Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. nóvember 2009 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ávarp í tilefni af afhendingu viðurkenningar Barnaheilla 20. nóvember 2009

Ávarp í Þjóðmenningarhúsinu vegna afhendingar viðurkenningar Barnaheilla

Ragna Árnadóttir,
dómsmála- og mannréttindaráðherra

Það er mér heiður að vera með ykkur hér í dag á 20 ára afmæli Barnasáttmálans sem Barnaheill hafa að leiðarljósi við alla sína vinnu að réttindum og velferð barna. Þá er það mér mikil gleði að geta við þetta tækifæri tilkynnt ykkur að nú liggur fyrir ávöxtur af starfi Ágústs Ólafs Ágústssonar, sem hlýtur viðurkenningu Barnaheilla hér í dag, því frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins – eða Barnasáttmálann - hefur verið kynnt fyrir ríkisstjórn og verður lagt fyrir á Alþingi innan tíðar. Áhugasamir geta kynnt sér frumvarpið á vef ráðuneytisins.

Samningurinn um réttindi barnsins var undirritaður af Íslands hálfu 26. janúar 1990 og fullgiltur 28. október 1992. Barnasáttmálinn öðlaðist gildi gagnvart Íslandi 27. nóvember sama ár. Við fullgildingu samningsins var litið svo á að íslensk löggjöf væri í samræmi við ákvæði hans og var hann því fullgiltur án fyrirvara af hálfu Íslands, en lagðar voru fram sérstakar yfirlýsingar vegna tveggja ákvæða, önnur varðandi ákvarðanir um aðskilnað barna og foreldra og hin varðandi aðskilnað ungra fanga frá fullorðnum. Ísland hefur nú fallið frá fyrri yfirlýsingunni þar sem gerðar hafa verið lagabreytingar sem samræmast ákvæðum samningsins. Hin yfirlýsingin stendur eftir og hef ég nú sett á fót starfshóp, sem í eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins, Barnaverndarstofu og Fangelsismálastofnunar. Hópurinn hefur það hlutverk að koma með tillögur að fyrirkomulagi um vistun ungra fanga sem væri í samræmi við Barnasáttmálann svo unnt sé að falla frá yfirlýsingunni.

Frá því samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu hefur ýmislegt verið gert til að laga íslenskan rétt og stjórnsýslu betur að ákvæðum hans. Til dæmis var með 14. gr. stjórnskipunarlaga í fyrsta sinn sett inn í íslensku stjórnarskrána ákvæði sem varðar börn sérstaklega. Þá hefur löggjöf um málefni barna á ýmsum sviðum verið í verulegri endurskoðun á síðustu árum og fjölmargar breytingar verið gerðar sem hafa það markmið að bæta réttarstöðu barna m.a. með hliðsjón af ákvæðum samningsins Við gerð frumvarpsins óskaði dómsmálaráðuneytið eftir því við öll ráðuneyti að þau gerðu grein fyrir því hvaða lögum á verksviði þeirra og stofnana þeirra væri nauðsynlegt að breyta vegna fyrirhugaðrar lögleiðingar samningsins. Niðurstaðan var almennt sú að ekki væri nauðsynlegt að breyta núgildandi ákvæðum laga vegna fyrirhugaðrar lögfestingar.

Sérstaða Barnasáttmálans liggur ekki síst í því að með honum voru réttindi barna í fyrsta sinn leidd í alþjóðalög. Hann endurspeglar einnig nýja og byltingarkennda sýn á réttarstöðu barna. Samhliða því að börn skuli njóta umhyggju og sérstakrar verndar, er lögð rík áhersla á að börn verði virkir þátttakendur í þjóðfélaginu, sem sjálfstæðir einstaklingar með réttindi og ábyrgð sem hæfir aldri og þroska hvers og eins þeirra. Samningurinn hefur því mótað nýjan siðferðilegan grunn og alþjóðleg viðmið um hvernig líta beri á og koma skuli fram við börn. Það er að mínu mati mjög til bóta – því við eigum að gefa rödd barna okkar vægi þegar við tökum ákvarðanir um hag þeirra og framtíð.

Ég óska samtökunum áframhaldandi velfarnaðar og heilla í þeirra góða starfi innanlands og utan.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira