Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. apríl 2016 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2013-2014

Ræða á aðalfundi SFS, 1. apríl 2016

Fundarstjóri, formaður, ágætu fundarmenn.

Fiskurinn í sjónum hefur frá landnámi verið undirstaða og forsenda búsetu hér á landi – og má ég segja – er enn og verður um ókomin ár hvað svo sem öðrum atvinnugreinum líður.

Elsta heimild um fiskveiðar norrænna manna á Íslandi er frásögn Landnámabókar af veiðiskap Flóka Vilgerðarsonar og förunauta hans í Vatnsfirði vestur. Þeir voru svo ákafir við veiðiskapinn, að þeir gleymdu að heyja handa búsmalanum og horféll hann allur um veturinn. Auðvitað gekk það ekki – allt þarf þetta að haldast í hendur en þeir sem sækja sjóinn vita það öðrum betur hve erfitt er að hætta veiðum þegar fiskur er á hverjum öngli.

Öðru hverju heyrast raddir þess efnis að auka beri veiðar í ákveðnum stofnum. Menn hafi orðið varir við óvenju mikinn fisk á slóðinni, eins og það heitir. Hluti af stjórn fiskveiða byggist á samstarfi við sjómenn og útgerðarmenn, til dæmis með söfnun gagna. En, einhverja fasta viðmiðun verður að hafa í þessum efnum. Ég hef áður sagt það og segi enn; ég hef ekki önnur traustari ráð að styðjast við en þau sem koma frá Hafrannsóknarstofnun.  

Okkar lang mikilvægasti stofn, þorskurinn, hefur ekki verið líffræðilega sterkari undanfarin 50 ár. Ráðleggingar Hafró og fylgni við þær hljóta að hafa haft mjög mikið að segja við að ná þessum árangri. En vísindin eru ekki stöðnuð né óbrigðul og ákveðin í eitt skipti til framtíðar. Þau eru í stöðugri skoðun og fiskifræði sjómannsins er hluti af þeim.

Sjálfbær nýting er forsenda fiskveiða hér við land. Þrátt fyrir það eru nú til umræðu í Bandaríkjunum kröfur um hertar reglur um rekjanleika. Ástæðan er sú að svo kallaðar sjóræningjaveiðar eru stundaðar víða um heim. Viðleitni Bandaríkjamanna er að sporna gegn þessu. En, einhverra hluta vegna er Norður-Atlantshafs þorskurinn nefndur í þessu samhengi, þótt hann sé ekki í útrýmingarhættu og á honum ekki stundaðar sjóræningjaveiðar svo vitað sé. Þarna verða stjórnvöld að hafa varann á og koma yfirvöldum vestra í skilning um að óþarfi sé að hafa áhyggjur af þorski frá Íslandi. Veiði á honum er sjálfbær.

En þetta sýnir okkur að jafnvægið er viðkvæmt. Þjóðir heims láta nú náttúruna njóta vafans í meira mæli en áður og spurningar um uppruna matvæla og með hvaða hætti þau eru framleidd, verða sífellt áleitnari. Með þetta í huga má segja að vísindin séu nánast það eina sem hægt er að styðjast við þegar ákvarðanir eru teknar um hversu mikið má veiða og hvenær. En það er með þetta eins og sumt annað, að ef skynjun manna er sú að eitthvað sé að, þá gefa menn sér að svo sé. Þetta er veruleiki sem við þurfum að fást við.

Nokkur orð um samninga við aðrar þjóðir. Ég þarf varla að kynna fyrir ykkur ástandið um svo kallaða deilistofna. Engir samningar eru í gildi milli þjóða um makríl, síld og kolmunna eins og sakir standa. Afleiðing þessa er að það er regla frekar en undantekning að stofnarnir eru árlega veiddir umfram ráðgjöf, líklega á bilinu 15-30%. Ég vil einnig nefna hér fjórða deilistofninn, sem oft er minna rætt um; karfinn á Reykjaneshrygg. Ofveiði á honum umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins mælist yfir 300 prósent, hvorki meira né minna.

Öllum er ljóst hvað gerist ef hér verður engin breyting á. En ég vil segja ykkur að ég ætla að gera allt sem ég mögulega get á minni vakt sem sjávarútvegsráðherra til að bæta þessa stöðu og ná samningum um þessa mikilvægu nytjastofna. Ísland hafði forgöngu um að bjóða til fundar háttsettum embættismönnum hlutaðeigandi þjóða á Glym í Hvalfirði í fyrra haust. Þar urðu mjög gagnlegar umræður. Ég er staðráðinn í að halda áfram á þessari braut því ég hef þá trú að enginn vilji hafa ástandið svona um alla framtíð. Ástand sem er í reynd svartur blettur á fiskveiðistjórn allra þessara þjóða.

Yfirskrift fundarins hjá ykkur í dag er: Sjávarútvegur: Stærstu vaxtartækifæri íslensks atvinnulífs. Þann tíma sem ég hef setið sem ráðherra sjávarútvegs hefur fréttum af tækniframförum og nýjungum í íslenskum sjávarútvegi fjölgað. Meðal annars hefur tæknigeirinn vaxið umtalsvert undanfarin ár, vinnsla svo kallaðra aukaafurða hefur aukist og alltaf eitthvað nýtt að koma fram á þeim vettvangi og fiskeldi hefur stóraukist.

Virðiskeðjan í sjávarútvegi er löng. Allt frá frumvinnslu til hátækniafurða. Það er í raun öfundsverð staða fyrir Íslendinga að vera í; að hafa allan þennan fisk og hafa burði, áhuga og getu til að gera eins fjölbreyttar afurðir úr honum og hægt er. Stefnan hlýtur að vera sú að auka nýtinguna enn frekar, þannig að nánast ekkert fari til spillis. Mig langar að nefna hér, að  á Íslandi er nýting á hverjum þorski umtalsvert hærri en sambærilegt hlutfall hjá öðrum stórum fiskveiðiþjóðum. Sama gildir væntanlega um aðrar tegundir.

Mig langar að segja ykkur frá fundi sem ég átti á dögunum með vísindamönnum norðan úr landi, sem hafa verið að þróa svo kallaða fiskisósu, sem mun vera vinsæl mjög í austurheimi. Ástæða þess að þessir vísindamenn fóru að kíkja á þetta var sú, að erfiðleikar hafa verið með markað fyrir þurrkaðar afurðir í Nígeríu, eins og þið sennilega vitið. Því var spurt; hvað er hægt að gera í staðinn? Jú, í ljósi aðstæðna á skreiðarmörkuðum var hannað verkefni þar sem þróa á hágæða fiskisósu úr þorskhryggjum. Þetta er hugvit og sjálfsbjargarviðleitini. Um leið og einar dyr lokast, opnast aðrar. Rétta fólkið grípur tækifærið og gerir sér mat úr því; í bókstaflegri merkingu.    

Fiskiskipaflotinn á Íslandi er gamall, eða í öllu falli, roskinn. Í heild er meðalaldurinn um 25 ár, togarar enn eldri. Það er samhengi á milli þess hvernig gengur að koma með gott hráefni að landi og þeirra tækja og tóla sem menn nota til starfans. Sem betur fer hafa borist fréttir af nýjum skipum að koma til landsins og all nokkur skip eru í smíðum fyrir íslensk útgerðarfyrirtæki. Forsenda þess að hægt sé að fjárfesta er að fyrirtækin verði í efnum til þess.

Það er því mikilvægt, þegar rætt er um gjaldheimtu af sjávarútveginum, að þess sé gætt, að ganga ekki of nærri honum og draga þar með úr getunni til fjárfestinga. Ekki bara í tækjum og tólum, heldur, og ekki síður, möguleikanum á að fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem sérhæfa sig í að búa til afurðir úr öllu sem að landi berst.

Ágætu fundargestir.

Allt sem gert hefur verið í íslenskum sjávarútvegi, á undanförnum áratugum, hefur átt þátt í því að færa okkur í þann stað sem við erum nú á. Eða með öðrum orðum, þetta hefur verið þróun, hægfara á köflum, en ég tel að okkur hafi tekist vel upp. Í seinni tíð höfum við nálgast auðlindir á forsendum sjálfbærrar þróunar. Hin óhjákvæmilega niðurstaða rannsókna er einfaldlega sú, að ekki er hægt að taka meira úr sjónum, en í honum vex. Beri okkur gæfa til þess að halda áfram á sömu leið er ég ekki í neinum vafa um að stærstu vaxtartækifæri íslensks atvinnulífs felast í sjávarútvegi. 

Að lokum langar mig til að vitna í orð Nóbelsskáldsins okkar þar sem hann segir svo í Íslendingaspjalli:

„Í fiskidrætti er reynsla og þekking djúprætt með þjóðinni frá alda öðli, enda skara Íslendingar þar framúr starfsbræðrum sínum, öðrum fiskimönnum, um allan heim. Með réttu hefur orðið „hetja“ í nútímamáli tapað allri merkingu, svipað og séní eða herra, nema þegar það er haft um „hetjur hafsins“ á sjómannadaginn; og hver sá sem á Íslandi notar þetta fornfræga orð í dag um aðra en framúrskarandi fiskimenn er einna líkastur manni sem fer að þéra hundinn sinn. Verk þessara manna er sá grundvöllur sem alt þjóðfélagið hvílir á.“

Ég óska samtökum ykkar og hverjum og einum sem að þeim standa heilla á komandi árum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira