Hoppa yfir valmynd
20. september 2019 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar á ársfundi Hafrannsóknarstofnunar

Kæru gestir.
Það er mér mikill heiður að ávarpa þennan fyrsta ársfund Hafrannsóknastofnunar. Stofnun sem gegnir lykilhlutverk við nýtingu auðlinda hafs og vatna og gegnir þannig um leið lykilhlutverki í íslensku samfélagi.

Það er mikilvægt fyrir slíka stofnun að njóta trausts og virðingar. Hafrannsóknastofnun þarf um leið að geta þolað gagnrýni – þolað það að verk hennar kalla á umræðu, spurningar og svör.


Við sem erum eldri en tvævetur munum þá tíð þegar til að mynda fiskveiðiráðgjöf stofnunarinnar naut ekki þess trausts og trúverðugleika sem hún nýtur í dag. Það er því mikið framfaraskref þegar við erum komin á þann stað að í nokkurn tíma hefur ráðgjöf stofnunarinnar verið fylgt í hvívetna enda er sú meginregla að byggja ákvörðun um leyfilegan heildarafla á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar ein af megin stoðum íslenskrar fiskveiðistjórnunar. Árangur þeirrar stefnu er ótvíræður fyrir íslenskan sjávarútveg og þá um leið íslenskt samfélag. Við höfum einfaldlega sammælst um að treysta á vísindin, þrátt fyrir að þau verði aldrei fullkomin enda auðveldara að telja fé í haga en fiska í sjó.


Því er um leið mikilvægt fyrir stofnun eins og Hafrannsóknastofnun að eiga í virku og málefnalegu samtali við þá sem hún þjónar; sjávarútvegi, fiskeldi, veiðréttarhöfum – raunar öllu samfélaginu. Að stofnunin sé opin fyrir gagnrýni og ábendingum. Afgreiði ekki slíkt sem nöldur eða væl – heldur tækifæri til að leiðrétta eða leiðbeina. Þannig næst meiri sátt um að ljá hinum vísindalega þætti 
jafn mikið vægi og við viljum og þar þurfa allir – meðal annars stofnunin sjálf – að leggja sitt að mörkum. Í því samhengi má ekki gleyma því að sjálf vísindin ganga jú ekki síst út á að kynda undir neistum efans og útiloka aldrei að ný þekking verði til þess að aðlaga þurfi fyrri kenningar nýrri vitneskju eða að þeim verði jafnvel kollvarpað. Meðal annars af þessum ástæðum er sérstakt tilefni til að fagna því framtaki Hafrannsóknastofnunar að boða til þessa fyrsta ársfundar, af vonandi mörgum, hér í dag.

Kæru gestir.
Í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega kveðið á um eflingu hafrannsókna. Þessari stefnumörkun höfum við fylgt eftir af fullum þunga. Þannig mun stofnunin á næstu mánuðum fá afhent nýtt og veglegt húsnæði í Hafnarfirði þar sem öll starfsemin verður undir sama þaki. Þá má vísa til þess að í fjárlagafrumvarpi næsta árs er mælt fyrir um 750 milljón króna framlag til stofnunarinnar til rannsókna og fjárfestinga. Þar er annars vegar um að ræða 600 milljón króna framlag í byggingu nýs hafrannsóknaskips sem mun stórefla grunnrannsóknir og raunar marka tímamót í hafrannsóknum Íslendinga. Sérstök byggingarnefnd hefur umsjón með verkefninu sem að ég veit að gengur vel og áformað er að smíði skipsins verði boðin út á fyrri hluta næsta árs.


Hins vegar er um að ræða 150 milljón króna framlag til Hafrannsóknastofnunar vegna samdráttar í framlögum úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til stofnunarinnar. Það framlag kemur til viðbótar 250 milljón króna framlagi á þessu ári. Með þessu fasta framlagi, alls 400 milljónir, mun stofnunin ekki lengur þurfa að reiða sig á breytileg framlögum úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins með 
tilheyrandi óvissu fyrir starfsemina. Þessi breyting mun draga úr óvissu um fjármögnun stofnunarinnar. En þrátt fyrir þetta þarf stofnunin, líkt og allar aðrar stofnanir ríkisins, að takast á við þá hagræðingakröfu sem sett er í fjárlögum hvers árs enda er sú sjálfsagða krafa gerð á allar ríkisstofnanir að þurfa stöðugt að huga að forgangsröðun verkefna og gæta aðhalds í rekstri. Á sama tíma hefur ráðuneytið staðið fyrir úttekt á fjárhag Hafrannsóknastofnunar með það að markmiði að nýta betur þá fjármuni sem úr er að spila hverju sinni til að sinna kjarnaverkefnum stofnunarinnar.

Kæru gestir.
Íslendingar, líkt og allar aðrar þjóðir heims, standa frammi fyrir miklum áskorunum sem leiða af loftslagsbreytingum. Breytingum á hitistigi sjávar í kringum landið fylgja margvíslegar áskoranir sem við þekkjum. Með hlýnandi sjó höfum við séð hvernig ýsan hefur flutt sig í verulegum mæli norður fyrir land og skötuselur einnig fært sig norður með vesturlandinu. Það sem veldur okkur þó mestum höfuðverk að þessu leyti er breytt hegðun loðnunnar.


Eins og þessi stutta upptalning sýnir að þá er það stórmál fyrir íslenskan sjávarútveg, sem byggir allt sitt á lífríki hafsins, að við öðlumst meiri skilning á þessum breytingum. Því ætla ég að varpa fram þeirri hugmynd í dag hvort það sé ekki tilefni til að fara í markvissa vinnu í þá veru. Að við rekjum á heildstæðan hátt þróun vistkerfisbreytinga sem orðið hafa í hafinu umhverfis Ísland, setjum fram sviðsmyndir um mögulega þróun og öðlumst þannig meiri skilning á þessum breytingum og samspili ólíkra þátta í lífríki hafsins. Slíkt verkefni þyrfti
að vinnast í öflugri samvinnu stjórnvalda, með Hafrannsóknastofnun í broddi fylkingar, og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi.


Kæru gestir.
Ég nefndi það hér áðan að það væri mér heiður að opna fundinn. Ég held að það sé rétt að gera það núna og hefja þær mikilvægu samræður sem eiga eftir að eiga sér stað hér í dag. Að svo mæltu óska ég ykkur heilla í ykkar störfum.


Fyrsti ársfundur Hafrannsóknarstofnunar er hér með settur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira