Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. október 2009 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Sjötugasti aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna

Ávarp Jóns Bjarnasonar,

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna

29. október 2009

Ágætu aðalfundargestir.

Margt hefur gerst í íslensku þjóðlífi undanfarin misseri sem á sér fá dæmi og staðan er alvarleg. Sumir ganga svo langt að segja að allt hafi breyst frá því sem áður var. Þeir segja að nú verði að treysta á ungu útgerðarmennina og upp úr öskustónni þurfi að rísa ný fyrirtæki sem geti tekist á við breytta tíma með nýjum gjaldmiðli, meiri stöðugleika og að tryggður verði betri aðgangur að erlendum mörkuðum í hinu nýja umhverfi.

 

Það liggur auðvitað fyrir að margir fóru langt fram úr sér undanfarin ár. Menn aðhöfðust ýmislegt sem þeir hefðu ekki átt að gera. Reikna varla með að ég þurfi að nefna þar til nokkur dæmi. Þetta er öllum kunnugt. Fullkomlega óábyrg ævintýramennska sem gaf ekkert fyrir  hagsmuni íslensku þjóðarinnar og nærðist á græðgi í sinni hreinustu mynd dugir sem lýsing.

 

Að þessu sögðu get ég þó ekki tekið undir að gera eigi sérstaka atlögu að þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í dag og setja þar með allt í enn frekara uppnám. Við byggjum ekki upp nýtt Ísland úr engu. Það hlýtur hver maður að sjá. Við verðum að byggja upp á nýjan leik á þeim grunni sem fyrir er í landinu. Við verðum að hlúa að þeim fyrirtækjum sem fyrir hendi eru og geta starfað í framtíðinni og skapa þeim góð rekstrarskilyrði til þess að svo geti orðið. Við verðum að nýta þá gríðarlegu þekkingu og mannauð sem fyrir hendi er í atvinnulífinu. Engir aðrir möguleikar eru fyrir hendi. Eftir sem áður verður að vera góður möguleiki á eðlilegri nýliðun í þessari grein eins og öðrum og er það skylda bæði stjórnvalda og atvinnugreinarinnar að sjá um að svo verði.  Þessu til viðbótar nefni ég að þjóðinni er nú ljóst, að í framtíðinni verður hún fyrst og fremst að treysta á sig sjálfa, mátt sinn og megin. Það kemur nefnilega engin skilyrðislaus hjálp að utan. Það fylgir alltaf böggull skammrifi.

 

Og enn og aftur að þessu sögðu, þá þýða orð mín ekki að allt verði óbreytt þó að framtíðin byggi á þeim mannauð og fyrirtækjum sem til staðar eru. Við þurfum einfaldlega að ráðast í það erfiða verkefni að breyta okkur sjálfum og það hvernig við hugsum hlutina. Þetta verðum við að gera hvort sem okkur líkar betur eða verr. Taumlaus, ómenguð gróðahyggja gengur ekki lengur.

 

Mín sýn er, að vel rekin fyrirtæki í sjávarútvegi af öllum stærðum og gerðum sem taka á sama tíma mið af hagkvæmni, virðingu fyrir umhverfinu, fjölbreytni, samvinnu og samfélagslegri ábyrgð, er það sem koma skal. Með þessu er ég ekki að segja að slík fyrirtæki hafi ekki fundist í íslenskum sjávarútvegi. Öðru nær, því til er fjöldi þeirra, en það eru líka til fyrirtæki sem enga virðingu báru fyrir öðru en gróðahyggjunni og hafa nú sum hver fengið það goldið.

 

Eitt hefur komið mér á óvart eftir að ég tók við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og það er hversu miklir flokkadrættir og jafnvel tortryggni eru bæði innan og milli helstu hagsmunasamtaka í sjávarútvegi og samvinna þeirra sumra lítil. Ég vill hvetja ykkur og aðra til taka nú á í þessum efnum. Þetta eru þrátt fyrir allt að sömu þjóðarhagsmunirnir sem um er að tefla.

 

Ég get sagt ykkur hér alveg heiðarlega og beint frá hjartanu, að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hefur verið mér þungbær svo ekki sé meira sagt. Ég hef þó lagt á það áherslu að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið stæði sem best að allri vinnu sem af því er krafist í aðildarferlinu. Ráðuneytið ásamt undirstofnunum lagði á sig mikla vinnu við að svara spurningunum frægu. Ég hef kappkostað að upplýsa samtök ykkar reglulega um þá vinnu og þakka gott samstarf og starfsmönnum ykkar í þeim efnum. Nú fer í hönd yfirferð ESB á þessum spurningum. Síðan verður lagt fyrir ráðherraráðið, annaðhvort á fundi þess í desember eða mars, álit framkvæmdastjórnar ESB hvort við séum tæk til aðildar að þessu bandalagi. Að þessu loknu mun fara af stað s.k. screening process, hugsanlega í apríl, en hann felur í sér að framkvæmdastjórnin fer yfir hver sé mismunur á okkar löggjöf og þeirra. Að honum loknum munu hinar eiginlegu aðildarviðræður hefjast, hafi ég skilið þetta rétt. Í millitíðinni eða núna mjög fljótlega þarf að skipa aðalsamninganefnd og samninganefndir á fagsviðum. Mín bjargfasta skoðun er, að nauðsynlegt sé að hver samninganefnd fái strax samningsskilyrði í umboð sitt til að vinna eftir. Þau skilyrði liggja algjörlega ljós fyrir af hálfu sjávarútvegsins og koma jafnframt fram í greinargerð með þingsályktun Alþingis. Ég hef líka þá skoðun að mörg rök mæli með því að fulltrúar hagsmunaaðila eigi að fá aðild að samninganefndunum. Kosti og galla þess þarf a.m.k. að skoða vel í samvinnu við m.a. ykkur. Ég get ekki séð það fyrir mér að þessar nefndir fari af stað til að semja um eitthvað án skýrs samningsumboðs. Útilokað er að samþykkja að þessar nefndir verði settar af stað umboðslausar og þeirra eina verkefni verði að ná bara samningi. Ástæða þessa er auðvitað sú að komi til þess að brotni á málefnum líkt og full og óskoruð yfirráð Íslendinga yfir sínum eigin fiskimiðum, þá verði því málefni ekki ýtt til hliðar þar til síðast. Þess í stað verði fengin niðurstaða strax um svo mikilvæg málefni þannig að ríkisstjórn, Alþingi, hagsmunaaðilum og þjóðinni allri gefist færi á að taka afstöðu til hversu langt eigi að ganga.

 

Í upphafi máls míns um ESB sagði ég að þessar aðildarviðræður yllu mér miklum áhyggjum. Sá kostnaður sem fylgir þeim er ómældur og margfalt meiri en látið hefur verið í veðri vaka. Álag á okkar smáu stjórnsýslu er mikið og á eftir að stóraukast. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur fram til þessa engar sérstakar fjárveitingar fengið til að standa straum að kostnaði við aðildarviðræðurnar. Engir fjármunir liggja fyrir til þess að standa straum að sérfræðingavinnu eða nauðsynlegum greiningum. Ég get ekki ímyndað mér annað en það sama eigi eftir að gilda um hagsmunasamtök eins og Landssamband íslenskra útvegsmanna. Ennþá hef ég ekkert séð um að aðild að ESB verði okkur til hagsbóta.

 

Alveg nýlega komu fulltrúar frá Möltu í heimsókn í ráðuneytið til þess að segja okkur frá reynslu sinni í aðildarviðræðum og reynslu sinni að aðild. Heimsóknin var mjög gagnleg og veitti þetta góða fólk frá Möltu okkur greiðlega svör við öllum okkar spurningum. Malta er níunda þéttbýlasta ríki jarðarinnar og aðstæður þar eru að flestu leyti ólíkar okkar. Eftir sem áður er Malta eyja í miðju hafi og þar eru nokkrir hagsmunir í sjávarútvegi þó þeir séu á örskala miðað við okkar. Maltverjarnir tjáðu okkur að í upphafi aðildarviðræðnanna hefðu þeir farið fram á að vera undanþegnir ESB-reglunni um jafnan aðgang fiskiskipa. Þeir komust mjög fljótt að því að á slíku var enginn möguleiki. Þeir sömdu hins vegar um sérstakar reglur um veiðar innan 25 mílna lögsögu, en þær fela í sér, að þar megi einungis nota báta styttri en 12 metra og með takmörkuðu vélarafli, sem útilokar í raun að hægt sé að sækja á þessi mið frá öðrum löndum. Oft hefur verið vitnað til þessa Möltuákvæðis í umræðunni hér á landi, en þar er þó ólíku saman að jafna. Möltumenn verja þessa smábátaútgerð á grundvelli þess sem þeir nefna “identity” og kannski má þýða sem menningarlegt þjóðareinkenni. Þessir bátar veiða árlega á annað þúsund tonn allir saman, og geta menn af því gert sér í hugarlund hagsmunasamanburðinn. Ekki veit ég annað en okkar góðu vinum Maltverjum líði vel í ESB og óska ég þeim alls velfarnaðar í því ágæta bandalagi, en þessi litla saga segir mér að þarna inn höfum við ekkert að gera. Það er samt ekki svo að hana hafi þurft til þess hvað mig varðar.

 

Eins og þið þekkið þá ákvað ég á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnunarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Megin markmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar. Ég vil tiltaka hér sérstaklega að ég hef fyrir löngu ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf. Með þessu á ég við að hann mun fá frið til verka sinna án sérstakrar íhlutunar af minni hálfu. Ég tel mikilvægt að aðrir sem hér eiga hlut að máli haldi þessari sömu stefnu í heiðri. Rétt er að nota tækifærið og  tiltaka að samtök ykkar hafa tekið fullan þátt í starfi hópsins þó það hafi án alls vafa verið samtökunum erfitt í byrjun. Ég fagna bara aðkomu ykkar að þessu máli. Gríðarlega mikilvægt er fyrir hagsmunasamtök eins og ykkar að takast á við umræðuna í þjóðfélagninu með málefnalegum hætti, hversu illvíg sem hún kann að reynast.

Á undanförnum mánuðum hefur mér verið hugsað til þess hve gæfusamir við Íslendingar erum að búa að miklum og verðmætum endurnýjanlegum auðlindum sem geta tryggt búsetuskilyrði í landinu um ókomna tíð ef rétt er á haldið. Við eigum gnótt af tæru vatni til neyslu og til framleiðslu heilnæmra matvæla, gnægð rafmagns og heitt vatn til upphitunar og sem orkugjafa en síðast en ekki síst eigum við lifandi auðlindir hafsins, sem standa flestum hafsvæðum framar hvað magn og gæði snertir. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að við landsmenn njótum allra þessara gæða í framtíðinni því það er háð því hvernig á er haldið.

 

Þegar við horfum nú yfir rústir fjármálalífsins er okkur nauðsynlegt að átta okkur á hvað fór úrskeiðis – ekki einvörðungu til að draga menn til saka og láta þá sem sannanlega áttu hlut að máli bera ábyrgð á gjörðum sínum, heldur til þess sem ekki síður er mikilvægt, að koma í veg fyrir að mistökin endurtaki sig. Og þegar við nú metum okkar stöðu er margt óljóst, en eitt virðist þó ljóst og það er að náttúruauðlindirnar eru fjöregg framtíðarinnar. Mikilvægt er að við gerum okkur grein fyrir því að gagnstætt því sem víða er uppá teningnum í heimshöfunum, þá eru fiskimiðin í kringum landið enn gjöful og ein aðal kjölfestan sem við höfum á að byggja til framtíðar. Það er fráleitt sjálfsagt að svo sé, en með ábyrgri stefnu við stjórn fiskveiða þá hefur atvinnugreinin hlýtt kalli stjórnvalda á undanförnum árum um að takmarka sóknina í sjávarauðlindina í samræmi við afrakstursgetu hennar. Ekki er þó allt yfir gagnrýni hafið og þannig farið að ekki hefði mátt betur gera, en í grundvallaratriðum hefur okkur tekist að stilla veiðum þannig í hóf að þessa dagana tala sjómenn um mikla fiskigengd!  Það er gott að svo sé, að fiskistofnarnir séu í því ástandi að auðvelt og hagkvæmt sé að afla afurða í hæsta verðflokki.

 

Ekki verður hér undan því vikist að nefna mikilvægasta þáttinn, þekkingargrunninn og vísindastarfsemina sem hér hefur verið lögð af mörkum með staðföstu og ötulu framlagi okkar vísindamanna, einkum starfsmanna Hafrannsóknastofnunarinnar. Ekki verður sagt að þeir hafi sofnað eitt augnablik á verðinum gagnvart því að tryggja með þekkingaröflun sinni og fræðum að nýting stofnanna sé sem næst endurnýjunargetu þeirra. Engum vafa er undirorpið að fjárfesting í þekkingu á sviði haf- og fiskifræði hefur skilað íslenskri þjóð í fremstu röð, ekki aðeins á sviði vísindanna sjálfra, heldur einnig hvað snertir forystu Íslands á heimsvísu í sjálfbærri nýtingu fiskistofna á grundvelli vísindalegrar þekkingar.

 

Mér finnst eins og í hita umræðunnar og ákafa aðila til að halda til streitu ýmsum sértækum sjónarmiðum, að mönnum hafi láðst að láta það fólk sem hér hefur lagt heiður að veði til að standa faglega að rannsóknum á auðlindinni og standa vörð um hana, njóta sanngirni og þeirrar kurteisi sem réttmætt er í siðuðu samfélagi. Það er skylda okkar í þessari mikilvægu atvinnugrein að stilla orðræðunni svo í hóf, að við fjarlægjumst ekki staðreyndir málsins. Færa má fyrir því rök að einmitt hin háværa og jafnvel vanstillta orðræða, sem stundum einkennir skoðanaskipti í sjávarútvegi, sé undirrót þess að ungt fólk, samkvæmt nýlegri könnun HA, telji hann ekki álitlegan kost til atvinnu á komandi árum og er það áhyggjuefni. Þessu þurfum við að breyta og taka menntun og fræðslu í sjávarútvegi á öllum skólastigum til gagngerrar endurskoðunar í náinni samvinnu við atvinnulífið. Við þurfum að standa vörð um og virða það fólk sem hefur gert það að lífsstarfi sínu að undirbyggja þekkingargrunninn á þessu sviði, því sannarlega eru vel ígrunduð vísindi forsenda hagfelldrar þróunar í atvinnugreininni. Það breytir því ekki að málefnaleg gagnrýni og gríðarleg þekking og reynsla t.d. sjómanna og útgerðarmanna sett fram af sanngirni og hógværð er nauðsyn fyrir fræðin til að þróast vel og eðlilega. Þar eiga allir samleið.  Okkar vísindamenn vita best hve þekkingin er oft takmörkuð og mikils er um vert að sækja kunnáttu til allra sem lagt geta hönd á plóg, ekki síst útvegsmanna og sjómanna. Í þessu sambandi finnst mér vert að lýsa yfir ánægju minni með gott samstarf útvegsmanna, sjómanna og fiskifræðinga við leit og rannsóknir á loðnu, síld og makríl að undanförnu. Einnig verður hér á fundi ykkar í dag fjallað um niðurstöður skýrslu samstarfshóps atvinnugreinarinnar og fiskifræðinga um stofnmælingar botnfiska, m.a. togararallið svokallaða, sem unnin var  af frumkvæði ráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunarinnar. Hér eru á ferðinni aðeins tvö nýleg dæmi um mikilvægt samstarf.

 

Á undanförnum áratug höfum við orðið áskynja um marvíslegar breytingar í t.d. útbreiðslu og stærðum fiskistofnanna sem að verulegu leyti eru taldar tengjast breytingum á umhverfisaðstæðum í sjónum. Þessi staðreynd kallar á áframhaldandi öflugar rannsóknir og vöktun umhverfis og fiskistofna á Íslandsmiðum í víðtæku samstarfi við hagsmunaaðila og ég geri mér grein fyrir að þar má í engu slaka á þrátt fyrir tímabundnar þrengingar þjóðarbúsins

 

Ég vil hér að lokum í umfjöllun minni um Hafrannsóknarstofnunina segja að ég hef með öllu hafnað hugmyndum um að stofnunin, ásamt Veiðimálastofnun, flyttist frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu til annars ráðuneytis. Hugmyndin er fráleit í alla staði og ég veit að atvinnugreinin í heild sinni stendur með mér í þessum efnum og vil ég hér nota tækifærið þakka fyrir stuðning og samstöðu ykkar í þeim efnum.

 

Stóraukin makrílgengd í íslenskri lögsögu er staðreynd, þó viðsemjendur okkar meðal annarra strandríkja kjósi enn að þráast við. Aukin makrílveiði okkar Íslendinga er þannig kærkomin bútbót, sérstaklega um þessar mundir er við stöndum frammi fyrir margháttuðum erfiðleikum hvort sem er  vegna þeirra þrenginga sem við stöndum fyrir vegna falls íslensku bankanna eða í ljósi þeirra áfalla vegna loðnubrests, sýkingar í síldinni og mikills niðurskurðar í aflaheimildum í kolmunna.

 

Makrílinn fékk ég í fangið fljótlega eftir að ég tók við embætti ráðherra og hefur sú reynsla verið mér lærdómrík. Í mínum huga, eins og ég veit að á við um ykkur, þá skiptir öllu máli að við sköpum og tryggjum sem allra mest verðmæti úr makrílaflanum og öll umgengni okkar um þennan verðmæta veiðistofn taki mið af því og sé okkur til sóma. Þá skiptir máli að við nýtum öll þau tækifæri sem skapast geta bæði í tengslum við veiðar og vinnslu.

 

Í ágúst sl. skipaði ég vinnuhóp sem í sitja fulltrúi ráðuneytisins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, MATÍS, Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskistofu. Er honum ætlað að fara yfir makrílveiðar íslenskra skipa síðustu ár og vinna greinargerð um framkvæmd veiðanna, sem nýst getur til ráðgjafar við að móta framtíðar skipulag veiða og vinnslu. Þá er hópnum ætlað að draga saman upplýsingar um stöðu makrílstofnsins, en miklu skiptir að við öðlumst enn frekar vitneskju um útbreiðslu og magn makríls í lögsögunni og samspil hans og áhrif á allt vistkerfi hafsins.

 

Ég veit að vinna hópsins er langt á veg komin og er vongóður um að hún muni nýtast okkur í tengslum við mótun framtíðarskipulags veiðanna og í því sambandi skiptir miklu að geta átt gott og uppbyggilegt samstarf m.a. við ykkur, útgerðarmenn, enda augljóst að það er kappsmál okkar allra að vel takist til í þessum efnum.

Íslensk stjórnvöld hafa árum saman, án árangurs, leitað eftir því að taka þátt í heildarstjórnun makrílveiða ásamt öðrum hlutaðeigandi strandríkjunum. Hin strandríkin hafa hinsvegar neitað að viðurkenna stöðu Íslands sem strandríkis að því er makríl varðar og gefið upp sem ástæðu að lítinn sem engan makríl sé að finna í íslenskri lögsögu. Af þessum sökum hafa íslensk stjórnvöld þurft að taka einhliða ákvörðun um árlegan afla Íslands. Þrátt fyrir stóraukna makrílgengd í íslensku lögsöguna og að íslensk skip hafi veitt 112 þúsund tonn af makríl í fyrra og ríflega það magn í ár, hefur það engu breytt um afstöðu Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja. Þau þverskallast við að viðurkenna Ísland sem strandríki, halda nú vikulangan fund um stjórn makrílveiða fyrir árið 2010 í Cork á Írlandi og hafa aðeins boðið Íslandi að sitja lokadag fundarins. Með þessu er augljóst að aðilarnir þrír hafna þeirri ósk Íslands að taka þátt í heildarstjórnun makrílveiðanna á næsta ári, sem við eigum fullan rétt á samkvæmt hafréttarsamningnum og úthafsveiðisamningnum. Með þessum aðgerðum eru íslensk stjórnvöld knúin til að taka enn á ný einhliða ákvörðun um aflahámark fyrir næsta ár. Við þá ákvörðun verður augljóslega litið til veiðanna undanfarin ár og jafnframt til vaxandi útbreiðslu makríls innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Í haustfundi strandríkja fyrr í þessum mánuði náðist samkomulag um kolmunnaveiðar og veiðar á norsk-íslenskri síld. Ákvörðun varðandi heildaraflamark í síldveiðunum er í samræmi við þá langtíma stjórnunarráðstöfun sem strandríkin samþykktu á sínum tíma, líkt og hefur verið undanfarin ár en einnig tókst að ná samkomulegi um kolmunnaveiðar sem er í samræmi við niðurstöður Alþjóða hafrannsóknaráðsins og lúta þær nú einnig aflareglu.

 

Niðurstöður vinnuhóps Alþjóða hafrannsóknaráðsins um úthafskarfa og ráðgjöf ráðsins fyrir árið 2010 taka loks mið að því að um efri og neðri stofn sé að ræða sem stjórna beri aðskildum. Þessu höfum við haldið fram undanfarna tvo áratugi og stjórnað okkar veiðum í samræmi við það. Samningaviðræðum er ekki lokið fyrir árið 2010 og verður haldið áfram á næstu mánuðum.

 

Ísland leggur sem strandríki áherslu á réttinn til sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda hafsins, þ.á.m. hvalastofna. Hvalveiðar Íslendinga eru byggðar á vísindalegum grunni, þær eru sjálfbærar og beinast aðeins að stofnum sem eru í mjög góðu ásigkomulagi.

 

Ísland hefur tekið virkan þátt í vinnu að betrumbótum á starfsemi Alþjóðahvalveiðiráðsins undanfarin ár, en ráðið hefur verið nánast óstarfhæft vegna togstreitu milli ríkja sem eru fylgjandi hvalveiðum annars vegar og ríkja sem eru andstæð þeim hins vegar. Á ársfundi ráðsins á Madeira í júní sl. var ákveðið að gera úrslitatilraun til að ná málamiðlunarsamkomulagi milli þessara ríkjahópa. Var hópi 12 ríkja falið að leita slíks samkomulags fyrir næsta ársfund ráðsins sem haldinn verður í Marokkó næsta sumar. Hópurinn hélt sinn fyrsta fund í Santiago, Chile, á dögunum og var hann mjög jákvæður og gagnlegur. Ríkin eru einhuga um að freista þess að ná samkomulagi sem felur í sér í senn aukna hvalavernd og bætta stjórnun hvalveiða af hálfu Alþjóðahvalveiðiráðsins. Hópur ríkjanna 12 mun funda öðru sinni í desember n.k. og er ég reiðubúinn að leggja mitt af mörkum til að samkomulag náist.

 

Í gær lét ég setja á netsíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins kynningu á áformuðum breytingum á reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla er varða útflutning á óvigtuðum afla íslenskra skipa og framkvæmd úrtaksvigtunar við endurvigtun sjávarafla. Er það ætlun mín að þessi kynning verði á netinu í hálfan mánuð og gefist þar með öllum tækifæri á að tjá sig um þetta efni. Beinn útflutningur á fiskmarkaði erlendis hefur verið mjög til umræðu og sýnist sitt hverjum. Mikilvægt er þó að tryggja innlendri fiskvinnslu a.m.k. jafnrétti í aðgengi að þeim fiski og eru ofangreind áform sett fram í þeim tilgangi.

 

Ég mun leggja fram frumvarp um ýmis atriði er lúta að stjórn fiskveiða. Það mun væntanlega verða kynnt í næstu viku. Eðlilega má vænta nokkurrar umræðu um það mál í meðförum Alþingis og þar munið þið fá tækifæri eins og aðrir til að koma skoðunum og ábendingum ykkar á framfæri.

 

Leigumarkaðir fyrir aflamark eru botnfrosnir um þessar mundir og veldur það áhyggjum. Ástæðurnar eru m.a. þær að aflaheimildir hafa dregist saman í sumum fisktegundum. Ég vil samt biðja menn að gæta að því, að þessi markaður hefur fram að þessu verið talinn nauðsynlegur fyrir hagkvæmni fiskveiðistjórnunarinnar og fjölbreytni í sjávarútvegi og það eru býsna mörg fyrirtæki og jafnvel heilar byggðir sem hafa reitt sig mjög á þennan leigumarkað. Því bera bæði stjórnvöld og greinin sameiginlega ábyrgð á því að hann sé virkur og ekki afnuminn í einu vettvangi. Ég verð að segja það hér, að það er ekki hægt að láta sér vel líka hvernig háttað virðist verðlagningu á aflamarki þar sem leiguverð eru jafnvel tvö- eða þrefölduð eins og hendi sé veifað. Ég tel að þarna mætti ríkja meiri ábyrgð og meiri samkennd. Ég vill geta þess hér að ég hef hafið viðræður við Hagfræðistofnun HÍ um könnun á því hvort einhverjir markaðsbrestir gætu verið á ferðinni í leigumarkaði fyrir aflamark. Verði það niðurstaðan mun ég íhuga vel að grípa til aðgerða sem gætu falið í sér frekari afskipti opinberra aðila að þessum markaði.

 

Það er kannski ekki sérstök ástæða til þess við þetta tækifæri að minna á mikilvægi sjávarútvegsins fyrir þjóðarhag, en það ætla ég þó að gera hér að lokum. Öll vitum við að sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar. Framfarir og árangur í sjávarútvegi átti stóran þátt í vaxtar- og framfaratímabili þjóðarinnar á síðustu öld. Þó svo að hlutfallslegt mikilvægi sjávarútvegsins, í efnahagslegu tilliti, hafi eitthvað dregist saman um tíma er ljóst að sjálfbær og ábyrg nýting sjávarauðlindarinnar á eftir að skipta höfuðmáli í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Þannig er það bæði kappsmál okkar og ábyrgð sem störfum á vettvangi sjávarútvegsins, að við stöndum okkur – þjóðarhagur er undir. Er ég því þeirrar skoðunar að miklu máli skipti að sátt ríki bæði innan og utan sjávarútvegsins um þær leikreglur og áherslur sem unnið er eftir og vil ég beita mér í þeim efnum eins og ég frekast get. Það er undirstaða þess að vel geti tekist til til langrar framtíðar.

 

Að lokum vil ég þakka stjórn samtaka ykkar og Friðriki J. Arngrímssyni framkvæmdastjóra og öðru starfsfólki Landsambands íslenskra útvegsmanna gott samstarf á þeim stutta tíma sem ég hef starfað sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Færi ég ykkur mínar bestu óskir um velfarnað í framtíðinni.

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira