Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. nóvember 2019 DómsmálaráðuneytiðÁslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

Sósíalisminn er fullreyndur - grein í Morgunblaðinu 13. nóvember 2019

Um þessar mundir eru 30 ár liðin frá falli Berlínarmúrsins. Múrinn var öðru fremur tákn um mannvonsku og grimmd og í raun birtingarmynd sósíalismans. Með falli hans leið undir lok hugmyndafræði sem haldið hafði þjóðum Austur-Evrópu föngnum áratugum saman. Á sama tíma blómstraði efnahagur flestra ríkja vestan járntjaldsins. Íbúar Austur-Þýskalands, Ungverjalands, Tékklands, Póllands, Eystrasaltsríkjanna, Rúmeníu og fleiri landa fylgdust að sjálfsögðu með þeirri þróun en fengu lítið að gert. Með reglulegu millibili minntu stjórnarherrarnir í Kreml á hervald sitt og brutu alla sjálfstæðistilburði á bak aftur með ofbeldi og vopnavaldi. Berlín 1953, Búdapest 1956 og Prag 1968.

Þessi tímamót kalla fram upprifjun af þessu tagi. Á þeim árum sem liðin eru frá falli múrsins hafa þjóðir Austur-Evrópu losnað úr fjötrum sovéska heimsveldisins. Sovétríkin sjálf eru liðin undir lok. Margar þessara þjóða hafa öðlast nýtt líf og blómstra í fjölþjóðlegu samstarfi. Í mjög mörgum tilvikum búa þær nú við sömu eða svipuð kjör og þjóðir Vestur-Evrópu. Íbúarnir ferðast frjálsir til annarra landa og fólk úr öðrum ríkjum ferðast til þessara landa án takmarkana eða afskipta einræðisherranna.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að fyrir aðeins 30 árum hafi íbúar á meginlandi Evrópu átt það á hættu að vera teknir af lífi fyrir það eitt að ætla sér að flytja á milli borgarhluta. Til eru óteljandi heimildir um líf almennings undir stjórn alræðisherranna sem stjórnuðu Austur-Þýskalandi á þessum tíma, hvernig fylgst var með fólki, hvernig nágrannar voru fengnir til að njósna um og klaga hver annan, hvernig ríkisvaldið stýrði allri neyslu og hegðun og þannig mætti áfram telja.

Upprifjun þessa tíma er mikilvæg áminning um það að hugmyndafræði sósíalismans verður aldrei haldið við öðruvísi en með hervaldi og ofbeldi gagnvart almenningi. Fall Berlínarmúrsins var mikilvægur viðburður í sögunni og einhver hefði haldið að eftir hann og hrun Sovétríkjanna nokkrum árum síðar hefði sósíalisminn talist fullreyndur. Því miður höfum við þó yngri dæmi, t.d. í Venesúela.

Sósíalisminn hefur alltaf – og mun alltaf – skerða frelsi einstaklinganna. Það ríki er ekki til þar sem sósíalisminn hefur fært almenningi aukna hagsæld til lengri tíma.

Enn er reynt að selja okkur hugmyndir um ágæti sósíalismans. Jafnvel þótt hugmyndafræðin sé sett í nýjan búning og skreytt ýmsum mýtum um betra líf almennings þá vitum við sem er að hún virkar ekki. Þess vegna megum við aldrei gefast upp í baráttunni fyrir auknu frelsi og frjálsum mörkuðum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum