Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. september 2010 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva, 24. september 2010

Ávarp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva, 24. september 2010

Formaður og ágætu fulltrúar á aðalfundi Samtaka fiskvinnslunnar.

Mér er það enn á ný mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva.

Frá því fyrir ári síðan hefur ýmislegt á dagana drifið. Mörg mál hafa þokast í rétta átt en önnur síður eins og gengur.
Ef litið er á sjávarútveginn í heild sinni, held ég að megi fullyrða að staða hans verði að teljast ótrúlega góð miðað við aðstæður. Þá er ég að tala um aðstæður tveimur árum eftir bankahrun, með þeim afleiðingum sem það hafði á fyrirtækin og það að aflaheimildir hafa verið í lágmarki. Máli mínu til stuðnings get ég bent á, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar,  að aflaverðmæti íslenskra skipa nam rúmum 57 milljörðum króna á fyrstu fimm mánuðum ársins 2010, samanborið við 43,1 milljarð á sama tímabili 2009. Aflaverðmæti hefur því aukist um tæpa 14 milljarða, eða 32,4% á milli ára.  Ef við lítum til ársins 2009 í heild sinni þá var afli íslenskra skipa tæp 1.130 þúsund tonn, 153 þúsund tonnum minni en árið 2008. Aflaverðmæti nam rúmum 115 milljörðum króna og jókst um 16,4% frá árinu 2008, en var 2,8% minna ef mælt er á föstu verði.

Svona til viðbótar í þessu sambandi til fróðleiks bætir Hagstofan við, að stærsti hluti afla íslenskra fiskiskipa hafi verið unninn á Austurlandi, mest uppsjávarafli sem landað var þar. Stærsti hluti botnfiskaflans var unninn á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum eða rúm 42%. Af þorskaflanum fór mest í landfrystingu og einnig stærsti hluti ýsuaflans

Ég segi aftur að miðað við aðstæður þá verður þetta að teljast betra en hægt var að vona. Ég í það minnsta er hræddur um að ýmsir atvinnuvegir hér á landi myndu geta sætt sig við þessa frammistöðu og þó það væri ekki nema að hálfu. Ekki má gleyma því að við höfum búið við árgæsku til sjávar og sveita.

Verkefni ríkisstjórnarinnar

Í ræðu minni á aðalfundi ykkar fór ég yfir þau verkefni í sjávarútvegi sem gert var ráð fyrir að unnið yrði að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Nú þegar að ég lít yfir farinn veg sé ég að talsvert hefur áunnist. Ætla ég að leyfa mér að fara yfir það sem að kölluð voru brýnu verkefnin í þessu sambandi.

Mér var sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætlað að knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.

Ástæða fyrir þessi markmið var öllum ljós. Útflutningur á ferskum fiski hafði aukist mjög og var orðinn nær 13% af öllum botnfiski. Bankahrun og kreppa skollin á og verulegt atvinnuleysi staðreynd. Mjög voru skiptar skoðanir um þetta markmið stjórnvalda sem vonlegt var, því horfa má á þetta út frá ýmsum hliðum. Árangurinn er hins vegar auðsær: Á nýliðnu fiskveiðiári var fluttur út óunninn ísaður fiskur á erlenda fiskmarkaði með veiðiskipum og gámum að verðmæti 13,2 milljarða króna miðað við 17,8 milljarða króna á fiskveiðiárinu 2008/2009. Verðmæti útflutts óunnins afla dróst því saman um rúm 26% á milli fiskveiðiára. Útflutt magn dróst einnig verulega saman, úr 58.978 tonnum á fiskveiðiárinu 2008/2009 niður í 38.201 tonn á nýliðnu fiskveiðiári eða um rúm 35%. Ég ætla ekki að þakka mínum aðgerðum þetta einum og sér, því margir samverkandi þættir áttu hér hlut að máli og þá ekki síst að íslensk fiskvinnsla hefur bætt samkeppnishæfni sína og því ber að fagna.

Mér var síðan falið að takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára. Þetta allt hefur verið gert í breytingum sem gerðar voru á lögunum um stjórn fiskveiða s.l. vetur. Nokkrar takmarkanir voru settar á framsal, veiðiskyldan var tvöfölduð og heimil til tilfærslu á milli ára var minnkuð um meira en helming.

Annað brýnt verkefni snérist um vernd grunnslóðar. Áskilið var í stefnuyfirlýsingunni að kannaðir yrðu möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að vernda viðkvæmt lífríki grunnsævisins og treysta hana frekar sem veiðislóð fyrir smærri báta. Allir vita að mörgum fjörðum hefur þegar verið lokað bæði tímabundið og ótímabundið fyrir stórvirkari veiðafærum á fyrri árum. Í maí sl. setti ég fram tillögur um lokun sjö fjarða fyrir dregnum veiðafærum. Vöktu þessar tillögur almennt mjög góð viðbrögð þó svo að dragnótarmenn teldu mjög á sig hallað. Nú þegar hefur helmingur þessara lokana tekið gildi en áætlað er að um næstu áramót munu þær allar koma til framkvæmda. Áfram verður unnið á þessum nótum í samæmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég er sannfærður um að framtíðin muni leiða það í ljós að þessar aðgerðir, sem miða af lokun fjarðarbotnanna og strandanna umhverfis landið, munu skila sér í betri fiskistofnum þegar til framtíðar er litið.

Allir þekkja þau nýmæli sem sett voru í lög með bráðabirgðaákvæðinu um skötuselinn. Með þeim voru kynnt til sögunnar önnur hugsun við stjórn fiskveiða. Mín upplifun var sú að almennt var þessu vel tekið og rétt skref stigið. Umdeildur var hann þó vegna hinna eignarréttarlegu sjónarmiða en ég er sannfærður um það meir en nokkru sinni, að slíkar ráðstafanir er nauðsynlegt að hafa í ýmsum tegundum út frá sjónarmiðum fiskveiðistjórnunarinnar. Í okkar blönduðu veiðum koma upp meðaflavandamál á hverju einasta ári. Stundum er það þessi tegund og stundum er það hin. Tegundatilfærslurnar og önnur ráð innan núverandi kerfis hafa ekki að ráðið við þetta með viðunandi hætti að mínu mati.

Þá vil ég tiltaka hér það ákvæði í stefnuyfirlýsingunni, að heimilaðar skyldu frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina. Allir þekkja efndir þessa. Strandveiðar hafa nú verði lögfestar með varanlegum hætti. Síðastliðið sumar tóku 741 bátur þátt í strandveiðunum og heildaraflinn í þeim yfir sumarið var rúmlega 6.000 tonn. Mikil sátt og almenn ánægja hefur verið með þessa ráðstöfun, þótt ýmisr hafi viljað knýja á og viljað veiða meira og með öðrum hætti, en raddir þeirra sem lögðust alfarið gegn þessu finnst mér hafa hljóðnað.
Mín skoðun hefur hins vegar frá upphafi verið skýr. Það var algjörlega nauðsynlegt að ráðast í þessa framkvæmd. Annað hefði ekki verið liðið og bið ég menn að hætta að líta á þær sem ógn því þær eru, trúið mér, hluti af sátt þjórðarinnar við sjávarútveginn. Mér er líka ljóst að strandveiðarnar eru ennþá á þrónunarskeiðinu. Ýmislegt má enn bæta og að því verðum við að vinna. Það er t.d. þannig að við höfum ekki efni á því að einn einasti þessara 741 báta komi með afla sem illa hefur verið hirt um að landi. Til að koma í veg fyrir slíkt verða allir að vinna saman og treysti ég mönnum vel til þess.

Eins og þið þekkið, þá ákvað ég á grundvelli stefnuyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnunarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Eina bindingin af minni hálfu sem sjávarútvegsráðherra var að greininni yrðu sköpuð góð rekstrarskilyrði til lengri tíma í sátt við þjóðina! Ekki þarf að ítreka hér þá afstöðu mína að við hér stundum sjálfbærar fiskveiðar út frá líffræðilegum, efnhagslegum, og samfélagslegum sjónarmiðum. Vinnuhópurinn var mjög fjölmennur og reyndi töluvert á hann í vinnunni. Það olli mér vissulega vonbrigðum að sumir skyldu segja sig frá vinnunni tímabundið, en hins vegar fagna ég því að hann var fullskipaður að lokum. Ég hef nú undir höndum skýrslu vinnuhópsins.

Gangur málsins á næstunni verður sá, að nú mun ráðuneytið taka að sér að vinna upp frumvarp eða frumvörp um breytingar á stjórn fiskveiða. Ætlunin er að því verki verði lokið, þannig að slíkt verði hægt að leggja fyrir Alþingi fyrir jólafrí. Er þá ætlunin að breytingarnar geti orðið að lögum á vorþingi þannig að ný skipan mála taki gildi á fiskveiðiárinu 2011/12.  Ég veit að það vakna margar spurningar við þessi orð mín. Menn spyrja - munt þú í einu og öllu fara eftir áliti meirihluta nefndarinnar þegar að slíkt meirihlutaálit liggur fyrir. Hvað munt þú gera þar sem leiðbeining nefndarinnar náði aðeins til grundvallar atriða en ekki var sett fram nánari skilgreining. Svarið við þessum spurningum er, að ráðuneytið mun vinna að þessu máli af festu og öryggi. Það mun leita eftir ráðgjöf sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum þar sem það telur á því sé þörf. Það mun jafnframt hafa samráð við aðila utan ráðuneytis sem og á hinum pólitíska vettvangi eins og þörf verður talin málefnisins vegna, en hin pólitíska ábyrgð á þeim frumvörpum sem líta dagsins ljós verður ráðherrans og ríkisstjórnarinnar.

Þegar heildaraflamarki var úthlutað í byrjun júlí sl. var tiltekið að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kæmi fram að veiðiheimildir skuli ákvarðast á grundvelli nýtingarstefnu sem gefin er út til lengri tíma. Hafrannsóknastofnunin hefur hafið undirbúning  nýtingarstefnu í ufsa og ýsu eins og þekkt er og jafnvel fleiri tegundum, sem mun gera það kleift að setja fram slíka stefnu fyrir fleiri stofna en þorsk. Síðar var sagt að skiptar skoðanir hafa verið um nýtingarstefnuna í þorski og þá aflareglu sem nú er miðað við. Þorskstofninn hefur stækkað meira og fyrr en gert var ráð fyrir í eldri spám Hafrannsóknastofnunarinnar, þrátt fyrir að veitt hafi verið talsvert umfram aflareglu. Raunar hefur tvívegis verið aukið við þorskaflann um 30 þúsund tonn í hvort skipti á liðnum árum og síðast í janúar 2009.

Með hliðsjón af þessu sagðist ég ætla að setja á laggirnar samráðsvettvang um nýtingarstefnuna, sem í ættu sæti m.a. fulltrúar stjórnvalda, atvinnugreinarinnar og fiskifræðinga.  Fyrsta verkefni samráðsvettvangsins væri að fara yfir aflaregluna í þorski og meta hvort ástæða er til að leggja til breytingu á henni með tilliti til breyttra aðstæðna og sterkari  stöðu stofnsins. Verði lögð til breyting mun verða haft samráð við Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) m.a. með tilliti til sjálfbærni veiðanna. Næsta verkefni samráðsvettvangsins væri að fjalla um, hvort hægt sé að mæla með að tekin verði upp nýtingarstefna vegna veiða á ufsa og annarra tegunda. Þetta sagði ég vegna þess að mér er alveg ljóst að það verður að nást viðunandi samstaða og stuðningur í greininni um þessi verkefni Hafrannóknastofnunarinnar. Samræða, skoðanaskipti og fræðsla er besta leiðin að því markmiði.

Undirbúningur framangreinds hefur staðið yfir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að undanförnu. Ráðuneytið gerir sér jafnframt grein fyrir að þetta hefur komið til skoðunar oft áður á liðnum árum. Niðurstaða mín er sú að ég hef óskað eftir því við Skúla Skúlason, rektor Háskólans á Hólum og doktor í líffræði, að hann taki að sér verkstjórn þessa verkefnis. Skipulag þess verður á þann veg að hann tilnefnir sjálfur til sín tvo óháða íslenska sérfræðinga. Þetta teymi dr. Skúla mun óska eftir viðræðum við Hafrannsóknastofnunina og helstu hagsmunaaðila þar sem fram fara skoðanaskipti og gagnasöfnun. Teymið mun vinna úr þeim upplýsingum og kalla til sína aðra sérfræðinga, eftir atvikum erlenda, til þess að ná fram mati á þeirri stöðu sem óskað er eftir. Dr. Skúli stýrir þessari vinnu eins og áður sagði og mun kalla á ný til samráðs og síðan skila af sér niðurstöðu til mín.

Hér vil ég taka fram að ég bind miklar vonir við starf Skúla og þeirra sem að þessu munu koma. Allir vita að það er svo gríðarlega mikið undir fyrir þessa þjóð!

Eins og þekkt er liggur fyrir skýrsla Matís ohf. um bætta nýtingu sjávarafla. Í skýrslunni er fjallað um stöðu þessara mála í dag. Síðan eru settar fram hugmyndir um nýtingu til framtíðar og hvað megi gera til að ná fram betri árangri. Fram kemur í skýrslunni að víða ætti að vera hægt að ná verulegum árangri í bættri nýtingu til hagsbóta fyrir viðkomandi fyrirtæki og þjóðarbúið í heild. Talið er hér líklegt að skýrsla þessi geti nýst sem leiðarljós í áframhaldinu.

Með hliðsjón af þessari skýrslu ákvað ég sl. vor að setja á fót samstarfshóp útgerðar, fiskvinnslu, Matís og ráðuneytis til þess að vinna að bættri nýtingu og verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Gert er ráð fyrir að samstarfshópurinn, sem er undir forystu Jóns Eðvalds Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Fisks á Sauðárkróki, fjalli hvorutveggja um ísfisk og frystan fisk ásamt sjóvinnslu og landvinnslu. Meginverkefni hópsins verði að setja upp tíma og markmiðssetta áætlun í tilteknum skrefum um að bæta nýtingu og auka verðmæti sjávarafla. Gert er ráð fyrir að slík áætlun geti orðið fyrirmynd að samningi eða sameignlegri yfirlýsingu milli greinarinnar og stjórnvalda til að tryggja framgang þess þjóðþrifamáls.

Stutt er í að hópurinn skili af sér og vona ég að mikill árangur verði af störfum hans, því miklir hagsmunir eru undir fyrir íslenskan sjávarútveg.

Fyrir nokkru voru afgreidd sem lög frá Alþingi lög um Stjórnarráð Íslands. Þar er lögð til sameining fjögurra ráðuneyta í tvö ráðuneyti. Er hér átt við sameiningu dómsmála- og samgönguráðuneytis í innanríkisráðuneyti og heildbrgðis- og félagsmálaráðuneytis í velferðarráðuneyti.

Því ber hins vegar að fagna að Alþingi féllst ekki á að sameinga sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Voru ákvæði þessa efnis tekin út úr upphaflegu frumvarpi forsætisráðherra. Sérstök ástæða er til að gleðjast yfir þessari niðurstöðu enda í samræmi við umsagnir flestra þeirra atvinnugreina sem hér um ræðir og í samræmi við niðurstöðu flokksráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Því hefur verið haldið fram að það sé grundvallaratriði að rannsóknir á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu sé haldið aðskildu frá nýtingarsjónarmiðum. Mín skoðun er sú að þetta sé ekki einhlítt og hér verði að stíga varlega til jarðar og ekki stuðla að nýju kerfi til hliðar við og úr tengslum við það sem við nú höfum með tilheyrandi kostnaði fyrir litla þjóð. Í dag er til að mynda sjálfstæði Hafrannsóknastofnunarinnar virt, hvort sem menn eru sammála eða ósammála niðurstöðum hennar. Ég hef í það minnsta hvergi heyrt kvartað yfir afskiptum ráðherra af stofnuninni. Þótt ekkert sé fullkomið og þá ekki ástand fiskistofna við Íslandsstrendur, þá er það samt til muna betra en hjá næstu nágrönnum okkar í ESB. Augljóst er öllum að Hafrannsóknastofnuninni verður ekki skipt upp af fræðilegum ástæðum.

Stundum hefur það borið við að málefni eru keyrð áfram á frösum sem eru þegar betur er að gáð án nokkurs innihalds. Sem betur fer sá Alþingi í gegnum orðagjálfrið og samþykkti ekki stofnun atvinnuvegaráðuneytis, enda engin frambærileg rök lögð fram málinu til stuðnings.

Þann 11. ágúst 2010 birtist leiðari í einu dagblaði um makrílveiðar Íslendinga. Leiðarinn, svo ótrúlegt sem það má virðast, fjallar um hvað það myndi vera miklu betra fyrir okkur að vera í ESB nú þegar átökin eru um makrílinn. Þessi afstaða er hreint út sagt ótrúleg, því öllum má vera ljóst að ekki værum við að veiða mikinn makríl núna værum við í ESB. Ég nefni þetta aðeins hér vegna þess að nú tel ég mikilvægast af öllu að menn haldi vöku sinni. ESB maskínan hér á landi er auðsjánlega komin með fjármuni í hendur. Grímulaus áróður flæðir nú um allt. Ég hvet ykkur öll til að bregðast hart við og láta þetta ekki yfir okkur ganga. Þið þekkið málið eins vel og ég og vitið að ekki verður aftur snúið komi til inngöngu.

Þróunin í makrílveiðunum er að öllu leyti ánægjuleg. Aldrei jafnmikið unnið til manneldis og fjölbreytni veiðanna að aukast í krafti veiðistjórnunar. Verðmæti og atvinnuþátttaka í miklum vexti svo allir geta verið stoltir. Makrílvinnslan í sumar sýnir viðbragðsflýti íslensks sjávarútvegs.

Ég vil ljúka þessu erindi mínu með því að segja að ég hafði mikla ánægju af að setja íslensku sjávarútvegsráðstefnuna núna um daginn og náði að fylgjast með nokkrum mjög áhugaverðum erindum í upphafi ráðstefnunnar. Sérstaklega þótti mér atyglisvert erindi Kristjáns  Hjaltasonar, þar sem hann svaraði því játandi að okkur ætti að takast að láta sjávarútveginn vaxa um 50 milljarða á næstu fimm árum. Hann nefndi sjö atriði sérstaklega:

•    Stóraukin hlutdeild ferskra afurða gæti gefið 8-10 mrð.kr. í viðbót,
•    Draga mjög úr sölu á óunninni ýsu og karfa gæti gefið 2-3 mrð.kr.
•    Þróa nýrra aðferða til að draga bein úr flaki gæfi hvorki meira né minna 1-2 mrð.kr.,
•    Stóraukna vinnslu á uppsjávarfiski til manneldis taldi hann að gæfi 13 mrð.kr. Frysting flakaskammta á sjó gæfi 2 mrð.kr.,
•    Vinnsla alla hausa og hryggja gæfi hvorki meira nér minna en 7 mrð.kr
•    Markaðssetja Ísland og efla enn frekar ímynd þess á lykilmörkuðum
•    mætti ná fram 6-8 mrð.kr.

Ég segi svo bara við okkur öll að lokum: Gangi okkur vel við það verkefni að efla íslenskan sjávarútveg og verði vegur hans sem mestur í framtíðinni!


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira