Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2011 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Íslenska sjávarútvegssýningin opnuð í tíunda sinn

 

Kæru gestir

 

Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands óska ég okkur öllum til hamingju með Íslensku sjávarútvegssýninguna sem hér er opnuð, nú í tíunda sinn og öflugri með ári hverju.

Stórviðburðir síðustu ára og missera hafa fært okkur heim sanninn um það að sjálfbær, tæknivæddur og vel rekinn sjávarútvegur er dýrmæt og mikilvæg undirstaða. Ekki bara hér í okkar litla eyríki Íslandi heldur með öllum strandþjóðum heimsins. Þrátt fyrir allar tækniframfarir  erum við sífellt háð náttúrunni og sjálfbærri nýtingu hennar.

Hér á Íslandi gegnir sjávarútvegurinn nú jafnvel mikilvægara hlutverki en talið var fyrir nokkrum árum þegar við sigldum með himinskautum banka- og íbúðabólunnar. Og nú á því herrans ári 2011 býr íslenskur sjávarútvegur við velgengni. Ekki bara vegna þess að gengið er hagstætt, heldur einnig og einkanlega vegna þess að staða flestra fiskistofna er góð. Samhliða hafa stjórnvöld beitt sér með markvissum hætti til þess að bæta og auka nýtingu sjávarfangs og þar átt farsælt samstarf við greinina.

En einmitt þetta, bætt nýting, hófleg sókn í fiskistofnana og góð afkoma fyrirtækja er undir því komin að allar stoðir greinarinnar dafni. Ein þeirra er að við fylgjumst með og séum í fremstu röð í tækni og uppbyggingu. Þar má sífellt betur gera og sjávarútvegssýningin ýtir hér undir.

Af þeim aðgerðum sem hér hefur verið ráðist langar mig sérstaklega að nefna nýjar reglur um að allur afli skuli koma að landi, ekki bara besti biti fisksins heldur einnig það sem við áður flokkuðum sem úrgang og fór af skipunum beint í sjóinn. Sú hugsun, að nýta allt sem um borð er dregið er ekki byrði á greininni heldur tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar og þróunar. Þegar ég horfi yfir sýningarsvæði með allri þeirri hátækni sem hér er sýnd er ég ekki í neinum vafa um annað en íslenskur tækiniðnaður leysi þau verkefni sem hér krefjast úrlausnar. 

Farsælt og gott samstarf á alþjóðavettvangi er önnur stoð þessa rekstrar og alþjóðleg sýning sem þessi gegnir þar veigamiklu hlutverki. Hér hittast samstarfsaðilar víðsvegar að af jarðarkringlunni, deila með sér þekkingu og stofna til kynna, sem síðar geta skilað ófyrirsjánlegum verðmætum.  

Gæði, tækni og sjálfbærni eru allt hliðar á sama teningi. Með aukinni framþróun og tækni tekst okkur að nýta betur þau auðæfi sem hafið gefur, með aukinni nýtingu stuðlum við að sjálfbærni og með bættum gæðum er unnið að aukinni nýtingu. Lykilorð mannkyns er og verður sjálfbærni á öllum sviðum. Þar gegnir nýting hafsins afar mikilvægu hlutverki og aðeins með skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu auðlinda jarðar tekst kynslóðunum að skila því, sem þær hafa að láni frá náttúnni, til eftirkomenda sinna.

Góðir sýningargestir og forystumenn þessa glæsilega verkefnis:

Það er okkur Íslendingum heiður að fá að hýsa þessa mikilvægu og glæsilegu sýningu og ánægjuefni að mega bjóða ykkur öll velkomin hingað. Ég lýsi Íslensku sjávarútvegssýninguna 2011 opna. 

sjávarútvegssýning 2011-1

Eftir setningu fóru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ásamt sýningarstjóranum Marianne Rasmussen-Coulling, Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri Kópavogs og fylgdarlið um sýningarsvæðið í íþróttahúsinu Smáranum ásamt fylgdarliði.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira