Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2013 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Viðbragðsmiðstöð á norðurslóð

Morgunblaðið, 14. mars 2013

Eftir Össur Skarphéðinsson

Í norðrinu eru að verða gagngerar breytingar. Ís- og snjóþekja norðurhvelsins náði áður óþekktu lágmarki á liðnu ári. Vöruflutningar um Norður-Íshafið hafa tífaldast á tveimur árum, úr fjórum í 46 skip. Þeir munu margfaldast með aukinni bráðnun íssins. Í náinni framtíð munu svo umsvif á hafinu norðan Íslands stökkbreytast með leit og vinnslu á olíu, gasi, jafnvel málmum og steinefnum, á Drekasvæðinu og við Austur-Grænland. Í þessu felast tækifæri fyrir Ísland sem við þurfum að nýta með ábyrgð. Burðarásinn í stefnu minni um norðurslóðir, sem Alþingi samþykkti vorið 2011, var einmitt að Ísland byggi sig undir tækifærin með því að takast á við þær hættur sem fylgja.

Ávinningur og ábyrgð

Liður í því er að Ísland verði sterkur hlekkur í keðju viðbragðs- og björgunarmiðstöðva sem óhjákvæmilega verða til við umferðaræðar norðursins. Miðstöðin á Íslandi þarf að verða til í alþjóðlegri samvinnu. Bak þeirri hugsun liggja ekki síst þau rök að það þarf að tryggja jafnvægi milli ávinnings og ábyrgðar. Þau ríki, jafnvel fyrirtæki, sem munu njóta góðs af umsvifunum, hvort sem eru siglingar eða vinnsla, þurfa að leggja sitt af mörkum til að stuðla að öryggi á svæðinu. Án alþjóðlegrar samvinnu verður einfaldlega erfitt fyrir Ísland að tryggja viðunandi getu til að takast á við skelfilegar afleiðingar stórslyss á sjó eða alvarlegra mengunarslysa. Alþjóðleg samvinna um slíka miðstöð á Íslandi er því hagur allra sem eiga hagsmuni í grennd við okkur.

Það má rifja upp, að á síðasta hausti fór fram vel heppnuð leitar- og björgunaræfing norðurskautsríkjanna við Austur-Grænland. Hún undirstrikaði hversu Ísland hentar að öllu leyti sem slík miðstöð gagnvart flæmum suður af landinu og til norðurs milli Íslands, Grænlands og Svalbarða.

Styrkleikar Íslands

Styrkur Íslands felst í landfræðilegri legu, náttúrulegum aðstæðum og ákjósanlegum innviðum. Landið liggur vel við siglingaleiðum um Atlantshafið og Norður-Íshafið. Í námunda við Ísland eru stór strandsvæði þar sem lítill eða enginn viðbúnaður eða innviðir eru til staðar, t.d. við austanvert Grænland, auk víðfeðmra hafsvæða norðan og sunnan Íslands. Hér eru líka sterkar grunnstoðir, bæði alþjóðaflugvellir og hafnir sem hægt er treysta allan ársins hring. Við Keflavíkurflugvöll er feiknagóð aðstaða, sem auk alþjóðlegs flugvallar telur hafnarmannvirkin í Helguvík, flugskýli og afbragðsaðstöðu til birgðahalds og gistingar.

Í landinu er einnig úrvalsatgervi og mannauður sniðinn fyrir starfsemi af þessum toga. Eitt af því besta við Ísland – og sem fáir skilja fyrr en þeir komast í hann krappan – er sú velþjálfaða úrvalssveit sem við höfum á að skipa í björgunarliði landsmanna. Og hún hefur þegar getið sér gott orð á alþjóðavettvangi. Þar má upp telja Landhelgisgæslu, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Neyðarlínuna auk ýmissa stofnana, jafnvel skóla, sem búa yfir mikilvægri þekkingu og reynslu á þessu sviði.

Það er þó ekki sístur kostur landsins í þessu tilliti, að hér eru fjölbreytt tækifæri til margskonar þjálfunar fyrir erfiðar aðstæður, svo sem á jöklum uppi, á hafís úti, í fjalllendi, tor- og illfærir vegir í boði, auk þess sem óblítt veðurfar er í fullmiklu framboði.

Að öllu samanlögðu er Ísland því ákjósanlegur staður til að þjóna sem miðstöð viðbragðs- og björgunarstarfa fyrir víðfeðm flæmi umhverfis landið.

Skynsamleg skref

Næsta skref er að stjórnvöld vinni ítarlega greiningu á þeim möguleikum sem við höfum til að styrkja innlendan mannauð og viðbúnað í gegnum alþjóðasamvinnu. Í framhaldinu þarf að kynna þá greiningu fyrir okkar helstu erlendu samstarfsaðilum með frekari samvinnu að leiðarljósi.

Eitt af grunnstefjunum í öllu okkar starfi að norðurslóðum, ekki síst í samskiptum við öflug grannríki í austri og vestri, auk Evrópusambandsins, á því að vera að koma Íslandi á framfæri sem ákjósanlegum þætti í viðbragðsneti á norðurslóðum.

Höfundur er utanríkisráðherra.

Grein utanríkisráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira