Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. apríl 2013 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Klárum viðræðurnar – með stæl!

Össur Skarphéðinsson skrifar.

Viðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu varða grundvallarmál fyrir framtíð Íslands. Það skaðar hagsmuni okkar allra ef þeim verður slitið. Þjóðin á sjálf að fá lokaorðið um aðildarsamning. Það er hins vegar hlutverk okkar stjórnmálamanna að tryggja að endanlegur samningur verði sem bestur fyrir Ísland. Góðu fréttirnar eru þær að viðræðurnar ganga vel og það er farið að sjá til lands.

Skoðanakannanir og þjóðaratkvæði
Þeir sem vilja hlaupa úr viðræðum í miðjum klíðum segja jafnan að skoðanakannanir sýni að Íslendingar vilji ekki ganga í ESB ef kosið væri í dag. Gott og vel. En hvað með þá staðreynd að sömu skoðanakannanir hafa líka sýnt ítrekað að mikill meirihluti landsmanna vill ljúka samningaviðræðunum? Eigum við ekki líka að taka mark á þeirri niðurstöðu? Sú skoðanakönnun sem mestu máli skiptir er vitaskuld  þjóðaratkvæðagreiðslan.

Hvernig verður Ísland betra?
Með aðild að Evrópusambandinu fær Ísland traustari umgjörð um allt efnahagslífið. Aukinn aga, aðhald að utan og stuðning þegar þess er þörf. Umgjörðin í dag er gatslitin. Á Íslandi er langvarandi hærri verðbólga á Íslandi en í nágrannaríkjunum. „Íslandsálagið“ á vexti á erlendum lánum til ríkisins, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila nemur um 130 til 230 milljörðum króna á ári. Íslensk heimili borga 117 milljörðum meira í vexti af húsnæðislánum heldur en fjölskyldur í Evrópu. Milljarðatugir streyma úr landi vegna „Íslandsálagsins.“

Komum krónunni í skjól
Þessu getum við breytt. Rétt er, að við getum ekki tekið upp evru strax og við göngum í ESB. En svo að segja strax eigum við kost á þátttöku í gjaldmiðilssamstarfi, þar sem krónan fær skjól af tengingu við evruna með stuðningi Seðlabanka Evrópu. Um leið hættir hún að vera sama uppspretta óstöðugleika og verðbólgu sem hún er í dag. Við það lækkar verðbólgan og vextirnir. Þá getum við borgað niður lánin okkar, í stað þess að horfa á þau hækka mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Þetta er ekki fjarlæg framtíðarmúsík. Þetta getur gerst  á næsta kjörtímabili – ef við viljum það. 

Þetta er hægt
Ísland getur sannarlega landað góðum samningi, sem tekur tillit til sérstöðu Íslands. Við getum áfram tryggt þróttmikinn sjávarútveg og blómlegan landbúnað. Samningur um aðild mun treysta fullveldi Íslands og öryggi til framtíðar. Hann mun hleypa auknum krafti í landsbyggðina í gegnum þátttöku í evrópskri byggða- og atvinnustefnu. Í krafti hans öðlast lítil og meðalstór fyrirtæki tækifæri til að vaxa og dafna gegnum aðgang að lánsfé á eðlilegum kjörum og umhverfi sem leyfir langtímaáætlanir sem standast. Þannig eykst hagvöxtur og þannig verða störfin til.

Stöndum saman
Verkefnið framundan er að ljúka gerð samningsafstöðu Íslands í landbúnaði og sjávarútvegi og hefja viðræður um þá grundvallaramálaflokka. Þegar öll mál eru komin upp á samningaborðið sýnir reynslan að hlutirnir geta gengið hratt fyrir sig. Þá er bara einn áfangi eftir, lokaáfanginn. Sem starfsmaður á plani leyfi ég mér að segja: Stöndum saman, Íslendingar, og ljúkum ESB-viðræðunum. Klárum þær með stæl! 


Greinin birtist í DV 8.-9. apríl 2013.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira