Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. apríl 2010 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ávarp á málstofu á vegum HR og Almannaheilla, samtaka þriðja geirans

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra
Málstofa - þriðji geirinn - siðlegir starfshættir og ábyrgð stjórna
7. apríl 2010

-----------------

Ágætu málstofugestir.

Ég þakka fyrir þann heiður að vera með ykkur í dag.

Breyttir tímar gefa okkur sannarlega tilefni til að líta í eigin barm og endurskoða öll okkar gildi. Hvernig við vinnum. Hvernig við komum fram við hvert annað. Hvernig við högum okkur í því samfélagi, sem við búum í.

Eðlilegt er að slík endurskoðun kalli á umræður um hvaða hátterni sé æskilegt og hvað sé óæskilegt. Hvað sé siðlegt og hvað ósiðlegt.

Ýmsar hátternisreglur eru bundnar í lögum og reglugerðum. Nú um stundir má greina ákveðna þróun í því sambandi, og á ég þar við ýmis lagafyrirmæli sem Alþingi hefur samþykkt í kjölfar hrunsins, eða eru til umræðu í þinginu. Þær hátternisreglur lúta til dæmis að bættum starfsháttum í viðskiptalífinu.

Þá hafa verið unnar siðareglur fyrir ráðherra og starfsmenn stjórnarráðsins.Til að styrkja þær enn frekar hefur forsætisráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi, en með því er fyrirhugað að festa siðareglurnar enn frekar í sessi, með því að gefa þeim lagastoð. Setning siðareglnanna og aukið vægi þeirra hefur verið talið mikilvægur liður í að endurreisa traust almennings til íslenska stjórnkerfisins.

Umræða um siðareglur innan stjórnsýslunnar er reyndar ekki ný af nálinni. Ríkisendurskoðun gerði til dæmis árið 2003 býsna áhugaverða skýrslu um siðareglur í opinberri stjórnsýslu og má þar finna úttekt á því hvernig þessum málum er háttað í þeim ríkjum sem við berum okkur gjarnan saman við. OECD hefur um nokkurt skeið lagt áherslu á að slíkar siðareglur séu settar og eru þær áherslur áberandi í tengslum við baráttuna gegn spillingu.

Í þessu ljósi er mjög skiljanlegt að frjáls félagasamtök hugi að siðferði í sínum röðum. Þriðji geirinn gegnir mikilvægu hlutverki (og hver veit nema það hlutverk gæti orðið enn stærra í þeim efnahagsþrengingunum sem við göngum í gegnum nú en það er önnur umræða). Hvort sem hlutverkið er menningarlegt, félagslegt eða annað þá er ljóst að mjög æskilegt er að þriðji geirinn taki þátt í þeirri naflaskoðun sem þarf að fara fram hjá ríkisvaldinu og einkageiranum.

Í þeirri naflaskoðun er það áleitin spurning, hvort við þurfum í raun siðareglur til að geta hagað okkur skikkanlega. Ég er þeirrar skoðunar að siðareglur séu nauðsynlegar. Þær eru nauðsynleg leiðsögn en þær mega þó ekki verða til þess að dómgreind okkar slævist og við treystum um of á siðareglur sem aðrir hafa sett okkur. Því þar sem siðareglum sleppir verðum við að treysta á dómgreindina.

Þá tel ég nauðsynlegt að um siðareglur fari almenn umræða, eða að minnsta kosti meðal þeirra sem þær eiga að ná til, til þess að þær nái markmiði sínu. Þeir einstaklingar, sem eiga að fara að siðareglunum, þurfa að skilja þær og helst að vera þeim sammála. Við þurfum að skilja þörfina og ástæðuna fyrir því að við setjum okkur þessar reglur. Reglur á pappír einar og sér þjóna engum tilgangi ef ekki er farið eftir þeim og ef ekki er um þær almenn sátt.

Ég óska Almannaheillum velgengni í framtíðinni. Það er mikilvægt að hafa öflug regnhlífarsamtök í þriðja geiranum sem ríkisvaldið getur leitað til og starfað með á tímum aukins samráðs. Ég hlakka til að sjá þau drög að siðareglum, sem kynnt verða hér á eftir, og óska þess að þær verði til gagns og okkur öllum hvatning til að gera betur.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira