Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. nóvember 07 Utanríkisráðuneytið

Fastatök íslenskrar tungu á hnattvæðingu

Fastatök íslenskrar tungu á hnattvæðingu
Eftir Ingibjörg Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra

Á degi íslenskrar tungu finnst mér rétt að vekja athygli á því sem vel horfir.

Í skýrslu til Alþingis um utanríkismál sem flutt var í síðustu viku lagði ég út af nýjum veruleika íslensku þjóðarinnar. Þó að stutt sé liðið á 21. öldina hefur hún borið með sér miklar breytingar og Ísland er lifandi vitnisburður þeirra hröðu breytinga. Í stjórnmálum eru skilin milli innanlandsmála og alþjóðamála að hverfa. Þetta má orða sem svo að á 21. öld séu heimsmálin einnig heimamál og heimaverkefnin heimsverkefni.

Sumir óttast um íslenska tungu við þessar aðstæður og aðrir ganga langt í að tala fyrir aukinni notkun ensku hér heima í viðskiptum, skólum, stjórnsýslu og jafnvel menningarstarfi. Eins og oft gerist hjá okkur hneigist umræðan til tveggja póla og kappræðan tekur yfir.

Staðreyndin er sú að íslensk tunga er sterk sem fyrr og áfram er það viðfangsefni Íslendinga að hún endurnýist og smíðuð séu ný orð um allt sem er hugsað á jörð.

Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur verið starfrækt frá því að undirbúningur hófst að aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Í þeirri aðild fólst í raun umfangsmesta upptaka erlends réttar frá því að Járnsíða og Jónsbók urðu lögbækur Íslendinga á 13. öld. Í sautján ár hefur þýðingarmiðstöðin íslenskað nýja hugsun í tækni, samfélagsmálum, vísindum og menningu og leitt ný orð og hugtök inn í íslenskt ritmál í sátt við formgerð íslenskunnar. Þetta starf er ómetanlegt því með þessu móti eru tengslin við Evrópu og heiminn virkjuð til að endurnæra íslenskuna og svara kalli tímans. Starfsstöð þjálfaðra íslenskufræðinga og annarra sérfræðinga er mitt í kviku nýmæla í þróun tækni, samfélags og vísinda og færir inn í íslenskuna orð og hugtök til að fjalla um þau nýmæli.

Með starfi þýðingarmiðstöðvarinnar er orðið til hugtakasafn með ríflega 46 þúsund íslensk grunnhugtök sem aðgengilegt er öllum á vefsetri utanríkisráðuneytisins. Þýðingarmiðstöðin starfrækir í raun þekkingarnet sem nær inn á afar fjölbreytt starfssvið samfélagsins - í verkgreinar, í opinberar stofnanir, til rannsóknafólks og víðar. Þetta fólk liðsinnir við skilja við hvað er átt á erlendu tungumáli og hvernig það verði best orðað á lipurri íslensku. Metnaður allra er mikill til þess að tryggja vöxt og viðgang íslenskunnnar.

Með starfi af þessu tagi tryggjum við til framtíðar fastatök íslenskrar tungu í glímunni við hnattvæðinguna.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira