Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. september 2014 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Degi íslenskrar náttúru

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á hátíðardagskrá umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem haldin var í tilefni Dags íslenskrar náttúru 16. september 2014.

Góðir gestir,


Náttúra Íslands hefur minnt á sig svo um munar undanfarnar vikur. Daglega höfum við fengið fréttir af skjálfandi jörð og kraumandi kviku neðanjarðar og fylgst úr fjarlægð með þeim magnaða dans sem okkar síkvika náttúra býður upp á þessa dagana í Holuhrauni norðan Dyngjujökuls. Á mörg hundruð metra svæði hefur jarðskorpan rifnað upp, eldur og brennisteinn þeyst tugi metra í loft upp og nýtt hraun numið land á tugferkílómetra svæði. Mannskepnan virðist harla smá andspænis slíkum ógnarkröftum. 

Við höfum líka fundið fyrir smæð okkar, í óvissunni um hvað gerist næst og hvort eldsumbrotin muni leiða til stærri hamfara sem skaðað geta menn, skepnur og innviði. Íbúar ákveðinna svæða hafa þegar orðið fyrir óþægindum og þurft að grípa til ráðstafanna vegna skertra loftgæða. Í því hafa þeir notið ráðlegginga og spáa okkar færustu sérfræðinga sem hafa staðið vaktina á nóttu sem degi undanfarnar vikur til að tryggja öryggi okkar allra. Í þeim efnum erum við óneitanlega betur sett en Íslendingar fyrri tíða sem tókust á við Móðuharðindi og önnur eldsumbrot fyrirvaralaust í óþéttu húsnæði og án þess að hafa aðgang að hlífðarbúnaði og stöðugum upplýsingum líkt og nú er. 

En gosið nú hefur ekki einungis verið til óþæginda og kvíða heldur líka aðdáunar. Í gegn um fjölmiðla og internetið höfum við séð myndir af þessu mikla sjónarspili sem hafa vakið athygli um allan heim og minnt enn og aftur á hversu sérstæð og kröftug náttúra Íslands er. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við höfum séð hvernig eldsumbrot hér á landi eru aðdráttarafl í sjálfu sér – skemmst er að minnast þess hvernig eldgosið á Fimmvörðuhálsi árið 2010 laðaði að sér fjölda gesta, innlendra og erlendra. Sama ár varð umfjöllunin vegna gossins í Eyjafjallajökli til þess að vekja athygli á Íslandi og Íslenskri náttúru svo um munaði. 

Augu umheimsins hafa opnast æ betur fyrir þeirri sérstöðu sem náttúra Íslands býr yfir. Varla þarf að fara mörgum orðum yfir þann gríðarlega vöxt sem orðið hefur í ferðamennsku hér á landi á undanförnum misserum og hefur íslensk náttúra gegnt lykilhlutverki í endurreisn efnahagslífsins. Þar spilar stórt hlutverk sérstaða okkar á endurnýjanlegri orku og einstök náttúrufegurð sem laðar til sín erlenda ferðamenn.

Ánægjulegt er að bjóða gesti velkomna til að njóta íslenskrar náttúru en um leið hafa áhyggjur manna vaxið yfir því að íslenskir ferðamannastaðir séu ekki í stakk búnir að taka við þeim mikla fjölda ferðamanna sem sækja þá heim.

Mikilvægt að huga að innviðum þessara staða og lagði ríkisstjórnin verulega fjármuni í verndaraðgerðir og uppbyggingu á ferðamannastöðum í ár. Á sama tíma hefur verið unnið að því í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að útfæra leiðir til að fjármagna slíkar aðgerðir til framtíðar. Í þeirri vinnu er mikilvægt að gæta að víðtæku samráði svo ekki myndist gjá á milli ferðaþjónustunnar og almennings í landinu. Þar má almannarétturinn ekki vera settur í uppnám. 

Í þeirri vinnu sem framundan er við endurskoðun náttúruverndarlaga er brýnt að leiða til lykta ákvæði um almannarétt til umgengni um landið. Almannaréttur tengist lífsgæðum allra Íslendinga og því hvernig þeir upplifa sig í sínu eigin landi. Nauðsynlegt er að tryggja, eins og verið hefur, sanngjarnan rétt almennings til frjálsrar farar svo hann geti notið náttúru landsins, án þess að gengið sé á hagsmuni sem þar kunna að liggja fyrir. Í því sambandi hef ég velt fyrir mér hvort ekki þurfi að skilja betur í sundur almennan rétt einstaklinga til frjálsrar farar um landið og svo þeirra sem taka gjald fyrir að fara með ferðamenn um land í eigu annarra aðila. Með vaxandi áhuga og eftirspurn á að fara um landið í stórum stíl, hefur vaknað sú spurning hvort þeir aðilar, sem nýta eignarland þriðja aðila til ferðaþjónustu, þurfi ekki að leggja sitt af mörkum til að standa straum af vernd náttúru og uppbyggingu innviða og þjónustu á ferðamannasvæðum. 

Gjaldtaka til að fjármagna uppbyggingu á ferðamannastöðum er þó aðeins ein hlið á peningnum – hin hliðin og ekki síður mikilvægari er að hafa góða yfirsýn yfir þörfina á uppbyggingu og viðhaldi innviða á ferðamannastöðum. Eins og alltaf þegar höndlað er með opinbert fé er nauðsynlegt að forgagnsraða framkvæmdum svo fjármagnið fari þangað sem þörfin er brýnust hverju sinni. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps sem tekur til þess með hvaða hætti best verði að byggja upp og jafnframt að viðhalda ferðamannastöðum til lengri tíma í formi framkvæmdaáætlunar, sem yrði sambærileg og samgönguáætlun. Gert er ráð fyrir að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi til tólf ára, þar sem fram kemur hvernig uppbygging innviða á ferðamannastöðum verður háttað. 

Að fleiru þarf þó að hyggja, ekki síst því að við sýnum íslenskri náttúru tilhlýðilega virðingu í eigin umgengni um hana. Við þurfum að hafa í heiðri einföld atriði á borð við það að fara ekki út fyrir göngustíga á viðkvæmum svæðum og að hafa ekki á brott með okkur náttúrugripi á borð við t.d. fágæta steina. Ekki síður mikilvægt er að skilja ekkert eftir úti í náttúrunni sem ekki á þar heima.

Hið gamla slagorð „Hreint land – fagurt land“ á hér vissulega við, því fátt spillir fagurri ásýnd náttúrunnar meira en rusl og sóðaskapur. Fleira er þó undir en ásýndin ein því rusl og önnur efni sem eftir verða í náttúrunni geta haft verulega mengandi áhrif á lífríki og vistkerfi, sem eru í raun undirstaða tilveru okkar. Með aukinni umferð um okkar fallegu náttúru eykst til muna hættan á slíkri mengun og því hefur aldrei verið mikilvægara að við höldum vöku okkar í þessum efnum. Með samstilltu átaki getum við í sameiningu passað upp á að halda landinu okkar og náttúru hreinni og fallegri, okkur sjálfum, gestum okkar og afkomendum til yndisauka.

Dagur íslenskrar náttúru er okkur öllum áminning um mikilvægi þess að gæta vel að þeim gersemum sem okkur hefur verið treyst fyrir. Virðing fyrir einstæðri náttúru landsins þarf að vera rauður þráður í hugsun okkar og athöfnum og við þurfum að ala börn okkar upp í þeirri virðingu. Þar gegna foreldrar að sjálfsögðu lykilhlutverki en einnig er mikilvægt að skólarnir leggi áherslu á þetta í sínu starfi með því að beina sjónum nemenda sinna að náttúrunni og mikilvægi þess að umgangast hana af virðingu, upplifa hana og njóta hennar.

Í því sambandi hefur Grænfánaverkefnið svokallaða, eða skólar á grænni grein, gegnt mikilvægu hlutverki. Verkefnið, sem Landvernd hefur haft umsjón með, miðar að því að styrkja umhverfis- og náttúrumennt í skólum. Yfir helmingur allra grunnskóla, hátt í 40% leikskóla, tíu framhaldsskólar og þrír háskólar taka þátt í verkefninu auk nokkurra tómstundaskóla, vinnuskóla og Náttúruskóla Reykjavíkur og aðsóknin eykst stöðugt. Það er mér því ánægja að geta greint frá því að í morgun, að lokinni afhendingu Grænfánans til Selásskóla, undirritaði ég og framkvæmdastjóri Landverndar samning um viðbótarfjárframlag til verkefnisins í vetur í því skyni að styrkja undirstöður þess og þróun. 

Fjölmiðlar gegna einnig mikilvægu hlutverki í að beina sjónum almennings að mikilvægi þess að huga að íslenskri náttúru og í dag verða að venju veitt Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Auk þess verður Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti veitt eldhuga, sem unnið hefur markvert starf á sviði náttúruverndar.

Góðir gestir,

Megi Dagur íslenskrar náttúru verða okkur öllum ánægjulegur og gott tækifæri til að leiða hugann að mikilvægi þess að vernda og virða náttúruna. Njótum þess sem hún hefur upp á að bjóða um leið og við gætum þess að varðveita hana fyrir þá sem landið eiga að erfa. Til hamingju með daginn. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira