi einstaklinga, gott mannlíf og virðingu fyrir náttúrunni.

Ísland varð aðili að þjóðarétti og samfélagi þjóðanna 1918. Á næsta ári verða liðin níutíu ár frá því að þeim áfanga var náð. 

Eðli málsins samkvæmt hefur saga Íslands oftast verið rakin frá innra sjónarhorni okkar á einstaklinga og hreyfingar hér heima, en nú þegar fjarlægð er náð á 20. öldina á Íslandi, er mikilvægt að ná víðari sýn, að sjá okkar eigið land líka í alþjóðlegu ljósi. Allar götur frá fullveldi hafa ýmsar mikilvægar framfarir á Íslandi tengst alþjóðlegri viðurkenningu og þróun í samvinnu ríkja. Fullveldi var náð vegna alþjóðlegrar viðurkenningar á sjálfsákvörðunarrétti þjóða, útfærsla landhelginnar var viðurkennd vegna þróunar alþjóðlegs hafréttar, viðskiptafrelsi innleitt með aðild að alþjóðasamningum, tækniframfarir tryggðar með samskiptum við útlönd. 

Ég hef lýst því í samtölum við starfssystkini mín frá Afríku hvernig Ísland reis úr því að vera nýlenda og meðal fátækustu ríkja Evrópu í upphafi síðustu aldar - og í raun þróunarríki langt fram eftir öldinni - til þess að vera nú í hópi ríkustu samfélaga heimsins. Árangur Íslands á ýmsum sviðum er þeim áhugaefni og lifandi fordæmi.

Sannleikurinn um stöðu Íslands er sá að það er horft til okkar. Við höfum enga þá almennu sérstöðu sem skilur okkur frá skyldum í samfélagi þjóða. Aðrir horfa til okkar til að læra af reynslu okkar eða vegna þess að vænst er af Íslandi samstöðu og framlags innan alþjóðasamfélagsins. Þetta er ekki háleitt hugsjónatal heldur augljós staðreynd.  

Stefna ríkisstjórnarinnar er að svara kalli tímans og efla af skynsemi þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi. 

Stjórnarsáttmálinn kveður á um að nýir hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu séu mannréttindi, þróunarsamvinna og friðsamleg lausn deilumála.

Þessi yfirlýsing hefur siðferðilegt inntak og vísar til mikils metinna gilda í íslensku samfélagi og menningu. Íslendingar hafa aldrei farið með ófriði á hendur öðrum þjóðum í hefðbundnum þjóðréttarlegum skilningi og aldrei haft efni til að heyja árásarstríð af nokkru tagi. Á Íslandi skiptir hver mannssál máli og allir eru taldir með. Það er einnig kjarni mannréttinda og mannhelgi. Á Íslandi hafa líka kannanir sýnt að almenningur vill að þjóðin leggi meira að mörkum úr sameiginlegum sjóðum til þróunarsamvinnu auk þess sem óvenju margar fjölskyldur greiða beint til barna eða fjölskyldna í þróunarlöndum. 

Lýðveldið Ísland er öflugt smærra ríki í alþjóðasamfélaginu. Það er dýrmætt að ógna engum, geta gengið fram óbundin af annarlegum hagsmunum, vera þekkt fyrir að standa með alþjóðalögum í hvívetna og eiga viðskipti á heiðarlegum grunni.

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira