Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. júní 2009 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Sjómannadagurinn 7. júní 2009

Ræða Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
á sjómannadaginn, 7. júní 2009.

 

Úr útsæ rísa Íslandsfjöll

með eld í hjarta, þakin mjöll,

og brim og björg og sand.

Þó mái tíminn margra spor,

þá man og elskar kynslóð vor

sitt fagra föðurland.

 

Þannig orti þjóðskáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. 

Á Sjómannadegi – hátíðisdegi íslenskra sjómanna - er margt sem leitar á hugann, ekki síst þakklæti til íslenskra sjómanna og annarra þeirra sem vinna að sjávarútvegi, þeirri undirstöðuatvinnugrein sem landsmenn hafa lifað á og skapað hefur stóran hlut í þeirri velferð sem við, íslensk þjóð, höfum búið við. Á tímabili virtist sem þessi staðreynd hefði vikið fyrir hugmyndum um skjótfengari gróða en nú þegar sverfur að skynjum við betur en nokkru sinni mikilvægi sjávarútvegsins og þeirra starfa sem færa okkur lífsbjörg úr hafinu.

 

Nú um stundir stendur þessi fámenna þjóð, sem býr í fallegu og gjöfulu landi,  frammi fyrir vandasömum verkefnum. Við erum hins vegar staðráðin í að skapa börnum okkar skilyrði til farsællar framtíðar og ætlum okkur og munum standast gjörningaveðrið. Sjómenn þekkja slík skyndileg veðuráhlaup og þá gildir að halda ró sinni og standa saman ef sigla á fleyinu heilu til hafnar.

 

Á þessum tímum hugsum við um og virðum okkar fagra föðurland og þau auðæfi sem það á og gefur. Lítið væri samt um tekjur frá sjávarútvegi ef þjóðin ætti ekki dugmikla sjómenn sem stunda þennan atvinnuveg og atorkusamt fólk í landi sem vinnur úr hráefninu hágæðavöru.

 

Eftir efnahagshrunið lítur þjóðin að sjálfsögðu til baka og spyr: Hvers vegna fór þetta svo? Er ekki hafið sú auðlind sem þjóðin hefur ætið getað treyst á? Hafið hefur ekkert breyst! Er von að spurt sé!

 

Auðvitað þarf að líta til fleiri átta en sjávarútvegurinn er samt sem áður ein okkar besta tekjulind. Íslenskur sjávarútvegur mun augljóslega gegna lykilhlutverki við þá endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs sem framundan er.

 

Ég vil í þessu sambandi gera að umtalsefni frétt sem birtist í sjónvarpinu 3. júní sl. og bar yfirskriftina „Fáir vilja starfa við sjávarútveg þrátt fyrir mikilvægi greinarinnar“. Þótt þessi frétt kunni að hafa farið framhjá sumum vakti hún óskipta athygli mína og leyfi ég mér að lesa upp úr henni:

 

“Menntaskólanemendur telja að sjávarútvegur verði einn af þremur mikilvægustu atvinnugreinum landsins í framtíðinni, en sárafáir vilja hins vegar starfa í greininni eða læra eitthvað sem tengist sjávarútvegi.  Innan við 10% álíta að fjármálaþjónusta verði ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins.

 

Það var Háskólinn á Akureyri sem kannaði hug flestra nemenda á þriðja og fjórða ári í menntaskóla til ýmissa framtíðaráforma.  Rírlega 80% ætla í háskólanám að loknum framhaldsskóla og 90% hafa áhuga á að starfa tímabundið erlendis.  Nemendurnir voru beðnir um að segja hvaða þrjár atvinnugreinar verði mikilvægastar í framtíðinni.  Langflestir nefndu sjávarútveginn, þar á eftir ferðaþjónustu og svo landbúnað, en svarendur virðast ekki vilja vinna við þessa höfuðatvinnuvegi framtíðarinnar.

 

Hörður Sævaldsson, sérfræðingur við sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri:  Einungis 2-3% vilja starfa í sjávarútvegi eða læra í sjávarútvegi.  Nemendur í þessu, þessari könnun vilja frekar læra í heilbrigðisgeiranum eða félags- og laga, lagavísindum.  Og þau vilja starfa innan heilbrigðisgeirans, menntageirans og við hönnun og listir.  Og maður spyr sig að því hvort að það sé bara ekki einhver misbrestur eða hvort að það vanti á greinar eða gleggri þekk, kennslu í sjávarútvegi í grunn- og framhaldsskóla.”

 

Þessi frétt vekur hjá mér spurningu: Hvernig stendur á því að hinir greinilega mjög svo skynugu menntaskólanemendur sem átta sig vel á því að sjávarútvegur okkar muni gegna lykilhlutverki í uppbyggingu efnahags- og atvinnulífsins á næstu árum skuli að þessari niðurstöðu fenginni ekki vilja starfa við greinina? Hvað er eiginlega að?

 

Gæti skýringin verið sú að þær hörðu deilur sem staðið hafa meðal þjóðarinnar um stjórn fiskveiða og ráðstöfun aflaheimilda í meira en tvo áratugi eigi hér hlut að máli og valdi því að ungt fólk geti ekki hugsað sér að takast á við þau verkefni og nýta þá möguleika sem svo sannarlega búa í sjávarútveginum? Augljóst er að gera þarf stórátak til að styrkja og bæta ímynd þessarar höfuðatvinnugreinar svo að hún höfði til ungs fóks og raunar þjóðarinnar allrar. Ég bið alla að hugleiða þetta í mikilli alvöru og þá jafnframt hvort ekki sé fyrir löngu kominn tími til að jafna þessar deilur með sátt.

 

Ég skipaði í sl. viku vinnuhóp til þess fara yfir þessi mál og leggja fram nýja valkosti, eins og  núverandi ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingarinnar boðaði í stjórnaryfirlýsingu sinni. Starfshópurinn er skipaður aðilum bæði úr stjórn- og stjórnarandstöðu ásamt ýmsum þeirra aðila sem tengjast sjávarútvegi beint. Gert er ráð fyrir að vinna starfshópsins felist í að skilgreina helstu álitaefni í fiskveiðistjórnuninni og lýsa þeim. Starfshópurinn lætur gera nauðsynlegar greiningar og setur að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta. Honum er gert að hafa sem víðtækast samráð við aðra aðila í þjóðfélaginu. Ég geri miklar kröfur til vinnuhópsins um að koma fram með tillögur um fyrirkomulag sem skapi greininni góð rekstrarskilyrði til lengri tíma í sátt við þjóðina og með sjálfbærni að leiðarljósi. Hópnum er einnig ætlað að taka fullt tillit til atvinnuöryggis, gæta réttar fólks í sjávarbyggðunum og leysa ímyndarvanda sjávarútvegsins líkt og ég nefndi áður. Ég legg áherslu á að vinnuhópurinn vinni faglega að málinu og treysti þeim sem tilnefndir verða til að leggja sig alla fram, því mjög mikil ábyrgð er lögð á herðar þessu fólki – það veit hvað er í húfi – þau verða beinlínis að ná saman. Ég bind mjög miklar vonir við vinnu starfshópsins og að hún verði til þess að okkur takist sem þjóð að ná sátt um fiskveiðistjórnunina. Þá gæti ungt fólk á ný sóst eftir störfum í sjávarútvegi og greinum honum tengdum. Okkur  er það öllum lífsspursmál að þetta takist.

Ágætu sjómenn, hvert sem fley ykkar siglir, - fiskvinnslu­fólk og aðrir starfsmenn í sjávarútvegi.

Ég geri mér grein fyrir þeim aðstæðum íslensks sjávarútvegs um þessar mundir. Kröfur um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eru háværar og eiga rétt á sér. Í þessum málum sem öðrum verður að leita að færum leiðum að sameiginlegu markmiði, sem hlýtur að vera að nýta í sjávarbyggðunum í sátt við umhverfið þá auðlind sem Íslendingar eiga; fullvinna þann sjávarafla sem dreginn er að landi, breyta honum í hágæðavöru sem færir landinu gjaldeyri og síðast en ekki síst skapa sjómönnum, fiskvinnslufólki og öðrum sem að sjávarútvegi starfa góðan aðbúnað og tekjur í samræmi við störf sín.

Ég mun sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggja mig allan fram í að bæta og treysta ímynd sjávarútvegsins í heild og stöðu  þessa höfuðatvinnuvegar þjóðarinnar, þannig að ungu fólki sé ekki aðeins ljós mikilvægi hans heldur einnig að störfin og tækifærin freisti.

 

Föðurland vort hálft er hafið.

Ég óska íslenskum sjómönnum, fiskvinnslufólki og öðrum sem við íslenskan sjávarútveg vinna til hamingju með daginn. Megi blessun fylgja störfum ykkar um ókomin ár.

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira