Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. september 2013 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Degi íslenskrar náttúru 2013

 

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á hátíðardagskrá ráðuneytisins í tilefni Dags íslenskrar náttúru þann 16. september 2013.

 

Góðir gestir,

Þýtur í smávængjum grein af grein,
grösin við morguninn tala;
morar af lífi hver moldarrein,
maðkurinn iðar við grátandi stein.
Héraðið roðnar og rís af dvala.
Rýkur við hóla og bala.

Svo orti Einar Benediktsson fyrir um hundrað árum. Yrkisefnið er, eins og svo oft hjá þessu ágæta skáldi, íslensk náttúra en virðing fyrir henni var honum í blóð borin. Kannski mótaðist það viðhorf einmitt hér, á og við Elliðavatnsbæinn, þar sem hann fæddist og sleit barnsskónum. Í dag er Elliðavatn og Heiðmörkin ein helsta náttúruperla íbúa höfuðborgarsvæðisins – hér hoppa fuglarnir grein af grein, maðkar undirbúa jarðveginn svo gróðurinn dafnar og vatnið gutlar við steina, líkt og í kvæði Einars.

Borgarbúar eru iðnir við að nýta sér svæðið hér í kring til útivistar, jafnt sumar sem vetur, vor og haust. Margir telja haustið reyndar ríkasta og fegursta tímabil íslenskrar náttúru. Þá njótum gjafmildi náttúrunnar í formi uppskeru og annarra afurða sem hún gefur. Fólk í bæjum og sveitum nýtir þennan tíma til að birgja sig upp – safnar í sarpinn berjum, sveppum og jurtum; bændur uppskera matvæli af ökrum og heimta fé af fjalli og veiðimenn stefna á heiðar og hálendi. 

Náttúran er einnig grundvöllur allrar okkar atvinnuuppbyggingu og á síðustu árum hefur fjöldi nýrra fyrirtækja sprottið upp sem byggja afkomu sína á afurðum náttúrunnar og ímynd hins hreina Íslands. Þetta eru fyrirtæki sem framleiða lyf og heilsuvörur, snyrtivörur, matvæli og krydd, skógarafurðir ýmiskonar, gæludýrafóður, hönnunarvörur og svo mætti lengi telja. Skýrsla sem Íslandsstofa gaf út á þessu ári endurspeglar þetta vel en þar er fjallað um ríflega tuttugu íslensk útflutningsfyrirtæki sem nýta sér hráefni úr íslenskri náttúru í framleiðslu sína. Í skýrslunni kemur fram að kröfur á erlendum mörkuðum um hreinleika, uppruna, vottanir og gæðastaðla fara vaxandi. Það eru tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf því bent er á að íslenski náttúruvörugeirinn hafi sérstöðu umfram náttúruvörugeira annara landa. Sú sérstaða felst fyrst og fremst í hreinleika - hreinu lofti, vatni og sjó en auk þess styrkir náttúruímynd landsins þá sérstöðu verulega.

Raunar vekur einnig athygli í skýrslunni hversu margir leggja áherslu á mikilvægi þess að enginn misstígi sig og eyðileggi þá góðu ímynd sem Ísland hefur á þessu sviði. Þar skiptir lykilmáli að umgangast þá auðlind sem felst í íslenskri náttúru af virðingu og ganga ekki meira á hana en getur talist sjálfbært. Þetta á ekki síður við í ferðaþjónustunni, sem á undanförnum misserum hefur vaxið meir en nokkur óraði fyrir og er í dag orðinn einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Í þeim efnum leikur íslensk náttúra ekki síður lykilhlutverk og þar felast einnig fjölmörg tækifæri. Slík tækifæri þarf að nýta til að skapa meiri fjölbreytni í greininni og byggja upp vörumerkið Ísland á þann hátt að það endurspegli eftirsótta og sérstæða ferðamannastaði, afurðir og afþreyingu. Í þeim efnum er þó grundvallaratriði að uppbyggingin sé ætíð í sátt við náttúruna.

Góðir gestir.
Í ár er Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur í þriðja sinn en upphafið má rekja til 16. september árið 2010 þegar tilkynnt var um það á sjötugsafmæli Ómars Ragnarssonar að hér eftir yrði dagurinn tileinkaður íslenskri náttúru. Vil ég nota þetta tækifæri og óska öllum landsmönnum, sem svo sannarlega hafa tekið þennan dag upp á sína arma, innilega til hamingju með daginn. Á þessum stutta tíma hefur Dagur íslenskrar náttúru áunnið sér fastan sess í hjörtum þjóðarinnar og í öllum landshlutum hafa einstaklingar, félagasamtök, stofnanir, skólar, sveitarfélög og fyrirtæki skipulagt viðburði og uppákomur með íslenska náttúru í forgrunni. Í dag safnast fólk saman í gönguferðir um fjöll og skóga og skoðar náttúruperlur, nýtur náttúruafurða, hlýðir á fyrirlestra um náttúrufyrirbæri af öllum toga, sækir sér fræðslu um náttúruna og svo mætti lengi telja. Þá hafa skólar landsins margir nýtt daginn til að beina sjónum skólabarna og eldri nema að náttúrunni, samspili manns og náttúru og mikilvægi þess að umgangast hana með sjálfbærum hætti. Slíkur boðskapur á raunar ríkt erindi við okkur öll.
Megi dagurinn verða okkur öllum ánægjulegur og góður til að fagna og njóta fegurðar og gæða íslenskrar náttúru. Og hvað er meira viðeigandi en að enda á svipuðum nótum og við byrjuðum, á ljóðlínum „staðarskáldsins“ Einars Benediktssonar sem fangaði öðrum fremur fegurð hinnar stórbrotnu náttúru Íslands með orðum:

Fold vorra niðja, við elskum þig öll;
þú átt okkar stríð, þar sem tímarnir mætast,
svo hrein og svo stór þar sem himinn og sjór
slá hringinn um svipmild, blánandi fjöll.
Þú ein átt að lifa og allt að sjá bætast.
Þú átt okkar von. Og þú sér hana rætast.

Til hamingju með daginn!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira