Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. nóvember 2009 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ræða á aðalfundi Dómarafélags Íslands

Ræða á aðalfundi Dómarafélags Íslands í Iðnó 20. nóvember 2009

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra

 

Lögregla, ákæruvald, dómstólar, fangelsi: Aukin viðfangsefni í kjölfar bankahrunsins.

Dómstólar og dómsmálagjald.

Í kjölfar bankahrunsins síðast liðið haust og þeirra efnahagslegu þrenginga sem við höfum gengið í gegnum, hafa stofnanir dómsmála- og mannréttindaráðuneytis mætt auknu álagi. Má segja að hér sé engin stofnun ráðuneytisins undanskilin, en ljóst er þó að í náinni framtíð muni dómstólar þurfa að takast á við aukinn málafjölda, í áður óþekktum mæli. Mun því verulega mæða á dómstólum, hvort heldur litið er til héraðsdómstólanna eða Hæstaréttar.

Á þetta hefur verið bent af ýmsum aðilum og varað við þeirri þróun sem fyrirsjáanlega muni eiga sér sér stað innan dómstólanna. Þannig hafa Dómstólaráð, Hæstiréttur Íslands og Lögmannafélagið hafa lýst áhyggjum sínum af þessari þróun mála og þeirri fjölgun dómsmála  sem fyrirsjáanleg er í náinni framtíð. Hefur dómsmálaráðuneytið því þurft að meta það hvernig bregðast megi við. Hér eru ekki til neinar töfralausnir; við erum á niðurskurðartímum og af hálfu ríkisstjórnar hefur verið gerð 10% hagræðingarkrafa til dómstóla. Fyrir var fjárhagi dómstólanna sniðinn afar þröngur stakkur.

Meðal þess sem litið hefur verið til í ráðuneytinu, er hvort sjá megi fyrir væntanlega fjölgun dómsmála í náinni framtíð. Í því skyni var gerð mjög svo óformbundin og leyfi ég mér að segja, óhefðbundin, könnun hjá skilanefndum og slitastjórnum hinna föllnu banka, um hversu mörg ágreiningsmál vegna krafna kunni að koma frá þeim til dómstólanna í náinni framtíð.

Þetta er brýnt, þar sem málsmeðferð slíkra mála er, eins og ykkur er eflaust kunnugt um, hröð og hraðari en almennt gildir um hefðbundin einkamál. Auk þess eru þau kæranleg til Hæstaréttar og sæta því ekki hefðbundinni áfrýjun. Það er því ástæða til þess að þessi mál, séu þau mörg, kunni þegar í janúar á næsta ári að teppa dómstólana og störf þeirra, og verða til þess að málsmeðferðartími muni strax lengjast, einkum hefðbundinna einkamála.

Þetta er eins og ég hef áður komið að, óformleg könnun og hafa starfsmenn skilanefndanna áætlað málafjöldann en hafa, eðli máls samkvæmt, ekki getað gefið upp nákvæma tölu þessara mála. En niðurstaðan eftir þessa könnun er sú sú að varlega megi áætla að heildarfjöldi slíkra mála muni hlaupa á hundruðum sé allt tekið saman, og líklegra er að þau kunni að vera um 1.000 jafnvel allt að 1.200.

Þetta er til þess fallið að valda verulegum áhyggjum af stöðu dómstólanna og því hvort þeir geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað við endurreisn íslensk þjóðfélags. Það er að mínu mati brýnt og afar mikilvægt að staðið sér vörðru um starf þessara mikilvægu stofnana.

Ég hef því lagt til við ríkisstjórn að við vandanum verði brugðist með því að fjölga héraðsdómurum tímabundið um fimm og að jafnframt verði veitt heimild til þess að ráða fimm aðstoðarmenn tímabundið við dómstólana. Það verður þó erfitt að afla þeirri tillögu stuðnings án þess að fjármunir verði tryggðir á móti til greiðslu þess kostnaðar sem af kann að hljótast, en kostnaður vegna þessarar fjölgunar er um
kr. 100.000.000.

Því hef ég einnig lagt til að dómsmálagjöld verði hækkuð verulega. Nú eru gjöld vegna höfðunar einkamáls 3.900 fyrir héraðsdómi en gjald fyrir áfrýjunarleyfi og útgáfu áfrýjunarstefnu er 12.700.  Voru þessi gjöld síðast hækkuð á árinu 2004, en nú er lögð til veruleg breyting á þessum gjöldum, bæði á fjárhæð gjaldsins og svo á gjaldstofninum sjálfum. Í stuttu máli hafa verið settar fram hugmyndir um að tengja dómsmálagjöld við stefnufjárhæð annars vegar og áfrýjunarfjárhæð hins vegar.  Þetta fyrirkomulag er við lýði á sumum Norðurlandanna, en með því væri þá lagt til að þeir sem bera ágreining sinn undir dómstól greiði hlutfallslega hærra gjald eftir því sem ágreiningurinn stendur um hærri fjárhæð.

Hvað mælir með þessari verulegu hækkun?

Í fyrsta lagi má segja að með þessu sé verið að hvetja til þess að ágreiningur sé leystur utan dómstóla og að ekki sé leitað til dómstóla með ágreiningsmál sem aðilar eiga að geta sætt sjálfir eða eiga að geta leyst með öðrum hætit.

Í öðru lagi er hér verið að leggja til að kostnaður vegna þeirra mála sem snúast um háar fjárhæðir, og sem oft eru þar af leiðandi, umfangsmikil og taka mikinn tíma í meðförum dómstóla, verði hærri en þeirra mála sem snúast um lægri fjárhæðir.

Í þriðja lagi má einnig halda því fram að með þessu greiði málsaðilar kostnað sem er nærri þeim kostnaði sem af rekstri dómstóla og meðferð máls þeirra leiðir.

En gegn hækkuninni eru önnur rök sem lúta einkum að aðgengi einstaklinga að dómstólum og mannréttindum almennt.

Það má halda því fram að hér sé verið að skerða rétt þeirra efnaminni til að leita með ágreining sinn til dómstóla og að í svo verulegri hækkun kunni að felast skerðing á þeirri reglu að allir eigi að eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli, svo sem leiðir af 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Og þetta kann vel að vera rétt, og því tel ég rétt að kanna það í þessu sambandi hvort endurskoða þurfi reglur um gjafsókn, og eftir atvikum að rýmka þær nái þessar breytingar fram að ganga.

En fram hjá því verður ekki litið að verði ekki gerð þessi breyting á dómsmálagjöldum og ef ekki verður af fjölgun héraðsdómara við dómstóla landsins, kann til þess að koma að einstaklingar geti ekki notið fyrrgreinds réttar til málsmeðferðar innan hæfilegs tíma. Það tel ég liggja fyrir vegna fjölgunar verkefna dómstóla, svo sem vegna beiðna um greiðsluaðlögun og vegna þeirrar fjölgunar dómsmála sem ég hef rakið hér að framan.

 

Þá hef ég lagt fram á alþingi frumvarp til breytinga á lögum um dómstóla.

Með frumvarpinu er lagt til að héraðsdómstólar landsins verði sameinaðir í einn héraðsdómstól fyrir allt landið en dómstóllinn hafi hins vegar starfsstöðvar víða um land þar sem dómarar hafi fast aðsetur. Er þessi tillaga byggð á hugmyndum sem dómstólaráð kynnti fyrir ráðuneytinu í byrjun þessa árs á þeim forsendum að með sameiningu dómstólanna mætti ná fram aukinni hagræðingu í starfsemi þeirra. Við sameininguna myndi opnast möguleiki á að nýta betur starfskrafta dómara þannig að þeir yrðu ekki bundnir við einn tiltekinn dómstól heldur gætu starfað við héraðsdóm hvar sem er á landinu. Starfsálag á dómara er mismikið eftir dómstólum. Með því að setja alla dómara undir sama dómstólinn mætti jafna álaginu. Annar liður í því að minnka álag á dómara er sú tillaga sem lögð er til í frumvarpinu að gera breyting á störfum aðstoðarmanna við héraðsdóm þannig að dómstjóri geti falið þeim að gegna í takmörkuðu mæli dómstörfum í eigin nafni en í umboði og á ábyrgð dómstjóra og undir boðvaldi hans. Með þessari breytingu er stefnt að því að unnt verði að auka afköst við héraðsdóm án þess að til þurfi að koma fjölgun starfsmanna. Munu aðstoðarmenn þá fá samskonar heimildir og dómarafulltrúar höfðu áður skv. eldri lögum.

Ef ég nefni nokkur fleir atriði sem kveðið er á um í frumvarpinu þá er þar lagt til að stöður dómstjóranna verði lagðar niður og til verði ein staða dómstjóra héraðsdóms. Gert er ráð fyrir að dómstjóri héraðsdóms fari eins og nú er með faglega yfirstjórn héraðsdóms og stýri þar verkum við meðferð og rekstur dómsmála sem hann ber ábyrgð á.

Lagðar eru til breytingar á dómstólaráði, bæði hvað varðar skipan þess og starfssvið. Í dag eiga sæti í dómstólaráði fimm menn. Af þeim eru tveir kjörnir af héraðsdómurum úr þeirra röðum, tveir eru kjörnir af dómstjórum úr þeirra hópi og einn er skipaður af ráðherra án tilnefningar. Vegna þeirrar breytingar sem lögð er til að einungis verði einn dómstjóri er lagt til að dómstjóri héraðsdóms sitji í dómstólaráði en Lögmannafélag Íslands tilnefni starfandi hæstaréttarlögmann í þá stöðu sem áður var skipuð öðrum tveggja dómstjóranna sem sátu í ráðinu. Gert er ráð fyrir að hinir þrír verði tilnefndir á sama hátt og nú er.

Lögð er til breyting á hlutverki dómstólaráðs að nokkru leyti frá því sem nú er. Í stað þess að hver og einn dómstjóri haldi utan um fjármál og starfsmannahald hvers og eins dómstóls er gert lagt til að dómstólaráði verið falið að fara á sína ábyrgð með allar fjárreiður héraðsdóms og einnig að fara með ráðningar annarra starfsmanna en dómara til héraðsdóms.

Þá er lagt til að dómstólaráði verði falið að ákveða hvar héraðsdómur hafi fastar starfsstöðvar og hvernig landinu er skipt í þinghár. Skiptar skoðanir eru á því hvort rétt sé að fela dómstólaráði þetta vald. Hefur verið bent á að löggjafinn ætti að ákveða hvar dómstólarnir væru staðsettir. Kemur að mínu mati vel til skoðunar að hafa slíkan háttinn á.

Frumvarpið er nú til meðferðar í allsherjarnefnd og geri ég ráð fyrir að þær tillögur sem fram koma í frumvarpinu hljóti góða skoðun.

Nefnd um endurskoðun reglna um dómara.

Í mars síðastliðnum skipaði ég þriggja manna nefnd sem falið var að koma með tillögur að nýjum reglum um skipan dómara. Skyldi nefndin taka til skoðunar hugmyndir sem fram hafa komið hér á landi um hvaða reglur skyldu gilda um skipan dómara auk annars er nefndinni þættiskipta máli.

Í nefndina voru skipuð þau Guðrún Erlendsdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, Hákon Árnason, hæstréttarlögmaður og Ómar H. Kristmundsson, stjórnmálafræðingur. Jafnframt var skipaður sérstakur samráðshópur fulltrúa félagasamtaka og atvinnulífs. 

Nefndin ræddi við og kallaði eftir sjónarmiðum ýmissa aðila um málefnið auk þess sem samráðshópurinn hitti nefndina og fékk að koma að sjónarmiðum sínum.

Nefndin skilaði mér skýrslu sinn í október síðastliðnum og var hún birt á heimasíðu ráðuneytisins til kynningar auk þess sem menn gátu komið að athugasemdum sínum. Niðurstöður nefndarinnar voru eftirfarandi:

1.  Fjölgað verði í dómnefnd sem skili til ráðherra faglegu, rökstuddu mati um alla umsækjendur um dómaraembætti þannig að hún verði skipuð fimm til sex mönnum, tveimur eða þremur dómurum, einum lögmanni og tveimur fulltrúum almennings.

2. Felld verði niður ákvæði 4. mgr. 4. gr. dómstólalaga um umsögn Hæstaréttar en Hæstiréttur gefi umsögn til dómnefndar um hverjar séu þarfir réttarins hverju sinni.

3. Skipunarvaldið verði áfram hjá dómsmálaráðherra en ákveði hann að skipa annan en dómnefndin mælir með verður hann að bera tillögu um skipun annars hæfs umsækjanda fyrir Alþingi. Samþykki Alþingi tillögu ráðherra getur hann skipað þann mann sem dómara, annars er ráðherra bundinn af niðurstöðu dómnefndar.

4. Sérstakar reglur verði settar um starf dómnefndar.

5. Lögfest verði þau sjónarmið sem gilda eiga við mat dómnefndar um hæfni umsækjenda.

Ég hef falið réttarfarsnefnd að gera frumvarp til breytinga á lögum um dómstóla þar sem byggt er á þeim tillögum sem nefndin leggur til í skýrslu sinni.

Mikilvægt er að á þessum erfiðu tímum í samfélagi okkar þá leitum við allra leiða til að ná fram þeim sparnaði sem unnt er og þeirri hagræðingu sem möguleg er svo komast megi hjá útgjöldum jafnframt því að leita leiða til að auka tekjur. Þetta er sameiginlegt markmið okkar og að því þurfum við að vinna saman.

 

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira