Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Hvert er förinni heitið? - ræða ráðherra á málþingi um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk

Ásmundur Einar Daðason - myndVelferðarráðuneytið

Ávarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, á málþingi um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.
Grand Hótel, 27. ágúst 2018.

(Ávarpið er birt með fyrirvara um að ráðherra kunni að hafa vikið 
frá skrifuðum texta við flutning þess)

Góðir gestir.


Hvert er förinni heitið er yfirskrift þessa málþings og fjallar það um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.

Aksturþjónusta fyrir fatlað fólk hefur mikið verið í umræðunni síðustu misseri og því er þetta málþing mikilvægt til þess að taka stöðuna þannig að við getum áttað okkur á því hvað gengur vel á þessu sviði og hvað við getum gert enn betur. Slík stöðutaka er mikilvæg til þess að við getum með markvissum hætti og skilvirkum hætti ráðist í það í sameiningu, bæði ríki og sveitarfélög ásamt notendum þjónustunnar, að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Þau markmið eru m.a. að finna í markmiðsgrein nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir en þar segir að þjónustan skuli miða að því að fatlað fólk geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa þeim skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. 

Framangreindar áherslur eiga sér jafnframt ríka stoð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld fullgiltu seinni hluta árs 2016. Þar segir að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir sem miða að því að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum. Í 9. gr. samningsins er m.a. lögð áhersla á ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi og að samgöngum.

Þegar horft er til reynslu annarra þjóða sjáum við að fatlað fólk notar almenningssamgöngur í minna mæli en aðrir.  Ástæður þess geta m.a. verið þær að aðstæður í samfélaginu eru ekki lagaðar að þörfum fatlaðs fólks sem aftur veldur því að það getur ekki notið sömu tækifæra og aðrir. Notkun fatlaðs fólks á almenningssamgöngum fer einnig eftir því hvers eðlis stuðningsþörfin er. Þar af leiðir að t.d. fólk með hreyfihömlun þarf að horfast í augu við stærri hindranir en aðrir við þátttöku í samfélaginu.

Upplifun fatlaðs fólks af sértækri ferðaþjónustu virðist oft og tíðum tengjast neikvæðum upplifunum og að fatlað fólk eigi ekki um marga kosti að velja.  Í heildarmyndinni er því mikilvægt horfa til þess að fatlað fólk er ekki einsleitur hópur og því er þörf á ýmis konar kostum sem henta einstaklingsbundnum þörfum hvers og eins. Upplifun af gæðum akstursþjónustu getur einnig haft víðtæk áhrif á aðra þætti í lífi hvers og eins og valdið því að fatlað fólk hættir að taka þátt eða nýta sér tækifæri sem kunna að vera í boði. Við sjáum sláandi upplýsingar um það að stór hluti fatlaðs fólk fer sjaldan eða aldrei út af heimili sínu til að taka þátt í lífi og starfi samfélagsins.

Sögu ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk má rekja allt til áttunda áratugs síðustu aldar þegar Kiwanismenn gáfu Sjálfsbjörgu, landsambandi fatlaðra, Kiwanisbílinn svokallaða. Um var að ræða brautryðjandastarf sem hratt af stað breytingaferli sem í raun sér ekki fyrir endann á. Breytingin sem síðan fól í sér að Strætisvagnar Reykjavíkur tóku yfir rekstur ferðaþjónustu fatlaðs fólks var annar megináfangi í þessari þróun sem leiddi síðan til þess að ritað var undir samkomulag um sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu í maí 2014 og akstur ferðaþjónustu fatlaðs fólks undir sameiginlegum formerkjum hófst á höfuðborgarsvæðinu 1. janúar 2015.  Með þessu samkomulagi var lagður grunnur að ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk til framtíðar. Svipuð þróun hefur átt sér stað í öðrum stærri sveitarfélögum á Íslandi.

Saga ferðþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu hefur þó ekki gengið hnökralaust fyrir sig og það er mikilvægt að huga að fenginni reynslu þegar þjónustan er þróuð til framtíðar. Skýrasta atriðið er þörfin fyrir samráð og að í slíku samráði ríki traust sem tryggi að innleiðing breytinga verði árangursrík.

Þátttaka notenda alla leið í slíkri innleiðingu er grundvallaratriði í því að vel takist til. Þeir þurfa að taka þátt á öllum stigum ferlisins. Það eru þeir sem þekkja best til þess hvernig hlutirnir eru þ.e. upplifa það í raun á sínu skinni. Þetta verklag er augljóslega í anda Samnings Sameinuðu þjóðanna og þeirra laga sem taka munu gildi um þjónustu við fatlað fólk með langvinnar stuðningsþarfir þann 1. október næstkomandi.

Við í ráðuneytinu höfum að undanförnu haft góða reynslu af samráði af þessu tagi sem dýpkað hefur skilning allra á þeim verkefnum sem þarf að leysa.  Það sama má segja um þá sem veita eiga þjónustuna. Við þá þarf að hafa samráð og eiga samvinnu og skapa þannig gæðamenningu sem tryggir að þjónustan sem veitt er sé alltaf til fyrirmyndar og skapi þannig þau gæði sem sóst er eftir. Ég hef á því fulla trú að við höfum öll lært af reynslunni og leiðin fram undan verði því greið og öllum til hagsbóta.  

 

 

Góðir áheyrendur,

Að mínu áliti þurfum við að vera vakandi yfir því  að hópurinn sem notar þjónustuna er fjölbreyttur. Við þurfum því að horfa til fjölbreyttra úrræða sem geta verið við hæfi hvers og eins. Það að þjónustuaðilar geti greint stuðningsþarfirnar með vönduðum og skýrum hætti leiðir oftar en ekki til þess að þjónustan verður við hæfi.

Við þurfum að horfa til þeirrar grunnhugsunar að akstursþjónustan sé almenn þannig að markmiðið verði alltaf það að fatlað fólk geti notað almenningssamgöngur eins og aðrir sem ekki búa við fötlun. Hér er að mörgu að hyggja og leyfi ég mér að nefna nokkur atriði sem mér finnst skipta máli í þessu samhengi:

Fyrst má nefna hvernig strætisvagnarnir eru búnir til þess að takast á við fjölbreyttar þarfir er varða aðgengi inn vagnana, almenna aðstöðu og frágengi.

Þekking og færni bílstjóra á hinum ýmsu birtingamyndum fötlunar er afar þýðingarmikil, bæði þeim sem eru augljós og þeirra sem ekki eru augljós við fyrstu sýn. Bílstjórar þurfa að vera í stakk búnir og meðvitaðir um að þeir þurfa að geta brugðist við með ábyrgum og skynsömum hætti. Góður stuðningur þjónustuaðila við bílstjóra þarf að vera fyrir hendi þannig að þeir geti betur sinnt hlutverki sínu. Bílstjórarnir eiga því að vera góðar fyrirmyndir fyrir aðra í samfélaginu við að tryggja góða gagnkvæma samþættingu fatlaðs fólk við annan almenning.

En gott aðgengi snýr ekki bara að farartækjunum sjálfum og þeirri þjónustu sem þar er veitt. Góðar almenningssamgöngur snúa að því hvernig hægt er að komast að biðskýlum, greiðum upplýsingum á tölvutæku formi um þjónustuna og enn fremur að á biðskýlunum sjálfum sé hægt að fylgjast með ferðum vagna á leiðum. Í ljósi aukinna áherslna á almenningssamgöngur í breyttum heimi skipta þessi atriði miklu máli.

Ég vil líka benda á að það getur verið árstíðabundið fyrir suma hvernig notkun almenningssamgangna getur verið háttað. Það getur líka verið hollt og gott fyrir suma að nýta almenningssamgöngur yfir sumartímann en kannski þörf á sértækari lausnum yfir veturinn þar sem aðstæður þá geta verið erfiðar. Við eigum því að bjóða upp á fjölbreytni í lausnum sem aukið getið fjölbreytni í lífi fólks og þar með aukið lífsgæði notenda.

Með þessu er ég ekki að segja góðar almenningssamgöngur sé allsherjarlausn fyrir alla. Við eigum þó alltaf að horfa til þess hvort almennar lausnir geti hentað og þá með stuðningi. Ef slíkar lausnir eru ekki mögulegar þá þurfa ferðaþjónustubílar að vera þannig búnir að þeir geti komið til móts við mismunandi þarfir og tryggt öryggi þeirra sem með þeim ferðast.

Samstarf við leigubílastöðvar um akstursþjónustu við fatlað fólk hefur einnig verið reynt. Sú lausn hentar kannski ekki öllum en getur verið mikilvægur þáttur í hinu stóra samhengi.

Loks má benda á að með þróun deilibílakerfis getur það orðið samfélagslegt verkefni að gera fötluðu fólki kleift að vera þátttakendur í því og njóta þess ávinnings sem það getur skapað. Við þurfum stöðugt að vaka yfir nýjungum sem geta auðveldað fólki að ferðast hvort sem er til að sækja vinnu eða skóla, eða njóta menningar og frístunda.

Ágætu málþingsgestir,

Þegar horft er framtíðar verður krafan um aukin lífsgæði fyrir alla sífellt sterkari og sterkari. Við vitum að góð líkamleg og andleg heilsa gegnir lykilhlutverki. Góð almenn og sérstök akstursþjónusta fyrir fatlað fólk er mikilvægur áhrifaþáttur til þess að tryggja virka þátttöku þess í samfélagi framtíðarinnar.

Að lokum lýsi ég því yfir að ég og ráðuneyti mitt munum leggja það sem í okkar valdi stendur til að styðja við sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila þannig að hægt verði að veita fötluðu fólki gæðaþjónustu á þessu sviði. Við þurfum að halda vöku okkar og vera tilbúin til þess að takast á við breytingar og þær nýjungar sem eru í farvatninu.

(Ávarpið er birt með fyrirvara um að við flutning kunni ráðherra að hafa vikið frá skrifuðum texta).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum