Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. mars 2009 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ávarp á ráðstefnu um þinglýsingar

Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra
Ávarp á ráðstefnu um þinglýsingar 5. mars 2009

 

Ágætu fundargestir.

Ég þakka fyrir þann heiður að fá að setja þessa ráðstefnu og ávarpa svo kunnuglegan og virðulegan hóp. Ég þakka jafnframt þakka sýslumannafélaginu fyrir að eiga frumkvæði á því að halda þessa glæsilegu ráðstefnu.

Það er ánægjulegt að sjá þann fjölda gesta sem hingað er kominn saman frá sýslumannsembættum hvaðan æva að af landinu, frá Fasteignaskrá svo og ráðuneytum dómsmála og fjármála, til að kynna sér málefni er varðar þinglýsingar en samkvæmt mínum upplýsingum hafa um 80 manns skráð sig á þessa ráðstefnu. 

Mig langar að segja ykkur aðeins frá nokkrum málum í ráðuneytinu. Í allsherjarnefnd þingsins eru nú til meðferðar tvö frumvörp, sem ég hef lagt fram samkvæmt ósk stjórnarþingflokkanna og snúa greiðsluaðlögun og öðrum úrræðum sem gefa skuldara ráðrúm til að endurskipuleggja fjármál sín og vonandi komast hjá gjaldþroti. Frumvörpin bera þess merki að nú eru óvenjulegir tímar og þörf á að grípa til óvenjulegra úrræða. Mörg þeirra úrræða sem lögð eru fram í frumvörpunum eru enda tímabundin, sem endurspeglar það ástand sem nú ríkir. 

Einhver þessara úrræða myndu á venjulegum tímum þykja óþörf ef ekki hjákátleg en endurspegla að nú ríkir neyð hjá mörgum. Mörgum, sem kannski áttu aldrei von á því að lenda í vanskilum og eru komnir í algerlega nýja stöðu í lífinu. Vonandi er staðan tímabundin; gengi íslensku krónunnar mun vonandi rétta úr kútnum, fasteignamarkaðurinn þiðna, atvinnulíf komast í gang og svo framvegis.

Heyrst hafa sjónarmið um að okkar löggjöf taki of mikið mið af stöðu lánardrottna.

Að skuldarar þurfi að taka á sig alla áhættu, þegar áhættan var í raun tekin af beggja hálfu. Við þessar aðstæður verður að finna leiðir sem taka hæfilegt mið af stöðu beggja. Við útfærslu þeirra hugmynda og tillagna, sem stjórnarflokkarnir lögðu á mitt borð, hef ég leitast við að taka tillit til grundvallarreglunnar um skuldbindingargildi samninga annars vegar og tillits til skuldara hins vegar. Auk þess sem stjórnarskrárvarin eignarréttindi verða ekki skert með almennum lögum.

Mörg önnur verkefni eru í ráðuneytinu, sem varla þykir fréttnæmt, af nógu er að taka og dagurinn er fljótur að líða. Ég gef eins og fyrirrennari minn kost á viðtölum fyrir hádegi á miðvikudögum og eru þeir morgnar misásetnir eins og gengur. Auk þess þarf ég að sitja þingfundi að einhverju marki. Ég hef fengið að heyra að ég þekki nú ráðuneytið svo vel, þetta geti varla verið mikið mál. Þá hef ég svarað því til, að ráðherrahlutverkið sé algerlega nýtt. Þátttaka í störfum þingsins er til dæmis algjör nýlunda, og hefði ég aldrei gert mér í hugarlund að ég ætti eftir að flytja ræðu úr ræðustól þingsins – en sum ykkar vita kannski að ég var starfsmaður þingsins í fjögur ár strax eftir útskrift úr lögfræðinni.

Góðir gestir. Hér er kannski eggið að kenna hænunni, en mér fannst við hæfi að fjalla örstutt um þinglýsingar í setningarávarpi mínu. Mikil umskipti hafa orðið í þinglýsingum undanfarin ár eins og mörg ykkar vitið.  Á árum áður voru skjöl færð inn handvirkt í þinglýsingabækur en í dag fer þinglýsing fram í vaxandi mæli á rafrænan hátt.  Í dag er þinglýsingabók sýslumanna ekki bók heldur tölvukerfi.  Árið 2001 var Landskrá fasteigna sett á fót og hefur þinglýsingahluti hennar verið í notkun frá þeim tíma en hún var tekin í notkun um land allt árið 2004.  Nú er svo komið að flestar fasteignir landsins eru skráðar í landskránna og fleiri eignabrunnar hafa fylgt í kjölfarið og leitast er við að koma þeim öllum yfir á rafrænt miðlægt form. 

Þrátt fyrir að eignabrunnarnir séu nú flestir orðnir miðlægir þá er þinglýsing í dag hvorki miðlæg né pappírslaus.  Á öðrum Norðurlöndun hefur þróunin verið sú að verið er að stuðla að rafrænum, pappírslausum þinglýsingum, telur ráðuneytið að það sé framtíðin. Hefur ráðuneytið hafið undirbúningsvinnu í samvinnu við fjármálaráðuneytið við að koma á fót rafrænum þinglýsingum þó að mjög langt sé í land enn sem komið er.

Talsvert er síðan að sýslumannsembætti fóru að skanna inn þinglýst skjöl og árið 2008 vann dóms- og kirkjumálaráðuneytið að því að koma á fót skönnunarmiðstöð fyrir þinglýst skjöl sem staðsett er hjá sýslumanninum á Ísafirði.  Skönnunarverkefnið er veigamikill grunnur að því áðurnefndu verkefni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins, að þinglýsingar verði að mestu pappírslausar í framtíðinni en verkefnið verður kynnt í fyrirlestri hér á eftir.

Þinglýsingar er mjög mikilvægur málaflokkur í íslenskri stjórnsýslu þar sem þær skipta eða  a.m.k. geta skipt miklu máli í lífi fólks því flestir einstaklingar þurfa einhvern tímann á ævinni að fara með skjöl til þinglýsingar, hvort sem um er að ræða kaupsamninga, afsöl, veðskuldabréf, leigusamninga o.frv., og þetta fólk á  jafnvel allt sitt undir að hin opinbera skráning sé rétt.  Því skiptir miklu máli að sú opinbera skráning skjala, er varðar réttindi yfir tilteknum eignum sé framkvæmd rétt til þess að tryggja þau réttaráhrif sem tengd eru við hina opinberu skráningu.  Þá skiptir miklu máli að framkvæmd þinglýsinga sé eins á landinu öllu til að gæta jafnræðis og eyða réttaróvissu.

Því er mikilvægt að hægt sé að koma ráðstefnu sem þessari á laggirnar til þess að gera tilraun til þess að varpa ljósi á ýmis álitaefni sem tengjast þinglýsingu og auka samræmingu. 

Ég vil minna á að þeir sem starfa við þinglýsingar eru hinir eiginlegu sérfræðingar í þinglýsingum og geti þeir borið saman bækur sínar og komist að niðurstöðu um álitamál, þá eykur það samræmingu í framkvæmd um allt land.  Ráðstefna sem þessi er einmitt vettvangur til þess. 

Með þessum orðum set ég ráðstefnu um þinglýsingar.

Takk fyrir.

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira