Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. október 2014 Umhverfis- og auðlindaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra 2013-2014

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs 2014

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Úrvinnslusjóðs 7. október 2014.Starfsfólk og stjórn Úrvinnslusjóðs, góðir ársfundargestir,


Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Úrvinnslusjóðs.

Í ár fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.  Í formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni 2014, „Gróska – lífskraftur“, er lögð áhersla á norræna lífhagkerfið þar sem eitt markmiðanna er að draga úr sóun og hámarka nýtingu og ábata af lífrænum afurðum.  Í upphafi ársins var Norræna lífhagkerfið formlega sett af stað. Formennskuverkefnið er þverfaglegt verkefni, sem nær til umhverfismála, fiskveiða, landbúnaðar, matvælamála og skógræktar,  auk menntunar, menningar, byggðastefnu og rannsókna. Í júní sl. var stór norrænn fundur á Selfossi þar sem gerð var grein fyrir verkefninu. 

Í þessu starfi er unnið að verkefnum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda. Má hér nefna verkefni undir forystu Matís um bætta hráefnanýtingu í matvælaframleiðslu.  Þess má geta að á formennskuári Íslands styrkir Norræna ráðherranefndin „Zero Waste“ verkefni sem Kvenfélagasambands Íslands, Vakandi og Landvernd eru aðilar að og hefur það markmið að vinna gegn sóun á mat á Norðurlöndum á öllum stigum framleiðslu og neyslu.  Á Degi umhverfisins þann 25. apríl sl. stóð umhverfis- og auðlindaráðuneytið fyrir málþingi um matarsóun undir yfirskriftinni „Hættum að henda mat“. Á málþinginu var fjallað um umfang, ástæður og afleiðingar matarsóunar, hvað stýrir neytendum þegar kemur að kaupum á mat, hvernig nýta megi betur hráefni við matvælaframleiðslu, hvernig draga megi úr matarsóun í mötuneytum og þá vitundarvakningu sem hefur orðið hjá almenningi og stjórnvöldum á þessu sviði. 

Að mínu mati er afar mikilvægt að sporna gegn matarsóun.  Í því skyni og til að fylgja framangreindu málþingi eftir hef ég skipað starfshóp sem móta skal tillögur um hvernig draga megi úr sóun matvæla. Hópnum er ætlað að benda á hvetjandi leiðir til að nýta hráefni betur við vinnslu matvara, en einnig til að bæta nýtni matvæla hjá neytendum, verslunum og veitingastöðum.  Þá skal hópurinn leggja fram tillögur um hvernig auka megi fræðslu um matarsóun, m.a. hvað varðar áhrif umbúða og skammtastærða. Loks skal hópurinn meta hvaða stjórntæki geta gagnast við að draga úr matarsóun og hvort þörf sé á breytingum á lögum og reglum.  Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum fyrir miðjan apríl 2015 og að þær verði kynntar á Degi umhverfisins á næsta ári.

Þá hef ég einnig ákveðið að í almennri stefnu um úrgangsforvarnir sem ég mun gefa út um næstu áramót verði höfuðáhersla lögð á að draga úr og koma í veg fyrir sóun matvæla.

Eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni var ráðstefna um plast í hafi, en hún var haldinn nú í lok september af hálfu Umhverfisstofnunar. Á ráðstefnunni var farið yfir stöðu mála og bent á færar leiðir til að koma í veg fyrir að plastúrgangur lendi í sjónum.  

Plast gegnir stóru hlutverki í daglegu lífi okkar og er til margvíslegs gagns, en einnig þarf að huga að neikvæðum áhrifum sem plast getur valdið á heilsu og umhverfi. Ekki síst er ástæða til að óttast mengun af völdum plasts og plastagna í hafinu. Plast sem velkist um í hafinu berst auðveldlega í maga dýra, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og drepist. Skaðleg efni úr plastinu berast í lífkeðju hafsins og þar með í fæðukeðju mannsins.  Því er mikilvægt að auka meðvitund fólks um málefnið og grípa til markvissra aðgerða til að draga úr plastúrgangi og áhrifum hans í sjónum.

Til að taka á þessum málum og stuðla að því að plast lendi síður í hafinu og safnist þar upp er mikilvægt að herða á söfnunarkerfum og tryggja úrvinnslu plasts.  Þar hefur Úrvinnslusjóður veigamiklu hlutverki að gegna. 
Þá verður að íhuga hvort rétt sé að setja takmarkanir við notkun plastpoka hér á landi.  Ekki hefur verið tekin opinber afstaða til þessa, en rétt er að skoða dæmi frá öðrum löndum í þessu efni. Þá má geta þess að tvö sveitarfélög hér á landi hafa stigið skref í þessa átt og önnur eru að fikra sig í þá átt. 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið styrkti umhverfishóp Stykkishólms í byrjun þessa árs til að ráðast í tilraunaverkefni sem felur í sér að gera Stykkishólm að burðarplastpokalausu sveitarfélagi og er stefnt að því að vinna að þessu í sátt og samvinnu við íbúa og starfsfólk verslunar og þjónustu.  

Þá samþykkti umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðarbæjar í apríl sl. tillögu um að Hafnarfjarðarbær verði leiðandi sveitarfélag á Íslandi í að sporna við notkun innkaupapoka úr plasti. Önnur sveitarfélög eru að skoða leiðir til að taka þetta skref og má nefna þar nefna sveitarfélagið í Árborg sem dæmi. Sveitarfélögin í landinu hafa einnig sýnt því áhuga að losna við glerumbúðir og er það áskorun fyrir ráðuneytið og Úrvinnslusjóð að finna út hvernig best verði staðið að bættri nýtingu og úrvinnslu glerumbúða.

Meðhöndlun úrgangs hefur verið í brennidepli undanfarin ár, enda snerta úrgangsmál daglegt líf okkar og varðar rekstur heimila og fyrirtækja. Mikilvægt er að beita svokallaðri lífsferilshugsun í stefnumótun og ákvarðanatöku um úrgangsmál, jafnt á vettvangi ríkis og sveitarfélaga og við framleiðslu vöru.

Á undanförnum árum hefur margt áunnist í meðhöndlun úrgangs á Íslandi. 
Endurvinnsla hefur aukist og dregið hefur úr urðun úrgangs.  Mikilvægt er einnig að huga að úrgangsforvörnum og þar þurfum við að koma inn nýrri hugsun, m.a. varðandi verkefni Úrvinnslusjóðs, sem sinnir söfnun og úrvinnslu úrgangs fremur en forvörnum.  Með breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs sem tóku gildi sl. vor er í fyrsta sinn hér á landi kveðið á um úrgangsforvarnir.  Nú er í lögum um meðhöndlun úrgangs kveðið á um að við meðhöndlun úrgangs og setningu reglna um stjórnun og stefnu í úrgangsmálum skulu forvarnir vera í forgangi, þá sé hugað að endurnotkun, endurvinnslu og annarri endurnýtingu og svo síðast förgun úrgangs.

Ráðherra er skylt að gefa út almenna stefnu um úrgangsforvarnir til tólf ára í senn. Markmiðið er að draga markvisst úr myndun úrgangs. Í stefnunni skulu m.a. koma fram markmið um úrgangsforvarnir og mat á gagnsemi tiltekinna ráðstafana.  Eins og ég nefndi áðan þá mun fyrsta stefna um úrgangsforvarnir líta dagsins ljós um næstu áramót.

Við breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs nú í vor voru gerðar breytingar á útfærslu framleiðendaábyrgðar rafhlaðna og rafgeyma í kjölfar athugasemda Úrvinnslusjóðs. Úrvinnslusjóður benti á að skráningarkerfið, sem Úrvinnslusjóður bar ábyrgð á að halda utan um, ætti betur heima hjá Umhverfisstofnun, einkum þar sem Umhverfisstofnun væri nú þegar með skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja. Við þessar lagabreytingar tók Umhverfisstofnun því við skráningarkerfinu. Einnig var gerð sú breyting að framleiðendum og innflytjendum rafhlaðna og rafgeyma er nú skylt að skrá sig í kerfið, auk þess sem Umhverfisstofnun er nú heimilt að notast við upplýsingar frá toll- og skattyfirvöldum um greiðendur úrvinnslugjalds. Staðan í dag er því sú að framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma greiða fyrir rekstur á skráningarkerfinu og Umhverfisstofnun hefur eftirlit með skráningum og að seljendur taki við notuðum rafhlöðum á sölu- eða dreifingarstað.

Auk þessa voru gerðar breytingar á framleiðendaábyrgð raf- og rafeindatækja í kjölfar fjölda athugasemda, einkum frá sveitarfélögunum. Breytingarnar lúta einkum að því að úrvinnslugjald er nú lagt á raf- og rafeindatæki og Úrvinnslusjóður sér um að tryggja söfnun og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs.

Það er ánægjulegt að finna hvað áhugi almennings, sveitarfélaga og atvinnulífsins á úrgangsmálum hefur aukist mikið. Þetta hefur stuðlað að aukinni umhverfisvernd og aukinni verðmætasköpun og beint sjónum að mikilvægi málaflokksins.

Leggja þarf aukna áherslu á nýtingu hráefna úr úrgangi. Það er brýnt að draga úr myndun úrgangs með fræðslu og öðrum forvörnum og tryggja að meðhöndlun á hráefninu sé markviss og hagkvæm.  

Ljóst er að þessi markmið nást ekki í einni svipan.  Stöðugt rekstrar- og lagaumhverfi þarf að vera til staðar á sviði úrgangsmála. Fyrir hendi þarf að vera langtímastefna með skýrum markmiðum þar sem málaflokkurinn er í mikilli þróun og getur kallað á fjárfestingar til langs tíma.  Móta þarf framtíðarstefnu í úrgangsmálum í samstarfi við Úrvinnslusjóð, sveitarfélög , atvinnulífið og aðra hagsmunaaðila með það sameiginlega markmið að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingu. Verklagi þarf að breyta við stefnumótunina og að einhverju leyti þurfum við að tileinka okkur nýtt hugarfar og eyða ákveðinni óvissu sem hefur ríkt í málaflokknum.
 
Ég hef ákveðið að hefja heildarendurskoðun á lögum um meðhöndlun úrgangs sem hefur það að meginmarkmiði að skerpa á verkaskiptingu þeirra sem koma að meðhöndlun úrgangs.  Stefnt er að því að frumvarp verði lagt fram haustið 2015. 

Ágætu ársfundargestir.

Ég þakka starfsfólki og stjórn Úrvinnslusjóðs fyrir þeirra góða starf á liðnu ári, fyrir ykkar framlag til úrgangsmála og fyrir ánægjulega samvinnu.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum góðs ársfundar og vona að þig eigið ánægjulegan dag framundan.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira