Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. október 2009 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

25. Aðalfundur landssambands smábátaeigenda 15. október 2009

Ávarp Jóns Bjarnasonar

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda

15. október 2009

Kæru aðalfundargestir.

 

Nú er liðið rúmt ár síðan bankakreppan skall með formlegum hætti á strendur þessa lands með brimskafli, þó glöggir menn geti eflaust sagt að sjálf aldan hafi myndast mörgum árum fyrr. Síðustu tólf mánuðir hafa verið nær fordæmalausir í íslenskri nútíð og eflaust enginn sem  myndi vilja upplifa slíkan gjörningavetur aftur. Maður ræður samt ekki alltaf sinni för og ekki verður aftur tekið allt það sem þegar er. Fyrir okkur sem þjóð liggur fyrir að bæta skútuna sem enn marar löskuð í hálfu kafi, ausa óhroðann burt, vinda upp segl og sigla á ný undir nýjum siglingareglum á vit nýrra tíma og tækifæra. Skipt hefur verið um fólk í brúnni en áhöfnin er sú sama sem er hin íslenska þjóð. Enn á ný verður hún eingöngu að treysta á sinn eigin dugnað og djörfung og hún veit að það verður hún sjálf sem kemur skútunni á lygnari sjó. Ljóst er að tæpt er að treysta á hjálp annarra sem bundin er skilyrðum í bak og fyrir. Skilyrðum sem fær mann til að efast um tilgang hjálparinnar.

Mér hefur oft verið tíðrætt um ímynd sjávarútvegsins í ávörpum og ræðum síðan ég tók við starfi sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Mín skoðun er, að efling þessarar ímyndar sé gríðarlega þýðingarmikil fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Ég þreytist ekki á að segja frá könnuninni í framhaldsskólum sem Háskólinn á Akureyri gerði, þar sem langflestir nemendurnir voru á því að sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta væru þær atvinnugreinar sem Ísland yrði að reiða sig mest á í náinni framtíð. Sjávarútvegurinn auðvitað í efsta sæti, enda skynug ungmenni. Þegar þau voru síðan spurð við hvaða grein þau vildu vinna þá svöruðu aðeins 2% að þau vildu vinna við sjávarútveg. Þetta er það alvarlega í stöðunni og þessu þurfum við að breyta. Til þess þurfum við að bæta menntakerfið og gera störf sem boðið er uppá meira aðlaðandi, en við þurfum líka öll að taka höndum saman um að bæta ímynd þessarar greinar. Er ekki mögulegt að við þurfum að skoða okkur sjálf í þessu sambandi og bæta okkur. Hætta nagi og tortryggni út í aðra í sömu grein sem smitar alls staðar út og sýna að við getum öll unnið saman.  Ég skora á ykkur að taka nú höndum saman um það verkefni. Ég veit við getum það svo vel.

Flest álitaefni fiskveiðistjórnuarkerfisins í dag má rekja til ákvarðana sem teknar hafa verið fyrir margt löngu. Við bætast vandamál sem sköpuðust í hinu sýkta hagkerfi útrásarvíkinganna og þeirra sem studdu það.

Mín skoðun hefur verið sú að við eigum að stefna að sjálfbærni á þessu sviði sem öðrum og ég býst ekki við að neinn sé mér mjög ósammála í þeim efnum. Sjálfbær fiskveiðistjórn stendur á þremur stoðum. Í fyrsta lagi hagkvæmni, í öðru lagi líffræðilegu jafnvægi vistkerfanna, þrátt fyrir nýtingu, og í þriðja lagi samfélagslegri ábyrgð þeirra sem taka þátt og rétti fólksins í byggðunum til afkomu og öryggis. Þannig sé ég þetta og þetta er mitt leiðarljós. Auðvitað eiga sér stað málamiðlanir en stefna mín er mjög skýr í þessum efnum.

Ég veit að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi átta sig á því að hér er ekki hægt að halda úti fiskveiðistjórnuarkerfi sem ekki er í sátt við þjóðina. Ég held reyndar að þeir geri það því við erum ein þjóð. Ég átta mig á því að mörgum þeirra finnst þeir séu hafðir fyrir rangri sök enda hafa þeir flestir ekkert gert annað en farið eftir þeim lögum og reglum sem í gildi eru, en þeir geta ekki horft framhjá því að það er skortur á sátt meðal þjóðarinnar um núverandi kerfi og því verður að taka alvarlega hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Þeir sem tala hæst um galla núverandi kerfis benda á óréttlætið sem í því er fólgið. Þeir telja að ekki hafi verið sýnd næg samfélagsleg ábyrgð undanfarin ár af þeim sem hafa þessa miklu auðlind þjóðarinnar í hendi sér. Þeir hafa ýmislegt til síns máls, en á stundum er skotið yfir markið.

Eins og þið þekkið þá ákvað ég á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnunarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Megin markmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar.

Ég vil tiltaka hér undir lokin á þessari umfjöllun minni um fiskveiðistjórnunarkerfið almennt, að ég hef fyrir löngu ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf. Með þessu á ég við að hann mun fá frið til verka án sérstakra afskipta af hálfu ráðuneytisins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er mér ætlað að vinna að nokkrum brýnum aðgerðum í sjávarútvegi. Flest ef ekki öll þessara  verkefna eru komin í gang og er að vænta lagafrumvarps um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða mjög fljótlega. Á þessari stundu ætla ég ekki að fara djúpt í efnisatriði frumvarpsins. Það er hvorki tímabært né ráðlegt en ég get hins vegar sagt ykkur hvaða efnisatriði það eru sem fjallað er um:

1.  Flutningur aflaheimilda milli skipa

Ávallt hefur verið umdeild sú heimild laga um stjórn fiskveiða að leyfa, án nokkurar íhlutunar, flutning aflaheimilda milli skipa sem verða til þess að viðtökuskipið getur síðan í staðinn leigt frá sér meiri verðmæti í öðrum aflaheimildum.

2.  Línuívilnun

Línuívilnun fjallar um sértæka ívilnun til veiða á þorski, ýsu og steinbít sem veitt er þeim sem handbeita línu í landi. Tilgangur þessarar ívilnunar er auðsær og almennt er tiltekið að framkvæmd hennar hefur gengið vel. Ívilnun þessi er nú 16%.

3.  Flutningur aflaheimilda milli ára

Á síðasta vetri var aukin heimild fyrir flutningi aflamarks milli ára og í dag er þessi heimild t.d. 33% fyrir botnfisk.

4.  Kínverska leiðin

Eitt atriði hefur valdið vanda í fiskveðistjórnuninni og það er að með leigu heilla skipa tímabundið milli manna hefur verið hægt að komast hjá ýmsum takmörkunum sem settar hafa verið á viðskipti með aflahlutdeild. Þessi aðferð hefur oft gengið undir nafninu “Kínverska leiðin” af einhverju ástæðum.

5.  Veiðar ferðamanna

Síðastliðið vor voru samþykktar á Alþingi breytingar á fiskveiðistjórnuninni á þann veg að tekið var tillit til þarfa ferðaþjónustunnar og sjóstangaveiðinnar fyrir ramma í þessu kerfi. Á þessum breytingum hafa fundist hnökrar og er það til skoðunar.

6.  Skötuselur

Varðandi skötusel skal það tiltekið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákvað aflahámark er svarar til 2.500 tonna. Ráðherra tók þó fram að hann hefði í hyggju að skoða aðrar leiðir til viðbótar varðandi fiskveiðistjórn í skötusel og við því gæti verið að búast að ákveðinn yrði viðbótarafli því samhliða. Veruleg breyting hefur orðið á útbreiðslu skötusels hér við land á þessum áratug. Veiðislóðin var í áratugi aðallega við mið- og austurhluta suðurstrandarinnar og á þeim grunni var upphafs aflahlutdeild úthlutað. Nú hefur þessi veiðislóð í vaxandi mæli færst á Vesturmið og jafnvel norður. Þetta hefur jafnframt þýtt að skötuselur hefur í vaxandi mæli komið fram sem meðafli við grásleppuveiðar á grunnsævi í Breiðafirði og Ísafjarðardjúpi.  Þetta hefur svo þýtt að í óvenju miklum mæli veiða skötuselinn aðrir en þeir sem hafa yfir aflahlutdeild að ráða.

7.  Veiðiskylda

Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er verið að skoða ákvæði laga um veiðiskyldu.

8. Vinnsluskylda

Í ráðuneytinu er verið að skoða fýsileika þess að taka af öll tvímæli um heimild ráðherra til þess að setja á vinnsluskyldu við veiðar. Með vinnsluskyldu er átt við að afli skuli fara til manneldis. Þetta á einkum við um veiðar á uppsjávarfiski.

9. Karfi

Til athugunar er að taka enn á ný upp gamalt mál er snertir uppskiptingu karfastofnsins í djúpkarfa og gullkarfa og jafnframt að taka af öll tvímæli um að sömu heimildir til veiðistjórnunar á deilistofnum gildi innan lögsögunnar og gilda utan hennar.

Strandveiðar

Í þessu sambandi get ég ekki annað en nefnt strandveiðarnar líka. Þær gengu mjög vel að mínu mati og greinilega annarra því ég veit ekki betur en flest öll aðildarfélögin ykkar hafi undanfarið tekið undir þetta sjónarmið. Mín skoðun er að menn verða að sætta sig við að í fiskveiðistjónunarkerfinu verði að vera pláss fyrir sem flesta. Þess vegna er þessi möguleiki sem strandveiðarnar gefa nauðsynlegur. Standveiðarnar eru, hvað sem menn segja, þáttur í því að þjóðin nái betur sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Nú verður farið yfir reynsluna af þeim og síðan lagt fram nýtt frumvarp um þær á yfirstandandi þingi og svo það komi skýrt fram hér þá er ég eindregið fylgjandi áframhaldi þeirra. Nú er beðið skýrslu frá strandsetri Háskóla Íslands á Ísafirði um hvernig strandveiðarnar í sumar tókust til. Að henni fenginni mun ráðuneytið gera sérstaka tillögu um breytingar á stjórn fiskveiða um áframhald veiðanna á næsta ári. Sú breyting verður ekki lögð fram samhliða þeim sem nefndar eru að ofan heldur sem sérstakt mál.

Ég er síðan að láta skoða sérstaklega mál er tengjast verndun á grunnslóð í Skagafirði. Skipaður hefur verið sérstakur vinnuhópur með aðild Hafró, Biopol á Skagaströnd og Veiðimálastofnunar. Ég geri ráð fyrir að hópurinn skili áfangaskýrslu fljótlega og á grundvelli hennar verða teknar frekari ákvarðanir.

Makríll hefur verið mér hugleikinn í sumar. Tók ég m.a. upp málefni hans á fundi með formanni ykkar og lagði til að þið skoðuðuð með hvaða hætti smábátar gætu veitt makríl og þar með stuðlað að meiri verðmætum og síðan áframahaldandi vinnslu í landi. Vísaði ég til reynslu Norðmanna en þar hefur fjöldi smábáta gert út á makríl. Hvet ég ykkur til að skoða þetta mjö vel.

Ég vill nefna Hafrannsóknastofnunina og hennar góða starf. Auðvitað er óhætt að gagnrýna hana eins og aðra en ég segi bara, hvar stæðum við núna ef hennar nyti ekki við. Menn verða að átta sig á því að þessi stofnun stenst öll alþjóðleg viðmið sem gerðar er til stofnana af þessu tagi og gott betur en það. Ábyrgð okkar er mikil sem höfum að gera með nýtingu fiskimiða okkar og segi ég bara að án Hafrannsóknastofnunarinnar vildi ég ekki taka þátt í því verkefni.

Nýtingarmál er eitt af þeim málum sem ég hyggst skoða í vetur. Mér sjálfum finnst að það verði að ganga í það að allur afli komi að landi. Við annað verði ekki unað. Mér skilst að tilraunir til sölu á grásleppuhvelju til Kína lofi mjög góðu. Ég held því að þess verði ekki langt að bíða að jafnvel grásleppukarlar verði skyldaðir til að koma með allan afla að landi í nánustu framtíð.

Að lokum þakka ég samstarfið fram að þessu sem hefur verið í alla staði ánægjulegt.

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira