Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. maí 08 Utanríkisráðuneytið

Frumvarp um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er lagður til heildarrammi um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, hvort sem þær stafa frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, pólitísku samstarfi við Evrópusambandið eða aðrar alþjóðastofnanir eða frá ríkjahópum.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið leysi af hólmi gildandi lög um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, nr. 5/1969.

Markmið alþjóðlegra þvingunaraðgerða er að tryggja frið og öryggi og bera virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Á undanförnum árum hefur þvingunaraðgerðum verið beitt í auknum mæli, einkum af hálfu öryggisráðsins en viss þáttaskil urðu í þessum efnum eftir lok kalda stríðsins og svo aftur í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september 2001.

Helstu dæmi um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir eru viðskiptabann, bann við útflutningi á vopnum, ferðabann og frysting fjármuna og annarra eigna. Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins skal utanríkisráðherra gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til þess að framkvæma ályktanir öryggisráðsins um þvingunaraðgerðir sem ekki eru hernaðarlegar og samþykktar eru skv. 41. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þar sem umræddar ályktanir öryggisráðsins eru bindandi að þjóðarétti er mikilvægt að framkvæma þær eins fljótt og auðið er. Er því lagt til í frumvarpinu að ráðherra, að höfðu samráði við ríkisstjórn, hafi áfram heimild til að grípa til nauðsynlegra aðgerða í þessu tilviki án þess að ráðfæra sig fyrst við Alþingi. Þær þvingunaraðgerðir sem Ísland framkvæmir á grundvelli þessa ákvæðis skulu hins vegar reglulega kynntar fyrir utanríkismálanefnd, enda varða þær mikilvæg utanríkismál, svo sem alþjóðlegt samstarf til að stuðla að friði og öryggi og utanríkisviðskipti íslenskra aðila.

Í þeim tilvikum sem öryggisráðið hefur ekki mælt fyrir um bindandi aðgerðir gætu stjórnvöld viljað taka þátt í samstöðu meðal ríkja um að grípa til aðgerða sem ekki eru hernaðarlegar til þess að takast á við tiltekna ógn við frið, öryggi og mannréttindi í heiminum.

Hér getur verið um að ræða tilmæli frá öryggisráðinu sem eru ekki bindandi eða ályktanir um sameiginlega afstöðu eða sameiginlegar aðgerðir í utanríkis- og öryggisstefnu Evrópusambandsins. Einnig getur verið um að ræða ályktun frá öðrum alþjóðastofnunum, t.d. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu eða tilteknum ríkjahópum eins og Norðurlöndunum um beitingu þvingunaraðgerða. Með ákvæði 3. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra hafi heimild, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, til að framkvæma aðgerðir sem eru ákveðnar af alþjóðastofnunum eða ríkjahópum. Heimildin takmarkast við aðgerðir sem samþykktar eru til að viðhalda friði og öryggi og/eða tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi.

Þar sem þátttaka Íslands í þvingunaraðgerðum á grundvelli þessa ákvæðis byggist ekki á þjóðréttarlegri skyldu, heldur mati og vilja ráðherra, þykir rétt að haft sé samráð við utanríkismálanefnd um fyrirætlunina áður en hún er tekin til framkvæmdar. Samráð við utanríkismálanefnd er talið mikilvægt, m.a. vegna þess að við ákvörðun um að taka þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum þarf að fara fram ákveðið hagsmunamat. Veigamiklum viðskiptahagsmunum íslenskra aðila gæti verið ýtt til hliðar til að stuðla að friði og öryggi. Þá getur þvingunaraðgerð haft í för með sér skerðingu á mannréttindum, svo sem eignarrétti, ferðafrelsi og athafnafrelsi. Samráð við Alþingi við slíkar aðstæður er í samræmi við þróun í þá átt að auka þátttöku þjóðþinga í að meta hvort ríki eigi að taka þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum.

Á undanförnum árum hefur farið fram mikið starf á vegum alþjóðastofnana, ríkja og samtaka til að styrkja og samræma beitingu alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Á meðal niðurstaðna þessa starfs eru tilmæli um að ríki noti stjórnvaldsfyrirmæli við framkvæmd á þvingunaraðgerðum þar sem of tímafrekt sé að setja ný lög um hverja ályktun alþjóðasamfélagsins um þvingunaraðgerð. Þessi aðferð er í samræmi við framkvæmd á meðal annarra norrænna ríkja en þau innleiða öll ályktanir um þvingunaraðgerðir með slíkum hætti.

Samkvæmt núgildandi lögum, nr. 5/1969, eru fyrirmæli öryggisráðsins framkvæmd með auglýsingu. Í 4. gr. þessa frumvarps er hins vegar lagt til að sett verði reglugerð vegna ályktunar um þvingunaraðgerðir, hvort sem um er að ræða ályktun öryggisráðsins, alþjóðastofnunar eða tiltekins ríkjahóps. Þykir reglugerð hentugri en auglýsing þar sem reynslan sýnir að þvingunaraðgerðir geta haft töluverð áhrif á réttarstöðu aðila í lengri tíma. Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu að birta bannlista, t.d. með nöfnum aðila sem þvingunaraðgerð beinist gegn, í auglýsingu til að komast hjá því að taka upp texta allrar reglugerðarinnar í hvert skipti sem breytingar eru gerðar á listanum.

Í 4. gr. eru afmörkuð þau svið athafna sem heimilt er að banna með reglugerð, en nánari útfærslu verknaðarlýsingar verður að finna í reglugerðunum. Er þetta í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast í Evrópu, m.a. annars staðar á Norðurlöndunum.

Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um viðurlög við brotum gegn boði eða banni sem mælt er fyrir um í reglugerðum settum á grundvelli 4. gr. Lagt er til að refsiramminn verði hækkaður frá því sem er í lögum nr. 5/1969 þar sem vægi þvingunaraðgerða í að tryggja frið, öryggi og virðingu fyrir mannréttindum hefur stóraukist á undanförnum árum.

Þá valda hnattvæðing og vaxandi umsvif íslenskra aðila erlendis því að Ísland hefur ríka öryggishagsmuni af því að þvingunaraðgerðir séu virtar og nái markmiðum sínum. Viðurlög við umræddum brotum verða að vera í samræmi við þessa þróun og þá hagsmuni sem eru í húfi.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. utanríkismálanefndar.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira