Hoppa yfir valmynd

Breytingar á lagaumhverfi fiskeldis

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskaði hinn 30. janúar sl. eftir umsögnum um drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Frestur til að skila umsögnum rann út 9. febrúar sl.

Efni frumvarpsins byggir að stærstum hluta á tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem fram koma í skýrslu starfshópsins frá 21. ágúst sl. til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá er frumvarpið í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar.

Í samræmi við þá stefnu er markmið frumvarpsins að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu mögulegu skilyrði til uppbyggingar og það verði þannig sterk og öflug atvinnugrein. Frumvarpinu er ætlað að styðja við þennan vöxt en jafnframt leggja grunn að öflugu og skilvirku eftirlit með fiskeldi. Jafnframt að stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkisins er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Þá er frumvarpinu ætlað að mæta kröfum um náttúruvernd, gegnsæi, aukna upplýsingagjöf og betra aðgengi almennings að upplýsingum sem tengjast fiskeldi.

Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um auðlindagjald í fiskeldi.  Þar er lagt til að rekstrarleyfishafar sem stunda fiskeldi í sjókvíum greiði auðlindagjald. Byggt er á því að auðlindagjald verði lagt á öll eldisfyrirtæki sem nýta sameiginlega auðlind, í þessu tilviki hafsvæði utan netlaga, til starfseminnar. Gengið er útfrá því að stærstur hluti auðlindagjalds renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis. Er þessi útfærsla auðlindagjaldsins einnig í samræmi við tillögur fyrrgreinds starfshóps.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira