Hoppa yfir valmynd
15. mars 2017 Dómsmálaráðuneytið

Viðtal við dómsmálaráðherra í Frjálsri verslun í mars

Gert ráð fyrir 3,5 milljörðum króna í ár

„Kostnaðurinn er því miður ekki að minnka í bráð. Við vonumst hins vegar til þess að hægt verði að afgreiða þessar tilhæfulausu umsóknir miklu hraðar en verið hefur og draga þannig úr kostnaði þegar til lengri tíma er litið. Við verðum að gera það því við getum ekki þjónustað mörg hundruð hælisleitendur í kerfinu á framfæri íslenska ríkisins ár eftir ár. Við höfum ekki fé í það,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.

Ný ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir á fyrstu dögum ríkisstjórnarsamstarfs að vilji stæði til þess að taka á móti fleiri flóttamönnum hér á landi sem flýðu raunverulega hættu í heimalandi sínu og þeim auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. „Við höfum svigrúm til að aðstoða flóttafólk og við viljum gera það vel. Við viljum hjálpa þeim til sjálfshjálpar sem fyrst. Ég held að mér sé óhætt að segja að það sé vel haldið utan um flóttamenn sem hingað koma,“ segir Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Á liðnu ári hafi þó borist fordæmalaus fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd sem reyndust að mestu tilhæfulausar frá ríkisborgurum öruggra ríkja, þar sem ekkert ógnarástand er við lýði. Þessi fjöldi umsókna hafi sett íslenska hæliskerfið úr skorðum hvað varðar málsmeðferðartíma og kostnað en alls sóttu 1.132 einstaklingar um hæli hér á landi sem er þreföldun frá árinu áður.

„Kerfið var ekki undir það búið og í raun ekki hugsað til þess að mæta hinum mikla fjölda tilhæfulausra hælisumsókna frá Makedónum og Albönum á síðasta ári.Við höfum því þurft að leggja nokkuð meira fé í kerfið til þess að geta mætt fjölguninni og til þess að að forða því að málsmeðferðartími hælisumsókna lengist.” Útgjöld til málaflokksins aukast um 2 milljarða árið 2017 frá fjárlögum síðasta árs en Sigríður tekur fram að verið sé að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum sem sköpuðust árið 2016 og markmið nýrrar ríkisstjórnar sé að stemma stigu við fjölgun tilhæfulausra hælisumsókna svo ekki sé gengið með þessum hætti á velvild Íslendinga gagnvart stríðshrjáðu fólki.

Keyra kerfið í kaf

„Við erum að setja mikla fjármuni í að tryggja að kerfið sé sem hraðvirkast og að umsóknir um hæli verði afgreiddar á sem skemmstum tíma. Þannig verði kostnaði við þjónustu og framfærslu hælisleitenda sem bíða afgreiðslu haldið í lágmarki. Ég bind miklar vonir við að það skili svo þeim árangri að við sjáum ekki aftur þennan rosalega umsóknarfjölda frá ríkisborgurum öruggra landa,“ segir Sigríður og bætir við að stundum borgi sig að setja meiri peninga en minni í málaflokk á ákveðnum álagspunkti til þess að koma í veg fyrir meiri kostnað í málaflokknum á síðari stigum. „Markmið okkar er að reyna að takmarka þann tíma sem fólk er hér á landi og þá sérstaklega þegar um er að ræða tilhæfulausar hælisumsóknir frá fólki frá öruggum löndum. Það eru þær umsóknir sem eru að keyra allt kerfið í kaf og mynda hér tappa og meirihlutann af þessum kostnaði.“

Það er því forgangsmál hennar að tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd verði afgreiddar mun hraðar en verið hefur en það gefi skýr skilaboð út í heim að ekki sé hægt að sækja tímabundna framfærslu til Íslands með því að sækja um hæli „Við verðum að gera þetta því við getum ekki þjónustað mörg hundruð hælisleitendur á framfæri íslenska ríkisins ár eftir ár. Við höfum ekki fé í það.“

Fordæmalaus fjölgun kostar

Kostnaði vegna útlendingamála, sem heyra undir dómsmálaráðuneytið, er skipt í þrennt, þ.e. Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og hælisliðinn en undir hann fellur sérstakur kostnaður sem kemur til vegna umsókna um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun sinnir margvíslegum verkefnum sem varða ekki einungis hælisleitendur heldur alla útlendinga sem sækjast eftir dvöl á Íslandi til lengri eða skemmri tíma. Áætlaður kostnaður við Útlendingastofnun fyrir árið 2017 er 546 milljónir króna, þar af telur launakostnaður um 432 m.kr., húsnæði um 33 m.kr., þjónustusamningar, túlkaþjónusta, öryggisgæsla og tölvukerfi um 44 m.kr. og um 37 m.kr. fara í annan rekstrarkostnað.

Hælisliðurinn er áætlaður um 2,6 milljarðar króna á þessu ári en stór hluti þess kostnaðar féll til á síðasta ári með fordæmalausri fjölgun hælisumsókna sem ekki náðist að afgreiða fyrir árslok. Undir hælisliðinn heyra einnig samningar ríkisins við sveitarfélög og Rauða krossinn um þjónustu við hælisleitendur sem bíða eftir afgreiðslu hælisumsókna en samkvæmt þeim sjá sveitarfélögin hælisleitendum fyrir húsnæði og fæði ásamt því að sinna skólagöngu barna eftir atvikum. Í þeim tilvikum sem ekki hefur tekist að semja við sveitarfélög um áðurnefnda þjónustu þarf Útlendingastofnun að útvega hælisleitendum fæði, húsnæði og almenna framfærslu. Kostnaður við heilbrigðisþjónustu hælisleitenda fellur einnig undir hælisliðinn ásamt nauðsynlegri heilsufarsskoðun við komu og brottflutning þeirra sem fá synjun um hæli hér á landi. Um 590 einstaklingar njóta þjónustu Útlendingastofnunar og sveitarfélaga um þessar mundir.

Þá er kostnaður við kærunefnd útlendingamála áætlaður um 300 milljónir króna árið 2017 sem er töluvert meiri en í fyrra vegna fjölgunar hælisumsókna.

Fæðispeningur hvetjandi

Umsækjendur um alþjóðlega vernd árið 2016 komu flestir frá Makedóníu og Albaníu sem teljst til öruggra ríkja, eða um 60%. Íslensk stjórnvöld hafa í kjölfarið átt samskipti bæði við yfirvöld í Makedóníu og Albaníu vegna ásóknar landa þeirra til Íslands í leit a hæli. „Þau eru mjög áhugasöm um að fylgjast með þessari þróun en þetta er ekki heldur gleðiefni fyrir yfirvöld í þessum löndum. Yfirvöld þar hafa til dæmis sagt að það virki hvetjandi þegar hælisleitendur hér fá fæðispening á meðan unnið er úr umsóknum þeirra. Framkvæmdinni var reyndar breytt nýlega þannig að nú er lögð áhersla á að fólk fái húsnæði og mat en ekki húsnæði og matarpening. Við höfum óskað eftir því við yfirvöld í viðkomandi löndum að þau kynni fyrir landsmönnum að það séu engir tekjumöguleikar fólgnir í því að leita hælis á Íslandi og því ekki fýsilegt að leggja upp í það tímafreka umsóknarferli.“

Á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2017 hafa helmingi fleiri sótt um hæli en á sama tíma í fyrra en flestar umsóknirnar koma nú frá Albaníu og Írak.

Nauðsynlegar lagabreytingar

Ný útlendingalög tók gildi um síðustu áramót en þar má finna ýmsar breytingar varðandi hælisleitendur. Sigríður telur breytingarnar hafa verið brýnar. „Það var nauðsynlegt að skýra betur ákvæði er lúta að stjórnsýslunni. Helst má nefna ákvæði um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar stofnunin metur umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá öruggu landi. Þetta ákvæði hefur verið til bráðabirgða en stendur nú til að festa varanlega í sessi í nýjum lögum.“ Það sé þó ekki von á öðru en að nýju útlendingalögin þurfi einhverrar endurskoðunar við á komandi misserum. „Við erum að fóta okkur í þessum nýju aðstæðum með þennan mikla fjölda hælisumsókna. Lagaumhverfið þarf að taka mið af því á hverjum tíma.”

Eigi raunverulegan möguleika

„Ég óska þess að allir þeir sem hingað vilja koma, og sem ekki eru sannanlega flóttamenn, ættu raunverulega möguleika á að öðlast dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi,“ segir Sigríður en Ísland eigi, að hennar mati, að vera tiltölulega opið land fyrir fólk sem vill búa hér og vinna. Á það hefur þó verið bent að fólk utan EES eigi litla möguleika til þess að öðlast dvalar- og atvinnuleyfi í raun nema það hafi yfir að búa verulegri sérfræðiþekkingu. Ríkisstjórnin hefur þegar lýst yfir vilja sínum til að einfalda veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins.

„Ef það ætti að breyta þessu þyrfti að ræða við fleiri heldur en bara stjórnvöld. Löggjafinn hefur til að mynda veitt vinnumarkaðnum nokkur völd í þessum efnum en aðilar vinnumarkaðarins koma að veitingu atvinnuleyfa. Mér finnst vel koma til greina að endurskoða það fyrirkomulag að einhverju marki þannig að þeir sem búa í löndum utan EES og vilja koma hingað og eru ekki endilega sérfræðimenntaðir heldur ófaglært fólk sem er að leita að vinnu eigi einhvern raunverulegan möguleika á að búa hér og vinna.“

Viðtalið birtist í 2. tölublaði tímaritsins Frjáls verslun í apríl 2017.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum