Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. janúar 2014 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Fréttablaðinu - Mikil stækkun á núverandi friðlandi Þjórsárvera

Eftirfarandi grein Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 7. janúar 2014.


Tillaga um ný mörk mikllar stækkunar núverandi friðlands Þjórsárvera, sem Umhverfisstofunun hefur unnið að undanfarna mánuði, var nýverið send tveimur sveitarfélögum.

Tillagan er send í kjölfar ábendinga sem fram komu í sumar við lokafrágang friðlýsingarinnar um að fyrirhuguð afmörkun landsvæðisins gengi lengra en nemur Norðlingaölduveitukosti sem var settur í verndarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar. Mörkin hefðu þannig útilokað aðra hugsanlega kosti fyrir utan friðlandið sem á eftir að skilgreina, meta og flokka og komu upp álitamál varðandi lögmæti slíks gjörnings. Rétt er að taka fram að friðlandsmörkin eru ekki dregin upp í rammaáætluninni sjálfri heldur útfærð í samvinnu við sveitarfélög utan um þau svæði sem eiga að njóta verndunar samkvæmt rammaáætlun. Er ljóst að stækkað friðland í Þjórsárverum til suðurs samkvæmt nýrri tillögu að friðlýsingarmörkunum útilokar klárlega Norðlingaölduveitu eins og sá virkjunarkostur var skilgreindur í  2. áfanga rammaáætlunar.

Friðlýsingartillagan felur í sér gríðarmikla stækkun á núverandi friðlandi, sem tekur yfir landsvæði sunnan og austan Hofsjökuls, allan Hofsjökul og svæðið mun falla að friðlandinu Guðlaugstungum norðanmegin. Innan friðlandsins verða m.a. Eyvafen og lítt röskuð víðerni vestan Þjórsár, sem hafa hátt verndargildi, m.a. á alþjóðlega vísu enda skilgreind Ramsarsvæði. Má þess einnig geta að unnið er að friðlýsingu landsvæða í Kerlingafjöllum sem liggja vestan við hið nýja friðland Þjórsárvera. Þannig er stefnt að því að vernda til framtíðar stórt svæði á miðhálendinu, sem tekur yfir stórkostleg náttúruverðmæti. Þessi víðerni bjóða upp á einstök tækifæri á sviði ferðaþjónustu innan sveitarfélaga sem hlut eiga að máli.

Berist verkefnastjórn rammaáætlunar beiðni um að skoða aðra kosti utan marka friðlandsins neðar í Þjórsá þurfa þeir að fara í gegnum mat faghópa sem verkefnastjórn rammaáætlunar skipar og víðtæk umsagnarferli þar sem öllum gefst tækifæri á að koma að sínum sjónarmiðum. Við mat á slíkum virkjunarkosti þyrfti að taka til skoðunar áhrif lóns við friðlandsmörk, fossa í Þjórsá og það svæði sem talið er rétt að njóti friðunar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira