Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. september 2011 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva

Formaður, fundarstjóri, ágætu fulltrúar. 

Ég þakka fyrir þann heiður að mega ávarpa ykkur hér í dag á fundi Samtaka fiskvinnslustöðva. 

Það er ánægjulegt hlutskipti að vera sjávarútvegsráðherra á því herrans ári 2011 eins og jafnan er þegar vel gengur. Staða helstu nytjastofna í íslensku lögsögunni er góð, staða sjávarútvegsfyrirtækja er betri en verið hefur um langt skeið og horfur í greininni eru með þeim hætti að við getum horft með bjartsýni til komandi daga.  

Aflaverðmæti fyrri helmingi ársins nemur tæpum 70 milljörðum króna og tölur sýna að hagnaður sem hlutfall af tekjum er vaxandi í greininni. Í gæðamálum eru merkjanlegar og mikilvægar framfarir í greininni og þar einnig horfum við fram á veginn með aukinni kröfu um að færa allan afla að landi og nýta afla til manneldis.  

Stærstu tíðindin eru þó aukin fiskgengd sem endurspeglast í auknum aflaheimildum. Þar að baki eru margir samverkandi þættir og þó að við getum í nokkru klappað okkur sjálfum á bakið þá megum við ekki gleyma smæð okkar í ríki náttúrunnar og hér eru einnig þau öfl að verki sem við höfum minna í okkar hendi.  

Ánægjulegustu tíðindin eru af makrílnum annarsvegar sem ég kem að síðar og þorskstofninum. Hafrannsóknarstofnunin staðfestir nú það sem einnig hefur verið bent á af sjómönnum og öðrum sem starfa í greininni að stærð og styrkur þorskstofnsins er meiri en verið hefur í a.m.k. tvo næstliðna áratugi. Heimildir til þorskveiða á nýbyrjuðu fiskveiðiári eru vegna þessa 10% meiri en á fyrra ári eða 177 þúsund tonn í stað 160 á fyrra fiskveiðiári. Vitaskuld vildu margir að hér væru tekin stærri skref en á okkur hvílir einnig rík ábyrgð og krafa um að fara að varúð í allri umgengni um þetta fjöregg í afkomu þjóðarinnar. Breytingar í öðrum botnfisktegundum eru minni og ýmist til hækkunar eða lækkunar frá fyrri árum. 

Í uppsjávarafla er aftur á móti um verulega aukningu að ræða frá því sem var fyrir nokkrum árum og makríllinn sem hefur nú unnið sér þegnrétt i íslenski lögsögu skiptir orðið verulegu máli fyrir afkomu greinarinnar.  

Ágætu tilheyrendur. 

Þrátt fyrir góðæri í sjávarútvegi eru verkefnin næg og langt því frá að vera lognmolla ríkjandi í greininni. Sjávarútvegurinn er og verður áfram ein mikilvægasta undirstaða hagkerfis okkar. Undir velgengni og þróun sjávarútvegsins eigum við það að hafa á fullveldistímanum vaxið frá því að vera ein fátækasta þjóð allrar Evrópu yfir í það að vera í röð hinna fremstu. Grundvallaratriði í þeirri vegferð eru yfirráð okkar yfir fiskimiðunum með útfærslu landhelginnar, fyrst til muna 1958 og svo áfram.  

Eins og jafnan er tíminn afstæður. Í stjórnmálum getur einn dagur verið langur tími en þegar kemur að náttúru, sögu og varðveislu á fjöreggi þjóðar þá eru hálf öld ekki langur tími. Ég get svo bætt því við að fyrir okkur sem erum komnir af barnsaldri og vaxnir upp úr hárinu eins og sá sem hér stendur þá eru 50 ár heldur ekki langur tími.  

En það er einmitt svo að fyrir aðeins 50 árum var meira en helmingur alls afla á Íslandsmiðum dreginn á land af erlendum útgerðum og hagur þjóðarinnar þá allt annar en nú. Nú er þetta hlutfall komið niður fyrir 5% og stærstur hluti þess raunar til Færeyinga sem voru hér fyrrmeir og vonandi enn fremur taldir frændur en útlendingar.  

Við þurfum áfram að gæta að fjöregginu og það má aldrei verða að Íslendingar semji frá sér hvorki yfirráðin yfir fiskveiðilögsögunni né heldur sem ekki er minna um vert, yfirráðunum yfir okkar samningsforræði í deili- og flökkustofnum sem standa undir nær fjórum tíundu af öllum þeim afla sem í land kemur af okkar miðum. 

En yfirráð þjóðar yfir fjöreggi sínu hefur margar hliðar og við sem stöndum í eldlínunni, hvort sem það er í stjórnmálum eða greininni sjálfri förum ekki varhluta af því að það er ágreiningur um það hvernig þessum yfirráðum skuli háttað. Fyrir þeim sem hér stendur er það enginn vafi að breytinga er þörf. Ekki bara vegna þess að meirihluti þjóðar kalli á það eða vegna þess að það sé niðurstaða síðustu Alþingiskosninga að í slíkar breytingar eigi að fara. Heldur fyrst og fremst vegna þess að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi fylgja annmarkar sem ekki verður litið fram hjá.

Það er fullkomlega réttmætt og eðlilegt að þeir sem í greininni starfa kalli á öryggi í sínum atvinnuvegi og ég vil síst kasta þar rýrð á. En öryggið þarf líka að vera fyrir hendi þegar kemur að stöðu byggða og atvinnuöryggi landverkafólks. Sjónarmiðin í þessu eru mörg og meðalvegurinn mjór og vandrataður. Það skal fúslega viðurkennt að endurskoðun á stjórn fiskveiða hefur tekið lengri tíma en áætlað var en fyrir þeim sem þekkja til kemur það ekki á óvart. Við munum áfram vinna ótrauð að þessu verkefni og hafa þar að leiðarljósi jafnvægi hagsmuna greinarinnar, þjóðarinnar og byggðarlaganna.  

Ég mun ekki rekja gang þessarar vinnu frekar að sinni en frekari fréttir verða af málinu á komandi vetri.  

Fjölmörg önnur verkefni lúta að sjávarútveginum og verða ekki öll talin hér. Stærst í því er vitaskuld samþykki frumvarps til breytinga á lögum um fiskveiðistjórnun sem varð að veruleika síðastliðið vor. Samkvæmt því er aukinn sá hluti sem fer til strandveiða og byggðatengdra aðgerða og almennt festar í sessi þær breytingar sem þegar höfðu verið gerðar á kjörtímabilinu.

Margar af þessum breytingum hafa orðið byggðum landsins mikil lyftistöng. Þó að um þetta hafi verið skiptar skoðanir og ýmsir mótmælt þeim þegar þær voru í undirbúningi hafa þær reynst vel og síst valdið þeim búsifjum sem spáð hafði verið. Þvert á móti hafa þær komið til móts við kröfur almennings vítt og breitt í sjávarbyggðunum og við höfum stigið skref í þá átt að skapa meira jafnvægi milli ólíkra hagsmunahópa.

Til dæmis á reynsla undanfarinna missira af strandveiðum, útboði aflaheimilda í skötusel og fleiri ráðstöfunum sem gripið hefur verið til að kenna okkur að það er gott að vinna málefnalega og hafa umræðuna um þau efni hófstillta. Það skilar okkur engu að tala með þeim hætti að núverandi stjórn fiskveiða og þær línur sem hún dregur séu algildar og leysi allan vanda. Þeir sem þannig tala gera það gegn betri vitund því vitaskuld er kerfið mannanna verk með kostum sínum og göllum. Við getum aðeins komist upp úr skotgröfum umræðunnar með því að hugsa út fyrir þennan ramma og viðurkenna þau viðfangsefni sem fyrir okkur liggja. Ég treysti því að umræðan hér í dag taki mið af þessu, sem og áframhald hennar á komandi vetri.  

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er lögð áhersla á siðræn viðhorf í umgengni um hafið og auðlindir sjávar í ljósi þess að maðurinn er hluti af náttúrunni og verður að umgangast hana af ábyrgð.

Þessi stefnumörkun endurspeglast í kröfu stjórnvalda um gæði og nýtingu. Ráðuneytið hefur hrundið af stað vinnu sem miðar að bættri nýtingu bolfisks, auknum gæðum strandveiðiafla, fræðslu varðandi ísun afla dagróðrabáta og svo mætti áfram telja. Þá tók nú um mánaðamótin gildi reglugerð sem skyldar útgerðir til að koma með afla að landi.

Þó að slíkt kunni að valda tímabundnum vanda hjá einstaka útgerðum eða útgerðarflokkum er hér fyrst og fremst um tækifæri fyrir greinina að ræða. Með framþróun, hugviti, markaðsstarfi og vilja höfum við lyft grettistaki í íslenskum sjávarútvegi og eigum þó enn framundan verkefni. Í þessu er þáttur fiskvinnslunnar mikilvægur og sóknarfærin ekki síst hennar.

Nýleg skýrsla um gæði strandveiðiafla 2011 undirstrikar að verkefnin eru hér staðar og margskonar úrbóta er þörf í meðferð á ísfiski dagróðrabáta. En skýrslan varpar einnig ljósi á það að strandveiðiaflinn er í heildina tekið sambærilegur við annan ísfiskafla og kveður í raun upp sinn dóm um mörg þau stóryrði sem fallið hafa í gagnrýni á þennan þátt okkar sjávarútvegs.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur að undanförnu unnið að nýjum reglum um vigtarmál og endurvigtun afla. Hér varðar miklu að finna farsæla lausn og þó að við eigum þar nokkuð í land þá vil ég engu að síður þakka sérstaklega fyrir einbeittan vilja Samtaka fiskvinnslustöðva til samstarfs í þessu máli. Við þekkjum og viðurkennum vandann, lausnin er verkefni sem við munum leysa.

Góðir fundarmenn

Ég vék hér í upphafi að makrílnum og þegnrétti hans í okkar lögsögu og mun nú gera aðeins grein fyrir stöðu mála í viðræðum við nágrannaþjóðir okkar. Makríllinn er okkur vitaskuld mikill aufúsugestur í lögsögunni en við skulum vera þess minnug að það gildir um hann eins önnur höpp í þessu lífi að þeim fylgja einnig skyldur.

Sem ráðherra sjávarútvegsmála hefi ég og starfsfólk mitt í ráðuneytinu lagt áherslu á að fá sem stærstan hluta makrílaflans í vinnslu til manneldis. Það er okkur vitaskuld mikilvægt í viðræðum okkar en fyrst og fremst er það okkur sjálfstætt keppikefli sem hluti af siðrænni og ábyrgri umgengni um auðlind sjávarins.

 

Árið 2009 voru útgerðaraðilar hvattir til að vinna sem mest af makríl til manneldis og það sama var endurtekið með auknum þunga sumarið 2010. Stór hluti greinarinnar tók þessi tilmæli alvarlega sem var ánægjulegt þó vitaskuld hafi okkur einnig verið vonbrigði að sjá að innan greinarinnar voru aðilar sem höfðu í rekstri sínum aðrar áherslur og börðust fyrir annarri leið.

Ráðuneytið innleiddi svo vinnsluskyldu í makríl á þessari vertíð sem hefur nú skilað gríðarlegum árangri þar sem vel 90% af öllum makríl okkar fer til manneldisvinnslu. Hér höfum við náð umtalsverðum árangri og ég vil hér þakka ykkur og útgerðinni fyrir þá stefnubreytingu sem orðið hefur. Stefnan verður nú sett á frekari kröfu um vinnslu í öðrum uppsjávartegundum og þar vænti ég góðs af samstarfi við greinina.

Mikil umræða hefur verið á kjörtímabilinu um samninga okkar og samningsviðræður við aðrar þjóðir varðandi okkar fiskveiðihagsmuni og þar bera hæst málefni makrílsins. Á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hefur mikið verið unnið að málum þessa sprettharða landnema okkar sem hefur þekkst hér í landhelginni um áratugi ef ekki aldir en aðeins í litlu magni. Umtalsverð sumarvist hans nú er til vitnis um þær breytingar sem eru að verða í lífríkinu og eru vitaskuld sífelld verðandi. Það er alls ekki svo og hefur aldrei verið að náttúran byggi á kyrrstöðu. Af þeim sökum hljóta sjávarnytjar einnig að taka breytingum og þessi breyting undirstrika hina margslungnu hagsmuni okkar sem fiskveiðiþjóðar. Í umræðu um Evrópusambandsaðild hafa menn orðið til að benda á reglur ESB um hlutfallslegan stöðugleika sem tryggingu fyrir íslenskum hagsmunum. Þetta eina orð, makríll, er okkur nóg til að muna að svo einföld er þessi veröld ekki.

Því fer fjarri að Ísland taki of stóran hlut makrílsins í sinn hlut, þvert á móti má halda því fram út frá þeirri stöðu sem uppi er og þeim athugunum sem Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur haft frumkvæði að að gera að hlutur okkar í þessu sé síst stærri en vera ætti miðað við fæðunám makrílsins í íslenskri fiskveiðilögsögu. 

Frá 2009 höfum við vitaskuld náð árangri í samningaviðræðum okkar en fyrir aðeins tveimur árum var réttur Íslands til setu við samningaborðið dreginn í efa. Það hefur breyst og nú er nýafstaðinn óformlegur fundur strandríkjanna fjögurra, Íslands, Færeyja, ESB og Noregs. Staðan er þannig að Noregur og ESB hafa skipt sín í milli liðlega 90% af ráðlögðum heildarafla í makríl og af því sem þá er eftir gera Rússar kröfu um bróðurpartinn. Þessi staða er langt frá því sem við getum sæst á.

Við erum þess fullviss að málefnaleg staða okkar í þessum viðræðum er sterk miðað við það sem var og að mínu mati hefur af hálfu Íslands verið haldið vel á íslenskum hagsmunum.

Góðir fundarmenn

Ég þakka áheyrnina og vil óska Samtökum fiskvinnslustöðva farsældar í bráð og lengd.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira